Greinarmerkjasetning sem bjargar

Völvan Sérdeilis ljómandi páskar - mikið lesið og meira að segja gist yfir nótt á höfuðborgarsvæðinu. Strætó var svo mikið yndi að ganga (keyra) yfir páskana sem gerði okkur stráksa kleift að fara í bæinn á páskadag.

 

Í einni bókinni virðist sem greinarmerkjasetning muni bjarga lífi lögreglumanns í næstu bók á eftir því í óleyfilegum samskiptum við vin í vitnavernd virðist sem einhver vondur en betri í stafsetningu hafi komist þar inn ... sem fékk ekki bara hárin á lögreglumanninum til að rísa þegar hann uppgötvaði pínkuoggulitla breytingu í bréfunum frá vininum, heldur einnig á mér - ég hef alltaf haldið því fram að góð stafsetning og greinarmerkjasetning sé af hinu góða og fékk nú endanlega staðfestingu á að hún geti bjargað mannslífum. Ég hef stundum sagt við ástvini mína að ef ég myndi einhvern tímann skrifa nafnið mitt með ý-i (Gurrý) væri ég að öllum líkindum á valdi mannræningja, hringið í lögguna í hvelli eða borgið!

Ein komma skilur hér á milli lífs og dauða:

Viltu borða Jón? eða Viltu borða, Jón? 

 

KattafólkVér systur mættumst á miðri leið á páskadag, hún úr sumarbústað, ég frá Himnaríki. Aðalpáskamáltíðin fyrirhuguð daginn eftir, annan í páskum, en klára systir mín hafði áttað sig á að uppáhaldið hennar, Mathöllin á Granda, væri opin á sunnudeginum. Þangað héldum við til að dæma lifendur og dauða fyrir að nenna ekki að elda heima hjá sér - og þeir voru skrambi margir, alls ekki bara útlendingar. Börnin völdu pítsur og vér systur reyndum að halda í eitthvað hefðadæmi en óbeint þó og fengum okkur kótilettur. Lamba. Hún hafði verið með lax á skírdag fyrir hrúguna og keypt ríflega. Þegar saklaus ísbílsmaður bankaði og ætlaði að reyna að selja ís í bústaðahverfi á Suðurlandi var mannskapurinn nýbúinn að borða en allt of mikill afgangur. Hann hélt, elsku maðurinn, að systir mín væri að grínast en þáði svo með þökkum þennan fína mat. Hann var orðinn þreyttur og svangur, viðurkenndi hann, átti eftir að keyra í tvo tíma til að komast heim og ekkert til í bílnum nema ís - sem er líklega ekki það saðsamasta og fyrirfinnst aðeins í draumum barna sem aðalmáltíð. Hann var afar indæll en samt ekki á réttum aldri ... sem rifjar upp átakanlegt samtal við mömmu um daginn: 

Gurrí: Jæja, völvan á Facebook spáði því að ég myndi eignast kærasta á þessu ári. Hún hlýtur að hitta stundum á rétt? 

Mamma: Mér þykir leitt að segja þér en möguleikarnir á því eru óendanlega litlir, ég sem hélt að þú tryðir ekki á neitt svona.

Gurrí: Ja, mér finnst nú allt í lagi að trúa sumu, til dæmis því sem er skemmtilegt.

Mamma: Kona á þínum aldri getur mögulega fundið sér mann í gegnum áhugamálin. Ekki reyna að fara í gönguferð yfir hálendið, þú átt ekki einu sinni almennilegan búnað eftir að ég rændi vindsænginni sem þú fékkst í fermingargjöf. Ekki tala um blóm og sólböð við menn eins og þú vitir eitthvað um það af viti, vonaðu frekar að þú lendir á áhugamanni um eldgos, bóklestur, jarðskjálfta, vefmyndavélaferðir um heiminn og frið á jörð eins og þér var svo tíðrætt um þegar þú varðst ungfrú Ísland þarna um öldina. Sennilega þarftu að sætta þig við kattakarl með áhuga á rúsínurækt.

Gurrí: Mamma, þú veist að vínbe-

Mamma: ÉG VAR AÐ GANTAST. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Geysi fær nú góðan mann,
Gurrí uppá Skaga,
afar margt hann elda kann,
og allt hann kann að laga.

 

Þorsteinn Briem, 19.4.2022 kl. 13:10

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hahaha

Guðríður Haraldsdóttir, 19.4.2022 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 165
  • Sl. sólarhring: 297
  • Sl. viku: 1709
  • Frá upphafi: 1453868

Annað

  • Innlit í dag: 130
  • Innlit sl. viku: 1418
  • Gestir í dag: 124
  • IP-tölur í dag: 123

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband