Frekar á ísjaka en blómabrekku

P1090316Sonur minn hefði orðið 42 ára í dag. Háaldraður, að eigin mati, en Einar dó þegar hann átti þrjá mánuði í að verða 38 ára. Ég sakna hans alla daga en afmælisdagar hans (og dánardagur) hafa verið miserfiðir síðan, eitthvað sem ég ræð hreinlega ekki við. Mér finnst best að vera ein þessa daga, vinna, lesa, drekka kaffi og leyfa hversdagslífinu að ganga sinn gang. Það þarf að t.d. brjóta saman þvott, þau safnast hratt upp þvottafjöllin á þessu heimili eða tíminn svona fljótur að líða. Fjöllin eru svo sem ekkert rosalega há og ég veit að það tekur ekki mörg korter að klára þau ... kannski bara eitt.

 

Sumir tala um sumarlandið, ef það er líf eftir þetta líf, fari fólk vonandi þangað, og ættingjarnir. Mamma hló mikið að mér ekki alls fyrir löngu þegar ég sagði henni að ég kærði mig bara alls ekki um að vakna (eftir dauðann) ein í einhverri blómabrekku, umvafin blómum og pöddum, eitthvað sem ætti að vera svo dásamlegt að miðill fyllti heila metsölubók af svona blómabrekku-horrorsögum. Einar var aðeins meiri sóldýrkandi en ég og hefði eflaust ekki slegið hendinni á móti svona brekku, og bara klappað býflugunum og geitungunum. Ég er kannski ekki að tala um að vakna á ísjaka í ofsabrimi þótt það gæti alveg verið spennandi. Ég myndi vilja vakna í þægilegum stól með fullar bókahillur allt í kring og dýrlegt kaffi í hönd (með nýmjólk eða kaffirjóma) og ketti og hunda lífs míns í grennd, áður en sjálft partíið byrjaði, knúsin og það allt. Bara alls ekki í blómabrekku. Svo hamast ég auðvitað við að reyna mitt besta til að enda ekki í neðra, því ég þoli svo illa hita en ég er nú samt viss um að í huga ótrúlega margra muni ríkja óbærilegur hiti í sumarlandinu, eitthvað yfir 15 gráður. Það er ekki bara vandlifað, heldur vanddáið líka. Er virkilega ekkert til sem heitir vetrarlandið?

 

 

EinarVandlifað , fyrir þá sem eftir lifa. Síðast í gær las ég í spennubók um foreldra sem misstu barn, og orðin sem lögreglumaður segir við kollega: Nú er það afneitunin, svo kemur reiðin ...

Alltaf verið að segja syrgjendum hvernig eigi að syrgja.

Ég hef aldrei fundið fyrir reiði, út í hvern, út í hvað? Eins og ég hef bloggað um áður, að sá/sú sem kom með þessi sorgarstig ... afneitun, reiði og það allt, var að lýsa því hvernig fólk sem fær fréttir af því að það sé dauðvona, tæklar það. Nú hef ég aldrei fengið slíkar fréttir svo ég veit ekki hvort þetta eigi við um alla, enda myndi ég harðbanna læknum að segja mér slíkt (mamma vann á geðdeild og það komu alltaf einhverjir þangað í algjöru áfalli eftir að læknar sögðu þeim sannleikann, fólk yrði hreinlega að fá að vita, eða hvað?) Ef mér yrði sagt að ég ætti ár eftir, myndi ég deyja eftir ár, á mínútunni. Mun skárra væri: „Þetta lítur ekki alveg nógu vel út, Gurrí mín, en við vonum það besta, er það ekki?“

 

„Þetta á eftir að verða svo miklu verra hjá þér“-huggunin um tómleikann sem myndi sko koma eftir jarðarförina, gerði voða lítið fyrir mig og var kolröng að auki, alla vega í mínu tilfelli. Mér finnst einveran góð og það er líka dásamlegt að fá gesti. Ég upplifði góða blöndu af þessu en eins og ég hef áður sagt fylltist ég stundum ótta við að það væri eitthvað mikið að mér (siðblinda) fyrst ég syrgði ekki rétt ...

Ég sakna sumra vina sem héldu sennilega að ég hefði slitið við þá sambandi - á meðan ég var hreinlega ekki í andlegu formi til að lyfta síma næstu árin á eftir. Sinnuleysi, minni orka, einbeitingarskortur og það allt. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir skilji þetta og ég er ekkert fúl. Veit alla vega núna að ef einhver vinkona/vinur verður fyrir missi og hættir að hafa samband við mig, tengist það mér ekki neitt ... 

 

Hirðrafvirki Himnaríkis mætti í gær og hviss, bang, dyrasíminn er farinn að virka aftur. Nú þarf ég ekki lengur að þjóta öskrandi niður stigana: „Bíddu, stopp, ekki fara, ég er að koma til að opna,“ eins og um daginn þegar stúlkan kom með flatkökurnar (ferðasöfnun). Rafvirkinn fékk heldur betur að njóta kræsinganna úr fermingarveislu sunnudagsins og var ansi hreint sáttur við það þótt hann borðaði ekki næstum því nógu mikið. Ég mun þurfa að leggja hart mér og drengurinn líka til að geta klárað. Annars veit ég um fugla hérna úti sem yrðu voða glaðir að fá veisluafganga. Þeir fljúga sumir fram hjá glugganum mínum og krunka eða garga, til að minna á sig. Þá getur nú verið gott að eiga brauð í frysti. Ég geng þó ekki jafnlangt og dýravinurinn sonur minn gerði stundum, hann átti alveg til að rista frosnar brauðsneiðar og smyrja svo með þykku lagi af smjöri ... ég geri það kannski þegar er frost - og líka alltaf þegar smjörvinn er við það að renna út. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Til hamingju með afmælisdag stráksins þíns. Falleg færsla.

Jónatan Karlsson, 13.4.2022 kl. 07:09

2 identicon

Elsku Gurrí, svo gott að lesa, svo fallegt og satt.

Birgitta Hrönn Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2022 kl. 08:59

3 identicon

Falleg færsla..til hamingju með afmælisdag Einars þíns..orðar þetta allt svo vel. Og já..nei..vil heldur vakna bara í góðum stól eins og þú frekar en týnast í einhverri ókunnugri blónabrekku..❤️ 

Bergljót Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2022 kl. 11:01

4 identicon

Elsku Gurrí mín! Hjartanlega til hamingju með fæðingardag Einars, þig og áhugaverða hugleiðingu.

Ætli það sé ekki bara best að vakna til annars lífs í fangi vorsins.

Kærleikskveðja.  

Þuríður Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.4.2022 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 25
  • Sl. sólarhring: 394
  • Sl. viku: 962
  • Frá upphafi: 1520541

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 824
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Mínir menn
  • Fyrir og eftir
  • Trump trompar sig

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband