Rósakálshöfnun og loks innri ró ...

HöfninJólastreitan hefur ekki angrað húsfrúna í Himnaríki sem hefur bara unnið af kappi, haldið heimilinu í horfinu, setið fremur fámenna afmælisveislu um helgina og nánast bara dinglað sér. Vissulega pakkað inn öllum jólagjöfum og flutt langflestar þeirra til Reykjavíkur - eru það ekki gjafirnar sem skipta hvort eð er mestu máli um jól? Ég hugsa ekki einu sinni út í jólamatinn ... ef mat skyldi kalla ... Hilda tók vægast sagt mjög illa í að hafa rósakál með matnum, eða prump(u)kál, eins og næstelsti íbúi Himnaríkis kallar það. Bíði hún þar til ég legg til eitthvað sniðugt aftur. Í fína skemmtiferðaskipinu (jólin 2018) var stöðugt boðið upp á prumpkál og kvartaði hún þar? Nei. Hún er reyndar sú sem fékk alltaf harðsoðið egg benedict í morgunmat uppi á fimmtánda dekki svo kannski hefur hún fengið mánudagsbitana af rósakálinu. Eða kann ekki við afleiðingar átsins á því og mögulega sú eina (klárasta) af nokkur þúsund farþegum sem sá í gegnum stjórnendur skipsis sem otuðu því skipulega að okkur með hverri máltíð. Metan hvað ...

 

Við stráksi fórum með vinkonu minni út að borða upp úr hádegi í gær (sjá mynd). Höfnin heitir staðurinn sem varð fyrir valinu og við fengum the gluggaborð. Lítið að gera í hádeginu svo það var kósí hjá okkur og frábærlega góður matur. Dásamlegur félagsskapur, meira að segja gekk sjálfur borgarstjórinn fram hjá glugganum í miðri máltíð sem gerði upplifunina enn ánægjulegri. Minnti mig á morgunverðinn í New York 1993 þar sem ég smakkaði svokallaða beyglu í fyrsta sinn þegar Dustin Hoffman gekk fram hjá. Ég fékk mér plokkfisk, vinkonan hamborgara og stráksi steikarloku. Hjónin á næsta borði fengu sér líka plokkfisk (smekkfólk) og féllu gjörsamlega kylliflöt fyrir rúgbrauðinu með, skiljanlega. Ég skrifaði orðið RÚGBRAUÐ fyrir þau á miða og vonandi fundu þau nóg af rúgbrauði í verslunum í grennd. Ég kunni ekki við að mæla með rúgbrauðinu í Fiskbúð Akraness við þau sem er best, bara eins og allt hér.

 

Höfnin er í einu af grænbláu húsunum við höfnina og við hliðina, í sama húsinu, var áður Kaffi Haítí sem virðist hafa hætt starfsemi, því miður. Það var ótrúlega gaman að fara í bæinn, sjá hvað allt hefur breyst rosalega mikið, mér finnst hann orðinn fallegri. Vildi að ég hefði ekki verið á hraðferð, það var svo mikil stemning í miðbænum og ekki bara lundabúðir eins og var (f.c.). Hilda sótti mig niður á Hverfisgötu, við óttuðumst að allt væri lokað alls staðar til að dissa vesalings fólkið sem kýs að vera á bíl, eins og víða má sjá upphrópanir um á samfélagsmiðlum, en svo var nú bara alls ekki. 

 

Utan fráÞvílík brjálæðisleg heppni að ég var komin snemma fram úr í morgun, fyrir níu!!!, bjó um en þvottafjallið enn hátt og digurt, í körfum á gólfinu. Fyrra þvottafjall frágengið, ég er bara svo dugleg að gera ný og ný fjöll úr hreinum þvotti! En alla vega komu tveir karlar á krana (lyftubíl?) til mín á gluggann um ellefuleytið, án nokkurrar miskunnar, til að skipta um gler í besta útsýnisglugganum þar sem móða hafði hreiðrað um sig.

 

Ég kunni ekki við að segja þessum elskum réttu ástæðuna fyrir gluggaskiptunum, eða þá að mig hafði langað í rúm 15 ár að geta þrifið gluggakistuna hinum megin við glerið. Sem ég gat í dag, LOKSINS. Veðursældin hér við Faxaflóann er stundum að drepa mig. Hvað ég myndi gefa mikið fyrir rok og hreinsandi rigningu stöku sinnum í stað þess að fá smiði til að skipta út svokölluðu móðugleri  ... Ég gæti þurft að bíða í 15 ár þar til mér tekst að þrífa gluggakistuna utan frá aftur. Þá hlýtur nú bara að vera búið að finna upp flugbílana sem ég hélt í gamla daga að yrði aðalfararskjóti okkar í síðasta lagi árið 2000.

 

Á myndinni sést þegar ég þríf ytri, óþrífanlegu utanfrá-gluggakistuna í algjöru ofboði á meðan smiðirnir sóttu nýja og fína glerið. Þeir tóku ekki eftir neinu - en ég náði innri ró í fyrsta skipti síðan snemma árs 2006 þegar ég leit grútskítuga gluggakistuna fyrst augum.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rúgbrauð er kallað Aftansöngur hér á Skaga.

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 21.12.2021 kl. 12:27

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ohhh, hvernig gat ég gleymt því, Tommi? 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.12.2021 kl. 15:42

3 identicon

Og Plokkfiskurinn er kallaður Duddari.

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 21.12.2021 kl. 16:30

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Stytting á Dýrlegur og dásamlegur matur?

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.12.2021 kl. 17:14

5 identicon

Nafnið á Duddaranum kom til af því að ef menn horfðu ekki á kokkinn á meðan hann handeraði hann var hann etinn með bestu lyst.Tveir asnar fóru að glápa á kokkinn og sögðu okkur það seinna af hverju þeir átu hann ekki.Síðan hefur ekkert til þeirra spurst.

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 22.12.2021 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 634
  • Frá upphafi: 1524995

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 540
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband