Suðurnes í náðinni og viðreynsla þá og nú ...

Ég í sveitinniSvaf af mér óveðrið, ef óveður skyldi kalla a.m.k. hér á Akranesi, kaupstað sem sumir vilja meina að sé sturlað óveðursvíti og rjúkandi rokrassgat. Það gæti ekki verið meira bull enda kannski fullyrt af fólki sem hefur ekki varið hér tíma svo heitið geti eða áttað sig á því að þegar er leiðindaveður á Skaganum er kannski nákvæmlega sama leiðindaveðrið í Reykjavík. Ég hef einu sinni komið út í Flatey á Skjálfanda og var sjóveik á leiðinni þangað sem segir mér þó ekki að það sé alltaf vont í sjóinn, eða það að alltaf sé allt fullt af dauðum flugum í gluggunum í kirkjunni þar eða að fáist bara dúkkukerra og brjóstsykur í litla kaupfélaginu - sem er mín upplifun af Flatey, já, og kýr á bás inn af eldhúsinu hjá fólki (afa og ömmu). Ógnvænlega stór kýrhausinn, hún var eins og skrímsli, ég grét af ótta, hávaðinn í skrímslinu mikill og lyktin nánast óbærileg. Á þessum tíma var ekki byrjað að senda mig í sveit öll sumur sem fyrirvinnu fjölskyldunnar, það var ekki fyrr en ég var 11 ára, svo ég var sennilega algjört stórborgarbarn í augum afa og ömmu, þá fimm ára. Akranes var stórborg miðað við Flatey og það var alltaf gott veður á Skaganum þegar ég var lítil. Það segir margt að ég lærði badminton úti í garði og á þessum tíma var varla búið að finna upp gróður! Stöku sjúskaður runni á köflum og eitthvað líka um njóla og rabarbara og kartöflur. Ekki mikið meira. (Myndin hér að ofan var tekin í sveitinni þegar ég var 11 ára, að koma úr fjósinu eftir að hafa handmjólkað 35 kýr. Það sem var þó erfiðast var að slá með orfi og ljá í snjó, hvað þá raka heyið og koma því í hlöðuna. En svona var þetta bara fyrir norðan í gamla daga.)

 

Það er svolítið eins og Suðurnesjafólk sé í náðinni, fái allt sem er spennandi (flugvöll, gott kaffi, óveður, eldgos). Kannski flyt ég þangað þegar ég sest í helgan stein. Kannski helst til of mikið flóð (og jarðskjálftar) í Grindavík. Ekki lak einn einasti vatnsdropi inn í himnaríki eftir aðgerðir mína fyrir nóttina, takk, Costco-eldhúsrúllubréf. Í raun vantar bara eitthvað pínkupons meira einangrandi (sem ég veit ekki hvað er eða hvernig maður lagar það) í eldhúsgluggann og neðst við svaladyr litlu svalanna - sem snúa í austur. Það er eiginlega hálfskammarlegt að kalla til iðnaðarmann í slíkt smotterí. Hvað heitir þetta svarta gúmmídrasl (gúmmílistar?) sem er límt í glugga og dyr, held að það sé eitthvað slíkt - en það er samt svoleiðis í gluggunum, ekki gamalt og lúið svo ... Æ, ég hringi bara í smið fyrir næsta austanhvell, hann hlær þá bara að mér. 

 

Núna klukkan 18.00 hefst flugeldasýning hér á Akranesi. Í þetta sinn ekki til vinstri frá mér séð, og alveg á hlaðinu, heldur þurfum við stráksi að horfa til hægri í átt að hafnarsvæðinu - þetta tryggir að fólk geti séð sýninguna víða að við ströndina sunnanmegin (þar sem Himnaríki stendur). Vissulega rok og rigning en Skagamenn væla ekki yfir smámunum.

 

Það er frekar mikið að gera hjá mér í vinnunum mínum en ég hef getað stolið mínútu hér og mínútu þar undanfarna daga, aðallega kvölds og morgna, og er farin að sjá mun eftir dröslunina þegar ég kom heim eftir jólastandið í Kópavogi. Heimilið er orðið mun fallegra sem gleður hjartað - þvottafjallið ekki hátt núna, búið að búa um, plataði köttinn með nammi. Eina „draslið“ núna sem getur samt ekki kallast drasl, er bókabunkinn á náttborðinu. Stærra náttborð eða fleiri náttborð? Alveg hægt að gera bækur í bið að einhverju smart skrauti, gjörningi.

 

InkedAðdáandiKarlar í dag eru allt öðruvísi en í gamla daga (til c.a. 2011), nú til dags eru það aðallega menn sem þykjast vera Íslendingar með aðstoð google translate, sem reyna við mig, ekki vegna gáfna minna, yndisþokka og fegurðar, heldur langar þá bara að svíkja út úr mér fé!

 

 

Í denn gengu menn ætíð hreint til verks á Facebook og sögðu það sem þeir meintu (sjá mynd, verðmætt sönnunargagn, þarf að klikka á myndir svo þær stækki). Og í eldgamla daga, fyrir Facebook, þegar ég var virkilega ung og fersk, lenti ég oft í spennandi viðreynslu, sem ég hef sagt frá hér, eins og í manninum á Óðali sem bauð brjóstunum á mér upp í dans, þeim sem byrlaði mér í Broadway, manninum sem spurði mig hvort ég væri lesbía af því ég nennti ekki að dansa við hann og fleiri hugljúf dæmi á ég. Allt var betra í gamla daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þéttilistar, til dæmis í svaladyrum, eru þessir listar kallaðir í minni sveit og þeir eru til í mörgum litum. cool

Þorsteinn Briem, 6.1.2022 kl. 18:31

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jamm, er með svoleiðis, þarf að athuga hvort séu til þykkari eða hvort þurfi eitthvað annað til að einangra betur, þrátt fyrir dásemdir eldhúsrúllunnar ... :)

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 7.1.2022 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 632
  • Frá upphafi: 1524947

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 537
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband