Sæþotur á hlaðinu, bjórmisskilningur og versti Bond-inn

SæþoturHeimatilbúinn kaldur bakstur tókst alveg hreint ágætlega þegar ég loks mundi eftir því að kona í apótekinu hafði talað um slíkan, ásamt verkjakremi og hækkun á hæl. Ég hef prófað krem og hækkun en átti grisju í baðskúffu, veit ekki síðan hvenær og við hvaða tilefni ég ætlaði að nota hana fyrir rosalega löngu síðan en hún var til. Ég bleytti hana, tók frystiplastpoka og frysti kvikindið. Reyndi að laga það ögn til svo það passaði á hásinina og þar í kring. Setti síðan hið frosna ofan í sokkinn svo nam við hásin. Verklagna Hurrí. Var að setja á mig í annað sinn núna rétt áðan og þetta er svo stíft núna að það horfir eiginlega til vandræða en það lagast eftir smástund. Óttast samt kuldakrampa og að kvefast, fá jafnvel lungnabólgu! Hef aldrei haft trú á köldum bökstrum, t.d. á bakið, legg mig stundum á hitapoka ef bakið er með stæla og það virkar ágætlega. Í þetta sinn held ég þó að kuldinn sé málið. Brrrrr

 

Mynd: Hér var allt vaðandi í sæþotum á hafsvæðinu mínu fyrir framan himnaríki en þar sem ég naut þess að horfa á þessar hetjur hafsins svífa á öldunum, lét ég það óáreitt.

 

Dagur dugnaðar var í dag, reyndar bara viðhald á fínheitunum í himnaríki, allt svo auðvelt þegar ég er bara ein. Allt rusl út, pappi og plast ásamt fuglamat fyrir alls konar krúttmola sem líta á lóðina upp að þyrlupallinum hér við hafið sem sérstakt súpueldhús fyrir heppna fugla. Ég verð að viðurkenna að lífið er orðið svo rólegt allt í einu sem er eiginlega alveg dásamlegt. Alltaf fínt, enginn sem draslar ... eða jú, kettir hafa ansi gaman af því að henda niður dóti, taka á sprett svo mottur færast til. Þar sem Keli er orðinn gigtveikur og á erfitt með að hoppa hrindir hann oft einhverju niður þegar honum misheppnast stökkin. Eftir að ég fékk almennilegt kattagras eru kettirnir hættir að kasta upp (reyna að gubba hárboltum) um öll gólf. Nema þeir hafi nartað stundum í blómin (ekki liljur en kannski eitruð?) sem ég fékk gefins sl. vetur og sem ég tróð nýlega yfir á eina systur mína sem er með græna fingur og getur alltaf á sig blómum bætt. Niðurskorin blóm er eiginlega ekki hægt að gefa mér lengur (þess vegna á ég ekki aðdáendur, ég afþakka alltaf pent) því kettirnir verða brjálaðir. mig grunar að það sé frekar afbrýðisemi en að þá langi að narta í blómin, í alvöru.   

 

Út að borðaHilda mætti á Skagann upp úr fimm og við sóttum stráksa eftir að hafa sötrað smávegis kaffi í himnaríki, nú var það útborðelsi á Galito kl. 18. Andri, glaðasti þjónn í heimi, var í vinnunni, stráksa (og öllum á staðnum) til mikillar hamingju.

Stráksi pantaði pítsu, ég fékk mér sushi og Hilda tvo girnilega forrétti. Stráksi gleymdi sér eitt andartak og pantaði sér vodka með pítsunni áður en hann mundi eftir því að við erum hætt með vodkabrandarana. Stúlkan sem tók niður pöntunina var ný svo hún henti okkur ekki út fyrir fúla brandara. Sjúkk. SevenUp var pantað að vanda, Hilda vildi ekkert og ég ...

....

... í kvöld lærði ég að Lite-bjór er ekki light, eða léttur og áfengislaus ... hann inniheldur bara færri kaloríur! Mér fannst hann reyndar ekkert spes og leifði en sennilega hefði sódavatn verið best með sushi-inu, ég er ekkert fyrir hvítvín. Valdi vegan-sushi sem var svakalega gott. Solla vinkona sat á næstnæstnæstnæsta borði en staðurinn var fullur af glöðu fólki, eins gott að ég pantaði borð í gær.

Facebook

Fb-vinur minn, God, spurði: Þú þarft að finna þann versta leikara sem þér dettur í hug til að leika James Bond. Hvern velur þú?

Hér eru nokkrir frekar heimsfrægir sem voru nefndir:

„James Woods“

„Idris Elba“

„Woody Allen“

„Jim Carrey“

„Will Ferrell“

„The Rock“

„RuPaul“

„Pete Davidson“

„Mr. Bean“

„Danny Devito ... en ég held samt að hann gæti verið flottur Bond.“ 

„Nicolas Cage“

„Tom Cruise“

„Roseanne Barr“

„Borat“

„Donald Trump“     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 8
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 1257
  • Frá upphafi: 1512995

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1070
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Straujárn
  • Stráksi
  • Hnetusmjör

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband