Álfar og menn og ... orðræðan

Álfar og mennDásamleg helgi liðin og góð heimsókn frá einni af ótal mörgum systrum mínum. Þeirri einu sem hefur séð álf, þá á barnsaldri. Unglingurinn á þessu heimili er sérlega áhugasamur einmitt um álfa svo ég hefði getað látið mig hverfa án þess að þau áttuðu sig, svo upptekin voru þau af álfasögum. Hún hefur líka farið í gegnum leiðsögunám svo hún kann enn fleiri sögur en ella, hugsa ég, ferðamenn elska allt svona og hreinlega ætlast til að heyra allt um þjóðtrúna, landnámsmenn, gömul eldgos og hraun og svo auðvitað álfa og tröll. Systir mín var svo ljúf að fara með drenginn í skógræktina hér á Skaga og sýna honum nákvæmlega hvar hún sá álfinn - fyrir nokkrum áratugum. Og taka mynd af honum þar. Skemmtilegt áhugamál, en nær samt aldrei spennunni sem felst í mínum áhugamálum, vefmyndavélafíkn og eldgosafýsn. Get ekki lýst tilfinningunni þegar þetta skarast eins og hefur gerst nokkrum sinnum ... hægt að horfa á eldgos í gegnum vefmyndavél, tala nú ekki um í sjónvarpinu.

 

Sláandi fréttir af öfgamönnunum sem eru grunaðir um að hafa ætlað að drepa m.a. lögreglufólk, Gunnar Smára og Sólveigu Önnu, eflaust fleiri sem við fáum kannski að vita af síðar. Ég hef alltaf sagt að viss Trump hafi gefið svona vitleysingum fólki rödd og nú getur það ekki þagnað og spúir sínu eitri. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um þessa meintu hryðjuverkamenn sem sitja enn í gæsluvarðhaldi, veit að þeir myndu ekki hika við að mæta heim til mín ef ég dirfðist að skrifa ljótt um þá - alveg alla leiðina hingað í rólegheitin austur í Grjóteyrarfjarðatangaskaga nyrðri þar sem ég bý með tólf sjefferhundum og átta manna júdókarlakórnum mínum sem heitir fullu nafni: Sjálfsvarnar- og árásatenóra-og-bassalingar Grjóteyrarhrepps og nærsveita. Af borgarbúum hér á þessum víggirta rafmagnsgirðingaflottheitastað, kallaðir almennt te-rónar sökum sjúklega mikillar tedrykkju.

 

Mútta veiðirOrðræðan hefur líka verið ömurleg, ég hef eytt fólki af Facebook-síðunni minni af því að það talar svo ógeðslega um þá sem gegna áberandi starfi, eins og ráðherra og þingmenn. Ég er ekki að tala um eðlilega og sjálfsagða holla og góða gagnrýni. Og það má ekki myndast hola á götu í Reykjavík eða ljótt hús vera byggt eða ekki byggt án þess að sumt fólk missi sig á ógeðfelldan hátt yfir Degi ... skaut ekki einmitt einhver á bílinn hans? Nánast með „leyfi“ frá orðræðunni ... Kannski er ég að fleygja stórgrýti úr gróðurhúsi eftir að hafa gert grín að ýmiskonar klikkun sem viðgengst en kannski ekki svona hatrammt og með hótunum.

 

Systir mín sagði mér góða álfasögu á laugardaginn á meðan hún snæddi gómsætar vöfflur sem ég hafði bakað með aðstoð elsku Vilkó og drakk besta kaffið í bænum. Hún er mikill sagnameistari, eins og flestir afkomendur hennar og hefur gott minni - sem er mikilvægt (ég get varla komið góðri kjaftasögu áfram, gleymi iðulega aðalatriðinu). Mamma fór eitt sinn að veiða með þáverandi eiginmanni sínum og þegar þau komu á veiðistaðinn um kvöldið, sagði mamma hrifin: „Sjáðu fínu klettana, hér er örugglega álfabyggð!“

 

Um nóttina dreymdi hana álf sem kom til hennar og tjáði henni að hann myndi sjá til þess að hún veiddi vel. Það rættist heldur betur næsta dag. Hún veiddi endalaust af fiski ... en maðurinn hennar fékk ekki bröndu, hann hefði alveg eins getað reynt að veiða í vaskafati. Hann reyndi ýmislegt í vantrú sinni, fékk að prófa hennar stöng og vera á hennar stað, en aðeins mamma veiddi þennan dag, og það líka með hans stöng og á staðnum þar sem hann hafði staðið skömmu áður og ekki orðið var við nokkuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 469
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 399
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband