Tvítugur stráksi, hnetufár og júróhneyksli

Amælistertan handa stráksaHáttvirtur stráksi af Himnaríki er tvítugur í dag. Húrra, húrra, húrra. Hann var vakinn í morgun af Möttu sinni, þar sem hann gisti um helgina, og fékk afmælissöng og -köku. Hingað heim var hann kominn um hálfátta í morgun og fékk þá gjöfina frá mér, gegnsæan hraðsuðuketil til að hita sér vatn í te í nýju íbúðinni. Aðeins mánuður eftir hér, svona um það bil. Elsku Maren okkar frá Akraneskaupstað er búin að koma og kveðja og rígfullorðinslífið alveg að taka við. Hann er sennilega tilbúnari en ég í þessar breytingar.

Í kvöld mætti ástkær vinafjölskylda í pasta-pasta ... ég gerði sko tvöfaldan tagliatelle-rétt með piparosti, frá Eldum rétt, og bjó einnig til lasagne (úr pakka, dúndurgott). Þetta vakti gífurlega lukku hjá genginu mínu, litlu snúllurnar sem kalla mig vonandi ömmu með tíð og tíma, mættu í flottu kjólunum úr Costco sem Hilda lét mig kaupa í stað páskaeggja (einmitt) og þeir smellpassa núna og örugglega alveg í ár til viðbótar.

 

 

Myndin er svakalega óskýr eitthvað - en takið eftir afbragðs góðum fókus á ljósakrónunni sem ég keypti fyrir ábyggilega 25 árum hjá Jónasi antíksala sem þá var í Austurstræti, nú kominn í Kópavog. Þarna má sjá frábæra vinafólkið mitt skömmu áður en við réðumst til atlögu við tertuna sem þau komu óvænt með.

 

Keli helgar sér klakavélÞað er alltaf verið að búa til einhvers konar staðalímyndir af okkur mannfólkinu og konur eiga til dæmis að geta multitaskað, gert marga hluti í einu, á meðan karlar geta í mesta lagi eitthvað eitt. Virkilega? Ég steingleymdi að gefa gestunum vatn með matnum, ætlaði aldeilis að hafa fína klaka út í úr flottu mikið notuðu klakavélinni sem lætur mig stundum vakna tvisvar á nóttu til að pissa, svo gráðug er ég í vatnið ... Það er ekkert annað en kraftaverk að ég hafi getað eldað tvo (svakalega einfalda) rétti á sama tíma og haft allt tilbúið um sexleytið.

Þau lofuðu að borða mjög vel en ég eldaði sennilega of mikið. Nóg til afgangs í hádegismat á morgun, og svo fer eitthvað í frystinn.

Þau mættu með flott súkkulaði handa stráksa í afmælisgjöf og súperfína AFMÆLISTERTU! Hann var alsæll með daginn og rúmlega það.

 

Myndin er af Kela þar sem hann var að enda við að helga sér klakavélina fyrr í kvöld.

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Mossad

 

Hvað gerðist eiginlega á laugardaginn? Af hverju sigraði ekki lagið sem kommúnista-RÚV með allt þetta góðafólksgengi hafði ákveðið að myndi sigra? Og hvers vegna sigraði lagið sem íhaldsfasistaliðið sem heldur RÚV í heljargreipum ákvað að myndi sigra?

Sko ...

- Mossad fékk Rússa til að brjótast inn í kosningaappið þannig að um hálf milljón atkvæða sem „óvinurinn“ átti að fá, endaði sem páskaegg handa kennara ákveðins menntaskóla við visst Laugarvatn. 

 

 

Ég horfði reyndar ekki á Söngvakeppnina í ár. Yfirleitt er slökkt á sjónvarpinu hvort sem er. Einhverra hluta vegna datt ég þó inn í breska bökunarþáttinn þar sem augnayndið hann Hollywood dæmir baksturshæfileika breskra áhugabakara. Enn eitt í lífinu sem ég er þakklát fyrir-hugsun kviknaði við áhorfið.

Já, ég er sérlega þakklát fyrir að vera ekki dómari í þessum þáttum, með mína góðu bragðlauka ... ég vissi ekki af öllum þessum hnetutegundum sem þarna var hægt að troða inn og skemma fínasta kex og kruðerí.

 

 

Er hnetufár kannski að aukast í heiminum? Horfði oft, nánast alltaf, á þessa keppni á meðan ég nennti að horfa á sjónvarp að einhverju ráði og man ekki eftir svona hrottalegri meðferð á deigi sem hefði getað endað sem eitthvað gómsætt. Eini bakarinn á Íslandi sem ég hef einlæga trú á er Siggi í Bernhöfts. Konudagskakan hans um árið var sú besta í manna minnum, og ... algjörlega hnetu-, möndlu-, döðlu- og rúsínulaus. Í þættinum komu kúrennur fram sem eitt hráefnið, var ekki búið að útrýma þeim?   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 35
  • Sl. sólarhring: 243
  • Sl. viku: 1516
  • Frá upphafi: 1453985

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1269
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband