Ofurhreinskilinn áhrifavaldur

Bókin ljúfaÉg kláraði að hlusta á hljóðbók í dag. Hef lesið hana áður en langaði að hlusta, hún er eitthvað svo dásamleg. Þegar lesarinn sagði: Þú varst að hlusta á bókina xxx, eins og alltaf kemur í lokin fannst mér endirinn ekki réttur, eitthvað sem ég mundi samt ekki hvað var, vantaði. Ég kíkti á storytel-ið og sá að enn voru rúmar 13 mínútur eftir af bókinni (á hraðanum 1,2) - eiginlega mjög mikilvægur hluti, þar sem aðalpersóna nútímans (tvö tímaskeið) átti eftir að ... æ, ég tími ekki að blaðra því. Þegar búið var að segja að bókin væri búin, hélt hún samt áfram þessar 13 mínútur og til enda. Svo kom aftur Þú varst að hlusta á bókina ... nema á réttum stað.

 

Endilega, ef þið hafið lesið þessa bók, tékkið á því hvort þið eigið enn þetta mikilvæga korter eftir. Ég gekk reyndar svo langt að ég sendi útgefandanum tölvupóst og lét vita af þessu, fólk verður að fá endinn, annars er bókin auðvitað endaslepp. Þetta verður eflaust lagað, ég trúi ekki öðru, og þegar það er búið kem ég út eins og asni því ég varaði líka við þessu á Storytel-umsögn minni um bókina. Það er greinilega alveg jafnmikilvægt að prófarkahlusta bækur og að prófarkalesa þær. Stundum hef ég lent í að þurfa að hlusta á heilu kaflana tvisvar, það er frekar óþolandi.

 

„Þú nærð aldrei að verða áhrifavaldur,“ sagði litla systir spekingslega í dag þegar hún hringdi sína daglegu hringingu til að segja mér hvað ég liti vel út. Ég þarf ekki að borga henni mikið fyrir þetta sem gerir nú samt alla daga betri, nema þegar hún fer að rífa sig, eins og í dag. 

„Bíddu, bíddu, hvað er í gangi?“ spurði ég hlessa.

„Þú ert of hreinskilin, það myndi enginn þora að senda þér skyr eða snyrtivörur ... af ótta við að þú rakkaðir það niður, eins og þú gerðir við nánast allt nema Costco í blogginu í gær,“ sagði hún. Mig dauðlangaði að segja henni að ég hefði nú samt fengið sendar ókeypis snyrtivörur úr skyri en hún hefði sennilega fattað platið. Svo hefði ég nú bara gleymt því fáránlega rugli að geta ekki keypt Holly eftir Stephen King í Costco, eins og ég var viss um að geta gert. Hneyksli!

„Ég var nú bara í sjokki, gerði mér enga grein fyrir því hvað skyndimatur er ógeðslega fokdýr,“ reyndi ég að afsaka mig vegna ummæla um Aktu taktu-skyndimat fyrir fjóra á rúmlega þrettán þúsund. „Já, og hitt með kaffið þarna ... mikil sýrni er ekki sérlega góð í latte. Fer ekki ofan af því að kólumbíukaffið hefði verið betra, espressóbrennt. Manstu þegar við fórum á Snæfellsnes einu sinni, á Rjúkanda, þar var kólumbíukaffi frá Kaffibrugghúsinu og ég drakk mér til óbóta af því. Mögulega sumarið 2018, og nánast besta kaffi sem ég hef smakkað á Íslandi. Já, og auðvitað þetta í Grundarfirði, jiminn, hvað það er gott.“

„Gætir þú í eitt augnablik talað um eitthvað annað en kaffi?“ Hilda var orðin örg, enda drekkur hún neskaffi og hefur engan áhuga á sýrnibrennslu-snobbi. Við ræddum þá næstu mínútur um mögulega sigurvegara næstu kosninga til Alþingis, hvort gæti verið að sellerísafinn hennar Tobbu Marinós verði til sölu í Lemon á AKRANESI, hvort við myndum sigra í Evróvisjón einhvern tímann, við íhuguðum verndun svæðislýsingu smárása í hálfleiðurum í smástund, söknuðum þess að hafa ekki getað skroppið á flotta myndlistarsýningu sem opnaði í Borgarnesi í gær, við ræddum líka svifryk, Friðrik og Óla prik. Ég reyndi líka að koma því að endalaus, vægðarlaus jákvæðni er ekkert annað en pyntingar, ef marka má suma sálfræðinga. 

„Annars er besta kaffi í heimi í Bean around the World í Vancouver í Kanada,“ hélt ég hugsandi áfram. „Það væri ekki leiðinlegt að skreppa í kaffibolla þangað. Halló?“

Di-di-di-di-di-di-di 

 

Leikur satansMynd 2 er af leik Satans í símanum mínum. Ég hef verið í margra mánaða þrjóskukepppni við hann því appið vildi tengjast Facebook en það vildi ég ekki - og ég komst ekki inn í hann. Skil hreinlega ekki af hverju leikurinn vill tengjast, kannski sýna öllum mínum fb-vinum að ég sé fjárhættuspilari? En þetta er ekki alvöru. Hef spilað hann árum saman og er orðin ansi snjöll, á yfir 50 milljón dollara! Svo tapaði ég viljandi þrjóskukeppninni og kíkti á hann í gær eða fyrradag og finnst hann eiginlega hundleiðinlegur, það er auðvitað reynt að þvinga mann til að kaupa peninga sem ég þarf ekki, af því ég er svo snjöll ... Fjarlægðin gerði mig sem sagt fráhverfa leiknum sem segir mér að kannski þurfi ég að flytja út í Flatey á Skjálfanda til að fá fjarlægð frá súkkulaði ...  

 

Fb-fréttir:

Frekar rólegt á fb í dag, ein leitar ráða til að ná ryðblettum af steinsteypu! Einn og einn kominn í jólaskap, útlenskt fólk (sem má fara með hundana sína allt) heldur á stóru hundunum sínum í fanginu á meðan farið er í rúllustiga upp eða niður ... og fleira og fleira. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ég er alltaf í jólaskapi.

Guðjón E. Hreinberg, 25.9.2023 kl. 13:09

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það hljómar ekki illa. :)

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 25.9.2023 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 661
  • Frá upphafi: 1525821

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 597
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband