Ómótstæðilegur sjór og hvað er ást ...

Útsýnið á opnu húsiMeð algjörum herkjum hefur mér tekist að snúa á unglinginn í mér og fer orðið snemma að sofa (milli tólf og eitt) og vakna frekar snemma. Það var lengi gott að kúra til ellefu en ég tek það ekki lengur í mál. Er á meðan er, hugsar ein systir mín örugglega, morgunhani með meiru. Sennilega aðstoðar dagsbirtan til við að vekja mig á morgnana, mér dettur ekki í hug að vera með myrkvunartjöld þótt ég hafi erft frá stráksa að vilja sofna í myrkri, ja, eins miklu og hægt er. Þannig að hér eru öll ljós slökkt. Eitt hefur líka hjálpað, og það er að flesta morgna núna hitti ég tvær vinkonur sem þrá heitast af öllu að læra íslensku hratt og vel. Við drekkum saman kaffi, til skiptis heima hjá hver annarri, og tölum saman á íslensku. Þar sem ég ræð mínum vinnutíma sjálf finnst mér þetta ansi skemmtileg næstum-byrjun á degi. Við hittumst kl. ellefu og þá hefur mér tekist áður að fara í sturtu og snæða staðgóðan morgunverð sem enn árrisulli brytinn minn hefur útbúið. Oftast súrmjólk, púðursykur og kornfleks.

 

Mynd 1: Svona var útsýnið meðan opna húsið stóð yfir. Hver getur staðist svona sætan sjó? Ég faldi bleiku fokkjústyttuna og bókina Dauðinn á opnu húsi. Stundum er best að ögra ekki.

 

Bleikja og allesEitthvað er loks farið af stað varðandi himnaríki, fyrirspurnir og fá að skoða-beiðnir eru farnar að berast, skilst mér, svo ég verð víst að draga til baka þetta með stóra samsærið ... Nú spila ég bara Krýningarmessuna til að gleðjast og raula með (fyrsta verkið sem ég söng með Kór Langholtskirkju, 1985), íbúðin enn sjúklega flott og fín og sér ekki einu sinni skófar á parketi eftir trampið í dag. Eldaði mér ofnbakaða bleikju með fersku salati, brúnum pistasíuhrísgrjónum (mínus pistasíur), brokkolíi og hvítlaukssósu. Afgangurinn verður snæddur í hádeginu á morgun. Og af því að það er svo mikið útstáelsi á mér, fer ég "út að borða" hjá Matarklúbbi Rauða krossins annað kvöld, síðasta sinn í "vetur" því nú hefst þriggja mánaða sumarfrí klúbbsins og stefnan hjá mér er Kópavogur í haust svo það er eins gott að mæta! Ekki trúa þeim sem segja að það sé Katalína sem lokki og laði ... mér skilst reyndar að þar megi kaupa sér ágætan hádegisverð, mömmumat upp á gamla mátann, ekki samt eldgamla, held ég.

 

Upp á síðkastið hef ég verið að hlusta á Birgittu H. Halldórsdóttur, þá góðu sögukonu. Nýlega hlustaði ég á mikla örlagasögu hennar (Dætur regnbogans) sem gerðist í eldgamla daga og sú hlustun gerði mér kleift í dáleiðsluástandinu sem ég fer í við að hlusta á grípandi sögur, að snurfusa allt hér í himnaríki. Fráflæðivandinn hér er samt alltaf mikill ... en vex mér líklega í augum því ég þekki alveg fólk sem myndi án þess að hika skutla dóti og drasli fyrir mig um víðan völl. Eins og gamla kringlótta borðið mitt með taflborðsmynstrinu ... það er orðið skjöktandi og þarfnast ástar og umhyggju. Hef ekki pláss fyrir það en ætti frekar að auglýsa það en gefa á nytjamarkað þar sem því yrði örugglega hent því það skjöktir. 

- - - - - - - -

KrakkarAf því að það er að koma sumar verða allir eitthvað svo ástfangnir og rómantískir ... dæs, en sumum finnst ástin hreint ekkert æðisleg, ef þær hafa til dæmis takmarkaðan séns í Jason Statham. Ástin sökkar, segja sumir og mörg klár börn sem ég hef hitt fyllast hryllingi ef minnst er á ástina. Til er margs konar ást auðvitað og hér svara nokkrir erlendir krúttmolar spurningunni Hvað er ást?

 

„Þegar amma fékk gigt gat hún ekki beygt sig og klippt á sér táneglurnar. Þá gerði afi það, samt var hann með gigt í höndunum.“ Rebekka, 8 ára.

 

„Ást er þegar þú ert alltaf að kyssa. Svo þegar þú þreytist á kossunum viltu samt vera saman áfram og tala meira. Mamma og pabbi eru þannig. Það er ógeðslegt þegar þau kyssast.“ Emily, 8 ára.

 

„Ef þú vilt læra að elska betur, skaltu byrja með vini sem þú hatar.“ Nikka, 6 ára.

 

„Það er ást þegar lítil gömul kona og lítill gamall maður eru enn vinir þótt þau þekkist svona vel.“ Tommy, 6 ára.

 

„Ég veit að stóra systir mín elskar mig því hún gefur mér gömlu fötin sín og þarf svo að fara út í búð og kaupa sér ný föt.“ Lauren, 4 ára.

 

„Það er ást þegar mamma sér pabba á klósettinu og finnst það ekki ógeðslegt.“ Mark, 6 ára.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.6.): 5
  • Sl. sólarhring: 257
  • Sl. viku: 791
  • Frá upphafi: 1468111

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 689
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júní 2024
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • bad-tenants
  • bad-tenants
  • Vinkona

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband