Tímamót og fyrirheitna helgarfrísseyjan

FYRIRSumarfríið styttist ört í annan endann og því kannski sniðugt að fara að taka eitthvað í gegn, en til þess eru sumarfrí, að mínu mati. Ekki til að skottast um heiminn og næla sér í sólbrúnku (og kannski covid). Í gær hófst ég handa við tiltekt í fatahengi, fyrrum þvottahúsi og geymslu sem nú er galopið og ætti alltaf að vera fínt þar. Það má alveg kalla það geymslu, eða skápana því þeir rúma svo mikið. Stór hluti gærkvöldsins fór í að fletta gömlum (ekki svo gömlum) Vikum áður en ég gef þær á spítalann. Inga vinkona sagði að lesefni væri alltaf vel þegið þar, svo eru allar krossgátur og orðaleitir tandurhreinar - eða óleystar sem mun vonandi stytta einhverjum stundir. Viss systir mín er áskrifandi og henni finnst hreint ekki gaman ef gestir og gangandi ágirnast gáturnar hennar ... Ég á heiðurinn af því að hafa komið orðaleitinni í Vikuna fyrir mörgum árum og skilst að bæði börn og fullorðnir hafi gaman af. Ég fann einhver 16 orð (sem var mjög gaman) og svo voru 15 þeirra falin inni í stafasúpu. Viss frændi minn tók við þeim og faldi, en einnig önnur orð sem hann átti ekki að gera ... einu sinni stóð þarna GURRÍTRUNTA sem einhver fann nú samt og setti á netið. Mér fannst það mjög fyndið þótt ég sé ekki trunta, held ég. Ég reyndi að koma Örkinni hans Nóa sem ég elskaði í æsku í blaðið en uppskar bara áhugaleysi.

 

Hér er FYRIR-mynd af fyrrum þvottahúsi ... það sést ekki í skápana hægra megin, hún var tekin fyrir nokkrum mínútum. Það er að vísu ekki sólbaðsveður núna til að afvegaleiða mig frá tiltekt, svona ef svo ólíklega vildi til að einhverjum dytti í hug að ég færi í sólbað, as if, en sjórinn er nánast of flottur núna til að ég sitji ekki við gluggann og mæni á dýrðina. Ég var reyndar búin að fjarlægja vetrarúlpur okkar stráksa úr fatahenginu og það var eins og við manninn mælt, það skall á okkur lægð. Alvöruáhrifavaldurinn ég.

 

Völvan 2007Nú eru bara um þrjár vikur þar til ég hætti hjá Birtíngi. Það er verið að breyta ýmsu og hagræða en mér bauðst að halda áfram með meira vinnuframlagi en ég held að hvorki ég né drengurinn höfum gott af því að vinnuálag aukist svo ég læt gott heita eftir rúm 22 ár, að frátöldum hluta árs 2017. Þetta verða talsverð tímamót. 

 

Spennandi og skemmtilegur vinnustaður og frábært fólk sem ég hef kynnst þar í gegnum tíðina. Líklega reis sól mín einna hæst þegar þáverandi samstarfskonur píndu mig til að vera á forsíðu völvublaðs Vikunnar, ekki bara vegna fegurðar, heldur hafði ofsahár aldur minn (48) eitthvað með það að gera. Ég veit enn ekki hvað mamma var búin að segja mörgum að ég væri hin eina sanna völva Vikunnar áður en ég gat leiðrétt hana. Það var bæði hrikalega fyndið og alveg hræðilegt. Það eru enn einhverjir sem senda mér glettnislegt augnaráð ef völvuspá berst í tal, og telja sig VITA hið sanna. Hrmpf!

 

Sjórinn minnRafmagnið fer stundum af í Himnaríki sem hefur kennt mér að vista skjölin sem ég er að vinna í, villt og galið til að tapa engu þegar það gerist. Mér brá nefnilega svolítið þegar ég fékk mér kaffi áðan og sá að klukkan í nýja örbylgjuofninum var að verða fjögur, það gat bara ekki verið, enda var hún ekki nema farin að nálgast tvö í raunveruleikanum. Tíminn líður ekki svona hratt og mér fannst ég ekki haldin nógu mikilil óraunveruleikatilfinningu til að ég hefði skellt mér í aðra vídd þar sem tími og rúm ... já, það allt.

Svo ég þarf sem sagt bara að bíða við ofninn kl. eitt í nótt, taka hann úr sambandi og setja aftur í samband. Þá verður klukkan í honum 01.01, það er hans byrjunartími, og gengur rétt eftir það. Ég nenni ekki að setja mig inn í hvernig eigi að stilla tímann á ofninum, þetta er fljótlegast svona og ég verð örugglega vakandi ... þarf bara að muna að vera á réttum stað á réttum tíma. Og reka á eftir hirðrafvirkjanum að koma og laga þetta. 

 

En það verður nú samt alveg nóg að gera hjá mér þótt ég hætti hjá Birtíngi. Ekki þó mikill afmælisundirbúningur, nenni ekki stórveislu á meðan covid-smit eru svona mörg á dag - þetta er ekki búið (ég hélt það nú samt, eins og flestir), og fer svo fljótlega í smáfrí til Vestmannaeyja, elsku Eyja sem ég hef ekki heimsótt svo lengi. Ætli Ísfélagið sé á sínum stað? Hitti ég GVeigu, verður brim, verða enn leifar af Þjóðhátíð?

 

Nú þarf ég aldeilis að tala við Úllu frænku og Brynju og Dagbjörtu og Margréti ... sem eru nánast með annan fótinn úti í Eyjum, hvað gerir maður þarna yfir helgi? Fer í eldgosasafnið, út að borða, en hvar? Fæst almennilegt kaffi í Vestmannaeyjum? Jú, ég veit allavega af einum stað (Vigtin bakhús) sem selur kaffi frá Kaffitári en ég trúi því varla að aðrir staðir hafi ekki vit á að bjóða upp á almennilegt kaffi fyrir kaffiþyrsta gesti.

 

En best að fara að taka til, klára fatahengið, dettur eiginlega ekkert skemmtilegra í hug að gera til að halda upp á fyrsta kossinn sem fór fram 7. júlí fyrir 50 árum. Vanga- og kosslagið í Aratungu þarna um árið var þetta:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 250
  • Sl. sólarhring: 308
  • Sl. viku: 1792
  • Frá upphafi: 1460725

Annað

  • Innlit í dag: 228
  • Innlit sl. viku: 1452
  • Gestir í dag: 219
  • IP-tölur í dag: 219

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband