Beljugleði á Skaga og illskan ein í borg óttans

Litríkt lífVið stráksi áttum erindi í hinn nýrri miðbæ Akraness, skammt hjá Himnaríki, þar sem má finna: Flamingo, Dýrabæ, Kaju, Krónuna, bókasafnið, bókabúðina, Krónuna, Landsbankann, Íslandsbanka, Hans og Grétu, Model, Verkalýðsfélag Akraness, Lindex, apótek, raftækjabúð, tónlistarskóla, Subway, Galito, Úgerðina (bar), AT HOME, Sbarro, bensínstöð, Bjarg (tískuverslun), snyrtistofu, hárgreiðslustofu, pólska búð og skrifstofu Samfylkingarinnar.

 

 

Gamli miðbærinn er á tímamótum, búið að stofna samtök sem eiga að efla hann. Ég er í þeim, of kors. Niðri í bæ er flott torg, Akratorg, með gosbrunnum og styttu af sjómanni, æðisleg ísbúð, gallerí, hannyrðaverslun, veitingahúsum og fleira en við viljum meira. Þar sem ætti að vera torg í nýrri miðbænum er bara pláss fyrir bíla og þess vegna er virkilega mikil þörf á að endurvekja þann gamla. Rífa hann upp. Hver vill stofna kaffihús? Ég skal vera ráðgefandi með kaffið (og þar með daglegur gestur). 

 

Áður en ég fór í þessa upptalningu til að útskýra hversu lítt úthverfislegt er þarna við Stillholt/Dalbraut, og girnilegt fyrir ykkur að flytja á yndislega Skagann, þetta er samt bara lítill hluti af því sem hér er í boði, ætlaði ég að blogga um sérlega góða skapið sem allir voru í. Fólk skoppaði um á strigaskóm, hló hátt, daðraði opinskátt, ekki kannski alveg í stuttbuxum af því að það rigndi, en pottþétt stuttbuxnaklætt í hjarta sér. Elsku Eygló skælbrosandi í bókabúðinni gaf eiginlega tóninn. Hvernig líður drengnum, er honum að batna, jú, hann mátti faðma hana, hún búin að fá covid. Við keyptum 2 spilastokka (helsti veikleiki drengsins sem handleikur spil eins og snjall töframaður) og nokkrar bækur sem mig vantaði sárlega. Hvern vantar ekki alltaf bækur? hugsaði ég með mér. En ég fékk fínasta kynþokkaafslátt í bókabúðinni eins og vanalega sem hvetur bara til kaupa.

 

Svo vildi drengurinn endilega fara í Krónuna og kaupa sér meira te (hann heldur uppi ákveðinni snobbmenningu í Himnaríki) ... og hálsbrjóstsykur ... kannski í síðasta lagi, hann er orðinn svo hress, en allir í Krónunni voru í hrikalega góðu skapi, meira að segja þessir einu tveir sem báru grímu. Jú, ég keypti mér naglaþjöl ... og páskaeggin okkar. Megi þau steingleymast til páska. Held að mamma kaupi ekki handa okkur í ár, enda kannski alveg nóg að fá páskaegg frá mömmu sinni í 60 ár. Nú bara hlýt ég að geta keypt mér sjálf ...

 

Flamingo nr 10Á Flamingo fengum við okkur karamasala-chicken, réttinn númer 10, og þar inni með munninn fullan af besta kjúklingi í heimi áttaði ég mig skyndilega á allri kátínunni. Það er vissulega eðlilegt að gleðjast yfir horfna hálkuviðbjóðsógeðinu en þetta fólk var allt að hugsa um vorið! VORIÐ! Þetta var svona beljugleði, ég get ekki kallað þetta annað. Að fjandans vorið væri að koma með öllum sínum hryllingi; hita og pöddum. Það er eins og fólk gleymi alltaf því sem fylgir ... að verja heimili sitt gegn innrás geitunga, kóngulóa, fara inn í skáp og sækja vifturnar, jafnvel kaupa fleiri, vona að fínu rúllugardínurnar dragi úr skrambans sólinni þegar maður situr við vinnu sína við suðurglugga, og margt, margt fleira. Sumir kannski aðeins of snöggir að gleyma því þegar hjartað tekur spennukipp þegar veðurfræðingurinn lofar almennilegu veðri, jafnvel rauðri viðvörun, þegar nýfallin mjöllin gerir allt svo fallegt og ólmur sjórinn frussast og skvettist upp á göngustígana við Langasand.

 

Gleðin einskorðaðist við Akranes, held ég. Ein Facebook-vinkona mín skrapp í Rúmfatalagerinn (á höfuðborgarsvæðinu) og lenti í því að reka kerru sína utan í kerru annarrar konu. Var byrjuð að segja: „Æ, afsak-“ þegar konan (öldruð) hvæsti á hana og sagði: „Vertu vakandi, helvítis tíkin þín,“ og bætti svo við af því að fb-vinkonan er frekar dökk yfirlitum, eins og nánast öll  mín móðurætt: „Ég get sagt þetta á ensku ef þú ert útlendingur!“ Mín kona ákvað að missa sig ekki ofan í drullupoll konunnar og svaraði ekki.

Ég hef alltaf sagt að það vantaði bara Rúmfatalagerinn (eða IKEA eða Costco) á Skagann til að við yrðum alveg sjálfbær, en ætli ég fari ekki bara að sauma mín rúmföt sjálf ...      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þessi ruglaða kerling í Rúmfatalagernum á höfuðborgarsvæðinu gæti nú allt eins verið kerling af landsbyggðinni. cool

Hinn kexruglaði Miðflokkur fékk engan mann kjörinn á höfuðborgarsvæðinu í alþingiskosningunum í haust og fær engan borgarfulltrúa kjörinn af 23 í borgarstjórnarkosningunum nú í vor.

Útlendingahatararnir búa því hlutfallslega flestir í krummaskuðum á landsbyggðinni. cool

Þorsteinn Briem, 26.3.2022 kl. 19:59

2 identicon

elska þessar athugasemdir frá honum Þorsteini :D

Hallfríður María Pálsdóttir (IP-tala skráð) 27.3.2022 kl. 03:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 230
  • Sl. sólarhring: 269
  • Sl. viku: 1167
  • Frá upphafi: 1520746

Annað

  • Innlit í dag: 201
  • Innlit sl. viku: 1008
  • Gestir í dag: 194
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Mínir menn
  • Fyrir og eftir
  • Trump trompar sig

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband