Ein með engu í Himnaríki

BrauðmolakenninginDrengurinn kom heim í gær eftir velheppnaða sumarbústaðarferð með góðu fólki. Nei, mér var ekki boðið með, enda að mestu búin með sumarfríið mitt. Stráksi reif upp ísskápshurðina og hrópaði örvæntingarfullur: „Hva, ekkert Eldum rétt?“ Ég móðgaðist smávegis og hóf langa og leiðinlega sögu um skelfilegar afleiðingar þess að skipta um netfang svo ekki hafi verið hægt að komast inn á ER-síðuna í gegnum Facebook og vesen að-. „Þannig að við borðum bara úti þangað til í næstu viku þegar Eldum rétt kemur næst?“ spurði hann yfirmáta bjartsýnn. Ég hnussaði hátt og sagði að hann fengi notið matreiðsluhæfileika minna, ég ætti ekki peningatré, ég reyndi líka að segja honum frá brauðmolakenningunni, impraði á því hvernig ætti að kljúfa atóm hratt en vel, ná stjórn á sjávarföllunum með herðatré og að kannski myndum við kíkja einu sinni í mat þarna úti. Bærinn tómur af fólki en við myndum sko skemmta okkur vel á hátíðinni Ein með engu, í Himnaríki.

 

Loftið var svo ferskt og gott í gærkvöldi að ég tímdi ekki að loka glugganum á herberginu mínu þrátt fyrir hamfaraspár, sofnaði við krúttlegt vindgnauð og vaknaði fyrir tilviljun 5 tímum seinna til að loka honum og þurrka smábleytu úr gluggakistunni. Þess virði. Ég finn fyrir samúð frá fólkinu mínu í útlöndum sem veit ekki að ég hef enn meiri samúð með því vegna hitans - 30 plús sem er skelfilegt. Ég er vissulega í flíspeysu heima við vinnuna og svaf í náttfötum með teppi yfir sænginni í nótt en þetta er kosturinn við Ísland, hægt að klæða af sér svalheitin. Fólkið ytra er fáklætt og myndi kveljast og svitna helling þótt það væri allsnakið. Við ættum að markaðssetja Ísland sem svalt land fyrir þau sem eru orðin þreytt á hita og svita í heimalandinu.

 

Keli siðar tilGlæpasögur rafvirkjans eru farnar að rykfalla í kassanum og ég kemst ekki í hádegisbaðið (drengurinn farinn í vinnuna þá og kettirnir steinsofandi, besti tíminn). Það skal aldrei verða hægt að kalla mig H.H., húsmóðurina sem bíður fáklædd eftir sendlum, löggum, iðnaðarmönnum, vottum Jehóva, fornleifafræðingum og öðrum sem eiga erindi. Siðprýðin getur samt verið dýrkeypt - það er ekki gott að sofna með blautt hár. Ég er vissulega mjög hvekkt eftir að pípararnir komu að mér í sturtu fyrir nokkrum vikum og drengurinn lét þá, þessa mínútu sem það tók mig að klæða mig, bíða frammi á stigagangi á meðan. Hann veit núna að hann hefði átt að bjóða þeim inn, gefa þeim kaffi royale.

 

Lögin við vinnuna í dag, næstsíðasta daginn minn, voru ekki af verri endanum, skemmtilegur og flottur þáttur á Stöð 2 um Bubba Morthens, einn okkar allra besta og fjölhæfasta tónlistarmann. Bubbi kom nokkrum sinnum í viðtal til mín á Aðalstöðina undir aldamót (um box og tónlist) og var alltaf kátur, líka þegar hann kom á bolludegi og fékk sér eina rjómabollu og eyðilagði þar með líkamsræktaræfingu dagsins, veinaði hann, sem er auðvitað bull því hann breyttist ekkert við bolluna. Hitti hann líka úti í Eyjum 1974 þegar ævintýrið var við það að hefjast. Það eina sem aðskildi okkur Bubba var að ég vann í Ísfélaginu og hann hjá Vinnslustöðinni. Frægasta fólkið okkar í Ísfélaginu var: Shady Owens, Guðmundur Andri Thorsson og Kristinn R. Ólafsson, lengi fréttaritari á Spáni, kallaður Krói. 

 

Ég sendi hirðrafvirkjanum SMS áðan og spurði hvort ég fengi ekki örugglega viðvörun áður en hann kæmi. Svarið var JEBBS. Ég óttast samt mest að ég fari að tína upp úr kassanum bækur sem ég átta mig á að ég geti ekki verið án. Og grisjunargrimmdin sem ég hafði markvisst æst upp í mér fer algjörlega forgörðum.  Nú verð ég bara í spennu þangað til hann kemur - en búin í sturtu.       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 199
  • Sl. sólarhring: 281
  • Sl. viku: 1741
  • Frá upphafi: 1460674

Annað

  • Innlit í dag: 184
  • Innlit sl. viku: 1408
  • Gestir í dag: 177
  • IP-tölur í dag: 177

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband