Að selja kaffi með geymslubragði ...

FermingarveislaLjómandi góðri helgi lokið, fermingarveisla og allt. Og jú, fínustu afgangar fengu að fljóta með á Skagann ... bílfar heim. Og ekki veitti af. Varla pláss í strætó fyrir allt farteskið sem fylgdi okkur stráksa - eftir óvæntan laugardagsverslunarleiðangur eftir trépinnum í Kópamaros, 201. 

 

Systur mína vantaði sem sagt pinna til að stinga í jarðarber fyrir súkkulaðibrunn (sem helmingi ódýrara var að kaupa en leigja, í alvöru) svo við skunduðum í Smáralind eftir pinnum. Við stráksi áttum reyndar erindi í A4 að kaupa spilastokk (hann elskar spil) og svo gaf ég honum minnisblokk í leiðinni.

 

Enginn sagði mér hversu hættuleg Smáralind getur verið, og manneskja sem hefur vanalega alls ekki gaman af að fara í búðir heimsótti nú hverja af annarri ... Söstrene Grene, apótek, Snúruna, Dýrabæ, HM Home, Tiger, Body Shop, Hagkaup ... við rétt svo mundum eftir pinnunum. Yfirleitt þegar ég þarf að fara í búðir er ég kvíðin, búin að taka vítamínkúr til undirbúnings en finn ég ekki það sem ég ætlaði að kaupa. Svo þegar ég ætla ekki að kaupa neitt finn ég það. Og engin önnur en Ragna frá Böðvarshólum var stödd í Smáralind ásamt vinkonu. Ótrúlega margt fólk, ég vissi ekki að væri til svona margt fólk á Íslandi.

 

KaffihúsaheimsóknVið systur og fylgifiskar fórum á ónefnt kaffihús í grennd sem ég hef aldrei áður prófað, og það vantaði ekki flottheitin, innréttingar og glæsilega útlítandi bakkelsi - en ansi fátt af matseðli var samt til, og það sem var til sýnis var mögulega ekki sérlega ferskt. Ég fékk mér sítrónumöffins en fannst kakan sjálf gömul, kremið þó eitthvað nýrra, kaffið allt í lagi, en þjónustan frábær. Við leifðum það miklu að við hefðum verið flengdar fyrir það í æsku, en þökkuðum kurteislega fyrir þegar við fórum. Einhverjir hefðu nú lagt staðinn í rúst en við hefnum okkar öðruvísi, með því að fara annað næst. (Þessi World Class-djókur á myndinni er bara grín).

 

Ég fékk sjokk um árið (á síðustu öld) þegar ég ákvað að prófa dýrasta kaffi í heimi (Jamaica Blue Mountain) og borgaði 1.100 kall fyrir litla pressukönnu af því. Geymslubragðið var yfirgnæfandi og einhver sagði mér að eigandi kaffihússins hefði sennilega verið svikinn, 90% af þessu kaffi færu til Japans, restin af heiminum fengi 10%, ólíklegt að Ísland fengi eina baun af þessu kaffi. Á þessum tíma var ég fögur útvarpsstjarna og kaffihús borgarinnar kepptust um að fá að kosta þætti mína, minnir mig alveg endilega, sem voru þá sendir út frá viðkomandi kaffihúsi. Þessi „svikni“ eigandi vildi vera með í eitt skipti en gerði rithöfunda og aðra gesti þáttarins gáttaða þegar hann bauð þeim kaffi á meðan þeir biðu, og rukkaði þá svo fyrir. Ég bað í ofboði um að reikningurinn yrði sendur á útvarpsstöðina. Ég man að Súsanna Svavarsdóttir var einn gestanna. Hún var beðin um að koma í viðtal, ekki borga fyrir fokdýrt kaffi. 

Síðar vann ég talsvert fyrir þennan mann sem var hættur með kaffihúsið, eða það fór á hausinn, og lagði mig alla fram. Hann borgaði mér fyrsta reikninginn sem ég sendi, og hlóð svo endalaust á mig verkefnum sem ég vann allt of lengi, án þess að fá borgað fyrir. Í eina skiptið á ævinni bað ég lögfræðing um að rukka fyrir mig launin sem voru næstum hálf milljón. Lögfræðingurinn gafst upp á endanum. En það var löggan sem náði viðkomandi löngu seinna, fyrir fjárdrátt. Að selja kaffi með geymslubragði kemur manni sem sagt í koll þó síðar verði. 

 

Akureyris„Ætlar þú þá aldrei að koma til Akureyrar aftur?“ spurði kona frá Akureyri í fermingarveislunni í dag. Sú staðfasta ákvörðun mín eftir ákaft kattahatur bæjarstjórnar heimabæjar hennar, hafði frést alla leið norður og greinilega vakið ýmsum ugg, sýndist mér á svip hennar. 

„Ja, heimsóknin í fyrra var svo eftirminnileg, ekki bara voruð þið skemmtileg, það var líka góða pressukönnukaffið (Te og kaffi, Mokka-java) og kaffirjóminn (MS?) sem maðurinn þinn var píndur til fara aftur út í búð og kaupa af því að það var bara til undanrenna eða léttmjólk (sem er ekki hægt að nota út í kaffi). Mig grunar að Kattaframboðið rústi kosningunum í vor og allt þetta kattahatursbull í bæjarstjórninni verði dregið til baka, þá kem ég auðvitað.“

„Ég þoli ekki að fá þessi kvikindi í garðinn minn,“ æpti kona úr Húnavatnssýslu. Við akureyska kinkuðum kolli til samþykkis. Hvern langar, í alvöru talað, að fá akureyskan kattahatara úr bæjarstjórn í garðinn sinn?     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 10
  • Sl. sólarhring: 391
  • Sl. viku: 947
  • Frá upphafi: 1520526

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 814
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Mínir menn
  • Fyrir og eftir
  • Trump trompar sig

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband