Erfitt símtal, töfrateppið og komandi almyrkvi

ÞvottavélarmínútaSíminn hringdi svo reiðilega að hringjandinn hlaut að vera trylltur. Jú, jú, þetta var systir mín, ein af ótalmörgum. Sú sem kallar almenna kurteisi smjaður og segir reglulega við okkur hinar systurnar: „Þið eigið eftir að drepast úr tillitssemi og kurteisi einn daginn, kjánarnir ykkar,“ það er uppáhaldsmóðgun hennar í okkar garð. Hönd mín nötraði þegar ég svaraði. 

„Hvenær kemurðu næst í bæinn?“ byrjaði hún illskulega. 

„Uuuu, sennilega á fimmtudaginn,“ svaraði ég lafhrædd. Hvað hafði ég nú gert?

„Ég þarf að tala yfir hausamótunum á þér, þú sagðir síðast þegar ég talaði við þig að Katrín myndi pottþétt ekki fara í framboð og nú er hún byrjuð að ógna mínum manni. Varst þú ekki spákona hér einu sinni? Jafnvel völva Vikunnar? Ættir þú þá ekki að vita svona lagað?“ 

Ég andvarpaði. „Nei, aldrei spákona í alvörunni sko, bara samkvæmisleikur, í útvarpinu og svona ... svo myndskreytti ég með eigin andliti forsíðu Völvuvikunnar 2007 bara af því ég var komin með hrukkur í kringum augun, sú eina á ritstjórninni. Það þótti svo völvulegt. Ég ... ég var ekki að spá neinu um Katrínu, bara giska. Og hafði rangt fyrir mér,“ játaði ég.

„Bíddu, bíddu, var þetta kannski eitt stórt samsæri frá upphafi til enda af því að BB langði að verða aðal?“

„Nei, ætli það,“ svaraði ég þótt ég hafi nú heilmikla ánægju af almennilegum samsæriskenningum.

„Þú slappst við fangelsi enn og aftur,“ hélt hún áfram. „Finnst þér ekki ábyrgðarleysi af þriggja katta eiganda að gefa í þessa söfnun hjá þessum kerlingum þarna sem fóru til Egyptalands. Bara samsæri af hverju maðurinn, hvað heitir hann aftur, jú, Pabbi Diljár, fékk ekki að kæra þær í friði.“

„Ég hefði nú kannski fengið að hafa kettina með á Hólmsheiði,“ skaut ég glettnislega inn í. 

„Hrmpf,“ rumdi í henni. „En að aðalatriðinu, ég held að besti maðurinn hefði tekið þetta á endanum ef Katrín hefði ekki vogað sér að bjóða sig fram!“

Það væri gaman að vita hver af þessum rúmlega 50 körlum „hennar maður“ er. Ég þorði hreinlega ekki að spyrja til að hún springi ekki úr reiði yfir því - hann ætti vitanlega að vera minn maður líka. Blóðböndin og það allt.

„Dyrabjallan er að hringja, örugglega eitthvað mjög áríðandi,“ laug ég. „Ertu til í að hinkra í eina mínútu?

„Venjulega mínútu eða þvottavélarmínútu?“ spurði hún hranalega. „Nei, nenni því ekki. Kannski ég heimsæki þig bara á Skagann í næstu viku.

„Uuuu, ég ... verð flutt,“ svaraði ég í örvæntingu. 

„Nú, hvert? Ertu ekki nýbúin að setja himnaríki á sölu?“

„Ja, það er ekki komið á hreint hvert ég flyt, en hlutirnir eiga það til að gerast hratt, ég verð alla vega ekki heima.“

„Já, drífðu þig í að flytja svo maður sjái eitthvað annað en sorglega mörg kattavídjó á snappinu þínu. Ég hnerra orðið þegar mér verður á að kíkja á þau og er ekki einu sinni með ofnæmi. Eins gott samt að þú látir mig vita hvert þú flytur.“ 

„Já, hvað heldurð-“

Dididi ... Hún hafði skellt á, enn með heimasíma, bara til að geta skellt á aðra.

 

Fræg mottaFólki var nokkuð tíðrætt um forsetakosningar í gær en enn meira um afmælisdaginn minn í tilefni af deildarmyrkvanum. Eins og allir ættu auðvitað að vita, verður almyrkvi á sólu sem gengur yfir Norðurslóðir, austanvert Grænland, Ísland, Atlantshaf og Spán þann 12. ágúst árið 2026 sem er helsta ástæðan fyrir því að ég ætla að flytja úr himnaríki, þarf svalir sem snúa helst í allar áttir ... svo einhver tími að mæta í afmælið mitt. Ég er þegar byrjuð að safna rafsuðuhjálmum. Þetta verður fyrsti almyrkvinn sem sést (ef veður leyfir) frá höfuðborgarsvæðinu síðan 17. júní árið 1433, las ég einhvers staðar. Á þeim tíma voru enn einhver ár í að við Jón Sigurðsson fæddumst.

 

Mynd, ath. mottuna: Er á ýmsum fb-síðum um heimilisfínheit og í gær rakst ég á mynd sem tekin var á heimili eins af stóru tískuhönnuðunum, ekki þó YSL, en álíka frægs manns, er léleg í nöfnum. Teppið á myndinni hringdi bjöllum og loks í dag mundi ég hvar ég hafði séð það. Það var á mínu eigin heimili, undir gráa tungusófanum úr Jysk. Líkur sækir líkan heim, hugsaði ég hreykin, en í kringum 2020 öðlaðist ég loks mun betri heimilissmekk, takk, Guðný (hún hannaði breytingarnar í himnaríki). Það var þó ekki að hennar undirlagi sem ég festi kaup á þessu fína persneska teppi sem sést í hér hægra megin, og er með miða undir, framleiðsluland er Íran, sem sagt alvöru, alvöru en samt á ótrúlega góðu verði hjá Portinu í Kópavogi. Hvort þetta er teppi tískugúrúsins sem endaði á einhvern ótrúlega mergjaðan hátt fyrir algjöra tilviljun eða himneska íhlutun ... í himnaríki, veit ég eigi, en mér skilst þó að bankastjóri hafi átt hana á undan mér. Mögulega Alan Greenspan. Hann tók við embættinu daginn fyrir 29 ára afmælið mitt, svo ég útiloka nákvæmlega ekkert. Ýtið á myndina til að stækka hana - sjáið hvað þetta er líklegt. 

 

Ég er að lesa yfir afskaplega átakanlega bók um unga konu sem hefur misst manninn sinn og tekst á við sorgina á ýmsan hátt. Ekki nóg með það, bókin sem ég er að hlusta á fyrir svefninn er líka sorgleg, kona sem reynir að komast yfir svik (framhjáhald) eiginmannsins til margra ára, og er komin upp í sveit til að sleikja sárin ... og baka vöfflur. Mig grunar að báðar þessar bækur muni reynast ástarsögur sem bera þann boðskap að allir þurfi að finna ástina (ég er ekki að tala um ættjarðarást) til að geta mögulega verið hamingjusamir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 66
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 1945
  • Frá upphafi: 1454819

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 1577
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband