Ömmur sem hata og enn meira um tónlist

Mest seldu plöturnarGúglkunnátta mín er sérlega slæm, eins og alþjóð veit, og sérstaklega Hilda systir, eftir ferð okkar til Hafnar í Hornafirði og hún bað mig um að gúgla vegalengdina að næstu bensínstöð (17 klst. og 54 mín.). Ég er fljót að gefast upp ef ég finn ekki í hvelli. Mig langaði að vita hvaða plötur Íslandssögunnar væru vinsælastar og hefðu selst mest. Ég fékk upp fréttir á borð við: Mest selda platan árið 2022, ég var samt ekki að leita að því. Óþolinmæði er eflaust versti óvinur góðs leitara.

Á tímarit.is var listi frá 28. feb. 2006, sem sagt 18 ára gamall. Þar er Björk okkar Guðmundsdóttir efst, síðan Sykurmolarnir, þá Sigur Rós, Gus Gus, Quarashi, Emiliana Torrini, Mezzoforte, Bubbi, Stuðmenn og síðast Þú og ég.

Enginn Ásgeir Trausti kominn til sögunnar þá - til að löngu síðar heyrast í verslun í Orlando (2018, ég var þar) og Hafdís Huld ekki búin að gefa út vögguvísuplötuna sína sem hefur sprengt alla skala hjá Spotify - enda eru víst ársgömul þýsk börn á vissum leikskóla ytra farin að sofna við Dvel ég í draumahöll, af þeirri plötu (heimild: Istagram) eins og ótrúlega mörg íslensk börn. Besta lagið til að svæfa þau litlu.

 

Langsamlega mest seldu plöturnar í útlöndum - það var auðveldara að finna. Hér eru efstu fimm: 

1. Michael Jackson - Thriller (65,8 milljón seldar plötur)

2. Pink Floyd - Dark Side of the Moon (43,3)

3. Whitney Houston - The Bodyguard (41,1)

4. Varíus artists - Grease (38,1)

5. Led Zeppelin - Led Zeppelin IV (36,8)

 

Þessi listi (sjá líka myndina) er fjögurra ára gamall en það vekur furðu mína að sjá t.d. ekki Bítlana ofarlega þarna, Abbey Road (26,7 m) og ögn neðar, Sgt. Pepper´s (24,8 m). Kannski var bara svona færra fólk í heiminum í gamla daga ...

Að Celine Dion sé ofar en Nirvana er bara hneyksli og margt annað stórfurðulegt má finna á þessum Reddit-lista.

Ég vona innilega að gúglkunnátta mín sé bara svona slæm, það hlýtur að vera einhvers staðar listi yfir íslenskar plötur. Sennilega er Lifun ofarlega þar. Annars man ég eftir vinsældakosningu á Rás 2, sem er auðvitað annað en sölutölur, fljótlega eftir að Rásin byrjaði. Þá þótti Stairway to Heaven með Led Zeppelin flottasta lag í heimi. Þónokkuð mörgum árum síðar var önnur svona kosning og þá vann lagið Smells like Teen Spirit með Nirvana, sú kosning gæti hafa verið á MTV, svona ef ég fer að hugsa. Mér þætti gaman að vita hvaða lag myndi teljast besta lag allra tíma, nú í dag.   

 

Facebook

Mánaðarlega eldgosið á Reykjanesskaga var sumum fjöndum ofarlega í huga og þetta birtist hjá honum í gær, föstudag:

 

„Ætlið þið að taka þátt í gosinu á sunnudaginn?“ 

og þetta í dag ...

„Allir voru brjálaðir yfir því að það var ekkert naut í nautaloku Gæðakokka og nú eru allir að trompast yfir því að það sé mús í kartöflumúsinni hjá Pho Víetnam ... hvað viljið þið eiginlega?“

 

Besta fólkiðUngur rithöfundur skrifaði pistil um ömmur ... en ömmur eru það besta í heimi, eins og við vitum; safna fyrir barnaspítala og prjóna sokka á hermenn í Úkraínu á milli þess sem þær baka pönnukökur ofan í barnabörnin. Hann talaði um nokkrar ömmur sem elskuðu ömmugullin sín en vildu ekkert af Palestínufólki vita, alls ekki fá það til Íslands þótt það bjargaði lífi þess. Það hafa orðið ansi fjörugar umræður á Facebook um þetta. Sumar ömmur taka þetta alls ekki til sín, aðrar kvarta undan því að þær megi ekki tjá sig, þótt enginn hafi bannað þeim það.

 

Umræðan um suma (brúna) hælisleitendur minnir óneitanlega  á hatursorðræðuna gagnvart gyðingum fyrir um 90 árum, hversu ömurlegir og ómögulegir þeir væru, og auðvitað þyrfti Ísland að hugsa um sína þegna fyrst og fremst, því miður gætum við ekki tekið við þeim gyðingum sem sóttu um hæli hér - og allir vita hvernig fór. Ég held meira að segja að það sé bannað með lögum að heita Hitler, svo hataður er hann enn í dag vegna helfararinnar. Skiljanlega!

 

Barnabarnið og stráksiÉg er ekki amma, ég þarf að ræna barnabörnum ef ég á að eignast nokkur og eitt ömmugullið mitt (sjá mynd, sá lægri í loftinu) býr í næsta húsi og kíkti í heimsókn síðast í dag með mömmu sinni, sem færði mér disk af dásamlegum arabískum mat (ekki með hnetum, döðlum, möndlum eða rúsínum, sjúkk). Ég á nokkra góða vini frá Miðausturlöndum, bæði múslima og kristna (eða trúlausa, ég veit það ekki, við ræðum aldrei trúmál). Ég kannast ekkert við lýsingarnar á lötu liði sem þráir það eitt að komast á spenann hér, og þaðan af verra - vissulega er slíkt fólk samt til, og það hjá öllum þjóðum. Mín kynni eru af friðelskandi, harðduglegu fólki sem elskar Ísland, líka veðrið (sem ég skil reyndar mjög vel, hiti er viðbjóður). Sumir segja að þessi neikvæða umræða sé vegna stöðugs áróðurs Útvarps Sögu og sumra pólitíkusa (til að veiða þannig þenkjandi kjósendur) svo stundum fer jafnvel góðhjartaðasta fólk að trúa öllu illu um þessa útlendinga ... án þess nokkurn tímann að hafa kynnst eða þekkt nokkurn persónulega - bara heyrt eitthvað um þetta "voðalega fólk" frá öðrum. 

 

Myndin sýnir stráksa minn og „ömmugullið“ mitt eftir að sá síðarnefndi fékk að gista hjá ömmu Gurrí sl. haust. Hvorugur fæddur hér á landi. Hér sést líka í bíl sem er í eigu grannkonu frá Úkraínu, hún er hörkudugleg, hleypur í vinnuna (nema þegar rignir) sem er ekkert langt frá minni vinnu sem ég verð að taka strætó í, hún hefur boðist til að skutla mér í búð hvenær sem ég þarf, hún passar kisurnar mínar í sumar- og jólafríum og bakaði bollur á bolludaginn og færði mér nokkrar. Ekki svo mjög voðalegt fólk ...

 

SeríoslíVinkona í Svíþjóð furðar sig á fullyrðingum sumra Íslendinga um hælisleitendavandamálið í Svíþjóð, hún kannast ekkert við það. Annars varð okkur tveimur næstum því alvarlega sundurorða þegar við töluðum síðast saman. Ég sagði henni að ég ætlaði á tónleika með Skálmöld núna 1. nóvember í Hörpu. Hún er náskyld einum í Skálmöld en lýsti því samt yfir við mig að hún myndi frekar fara og sjá Geirmund Valtýsson, það yrðu tónleikar með honum nú í apríl, hana langaði svooo að koma til landsins. Hún sagðist ekki trúa því upp á mig að mig langaði ekki til að fara.

Ég reyndi varfærnislega að segja henni að kona (samt með skagfirsk gen) á borð við mig, sem veldi sér viljandi tónleika á borð við Metallicu, Rammstein og Töfraflautuna, færi sennilega frekar að sjá Skálmöld en Geirmund ... Ég held að hún hafi ekki trúað mér.

 

Mér finnst ekki ólíklegt að ónefnd systir mín færi með henni á Geirmund, frekar en með mér á Skálmöld, og mögulega líka einhverjar vinkonur (ekki margar).

 

Fátt held ég að geti toppað tónleikaupplifun vinkonu minnar sem sá Atom Heart Mother, frumflutning Pink Floyd, í Hyde Park árið 1970. Ég fæ óraunveruleikatilfinningu bara við tilhugsunina. Enn er mín skrítnasta upplifun sem tengist óraunveruleika sú að þegar ég var níu eða tíu ára datt flaska með mjólk í (til að drekka með nestinu mínu) af þriðju hæð í Brekkubæjarskóla niður á mölina á skólalóðinni og BROTNAÐI EKKI! Já, reynið bara að toppa það!       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 178
  • Sl. sólarhring: 345
  • Sl. viku: 870
  • Frá upphafi: 1505877

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 710
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 133

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband