So long Spotify og ... systraslagur

SítrónufrómasUndur og stórmerki í Himnaríki í dag. Það var frekar hreint ansi mikið draslaralegt, vaskur fullur, endurvinnslupoki troðfullur, pappakassar í fatahenginu (kassar frá Einarsbúð, Eldum rétt) en hafði hugsað mér að fara að grisja eitthvað ... en svo bara vildi ég allt út. Meira að segja örbylgjuofninn sem ég nota nánast ekkert fær nýtt líf einhvers staðar. Verð að taka mynd af herlegheitunum þegar ég verð búin. Fullt af aukafatnaði leyndist í fatahenginu og nú er stór fatahrúga á gólfinu sem þarf að deila á herbergisskápa eftir þvott eða viðr. Uppþvottavélin mallaði, allt orðið svo miklu fínna - en eitthvað var skrítið. Loks áttaði ég mig, það var KAFFIÐ. Þetta var sennilega klukkutíma eftir vakn og ekkert koffín komið á tankinn. Það var þarna sem ég áttaði mig á að ég var ekki háð áhrifum kaffis, heldur bragðinu, athöfninni að búa til kaffi, dreypa svo á og njóta.

 

Sá að mikil uppáhaldssöngkona og gömul samstarfskona, kann að búa til sítrónufrómas. Ég hef verið djúpt hugsi síðan, löngu hætt að nenna að bíða eftir fullkomnum karli (55-65 ára) sem kann listina við það. Hún harðgift kona og ég harðgagnkynhneigð. Ferlega getur lífið stundum verið flókið. Hún bjó til hvíta rúllutertu sem hún raðaði í mót, fyllti það síðan með dýrðinni. (Efsta hæðin á fermingartertu Míu systur var einmitt svona fyllt rúlluterta). Ég rændi myndinni af fb-síðu hennar - en þrátt fyrir að vera virkilega mikið fyrir strákana, gæti ég alveg hugsað mér að giftast Þuríði Sigurðardóttur, söng- og myndlistarkonu, hún er svo brjálæðislega skemmtileg líka. Svei mér þá. Hún gæti mín vegna dinglast með karlinum sínum og hestunum og trönum plús penslum, og sungið að vild, en ég fengi alltaf frómas hjá henni og léti hana í friði þess á milli. Fullkomið, held ég. Myndin hér að ofan sýnir meiri rúllutertu, minni frómas en reyndin er samt önnur ef myndin hefur prentast vel.

 

Crosby stills nash ...Ég ætla að feta í fótspor Davíðs frænda og Neil Young og yfirgefa Spotify-tónlistarveituna. Davíð hefur mælt hástöfum með YouTube í staðinn. Ef Spotify telur sig græða meira á hættulegum öfga-hlaðvarpsmanni en Young, getur Spotify bara hoppað upp í kolröngu ákvörðunina á sér. Davíð vildi meina að YouTube læsi hugsanir, eða hefði nokkuð góða mynd af tónlistarsmekk manns svo þegar ég verð komin yfir fæ ég eflaust ýmsar spennandi tillögur og upprifjanir á því ég hef hlustað á í gegnum tíðina. Dríf í þessu þegar Davíð kemur næst, bið hann um að kenna mér á þetta. Annars fiktaði ég mig bara áfram með Spotify á sínum tíma, geri það kannski bara ...

 

 

Systir mín, nánast jafnaldra, mætti á Skagann í dag, bara til að tilkynna mér að hún hefði verið áskrifandi að Vikunni árið 2000 og hefði fengið 48. tbl., kökublaðið, og lesið bls. 46, og hefði fyrir það, löngu verið búin að átta sig á að NNGG-tertan væri bara venjuleg peruterta. Olli það henni áfalli? Nei. En ég trúi henni samt ekki. Það er svo auðvelt að bera sig vel og berja svo stofupúða í einrúmi. Púðar Hildu eru frekar velktir sem ýtir undir að þær vangaveltur mínar séu réttar. En harðjaxlinn Hilda, eins og hún vill eflaust láta kalla sig, var til í að koma í ísbíltúr í Frystihúsið eftir að hafa farið í gönguferð með Herkúles og Golíat (hans Davíðs) og þar var pantaður sérlega himneskur ís. Ég er enn með sykur á viðbjóðslista mínum (með hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum, ásamt sviðum) og þarna fæst besti sykurlausi ís landsins, tel ég afar líklegt. Svo kom babb í bátinn. „Ég borga auðvitað, væna mín,“ sagði ég mynduglega og klappaði henni vingjarnlega á kollinn. Ég er 1,70 m (á hæð)og hún bara 1.65 m og að auki er ég oggulítið eldri, ásamt því að vera mun í flottari blóðflokki (A+). „Hættu þessu yfirlæti og hroka,“ svaraði litlasystir með derring og það var eins og við manninn mælt, hún náði einhvern veginn að skutla greiðslukorti sínu á ljóshraða yfir afgreiðsluborðið, ég reyndi að mótmæla og bjóða þjórfé en stúlkan ljúfa heyrði ekki orð því ég var með hnéð á Hildu uppi í mér. Mér tókst með naumindum að losa mig, stökkva yfir borðið og rétt ná korti Hildu af stúlkunni og setja mitt í staðinn. Þetta kostaði okkur enn eitt lífstíðarbannið í Frystihúsinu. Sumir laugardagar ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Getur þú bent mér á dæmi um hættulegar öfga-skoðanir Joe Rogan? Þá gjarnan með tilvísun í þátt því hann tekur löng viðtöl og auðvelt að slíta orð úr samhengi.

Annars er Youtube alveg ágætt líka. Ókeypis eins og aðgangurinn að hinu hættulega hlaðvarpi.

Geir Ágústsson, 30.1.2022 kl. 16:15

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég ætla ekki að fara í neinar rökræður um þetta - ég hef mína skoðun, þú þína. Ég trúi þeim sem kalla Rogan ofurdreifara falsupplýsinga og hef sannarlega ekki áhuga á að eyða dýrmætum tíma mínum í að hlusta á hann. :) 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 30.1.2022 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 864
  • Frá upphafi: 1524853

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 727
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband