Kvendáðir, sjokkelsi og skemmtilegur leiðindaklúbbur

Gamli beinirinnHæfileikar og hetjulund tóku höndum saman í dag þegar ég drýgði sannkallaða dáð, miðað við að ég hef verið fórnarlamb of mikillar aðstoðar þegar kemur að símum, tölvum, interneti og slíku í gegnum tíðina. Þetta var eftir að indæll ungur maður frá Símanum tjáði mér í símtali að beinirinn minn (ráderinn) væri orðinn frekar máttlítill og best væri að sækja nýjan. Einbeitt og full af greind tók ég ljósmynd á gemsann af tengingunum áður en ég aftengdi, sótti nýjan beini og náði svo í stól til að þurfa ekki að bogra á meðan ég tengdi þann nýja, svarta. Það var eins og ég hefði unnið við þetta árum saman. Fumlaus vinnubrögð, hviss, bang, og sambandið við umheiminn hófst á nýjan leik. Tek það fram að ég skoðaði leiðbeiningarnar ekki fyrr en eftir á, of mikið testósterón kannski? Hnuss, hver þarf leiðbeiningar ...

 

Skutlast með okkurElskan hún Inga skutlaði okkur stráksa um víðan völl núna eftir hádegið, meðal annars í Omnis að sækja nýja beininn, og smáerindi áttum við hjá sýsla og á skattstofuna þar sem við fengum ótrúlega mikla og góða aðstoð, ekki í fyrsta sinn. Kíkti svo í örstutta heimsókn á Laugarbrautina og sá að stráksa gengur vel að koma sér fyrir. Afskiptasemin samt í þessum fósturmömmum ... „af hverju setur þú þetta ekki upp í eldhússkáp í stað þess að hafa það í poka hér?“ „Tæmdu nú þessa fjölnotapoka svo ég geti tekið þá til baka ...“ nöldr, nöldr ... Hann er nú samt nánast búinn að koma sér fyrir.

 

Nú er lífið í himnaríki orðið mun rólegra og það var bara eðlilegt og mögulega óhjákvæmilegt skref að ganga í fb-hópinn Dull Women Club, en er reyndar bráðskemmtilegur. Mun gefa mér tíma til að lesa sögur kvennanna sem þar skrifa - en það er ótrúlega mikið að gera hjá mér þótt ég sé bara í einni vinnu akkúrat núna, er mun oftar í þremur vinnum.

 

Allir ættu að eiga sjúkraþjálfara að vini sem sannast alltaf annað slagið ... ég hef verið að drepast í gömlu íþróttameiðslunum (í alvöru, skokkklúbbur í denn og teygði til óbóta, vitlaust), og haltrað vegna verks í annarri hásininni. Inga stakk upp á Voltaren-kremi og það virkar svona líka vel, bólgan hefur minnkað um alla vega helming. Hún ráðlagði mér líka (áður) smáhækkun undir hæl sem virkar líka, það er enn svolítið sárt að ganga en mun skárra. Látið samt Ingu vera, HÚN ER MÍN, finnið ykkur ykkar eigin sjúkraþjálfara!

 

Keli og EsjanNý könnun Maskínu um fylgi forsetaframbjóðenda: 

1. Katrín 32,9%

2. Baldur 26,7 

3. Gnarr 19,6

4. Halla T. 7,3 

5. Halla Hrund 5,7

6. Arnar Þór 3,2

7. Steinunni Ólína 1,9

8. Ástþór 0,6

9. Sigríður Hrund 0,5

10.Helga 0,4

11.Guðmundur Felix 0,2

12.Hinir 1.0% 

 

Einhverjir frambjóðendur þarna hljóta að vera í sjokki, búið að skora á þá, segja þeim að þeir eigi fullt erindi á Bessastaði og muni pottþétt hljóta kosningu. Aðrir þurfa ekki einu sinni hvatningu, bara vita. Eitt sinn trúði ég vinkonu sem sagði mér að viss maður væri svakalega skotinn í mér, það sæist langar leiðir, og það gladdi mig svooooo mikið. Áður en mér tókst að gera hann að næsta eiginmanni mínum var hann byrjaður á föstu með annarri! Hnussss.

 

Ó, hve ég sakna Herberts Hnausdal sem bauð sig fram til forseta fyrir tólf árum á Facebook. Kosningaloforð hans voru fín. Hann ætlaði að hafa Dorrit áfram á Bessastöðum, hækka kjörþyngd fólks, hafa kvenkynsbílstjóra hjá embættinu og margt fleira skemmtilegt. Hann bað auðmjúkur um að fólk léti flekkað mannorð hans vegna landabruggunar ekki skemma fyrir honum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómissandi lestur,takk kærlega 

Guðlaug Hestnes (IP-tala skráð) 9.4.2024 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 186
  • Sl. viku: 649
  • Frá upphafi: 1505940

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 523
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband