Gefandi fésbók - forsetastóllinn freistar

ForsetaframboðVanræksla mín í tengslum við Fréttir af Facebook, hefur verið mikil síðustu vikurnar og án efa margir saknað þess þótt enginn hafi svo sem komið að máli við mig. Talandi um það ... Nánast hver einasti dagur ber með sér nýjan frambjóðanda til forseta. Nú er svo komið að þrjú frækin og frábær ættu, ef ég fengi að ráða, helst að skipta með sér embættinu. Enn fjasar fólk um fjölda framboða á feisbúkk, sumir segja að haft hafi verið samband og skorað á þá ... allt í gríni auðvitað. Í dag mátti lesa þessa dásemd á fb-síðu dr. Gunna:

Skil svo sem að forsetastóllinn freisti margra. Laun 2.950.000 á mánuði (á eftir að hækka) -  1.686.783 í vasann. Maður hirðir það ekkert upp úr gögunni. Allskonar aðstoðarfólk, frítt húsnæði og allavega tveir bílar. En þetta er djobb sem maður er í allan sólarhringinn og þarf að vera væminn og passa sig að móðga engan. Ég hef legið í úlpunni í 5 mínútur og komist að þeirri niðurstöðu að ég bjóði mig ekki fram. Þakkir fá þeir þrír sem komu að máli við mig.

 

London 2019Fésbókin minnti mig á (Á þessum degi fyrir fimm árum) að það er afmælisdagur Halldórs fjanda, en röð tilviljana færði saman þrjá vini (ja, eða fimm, ég elska Lunu og Monu) þennan dag árið 2019, Í LONDON af öllum stöðum. Ég var í árshátíðarferð með Birtíngi, Halldór á ferðalagi, eins og svo oft, og Anna líka svo sem. Ég hafði haft veður af fjanda þarna svo ég pakkaði til öryggis niður afmælisgjöfinni hans, eða væminni jólakúlu með mynd af Trump forseta, eitthvað sem ég vissi að hann kynni vel að meta. Keypti að sjálfsögðu eina slíka handa sjálfri mér og nýt hennar um hver jól. Þar sem hótelið mitt var mjög svo miðsvæðis (beint fyrir neðan Oxford-stræti) var ákveðið að hittast á veitingastað á móti hótelinu, borða saman (úti, það var svo hlýtt) og njóta samverunnar. Auðvitað var hann með Lunu og Monu sínar með, hundar eru alls staðar velkomnir nema á Íslandi.

 

Á þessum degi fyrir 4 árum:

7. apríl 2020, deilt með Vinir þínir: (hmmm)

Ég hef farið á 14 af þessum 15 tónleikum. Hvaða tónleikar eiga ekki heima á þessum lista?

Himnaríki1. Travis - Laugardalshöll

2. Sting - Laugardalshöll

3. Dúndurfréttir - Gamla kaupfélagið, Akranesi

4. Björk - Laugardalshöll

5. Rammstein - Laugardalshöll

6. Nick Cave - Hörpu

7. Grave Diggaz - Nasa

8. London Simphony Orchestra - Royal Albert Hall (Tchaíkovskí)

9. Páll Óskar - Bíóhöllin Akranesi

10. Uriah Heep - Hótel Ísland

11. Jethro Tull - Íþróttahúsið við Vesturgötu, Akranesi

12. Elton John - Laugardalsvelli

13. Megadeth - Nasa

14. Metallica - Egilshöll

15. Egó/Grýlurnar - Hótel Borg

Mörgum fannst ólíklegt að Grave Diggaz eða Megadeth hafi höfðað til siðprúðrar miðaldra yngismeyjar en báðir tónleikar voru dásamlegir (Takk, elsku Lalla). Verð að viðurkenna að ég átti í mestu vandræðum með að finna fjórtán tónleika ... held að það séu eiginlega bara einu tónleikarnir í lífi mínu, nei, reyndar Vínardrengjakórinn í Akraneskirkju þegar ég var lítil, skagfirskir sætukarlar í Tónbergi á Akranesi eitt árið, sem ég hafði gleymt þarna. Svo man ég eftir Mánum í Laugardalshöll flytja Thick as a Brick (Jethro Tull) þegar ég var 13 ára, man eftir Egó líka í Laugardalshöll ... en það gætu hafa verið 16. júní-tónleikar sem voru oft, margar hljómsveitir þá í einu. 

Þeir tónleikar sem ég fór ekki á, þarna á listanum, voru með Nick Cave ... og elskan hún Sunna giskaði rétt þar, ég er nefnilega alveg týpan til að elska Nick Cave. Lagið hans Henry Lee af Murder Ballads-plötunni er eitt af mínum allra mestu uppáhaldslögum.

 

Elsku KeliReyndar ekki af Facebook:

Elsku Keli rak upp ógurleg óhljóð áðan. Bæði Mosi og Krummi fengu áfall og störðu fram á gang, ég sat við tölvuna við vinnu mína og fékk ábyggilega enn meira áfall en þeir. Loks, 10 sekúndum síðar, þegar ég hafði hleypt í mig kjarki til að koma að honum í andarslitrunum (hann er 14 ára gigtarsjúklingur) sat hann hinn rólegasti og horfði annað slagið illilega á einn þríhyrningslaga gluggann sem snýr í norður Langisandur er í suður, sem gnauðaði svolítið í. Sjá mynd af himnaríki úr lofti, þar sjást norðurgluggarnir. Annaðhvort fór hljóðið svona í taugarnar á Kela eða honum hefur leiðst svona svakalega. Gaf honum verkjalyf í fyrradag, mögulega þarf hann aftur núna ef hann var að kvarta yfir verkjum. Fyrstu árin hér í himnaríki þorði hann varla að mjálma, svo hvekktur var hann eftir dularfulla en erfiða fortíð, þrátt fyrir átta mánaða dekur og áfallameðferð í Kattholti. Hann er nánast farinn að láta fara vel um sig á andlitinu á mér á kvöldin og mala mig í svefn, svo breyttur er hann, og algjör nautnabelgur. En svona kveinstafir eru ekki líkir honum. Með vindinum kemur kvíðinn, segir í laginu ... það gæti átt við Kela. Hann fannst í poka ofan í gjótu í Heiðmörk í desember, átta mánuðum áður en við Einar sóttum hann í Kattholt, hver veit hvað svona gnauð merkir hjá honum, en ég lokaði glugganum alveg.

Myndin af honum var tekin eftir lætin, liggur sallarólegur og virðist allt í fína lagi með hann. Eins og sjá má vel ég gæludýrin mín ætíð í stíl við rúmteppi, innréttingar og annað ...  

 

Síðasta Facebook-dæmið tengist svokölluðum tribute-böndum, hljómsveitum sem hafa verið stofnaðar sem virðingarvottur við vissar sveitir og leika tónlist þeirra. Nærtækt dæmi er hljómsveitin Deep Jimi and the Zep Creams. Svo man ég eftir ágætu Bítlabandi sem nefndi sig Beatnix, ef ég man það rétt. En á einni tónlistarsíðu var fólk beðið um að nefna flottustu tribute-böndin (er ekki til íslenskt almennilegt nafn á þetta?) Sjálf gat ég ekki stillt mig um að láta vita af Deep Jimi-bandi okkar Íslendinga ...

 

Hér eru nokkur skemmtileg nöfn sem komu upp: 

Are We Them? (REM)

Björn again (ABBA)

Red Hot Chilli Pipers (sekkjapípuband)

Earth Wind for Hire 

Take this

Black Abbath (B.Sabbath með ABBA-ívafi, fylgdi sögunni)

Hairway to Steven

Whole Lotta Led

Think Floyd

Manic Street Teachers

Simon & Garth´s Uncle


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hm. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum var Beatnix stofnað á undan Bítlunum...

Guðrún Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 7.4.2024 kl. 17:49

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Sko, samkvæmt mínum heimildum (Google) hafa hinir áströlsku Beatnix verið til frá ágúst 1980 ... en íslenska hljómsveitin BeatniKS, varð svo sannarlega til löngu fyrr. :) 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 7.4.2024 kl. 19:35

3 identicon

Þetta sýnir og sannar, betur en margt annað, hve stafsetning skiptir miklu máli. 

Guðrún Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 8.4.2024 kl. 20:53

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ójá, svo sannarlega. Og takk fyrir að minna mig á íslensku Beatniks, hans bróður þíns, nafnið var nefnilega kunnuglegt. :) 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 8.4.2024 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 216
  • Sl. viku: 641
  • Frá upphafi: 1505932

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 516
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband