Veðurrígur og sérlegt sólskinssalat

Á áttunda áratug síðustu aldarStríð okkar systra hefur nú magnast og er komið í hæstu hæðir, ég segi hæstu af því að það tengist veðri og veður er mér jafnheilagt og tölur. Þegar hún kom í gær sem gestur til mín, sagði hún: „Það er nú bara vetrarríki á Akranesi. En nánast sumarveður í Kópavogi.“

 

Mér þótti þetta mjög skrítið af því að Akranesbær er sagður einn snjóléttasti bær landsins, og varð eiginlega ekki reið fyrr en í dag þegar ég skildi alvöru málsins. Maður djókar ekki með veður. Myndin hér (efsta, nr. 1), rammstolin frá vissu mjög huggulegu ljósmyndasafni en af mikilvægu tilefni, var tekin á níunda áratug síðustu aldar, fyrir bráðum 40 árum, þegar síðast snjóaði eitthvað að ráði hér í bæ. Sennilega tekin á Innnesvegi, flottu einbýlishús Grundahverfis til hægri en sjórinn og Höfði (hvenær kom Höfði?) til vinstri. Bærinn er óþekkjanlegur, var allt öðruvísi fyrir 40 árum og svo erum við óvön snjó hérna.

 

Allt á kafi í bænumSnjóléttur - ekki af því að snjórinn fjúki allur á brott (bannað að rugla okkur saman við Kjalarnes í austanátt þar sem Esjan (fjall) magnar upp vind) heldur erum við það æðisleg að snjórinn vill frekar hanga á leiðinlegum stöðum eins og mögulega Kópavogi án þess að ég ætli nokkuð að dissa þann ágæta bæ þar sem ég þekki margt gott fólk. Ekki allt vissulega.

 

Myndin hreyfða (nr. 2) er tekin í dag upp á líf og dauða, og sýnir að það er allt á kafi í snjó á höfuðborgarsvæðinu, myndina tók Brynja, sérleg veður-heimildakona Himnaríkis, á hlaupum undan útsendurum vissrar manneskju.

 

Ég var vissulega svolítið miður mín yfir atlögu systur minnar í garð gamla heimabæjarins hennar en það rifjaðist upp fyrir mér hvað hún var mikill villingur hér. Árgangsmót jafnaldra hennar eru iðulega haldin á Raufarhöfn þar sem hún er í ævilöngu banni, 100 km nálgunarbanni sem er víst heimsmet. Þess má geta að svokallað vetrarríki sem henni var svo tíðrætt um var afskaplega lítilfjörlegt og hvarf fljótlega eftir að hún fór. En systir hennar gæti átt snappvinkonu sem snappaði frá ofboðslega miklum snjó á höfuðborgarsvæðinu í dag ... þegar minn snjór í gær var í kringum 3 mm og skaflarnir kannski einn sentimetri á hæð! Ég bara veit ekki hvað ég hef gert henni, nema borga ísinn ofan í hana í gær.

 

Akranes snjóléttur bærSólskin ríkti hér á Akranesi í dag og af því tilefni bjó ég til sannkallað sólskinssalat - litríkt og rosalega gott. Kjúklingur í því og alls konar grænmeti, ég meira að segja hrærði í voða góða hvítlaukssósu með því. Lystargóði unglingurinn á heimilinu sagði ekkert en hann fékk sér ekki aftur á diskinn. Eins og honum fyndist þetta ekki matur - samt var kjúklingur þarna, egg, tómatar, ostbitar, paprikur, agúrkur, basil og alls konar krydd, og olía.

„Þú hefur ekkert ætlað að vera með nautakjöt í kvöld? Eða læri eða hrygg, eitthvað þannig?“ spurði hann.

„Nei,“ sagði ég, „það var nautakjöt á föstudaginn, frá Eldum rétt, nú borðum við sólskinssalat af því að það er ALLTAF svo gott veður á Akranesi! Ekki síst í dag.“

„En manstu, það kom hrí-“

„Uss, það var sól. Ætlar þú að fá vasapeningana þína á eftir eða bara bulla eitthvað meira?“

„Já, frú Guðríður, yðar hátign, eins og þér segið.“

 

 

Mynd 3 var tekin á Akranesi í dag - í svokallaðri gulri veðurviðvörun. I rest my case. Afsakið óhreina glugga.

 

SólskinssalatiðAfgangurinn af sólskinssalatinu dugir handa mér í hádeginu á morgun og svo kemur eitthvað gott frá Eldum rétt um miðjan dag - sennilega lax með ferskum aspas annað kvöld, pantaði það af því að ég kann ekki að elda ferskan aspas og langar til að læra það - en mér hefur farið þvílíkt fram í helgareldamennskunni síðan þessi E.R.-hátíð hófst þrjá virka daga í viku.

 

 

Og ég er ekki frá því að eilíf sedda eftir kvöldmat hafi orðið til þess að ég sæki ekki í eitthvað sætt - og covid-keppurinn hefur minnkað þónokkuð. Ég MUN komast í kjólinn - fyrir bolludaginn!

 

Mynd 4 sýnir sjálft sólskinssalatið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem bjó á Akranesi, gerði grín að Reykvíkingum fyrir að kunna ekki að aka í snjó en hún hefur trúlega lært það í Kópavoginum. cool

Þorsteinn Briem, 30.1.2022 kl. 23:23

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Við höfum vissulega þurft að senda fólkið okkar í Kópavoginn til að kenna því að aka í snjó - alla vega því metnaðarfyllsta, og þar er hin frábæra Þórdís KRG okkar. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 31.1.2022 kl. 11:26

3 identicon

Myndinn af mikla snjónum er tekinn á horni Garðargrundar og Víkurbraut, horft inn Garðagrund til austurs. Kirkjugarðurinn á vinstri hönd.

Guðjón Kjartansson (IP-tala skráð) 1.2.2022 kl. 21:58

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þakka þér kærlega fyrir, Guðjón. :) Ég gat ekki fundið út úr þessu. Enda svo sjaldan snjór hjá okkur.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.2.2022 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.4.): 84
  • Sl. sólarhring: 192
  • Sl. viku: 562
  • Frá upphafi: 1523916

Annað

  • Innlit í dag: 75
  • Innlit sl. viku: 493
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 72

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Elsku mávar
  • Elsku Herbert
  • Gaslýsandi gemsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband