Þegar dekur var skammaryrði og aðventan dauf

Ég er nógDraslið heima hjá mér er kannski ekki yfirgengilegt en ... tvö rúmteppi í lokaþurrkun ofan á tungusófanum í stofunni, borðstofuborðið ónothæft því það er jólagjafapökkunarstöð. Það vantar þó enn nokkrar gjafir áður en hægt verður að fullpakka inn. Það allra, allra versta; þrjár körfur kúffullar af þvotti! Af hverju fór ég ekki í húsmæðraskóla?

 

Ekki eitt jólaskraut komið upp. Of margar bækur - of lítill tími? Neits, auðvitað ekki. Ég les bara þegar ég er komin upp í rúm og þótt ég fari stundum nokkuð snemma upp í til að lesa, jafnvel fljótlega eftir kvöldmat finnst mér ég ekki vera að svíkjast um. Jafnvel þótt ég lesi kannski í fimm tíma og kíki líka á snapp og insta, er samviskan hrein af því að ég les bara fyrir svefninn. Hilda systir hefur aldrei sagt að drjúg séu kvöldverkin og það hvetur mig til að fara snemma upp í. Gæti ég kannski brotið saman þvott á kvöldin? Ja, mér finnst eiginlega betra að gera það í dagsbirtu upp á svörtu sokkana sem allir eru eins í fremur dimmu og rómantísku svefnherbergi mínu, en í dagsbirtu er ég svolítið föst í tölvunni við vinnu. En að vakna bara fyrr á morgnana. Latríður mín? Já, en þá get ég ekki lesið nema í örfáa klukkutíma! Elsta kona landsins drekkur ekki vín (eins og ég eftir að Vínbúðin flutti enn fjær) og les einhver ósköp og segir það halda sér síungri (gamalli). Ég stefni hér með á að verða langelsti bloggari landsins, uppfylli skilyrðin. 

 

En mögulega er kominn tími til að trekkja Storytel í gang - hlusta og gleyma sér við unaðinn sem fylgir því að brjóta saman þvott á sjálfstýringu og ganga frá honum inn í skápa. Þegar ég var síðast í sambærilegri þvottaneyð byrjaði ég á fyndinni glæpasögu - en veit samt ekki hvort ég nenni að klára hana. Of langt síðan og eiginkonan í sögunni var allt of blóðþyrst.

Vonast eftir meira jólaskapi. Trúi ekki að það einskorðist við væmnar jólamyndir ... Nú væri gott að fá Fasta, orkugefandi hollustuberjadrykkinn sem fékkst eiginlega hvergi og hætt var að framleiða af því að hann seldist svo illa. Ég sakna hans daglega. 

 

Í gamla dagaÞetta er samt bara win-win ef ég hugsa til fólksins í gamla daga sem gerði ALLT á Þorláksmessu. Skipti á rúmum (1 x á ári), þvoði rúmfötin og þurrkaði, viðraði, eldaði, baðaði sig, dró ullarsokkana af vinnumönnunum, hengdi upp kjöt og margt fleira. Mamma t.d. skreytti jólatréð og stofuna eftir að við vorum sofnuð á Þorláksmessu, pabbi þá að hitta mennina, og kl. 18 daginn eftir var stofan opnuð og við gengum inn í jólin. Aðventan var ansi mikið rólegri - og ekkert við að vera nema stjarna uppi á þaki á einu viðhengi Sementsverksmiðunnar. Litlu jól í skólanum, einhver bakstur, tiltekt af svo miklum myndarskap að þakrennurnar voru pússaðar. Ég frétti af fjölskylduföður þessa tíma sem setti nýjar fúgur árlega fyrir jól á milli flísanna á baðinu.

 

Ég var orðin gift kona með barn þegar ég reyndi að klára allt  FYRIR aðfangadag til að við hjónin, 20+, gætum horft á barnaefnið í sjónvarpinu. Svona hafði maður nú verið illilega sveltur á barnsaldri, allt var svo bannað, að til að vinna þetta allt upp varð ég að horfa á barnaefni alla aðfangadaga til 28 ára aldurs, þá löngu fráskilin (hvaða maður þolir slíkt?). Inn á milli las ég Andrésblöð á íslensku, líka til að vinna upp svekkelsið af þeim dönsku sem var rétt að okkur án orðabókar. Gott að grípa samt til mömmu sem hafði lært sína hjúkrun á dönsku. 

Það var hræðilegt að vera uppi á þessum tíma. Orðið dekur var þá mikið skammaryrði, nú fær fólk það í jólagjöf í ýmsu formi. 

 

Einn Facebook-vinur minn, samt ágætur, tekur saman ýmsar þýðingarvillur en líka keðjustatusa eins og „fund milli brauðs“ sem ég hreinlega skil ekki hvað þýðir. Ég ætti kannski að senda honum hjartnæmu myndirnar sem ég hef safnað (tekið skjáskot af) og textinn er iðulega: „Ég er of fatlaður / veikur / fátækur /dauðvona / með risastórt utanáliggjandi æxli (mynd) / ljót/ur ... til að nokkur setji læk á þessa mynd eða deili henni,“ eða skrifi amen og Facebook sendi þá viðkomandi einn dollara. Ég sé alveg fyrir mér illkvittna skólastráka leita að afar sorglegri ljósmynd og búa til átakanlegan bulltexta og flissa svo yfir allri dreifingunni sem myndin fær hjá góðviljuðu fólki. Alltaf einhverjir sem falla fyrir þessu, deila þessu svo við höldum ekki að viðkomandi hafi eitthvað á móti veiku fólki, ljótu eða dauðvona, og deila svo líka árlegum jólasögum af litla stráknum /stelpunni sem á ekki nóg fyrir blómum á gröf mömmu eða dúkku til að setja í kistu litlu systur í kistulagningunni og einhver gefur honum tvo skildinga án þess að vita alla sorgina sem býr að baki ... Sennilega er ég siðblind fyrst hjarta mitt er svona grjóthart gagnvart þessu. Hvað er að fólki sem býr þetta til?

 

Flott grátiðÉg er samt algjör aumingi og grenjuskjóða, tárast iðulega yfir einhverju, allt of mörgu, finnst mér; fallegri tónlist, týndum köttum, dánum gæludýrum og þaðan af verra, en svona bullsögur þoli ég ekki.

 

Inga vinkona hló að mér í dag þegar ég sagði henni frá spælingu vikunnar. Þegar mig hafði verið að dreyma æsispennandi draum, leigumorðingi á hælunum á okkur nokkrum og við stefndum á að fara út í Flatey á Skjálfanda, fæðingarstað pabba, til að heyja lokaorrustu við morðingjann. Þá heyrðist hávært BLING! í símanum og ég vaknaði. Einhver að senda þumal í eldgosa- og jarðskjálftahópnum mínum (kl. 8.23) við eitthvað sem einhver skrifaði þar kvöldinu áður. Ekki séns að geta sofnað aftur og haldið áfram spennandi flóttanum en ég reyndi samt, mjög fast. Ég tími ekki að slökkva á símanum yfir nóttina og mér er bara nær að vera í skemmtilegum hópi með bæði A- og B-fólki, allavega einni AB. Þess virði að vakna, ég reyni bara að hafa draumana dauflegri í framtíðinni.

 

Að lokum: Óþolandi að ungar keppniskonur í blaki VERÐI að vera í bikiníi til að teljast löglegar á íþróttamótum. En hvað með karlkynsballettdansara, ÞURFA þeir að vera í svona þröngum buxum? Hafa strákarnir aldrei mótmælt þessari opinberun? Ég er ekki viss um að þeir fengju að synda í svona fatnaði í sundlauginni á Akranesi, hvað þá mæta svona í Einarsbúð. Ekki kveikja á sjónvarpinu núna. RÚV þó! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mörlenskur karlmaður, sem fór með unga dóttur sína á ballettsýningu hér á Klakanum, kvartaði mikið yfir því í fjölmiðlum að karlkyns dansararnir væru í alltof þröngum buxum. cool

Greinilega algjör plebbi og dóttirin hefur áreiðanlega skammast sín fyrir hann.

Undirritaður mælir með því að Mörlendingar sjái Svanavatnið í Bolshoi í Moskvu, í stað þess að liggja eins og ómenntaðir plebbar á sólarströnd og halda að það sé merkilegt, eins og birtist nær daglega á mbl.is.

Bolshoi Theatre reopens - Myndband

Sonur elsta Mörlendingsins sagði í viðtali við fréttamann RÚV í gær að fréttamaðurinn væri of feitur. cool

Þú ert of feitur - RÚV

Hreinskilni er dygð og Mörlendingar eru almennt orðnir alltof feitir, graðgandi í sig alls kyns ruslfæði, apandi það eftir Könunum, sem eru mestu plebbar í öllum heiminum, eins og dæmin sanna.

Það er einnig mikil dygð hjá kvenfólki að vera sífellt að þvo og brjóta saman þvott, enda þótt sumum finnist það plebbalegt.

Þeir fáu karlmenn sem nenna því nota hins vegar flestir alltaf sömu stillinguna á þvottavélinni. cool

Hvernig haldið þið að þessir menn séu í rúminu?!

Undirritaður er nýbúinn að kaupa þvottavél með 40 stillingum, þannig að hægt er að senda hana til tunglsins, lenda henni þar á sjálfstýringu og hengja þar upp þvott, ef menn eiga þangað brýnt erindi.

Og allan þvott á að strauja, meira að segja sokka, en fæstir nenna því og virðingin er engin, hvorki fyrir þeim sjálfum né öðrum sem þurfa að horfa upp á þetta. cool

Þorsteinn Briem, 14.12.2021 kl. 16:12

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hahaha - jamm, ég veit, en hreinskilni er samt ofmetin og er oft nær dónaskap, ég hefði lamið þennan mann ef hann hefði kallað mig feitabollu. 

Hef farið á ballett en greinilega setið of langt frá, aldrei gert mér grein fyrir hversu þröngt þetta er, en ef þeir eru sáttir er ég það líka. Hef aldrei heyrt þá mótmæla.

Óska eftir vél sem þvær, þurrkar, brýtur saman og gengur frá ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.12.2021 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 36
  • Sl. sólarhring: 42
  • Sl. viku: 666
  • Frá upphafi: 1525027

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 566
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Vettvangsmynd
  • Seinni hluti
  • Fyrri hluti

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband