There's Something About Gurrie ...

Afmæli Rvíkur með mömmuÍ gær fór útför elsku mömmu fram og henni til heiðurs skein sólin glatt og allt gekk upp þrátt fyrir skamman undirbúningstíma. Ég skrifaði stutta minningargrein um hana sem birtist í Morgunblaðinu og það var ekki notað gegn mér að ég skilaði örlítið of seint, takk, frábæra og skilningsríka starfsfólk Mbl. Mánudagur og þriðjudagur voru sérlega annasamir en nú er allt einhvern veginn dottið í dúnalogn. Eða þannig. Var að vinna í allan dag og vann líka í fyrradag og svo eru bara sex vinnudagar eftir hjá Birtíngi. Síðan bara ... ja, alveg nóg að gera.

 

Myndin var sennilega tekin á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar í ágúst 1986, frekar en 17. júní sama ár. Þarna er ég með mömmu og Einari. Fötin á hann keypti ég í Salzburg, Austurríki ári áður, á kórferðalagi um Evrópu með Kór Langholtskirkju. Ferðalaginu þar sem ég var með þrjár ferðatöskur ... ekki á hjólum. Alla tíð síðan hef ég ferðast mjög, mjög létt.

 

Í minningargreininni minntist ég á sameiginlega hrifningu okkar mömmu á Stabat Mater eftir Pergolesi (ég elska 8. kaflann, hún amen-ið (12. kafla)). Hef sagt frá því áður að ég var bara átta ára krakkaormur þegar ég elti mömmu á kóræfingar í Akraneskirkju á meðan Stabat Mater var æft og á tónleikana þegar það var flutt. Guðrún Tómasdóttir söng sópran í þessu verki og útför hennar fór fram í gær, eins og mömmu. Ég dáði Guðrúnu, fannst hún ekki bara syngja vel, heldur var hún svo afskaplega falleg líka.

 

Hvernig fóruð þið að því að fá Oddfellow-salinn (Vonarstræti) fyrir erfidrykkjuna? spurði útfararstjórinn ljúfi (Hálfdán). Það var víst einhver algjör heppni því það eru frí í gangi, presturinn sem jarðsöng mömmu var líka í fríi en gerði þetta samt, hún elsku Karen, dóttir Katrínar vinkonu í Svíþjóð. Það hjálpaðist allt að við að þessi stóri dagur tækist vel.

 

Mæli ekkert endilega með útförum sem leið til að hitta ættingja og vini en það er samt bjarta og jákvæða hliðin á þeim. Svo var Inga vinkona heldur betur ánægð í hádeginu í dag þegar ég tróð hana fulla af afgöngum úr erfidrykkjunni. Inga komst ekki í gær vegna veikinda en fylgdist með á streyminu. 

- - - - - - - - - 

 

DópsaliKveikjuþráðurinn var svolítið stuttur á þessum undirbúningstíma útfararinnar, talsvert stress sem ég er óvön og hef forðast mjög vandlega síðustu árin, en mitt í því öllu fékk ég furðulega Facebook-vinabeiðni sem ég hélt fyrst að væri grín.

 

Gaurinn selur þunglyndi, kvíða, verkjalyf, kynlíf, stera, hörð lyf (sjá mynd). Ég á löggutengdan frænda sem ég sendi skilaboð: „Eyða þessu eða láta lögguna vita?“ Hann svaraði: „Eyða.“ Það væru þúsundir svona síðna í gangi - löggan veit af þeim. Ekki grínsíða, staðfesti hann.

 

Vantar mig kannski eitthvað? hugsaði ég samt áður en ég eyddi beiðninni. Auðvitað væri gott að eiga sinn eigin díler t.d. til að redda sér 600 mg Íbúfeni sem er lyfseðilsskylt og sleppa við að taka alltaf tvær pillur þegar ég fæ í bakið; aðra 400 mg og hina 200 mg.

 

Það væri líka geggjað að fá Sanasól - ef þetta er almennilegur díler. En þessi vinabeiðni bjargaði alveg síðustu helgi. Samt fordómar í gangi hjá honum, það bryðja ekki allar kerlingar pillur, kæru dópsalar. Samt skrítið hversu marga sameiginlega vini við eigum, ég og þessi gaur, sennilega samþykkja sumir allar vinabeiðnir án þess að skoða þær. Halda kannski að þetta sé grín, eins og ég fyrst.

..... ..... .....

 

Ekki nóg með það heldur sótti sjálfur Keanu Reeves leikari um Instagram-vinskap við mig um helgina!!! Væntanleg gæti verið stórmyndin There is Something About Gurrie - ef allt gengur að óskum. Spennt að vita hvað hann vill að ég leggi mikið inn á reikninginn hans ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 480
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 403
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband