Gleðidagur, flott Diskóeyja og tími á yfirhalningu

Útskrift í dagHátíðisdagur í dag þegar stráksi og rúmlega sjötíu aðrir útskrifuðust sem stúdentar frá FVA í dag. Ég mætti að sjálfsögðu og fylgdist hreykin með honum ná þessum stóra áfanga. Nokkrar ræður voru haldnar og allar virkilega skemmtilegar, ólíkar og vöktu mann til umhugsunar.

 

 

Skólameistari hélt þá fyrstu, síðan gamall nemandi (Idol-stjarna sem talaði um fokkitt-andartökin í lífi sínu) og formaður nemendaráðs. Ótrúlega fallegur hópur af gæðakrökkum sem voru að útskrifast úr námi sem þau þurftu ekki að fara í, eins og kom fram í einni ræðunni. Sennilega skemmtilegasta útskrift sem ég hef verið viðstödd. Þegar ég útskrifaðist úr hagnýtri fjölmiðlun (HÍ) voru það margir að útskrifast að athöfnin var löng miðað við það, samt minnir mig að ég hafi kosið að elta hópinn minn og útskrifast að hausti þar sem voru talsvert færri (Háskólabíó en ekki Laugardalshöll) því ég þurfti ekki að vinna á fjölmiðli um sumarið, eins og hinir, var þegar með reynslu. Aldarfjórðungur síðan ... 

-----

 

TertanVeður dagsins var glæsilegt í sinni gulri veðurviðvörun. Ég lét mig fjúka út á stoppistöð fyrir athöfn en við vorum svo heppin, við stráksi, að vera sótt af einni elsku sem vinnur á sambýlinu. Þangað héldum við og á borðum var fínasta marsipanterta, rækjusalat og kex. Dásamleg veisla í tilefni útskriftarinnar. Sambýlingarnir höfðu slegið saman í virkilega fína útskriftargjöf sem reyndist vera allur heimurinn ... mjög flottur hnöttur með ljósi inni í. Stráksi datt í lukkupottinn að fá að flytja þangað.

 

 

Ég tölti svo út á stoppistöð á Akratorgi og þegar strætó kom og hleypti mér inn að aftan, eins og öllum hinum, að nú er kominn tími á klipp og lit. Panta eftir helgi (sjá mynd hér fyrir neðan, sem sannar það sem bílstjórinn sá).

 

 

Diskóeyjan ... Aya og BanaDásemdardagurinn var sannarlega ekki búinn því vinafólk mitt kom og sótti mig skömmu fyrir sex því nú skyldi haldið í Bíóhöllina, á Diskóeyjuna, sýningu gamla skólans míns, Brekkubæjarskóla.

Elsta dóttirin dansaði í sýningunni og bar auðvitað af, ég var eins og stolt amma að fylgjast með henni. Sýningin var virkilega skemmtileg, mikið klappað og stappað.

 

 

MYND: Ég banna iðulega myndbirtingar af mér en eftir nokkrar rökræður við sjálfa mig fannst mér ég verða að fórna myndabanninu, jafnvel þótt ég væri í cartman-jakkanum, til að sýna sætu og frábæru dætur vinahjóna minna. Sú eldri er góður dansari og á neðstu myndinni má sjá hana dansa á fullu lengst til hægri. Yngsta var í fanginu á pabba sínum annars staðar í Bíóhöllinni. 

 

DiskóeyjanHæfileikaríkir krakkar í Brekkó, þau höfðu greinilega gaman að því sem þau voru að gera, það skilaði sér heldur betur. Við vorum virkilega glöð á heimleiðinni, ánægð með sýninguna og stolt af dansaranum góða. Við fórum sjávarleiðina heim og það var assgoti skemmtilegt þegar öldurnar skvettust yfir Faxabrautina og bílinn. Vona systur minnar vegna, að sjórinn verði áfram svona flottur á morgun þegar hún skýst á Skagann til að borða með okkur stráksa.

 

Eldamennska tók svo við þótt klukkan væri orðin margt, eða hálfátta, ekki dugir að láta fína matinn frá Eldum rétt skemmast vegna stórviðburða í samkvæmislífinu! Í gær var geggjaður kvöldmatur hjá Matarklúbbi Rauða krossins og á morgun förum við stráksi ásamt systu á Galito til að halda upp á útskriftina, brautskráninguna, stúdentinn ...

 

Ég hlustaði á gamla glæpasögu í gær, man ekki hvað hún heitir en gömul kona var myrt í henni, alveg rosalega eldgömul kona, það var einhvern veginn mikið talað um hvað hún væri gömul. Svo þegar aldurinn kom fram, að hún væri rétt rúmlega sjötug, fór ég að flissa, jú, höfundurinn var frekar ungur. Þótt ég sé í raun að kasta stórgrýti úr gróðurhúsi núna, mér fannst nefnilega sjö ára gamalli að 12 ára strákarnir í skólanum væru orðnir fullorðnir menn. Og þegar ég var 17, 18 ára hefði ég aldrei litið við 25 ára strákum, fannst þeir farnir að láta á sjá sökum aldurs. Einn daginn tóku svo kennarar fram úr nemendum í mínum huga og það var pínku skrítið. Man þetta betur varðandi strákana ... en það eina varðandi stelpur var um ótrúlega hressu stelpuna sem djammaði mikið og var alltaf hlæjandi og hress, svo varð hún 18 ára, gifti sig, fór að nota slæðu á höfuðið, væntanlega með rúllur undir, var ólétt, í óklæðilegri kápu, hélt á innkaupaneti og var í bomsum. Einhvern veginn svona er minningin um hana og ég vonaði að það yrði langt í að ég yrði 18 ára og myndi hætta að hlæja.

 

Mamma bjó heima hjá sér fram yfir áttrætt og naut þess að ráða krossgátur, drekka kaffi og horfa á spennandi myndir í sjónvarpinu. Tíu árum áður, eða á sama aldri og eldgamla konan í bókinni, var hún tiltölulega nýhætt að vinna og eldhress, hún var auðvitað ekki ung ... en samt ekki nálægt því sama "gamla konan" og lýst var í bókinni. Hér áður fyrr, ef marka má bækur um gömlu dagana, dó fólk í hárri elli jafnvel um fimmtugt, gjörsamlega útslitið af þrældómi.    

 

Facebook

Síðan Málspjall:

„Getum við aðeins velt okkur upp úr því af hverju vettlingar heita ekki handklæði?“ (AK)     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.6.): 39
  • Sl. sólarhring: 151
  • Sl. viku: 784
  • Frá upphafi: 1468262

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 689
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júní 2024
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • Kjánar á fb
  • Kjánar á fb
  • Skyrgerðin

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband