Öðruvísi innrásir í heimabanka, netútför og skrilljón afmæliskveðjur

PeningarFrekar algengt er orðið að í heimabankanum bíði manns alveg óvænt vongóður reikningur einhvers góðgerðafélags. Ég hlýt að hafa meyrnað eitthvað með árunum því ég borga stundum kvikindin þótt ég sé ekki sérlega sátt við innrásina í heimabankann minn. Kannski af þakklæti fyrir að sleppa við símtal þótt ég segi oftast nei því ég styrki alla vega þrjú félög í hverjum mánuði - og sumt árlega, eins og Kattholt og Rauða krossinn (Krabbameinsfélagið fær ekki krónu (aldrei framar) eftir að hafa hætt með brjóstaskimanir á Skaganum fyrir mörgum árum, við vorum ekkert of góðar til að fara í bæinn, allir á bíl-ranghugmyndin). 

 

Palli og YehyaNúna tvisvar á ekki svo löngum tíma hef ég, eftir að hafa greitt óvænta góðgerðarukkun, fengið símtal í kjölfarið þar sem ég er beðin um að borga meira, helst einhverja upphæð mánaðarlega. Þessi félög sjá um það sem ríkið ætti að gera en gerir ekki, svo ég skil þessar rukkanir svo sem. En ég nánast öskraði (innra með mér) þegar ég fékk seinna símtalið og fattaði samsærið, og sagðist hafa borgað greiðsluseðilinn, ég ætlaði ekki að borga meira - og særði eflaust félag sem gerir ofboðslega góða hluti fyrir skjólstæðinga sína ...

Samt er ég merkt í símaskrá með hauskúpu: Varúð, ekki dirfast að hringja í þetta númer! Urrr. Maður gefur sem sagt færi á sér með því að borga óboðnu greiðsluseðlana - sem er ekki sniðugt fyrir þessi félög að gera. Ég urraði ekkert mjög fast á elskulegu konuna en sagði samt nei. Þó tel ég nokkuð öruggt að ég sé að breytast í grömpí old lady því ég beið stíf eftir að ná sambandi við Arion banka í morgun til að skammast yfir því að hafa ekki fengið sent debetkort, gamla rann út og ég gat ekki notað það í gær. Á meðan ég beið eftir því að bankinn hringdi í mig (sem er reyndar fín þjónusta) fór ég í gegnum blöð og tímarit síðustu vikna sem voru í snyrtilegum bunka (í alvöru) hjá mér - viti menn, þar inn á milli leyndist umslag með kortinu í. Ég hélt hróðug á kortinu þegar síminn hringdi ... Arion banki.

 

Yehya og Hr. HnetusmjörÉg var eldfljót að hugsa, spann upp svo æsandi og spennandi sögu af ribböldum og ræningjum að Arion-maðurinn lokaði öllum kortunum mínum í kjölfarið ... Ég verð að hætta að lesa spennusögur á kvöldin.

Ég hafði beðið örg eftir að heyra: -Við sendum þér nýtt kort en það kostar peninga, og svo kostar 120 krónur að hringja í okkur - eða -þú verður að koma til Reykjavíkur og sækja það

Þá hefði ég reyndar skipt um banka, upp á prinsippið, minni þjónusta-meira verð, ég var búin að æsa mig upp í það (þú getur hirt þinn fjandans felgulykil-dæmið). Svo svaraði bara ljúfur og kurteis ungur maður og skemmdi allt fyrir Landsbanka eða Íslandsbanka sem báðir eru með útibú á Skaganum, ekki Arion nefnilega sem er virkilega léleg þjónusta í nærri 8.000 manna kaupstað, bráðum borg.  

 

Ég treysti mér hreinlega ekki í útförina hans elsku Tomma míns í dag, hef ekki farið í slíkar athafnir síðan sonur minn dó, og horfi frekar á netinu. Þetta var flott athöfn, fín músík í hans anda og jú, vissulega aldrei auðvelt að kveðja góðan vin, en ég hló líka - svo mikið að nú veit ég hvað þýðir að öskurhlæja.  Það gerði ég þegar presturinn sagði söguna af því þegar áhöfnin á bátnum hans Tomma fékk svo svæsna matareitrun eitt árið að á stíminu heim var Faxaflóinn eins og kakósúpa ... Tommi hefði átt að skrifa sögurnar sínar niður, ég sé eftir að hafa ekki skrifað allt niður sem hann sagði en eitthvað af því er þó til á þessu bloggi, aðallega síðan áður en ég tók þrettán ára pásuna.

 

Fóstursonur minn á afmæli í dag, er orðinn 18 ára, búinn að vera hjá mér í fimm ár - upp á dag núna á mánudaginn. Ég setti þessar myndir af honum hér inn í tilefni afmælisins, hann á þessar myndir af sér með flottustu mönnum í heimi, Palla árið 2018 og Hr. Hnetusmjöri tveimur árum seinna, þegar Frystihúsið, ísbúðin besta á Akratorgi, opnaði 2020. Verð að láta prenta þessar myndir út og ramma inn handa honum og setja upp á vegg. Kannski náum við Eminem næst? Setti mynd af stráksa einum á Facebook í morgun, þar sem ég tilkynnti afmælið hans og sé ekki betur, í alvöru talað, en að allir á Internetinu hafi lækað og sent honum fallega afmæliskveðju. Sá verður glaður þegar hann kemur heim og sér allar kveðjurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fóstursonurinn er flottur ungur maður og til hamingju með hann! cool

Þorsteinn Briem, 5.3.2022 kl. 10:00

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Takk kærlega. :) 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.3.2022 kl. 10:04

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Athugul og góð færsla. Guðs blessun.

Guðjón E. Hreinberg, 6.3.2022 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.3.): 13
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 926
  • Frá upphafi: 1520809

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 800
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Mínir menn
  • Fyrir og eftir
  • Trump trompar sig

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband