Ástuástir, vökubók og draumabíll hverrar konu (ekki smábíll)

Eins og mér finnst gaman í strætó þá er líka gott að fá far í bæinn með Ástu, konunni sem ég elska hvað heitast þessa dagana, einmitt vegna sífelldra bílfara. Það nægði mér að vakna 6.30 í morgun og ég fann mun á mér að geta sofið þessu korteri lengur. Hefði án efa freistast til að taka átta strætó í stað sjö vegna syfju ef Ásta hefði ekki boðið mér far.

Ástæðan er (held ég) allt of góð bók sem ég á svo erfitt með að leggja frá mér. Hún heitir Tvíburarnir. Ég hef svo mikinn áhuga á persónunum, tvíburunum sem voru aldir upp sitt í hvoru lagi, önnur í Hollandi, hin í Þýskalandi. Þær eiga ekkert sameiginlegt eftir áratuga aðskilnað og segja hvor annarri frá uppvaxtarárum sínum. Mér er ekki sama um þessar persónur, ég verð að vita hvernig líf þeirra var .... arrrggg og það alveg til eitt, tvö á morgnana ... eins gott að það er frí á morgun. Þykk og gómsæt kilja. Vá, hvað ég ætla að lesa mikið í sumarfríinu mínu. Nú get ég valið um tvennar svalir til að sóla mig og lesa á, annars vegar þröngar og litlar og hins vegar risastórar með þyrlupalli og kartöflugarði.

Jeep1986CherokeeVið Ásta tókum ungan mann (samstarfsmann Ástu) með okkur í morgun og ég gerði mér far um að vera einstaklega góð við hann ... því að hann fer nefnilega stundum bílandi í bæinn á svaðalegum kagga, risastórum jeppa sem gaman væri að sitja í ... Sko, veit ekki hver fann upp KONUBÍLINN, þennan litla, drapplitaða, sparneytna og leiðinlega, en það getur ekki hafa verið kona, frekar karl sem vill fá að hafa sinn bíl í friði fyrir kerlu sinni. Einu sinni tók ég viðtöl við sex konur og spurði þær margra spurninga en ein fjallaði um draumabílinn. Fjórar vildu eiga jeppa og tvær vildu sportbíla. Engin kvennanna þráði að eiga sparneytinn smábíl ... svo hentugan í umferðinni ...

Ef það er satt sem sagt er að konur haldi utan um heimilisbudduna þá ættu bílaframleiðendur kannski að breyta áherslum sínum og bæta köggum við. Ég frábið mér samt að sjá hálfbera karla á auglýsingamyndunum, bíllinn einn og sér æsir nóg upp í mér kaupgleðina. Munið, karlar eru manneskjur, ekki hlutir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Saumakonan

iss ekki vil ég sjá jeppa!    Litla rútan mín er laaaangbest... þægileg að setjast uppí (var alveg æðislegt á óléttutímanum), nóg pláss fyrir stórfamilíuna og farangur að auki og ef ég þvælist í söluferðir þá kippi ég bara sætunum úr!  Hef sjaldan verið eins ánægð með bíl og er búin að eiga nokkra

Saumakonan, 16.5.2007 kl. 11:28

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Einmitt, stelpur ... við eigum ekki að láta segja okkur hvernig bíla við viljum. Anna er á þessum líka fína vinstrigræna skutbíl og saumakonan á lítilli rútu, Ásta á flottri drossíu ... ég vil vera á jeppa eða bíl sem situr hátt á veginum (strætó alveg búinn að spilla mér) og myndi kaupa mér slíkan bíl ef ég ætlaði að gera slíkt.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 16.5.2007 kl. 11:45

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

...ég á fjallahjól....

Hrönn Sigurðardóttir, 16.5.2007 kl. 11:56

4 Smámynd: Margrét Annie Guðbergsdóttir

Mig langar ekki í jeppa, ég á bara minn station bíl sem hentar fyrir fjölskylduna og hundinn. Mjög ánægð með hann. Langði í Rolls Royce þegar ég var yngri. Mundi ekki slá hendinni á móti honum ef mér biðist hann í dag.

Margrét Annie Guðbergsdóttir, 16.5.2007 kl. 12:30

5 identicon

Spurning hvort ljósblá mynd af mér í jeppa myndi auka söluna ... eða eyðileggja hana alveg?

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 13:22

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sem betur fer keyri ég ekki og mér er nákvæmlega sama hvað liggur ofan á hjólunum sem bera mig á áfangastað.  Það er til bílafeminismi greinilega og það er flott.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.5.2007 kl. 13:44

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég myndi kaupa hjólbörur sem bíl ef þú auglýstir þær, Doddi minn, hvort sem þú værir fullklæddur eða kappklæddur. Ég væri frekar til í að keyra sjálfskiptan smábíl en stóran kagga ... en þó bara innanbæjar, yrði skíthrædd úti á þjóðvegi við alla stóru jeppana. Læt mér því strætó nægja, hann hræðir jeppana og þá er ég örugg. Hef aldrei þolað orðið konubíll og það kom mér á óvart að konurnar mínar sex skyldu ekki velja slíka bíla, ekki ein þeirra ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 16.5.2007 kl. 14:04

8 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Gurrí, núna ertu greinilega að lesa Tvíburana en um daginn sagðirðu lauslega frá Síðasta musterisriddaranum. Hvor er betri? Ég er að fara í viku til sólarlanda og þarf eitthvað safaríkt að lesa á meðan.

Vilborg Valgarðsdóttir, 16.5.2007 kl. 15:19

9 identicon

Tek að mér að sitja klæðalaus aftan á hvaða bíldruslu sem er með púströrið á milli fótanna - pottþétt kaupgleði og ...

P.s. "Ég væri frekar til í að keyra sjálfskiptan smábíl en stóran kagga ... en þó bara innanbæjar, yrði skíthrædd úti á þjóðvegi við alla stóru jeppana. Læt mér því strætó nægja, hann hræðir jeppana og þá er ég örugg. Hef aldrei þolað orðið konubíll...."   hehehe hver var að tala um konubíl

Jónsi (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 16:08

10 identicon

Nú væri freistandi að taka þig á orðinu, dúllan mín! Læt taka mynd af mér við hlið hjólböru, ef sá gállinn og tækifærið verður á mér ... knús til þín, Gurrí mín!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 16:41

11 identicon

Ég trúi því ekki að ég hafi skrifað "hjólböru" .... sannarlega á að standa þarna "hjólbörum" ... ég er ekki vitlaus í íslensku!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 16:42

12 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já, þetta undarlegt með konur og kagga. Ég man nú hvað mér fannst fáránlegt þegar maðurinn minn ákvað að kaupa jeppa. Ég þurfti nú aldeilis ekki slíkt tæki. Mér nægði alveg fólksbíll. Eftir þrjú ár var ég hins vegar svo háð jeppanum að ég suðaði í karlinum að kaupa annan.

Steingerður Steinarsdóttir, 16.5.2007 kl. 16:46

13 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Já, aldrei hefur mig langað í konubíl, hef alltaf átt einhverskonar druslur í gegnum tíðina, en eignaðist minn fyrsta nýja bíl í Jan 2005, Dodge Stratus, og kallast sú bílgerð eflaust konubíll, en mér fannst hann sko flottur af því að hann var glænýr. Er ekki búin að segja neinum þetta ennþá, þannig að þú ert fyrst Gurrí mín, en við vorum að kaupa Jeep Commander, 2007 árgerð, hvítur með nægum sætum fyrir öll börnin okkar, þannig að núna er ég komin í kallabíl, en sit hátt uppi, finnst ég vera að keyra hálfgerðan strætó, og ég get sagt þér með góðri samvisku, að ég fíla það að vera kall

Og Doddi minn, hvaða mynd af þér við hliðina á hverju sem er, mun auka sölur á þeim hlut

Bertha Sigmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 16:50

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Vilborg, mér finnst Tvíburarnir safaríkari en hún er allt öðruvísi. Musterisriddararnir er spennubók, Tvíbbarnir mannlegri og meira kjöt á beinunum. Ég hlakka rosalega til að fara upp í rúm á kvöldin að lesa hana og ekki síst í kvöld þegar ég má lesa lengur vegna frídags á morgun. Tvíbbarnir endast lengur, lofa þér því, enda mun þykkari ...

Gæti alveg hugsað mér að eiga hálfan bíl, 2 manna kagga. Hann er kúl. Guðmundur almáttugur, gamall samstarfsmaður, átti slíkan bíl. Hættum bara að uppnefna bíla. Jónsi, hætt þú að vera með kjaft!!! Hehehhe. Doddi, ég vil gjarnan sjá mynd af þér við hjólbörur. Það myndi að vísu auka sölu á þessum tækjum all svaðalega ... en só. Þú varar bara innflytjendurna við! Og Steingerður, mikið var gaman að rúnta með þér á jeppanum. Góð ferðin okkar í himnaríki 10. febrúar 2006 þegar ég flutti hingað. Kettirnir í losti í stóra búrinu aftur í og espressóvélin í aftursætinu. Mestu nauðsynjarnar fluttu fyrst! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 16.5.2007 kl. 17:17

15 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Gurrí er haldin "ÁSTUÁST",til eiflífðar já hún varir.Þar yfirleitt er um að fást,æðislegar "Bílfarir"! Fékk þetta í tölvupósti áðan frá pennavini að norðan ... 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 16.5.2007 kl. 18:39

16 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Jónsi fyndinn. Góð bók: Flugdrekahlauparinn. Hef líka heyrt rosa vel látið af Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn og á það vel við hér í þessari umræðu. Hvað er með þetta orð: hjólbörur. Hlutur sem ber hjól??

Jóna Á. Gísladóttir, 16.5.2007 kl. 22:48

17 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jóna þó, vertu ekki að æsa upp andstyggilegheitin í Jónsa, ég er nógu mikið búin að grenja yfir glósunum hans. Hef ekki lesið munkinn en heyrt henni hrósað sums staðar. Er þetta ekki annars sjálfsræktarbók? (Ekki mín deild, ég er svo ræktuð)

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 16.5.2007 kl. 23:07

18 identicon

Er þessi bók tvíburnarnir skáldsaga eða byggð á raunverulegum atburðum?  Þú ert búin að skrifa þannig um þessa bók að mig dauðlangar að lesa hana.  Er þetta kilja sem ég fæ hvar sem er?

Sigga (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 180
  • Frá upphafi: 1526027

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 164
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband