Flottur gærdagur þrátt fyrir skelfilegan rugling í afmæli

Blindfullur maður sat við hliðina á mér í strætó á leiðinni í bæinn í gær, reyndar hinum megin við ganginn.
„Heyrðu, má ég segja þér sögu?“ drafaði í honum.
„Ænei, helst ekki.“
„Jæja, ég skal þá ekki gera það.“ Ég heyrði á honum að ég missti af miklu. Mjög miklu.

Ég nennti alls ekki að tala við hann, enda kaffilaus, en hafði heilmikla samúð með honum. Var hálffegin þegar ég sá að hann hitti kunningja sinn í Mosó og sá bjargaði honum inn í leið 15. Myndarlegur maður undir allri vímunni. Getur verið að langtíma einsemd kenni manni svona mikið að slaka á kröfum?

Fimmtugsafmæli MæjuHilda sótti mig á Grensásstöð og sem betur fer mundi ég eftir að kaupa kaffi.
Fimmtugsafmæli Mæju var náttúrlega bara snilld, góðar veitingar og skemmtilegir gestir. Ég gerði þau skelfilegu mistök að ruglast á dætrum hennar. Hrósaði þessari 18 ára fyrir að líta út eins og unglingur miðað við að hún ætti fimm börn og væri orðin 28 ára. Þori að viðurkenna þetta á þessum vettvangi en hótaði henni sjálfri að ég myndi drepa hana ef hún segði nokkrum frá þessu. Ég hefði orðið sármóðguð í hennar sporum en Helga flissaði bara. Ég þorði ekki einu sinni að segja Hildu frá þessu. Hef ekki einu sinni þá afsökun að hafa verið drukkin ... ég drakk óblandað kók. 

Hjá Áslaugu (tónleikasamferðakonu minni) tók Snati vel á móti mér eins og ævinlega en hún er þrílitur, svolítið grimmur köttur. Samband okkar Snata hefur þróast þannig í áranna rás að ég má taka hana í fangið, halda henni eins og ungbarni í eina mínútu og klappa henni. Hún malar meira að segja smávegis. Svo fær hún allt í einu tryllt ógeð á knúsi, rífur sig lausa og reynir að ráðast á mig. Ég set hana þá varlega á gólfið og stekk undan svo að hún klóri mig ekki eða bíti. Dásamlegur köttur. Minnir mig mikið á suma af gömlu kærustunum mínum.

Eftir guðdómlegu tónleikana var haldið heim til Áslaugar þar sem hún fyllti poka af bókum um liti, innréttingar og annað sem tengist heimilum. Nú ætti ég að geta ákveðið endanlega hvernig bað himnaríkis verður áður en hafist verður handa. Elsku eiginmaðurinn ók mér svo heim á Skaga til að bakið á mér færi ekki í kássu í sófanum þeirra ... Það var ekki séns að ég gæti sofnað fyrr en seint og síðar meir, enda uppnumin eftir tónleikana. Hef spilað Ederlezi svona 50 sinnum og eftir að ég vaknaði í dag hef ég haft það hátt stillt, þannig er þessi tónlist flottust. Er innilega þakkláta Andrési á kommentakerfinu mínu við síðustu færslu fyrir að kynna mig fyrir þessu lagi. Hann var líka á tónleikunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ja, við losnuðum alla vega við hann í gær. Þótt ég sé ekki mikið á fartinni hér á Skaganum þá er þetta í fyrsta sinn sem ég sé svona mikið drukkinn mann eftir að ég flutti hingað. Ég hef litla þolinmæði gagnvart drukknu fólki og reyni eftir getu að halda mig frá því en samt vorkenndi ég honum innilega. Við þurfum að gera eins og Svíarnir, þeir senda mörg erfið tilfelli í Krýsuvík á Íslandi og þar ná þeir bata, flestir alla vega. Svíar borga svo vel með þeim að það greiðir fyrir pláss handa Íslendingum. Vona að ný stjórn geri skurk í velferðarmálunum, ekki veitir af.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.5.2007 kl. 14:20

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Já Svíarnir fara í Krýsuvík þegar fokið er í öll önnur skjól.  Annars gerði þessi pistill töluvert fyrir mig á þessum sunnudegi og þú er svakalega sæt og góð!

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.5.2007 kl. 15:13

3 Smámynd: www.zordis.com

Þvílík veisla sem þú hefur hnotið um!  Fyllibyttur eru fínar, skemmtilegar og mishuggulegar ef þær láta mann í friði! 

www.zordis.com, 20.5.2007 kl. 16:24

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Já, alltaf gaman að lifa!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.5.2007 kl. 17:58

5 identicon

Óblandað kók getur fengið mann til að gera skrautlegustu hluti! Ég skal lofa því að vera edrú þegar ég hitti þig ...

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 18:21

6 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Eitt er nú að fá sér í glas, annað að vera blindfullur karl í strætó.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.5.2007 kl. 18:24

7 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Mér leiðis röfl í fullum körlum

Kristín Katla Árnadóttir, 20.5.2007 kl. 19:06

8 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Flott vísa ... mikill sannleikur í henni.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.5.2007 kl. 19:40

9 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Gurrí, ef þig langar að dansa eins og vitleysingur þá mæli ég með þessu lagi úr BlackCat White Cat (eftir Nelle Karajlic): http://radioblogclub.com/open/103138/bubamara/Black%20Cat%20White%20Cat%20-%20Bubamara%20%28main%20version%29

Það byrjar mjög rólega en svo getur maður ekki annað en dansað. Ég keypti þessa plötu á flugvellinum þegar ég flutti til Kanada og fyrstu helgina erlendis var ég í sumarbústað í mígandi rigningu þannig að ég varð að vera ein inni mjög mikið). Ég setti þetta á fullt og dansaði svo um eldhúsið. Það var frábært.

Annað stórkostlegt úr Underground er þetta hérna: http://radioblogclub.com/open/135531/kalasnjikov/G.Bregovic%20-%20Kalasnjikov%20%28Underground%29

Þessi lög eru ekki eins falleg og Ederleizi en þau eru svo fjörug og skemmtileg. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.5.2007 kl. 19:45

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Æ, varst þetta þú, svampi minn. Hefði ég nú bara vitað það ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.5.2007 kl. 20:56

11 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

hehehe. Takk Gurrí. Skemmti mér vel.

Jóna Á. Gísladóttir, 20.5.2007 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 272
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 245
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband