Sjálfspyntingar, játningar og bölvun althornsins

Félag masókista á fundiHeilmikið klúbba- og félagsstarf er á Akranesi, meira að segja nokkrir kórar. Ef ég hefði ekki verið bundin yfir barni (þar til í síðustu viku) hefði ég mögulega gengið í kirkjukórinn (besta tónlistin, ásamt Skálmöld), þann sem mamma var í og ég lærði að meta Stabat Mater eftir Pergolesi átta eða níu ára og var um svipað leyti bálskotin í hálfum Vínardrengjakórnum sem hélt tónleika á Skaganum.

 

Hér eru Oddfellow, Lions, Frímúrarar, leikfélag, siðprútt sjósundfélag, leikfélög grunnskólanna og Fjölbrautar, metnaðarfull miðbæjarsamtök og ... að ég held, Samtök masókista. Ég heyrði alla vega ekki betur núna þar sem ég sat við vinnu mína í dag með malandi ketti allt í kring og YouTube-tónlistarveituna mallandi undir. Samt heyrði ég hroðalegu skrækina inn til mín, beint úr Atlantshafinu! Mér varð litið til hægri eftir fyrstu skrækina og sá hóp fólks OFAN Í SJÓNUM, ÍSKÖLDUM KRAPASJÓ, eitthvað sem er vissulega alveg rakið fyrir sjálfspyntingarfólk en angrar okkur prúða fólkið við Jaðarsbraut. Ég tók meira að segja ljósmynd af hryllingnum en enginn er samt þekkjanlegur sem er miður, þá hefðum við íbúar hér getað forðast þessa hlekkjalóma, eins og Halldór fjandi kallar þau, NEMA auðvitað þetta sé utanbæjarfólk sem getur alveg verið en þau voru samt rosalega eins og heima hjá sér í klakaköldum sjónum. Hvað varð eiginlega um hljóðeinangraða kjallara? MYNDIN sýnir það sem ég þurfti að þola. Hvenær verða fundnar upp ljósmyndir með hljóði? Það væri svo miklu sterkara á blogginu, þar til ég læri að setja inn hreyfimyndir annars staðar en af YouTube.

 

7 ára bekkur í BrekkóOg þar sem ég sat og vann í dag mallaði tónlistarveita Youtube, eins og áður sagði, og valdi ofan í mig lög. Ég er með eigin lagalista, mjög fjölbreyttan, sixtís, næntís og frekar nýtt, rapp, rokk, popp, klassík en þegar hann er búinn heldur tónlistin bara áfram og ég fór meðal annars að heyra hryllingslög æsku minnar inn á milli. Það gæti hafa spillt myndatökunni af masófólkinu, hver getur haldið eða stillt fókus þegar skelfilega leiðinleg lög breyta vanalega rólegum taugum í gaddavírsstrengi? 

 

Myndin af barnahrúgunni sýnir sjö ára bekkinn minn. Ég er í stysta kjólnum (með svarta beltið, múahaha) og drengjakoll. Held að mömmu og pabba hafi langað í strák. Nokkrum árum seinna kom Bítlaplatan inn á heimilið. 

 

AlthornÞað var til ein Bítlaplata heima þegar ég var lítil, 45 snúninga og bara tvö lög. Öðrum megin var lagið Something og hinum megin Come Together. Bæði lög sem ég þoldi ekki, hvorki þá né nú. Kannski var þetta of mikil bylting frá elsku Sound of Music ... eða kannski eru þetta bara leiðinlegustu lög Bítlanna ásamt Yellow Submarine. En ég átti nú samt hroðalega æsku að hluta, ekki bara matarlega séð, heldur líka á tónlistarlegan máta.

 

 

Var látin ganga í lúðrasveit níu eða tíu ára, af því ég heimtaði pásu frá píanóinu, og allt í lagi fyrsta veturinn, þegar ég fékk að spila á trompet - en næsta ár á eftir var ég pínd til að færa mig yfir á althorn! Trompet er töff, eitt töffaðasta hljóðfærið, hlustið bara á byrjunina á Jólaóratóríunni, eða lagið Hel með Skálmöld og Sinfó ... Á Akranesi eru til samtök fólks sem óttast althorn og þessi eini og hálfi vetur sem ég var pínd til að spila á althorn í lúðrasveit, gerði mig afhuga öllu tónlistarnámi, svo bölvun althornsins sem maður las um í gömlu faraóabókunum er greinilega sönn. Ég væri eflaust enn að spila í lúðrasveitinni ef ég hefði akkúrat þarna, 11 ára, náð að verða hærri í loftinu en mamma. 

 

Himnaríki austurhliðÉg tók Bítlana reyndar í sátt þegar ég heyrði fyrst lagið Oh Darling og fór svo að meta þá að verðleikum löngu síðar þegar ég fór að spila lögin þeirra í útvarpinu. Ég er reyndar bara með Oh Darling á lagalistum mínum í streymisveitum en bæti við fleiri við tækifæri.

 

Úff. Þetta er greinilega kvöld játninganna og ég er ekki einu sinni full. Til öryggis er læst bæði uppi hjá mér og líka niðri ef æfir Bítlaunnendur sem vilja meina að ÖLL bítlalög séu góð, vildu láta mig heyra það. Ég er náttúrlega af 78-kynslóðinni sem byrjaði gelgjuna á Uriah Heep og náði ögn í skottið á Deep Purple fyrir tilstilli góðs tónlistarsmekks stóru systur. Fór nú samt til Liverpool fyrir ári og ætla aftur, á leik að þessu sinni, og þá sjá Bítlasafnið. Við höfðum ekki tíma síðast - þetta var um páskana og mikið til lokað þessa páskadaga, nema auðvitað á Anfield þar sem 2/5 hópsins áttu miða á leikinn við Arsenal. Sem klaufi á vissum sviðum internetsins hef ég enn ekki lagt í að kaupa áskrift að streymisveitunum en nú er YouTube-veitan nýorðin óþolandi eins og Spotify. Annaðhvort þarf ég að læra það eða dusta rykið af geisladiskunum.

 

Loftmyndin af himnaríki ... svo flottar drónamyndir fasteignasalans, ég rændi einni til að birta hér. Ef hún prentast vel má greina Ameríku efst fyrir miðju. Held að sé stutt í Opið hús í himnaríki (næsta vika) - stráksi fluttur og ekkert því til fyrirstöðu að sýna dýrðina. 

 

Í gærkvöldi hélt ég áfram að hlusta á söguna og nú er sorgmædda nýfráskilda konan farin að baka vöfflur frá grunni og notar ekta rjóma með en áður, þegar hún leysti af þarna í sveitinni sem hún flúði í, var notað vöffluduft með vatni og óekta rjómi úr sprautu. Það kæmi mér ekki á óvart að hún fari að keyra um á bókabíl og bjóða upp á vöfflur með bókunum, eða stofni kannski bakarí því hún fær miklu meira kikk út úr því að elda mat og baka en að fara að kenna aftur í grunnskóla. Í mat og kruðeríi liggur hamingjan greinilega ... vonandi líka hjá fólki í raunheimum sem kaupir Eldum rétt-mat og bakar bara Betty Crocker-kökur.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 120
  • Sl. viku: 1974
  • Frá upphafi: 1454848

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1599
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband