Síðasta bakarísferðin

MarsipanbrosMikilvægur fundur kl. 13 í dag, frábær kona sem gætir hagsmuna fóstursonarins og heimsækir okkur annað slagið. Síðast lofaði ég að eiga eitthvað með kaffinu núna. Ég ætlaði að stórgleðja drenginn og baka súkkulaðiköku (BettyCr-snilld) en sá að bæði kremið og kökuduftið var útrunnið. Mun að sjálfsögðu baka samt úr þessu en ekki handa gestum. Eina leiðin til að halda andlitinu var að fara út í bakarí í tíu mínútna göngufjarlægð. Kallabakarí er að gera mig brjálaða með allt of girnilegum Instagram-myndböndum en sem betur fer fyrir holdafarið eru hnetur í svo mörgu, sjúkkkk.

Ég fór í sæmilega regnheldum jakka, skildi regnkápuna úr Lindex eftir heima án þess að detta í hug að það væru fyrstu mistök dagsins. Þau næstu voru að taka ekki vatnsheldan margnota poka með. Kommon, þetta var bara rigning ...

 

 

Ég keypti Langa-Jón, 2 kanilsnúða með súkkulaði, ostasalat, rækjusalat, hafrakex og 2 marsipanbros sem eru í gífurlega miklu uppáhaldi á heimlinu. „Og poka, takk,“ sagði ég við elskulegu afgreiðslustúlkuna og hélt svo hugrökk út í óveðrið með veisluföng í sæmilega sterklegum brúnum bréfpoka með haldi.

Svaðilför

 

Það rigndi ekki eins og hellt væri úr fötu, heldur sprautað úr garðslöngu, stórri. Ég reyndi að hlífa brúna bréfpokanum eftir bestu getu með líkama mínum. Vatnsþétti jakkinn þoldi illa álagið og ég fann að peysan mín var farin að blotna.

 

Á Garðabraut, þá vel rúmlega hálfnuð heim, rifnaði pokinn og salatdósirnar tvær duttu á gangstéttina, alveg beint niður og án þess að opnast eða laskast. Lipur en sjokkeruð konan (ég) tók þetta upp, krumpaði bréfpokanum þétt utan um restina og hélt á veisluföngunum í fanginu. Í anddyrinu niðri hrundi annað marsipanbrosið í gólfið, hitt virtist orðið hálfvatnssósa þegar ég kíkti í pokann. Í stað þess að fara að skæla myndaði ég hryllinginn eftir bestu getu til að festa mér í minni að fara aldrei framar gangandi út í bakarí, alla vega ekki í roki og rigningu.

Ég var enn eldrauð í framan hálftíma seinna þegar fundargesturinn kom, hárið rennandi blautt og buxurnar mínar talsvert rakar. En kaffibrauðið bragðaðist sérlega vel og fundurinn eða gestakoman var alveg upp á tíu. 

Myndirnar sýna eyðileggingarmátt rigningar. Sjáið pokann ... sjáið útlit mitt, ekki ketti bjóðandi, hvað þá gesti og fóstursyni, marsipanbrosin svo löskuð að ég bar þau ekki fram ... en drengurinn borðaði þó brosið sem ekki lenti í gólfinu. Með bestu lyst.

 

HmmmNýjustu fréttir af hinum breska armi fjölskyldunnar:

Karl III. verður krýndur í Westminster Abbey laugardaginn 6. maí nk., samkvæmt breskum fjölmiðlum. Á meðan það skarast ekki við Eurovision-söngvakeppnina í Liverpool ... sem mig minnir að verði nákvæmlega viku seinna. Notuð verður heilög olía á bæði hann og Kamillu sem minnir mig óneitanlega á þegar ég fór á mína fyrstu og einu samkomu hjá Krossinum 1982 í boði nágranna og var eina manneskjan sem þáði ekki olíu á ennið uppi á sviði til að fyllast heilögum anda. Mun horfa ofsaspennt á krýningu Karls sem kannski mun tala tungum ef olían virkar almennilega. Ég kunni ekki að segja nei á þessum tíma sem var agalegt og sá þess vegna ekki allra síðasta þáttinn af Löðri - á tímum engra endursýninga og vídjótæki kostuðu milljón, minnir mig.

Harry prins sem var skírður Henry, Hinrik skv. íslenskri hefð, situr víst sveittur við skriftir, segist vera að bæta andláti og útför ömmu sinnar inn í mjög svo opinskáu og leyndarmálauppljóstrandi bókina sem hann á víst að hafa þegar fengið fúlgur fyrir. Aðrir segja að hann sé að breyta ýmsu, draga úr frekar en hitt, til að eiga einhvern tíma eftir að komast aftur í fjölskylduna - well, ef Meghan giftist nú Elon Musk sem var víst brandari ... EN ÖLLU GAMNI FYLGIR EINHVER ALVARA ... getur það orðið fyrr en síðar. Ég var mjög fúl út í völvuspána í Vikunni eitt árið, líklega árið sem þau tvö giftu sig, því hún hélt því fram að hjónabandið héldi ekki. Ef ungu hjónin hafa nú lesið þessa spá og eru áhrifagjörn þá vitum við öll hvernig þetta endar.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 41
  • Sl. sólarhring: 314
  • Sl. viku: 1585
  • Frá upphafi: 1453744

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1320
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband