Ferðin mikla ... rigning, flóð, hrun, lokanir, lögguafskipti, rútubruni ...

Mosi og eldgosiðSumarfríinu hér með lokið og hversdagslífið boðið velkomið. Nú mega jólin alveg fara að koma. Ég ákvað að nýta ferðina norður í brúðkaupið sem sumarleyfi með brúðkaupsþema og það gekk prýðilega. Við systur erum vanar að fara í stutt ferðalag saman á sumrin en gistingarmöguleikarnir sem við sáum voru óstjórnlega dýrir svo við slepptum því bara og einbeittum okkur að brúðkaupinu sem var, sem betur fer, haldið úti á landi. Vissulega var rigning VEL yfir meðallagi, vegalokanir, grjóthrun, lögguafskipti og rútubruni en að öðru leyti algjörlega áfallalaus ferð.

 

Við systur lögðum af stað norður degi fyrr en ella, á fimmtudegi um kvöldmatarleytið til að sleppa við snjóinn sem spáð hafði verið á Holtavörðuheiði en kom svo aldrei (svo ég missti af eldgossbyrjun úr stjórnklefanum í himnaríki en kisupassarinn var á vaktinni, sjá mynd). Fengum gistingu hjá dásamlegri vinkonu systur minnar á Hvammstanga og eftir staðgóðan morgunmat með leynigesti drifum við okkur áfram. Höfðum hlakkað til kaffisopa í Varmahlíð en kaffivélin þar var biluð! Bara uppáhelling í boði, hrmpf ... Ókum alla leið til Akureyrar og á eitt besta kaffihúsið þar, Ketilkaffi (í Gilinu) og fengum þennan fína latte úr Kosta Ríka-baunum frá Kaffibrugghúsinu. Það var alveg þess virði að leggja lykkju á leið okkar fyrir það. Við fórum svo sem lengri leiðina, vissulega brjálaðar í stráka, alla vega ég, en létum Strákagöng eiga sig og fréttum af grátandi brúðkaupsgestum sem höfðu valið þá leið því Vegagerðin sagði það í lagi en heilu hnullungarnir ultu þarna niður, keyrandi fólki til mikillar skelfingar. Mikið sem frændi var glaður þegar hann náði á okkur einmitt í kaffinu á Akureyri, en ekki laskaðar undir björgum. Veginum var lokað skömmu seinna. Svo snerum við við, fórum í átt að elsku Dalvík (sumarfrí í Svarfaðardal 2019?) og þaðan í gegnum þrenn göng áður en við komumst til Siglufjarðar. Það róaði okkur mjög í fyrstu göngunum (einbreið) að hlusta á góða sögu ... Hin útvalda eftir Snæbjörn Arngrímsson er fínasta glæpasaga sem við náðum að klára við komuna til Borgarness á heimleiðinni, vorum að sofna en vöknuðum hressar við kaffið í Landnámssetrinu. 

 

Hótel SiglóVið gistum á Hótel Sigló og fengum auðvitað herbergi með útsýni yfir nánast nakið lið fara í heita pottinn ... Fínasti kvöldverður var snæddur þar og hásinin minnti illilega á sig þetta kvöld, kæmist ég í brúðkaupið, kæmist ég ekki? Setan í bílnum þessa löngu leið, engin frostkæling á kvikindið hjálpaði ekki til en næsta morgun vaknaði ég brúðkaupsfær. Hefði nánast getað gift mig sjálf ef út í það væri farið. Sýndist eitthvað til af sætum körlum þarna í 580.

 

Við komumst heldur betur í hann krappan þegar við ætluðum að fara í kirkjuna, gatan var lokuð í báða enda vegna flóða (í húsum) ... og löggan sem átti að passa að lokanir væru virtar, tók ekki eftir því að við ókum frá bílastæðinu við hótelið og smábátabryggjuna. Þeir (mjög sætir) komu á móti okkur með blikkandi ljós til að láta okkur vita af lokuninni ... en eldhressir samt, og þegar þeir áttuðu sig á því að við værum saklausar konur í háska, bentu þeir okkur á leynileið nær höfninni til að komast leiðar okkar til kirkju. Ég hafði, frá því um morguninn, smávægilegar áhyggjur af því að við systur værum of "erótískar" í útliti (í litavali) ... önnur okkar í bleiku, hin í bláu ... það muna kannski ekki allir eftir öllum tímaritum ... Ég held samt að systir mín sem keypti báðar flíkurnar (aðra í afmælisgjöf handa mér) hafi ekki gert þetta viljandi! 

 

Brúðhjónin og presturGlaðasti prestur í heimi gaf brúðhjónin saman, móðurbróður brúðarinnar, starfandi í Búðardal, skilst mér. Hann var virkilega fyndinn og gaf í raun tóninn fyrir daginn ... Þegar við systur gengum inn í kirkjuna sat fólk nánast bara vinstra megin svo ég spurði hann hvort mætti sitja hinum megin og hann hélt það nú og sagði svo mjög móðgandi:

„Þú mátt sitja út um allt!“

„Út um allt? Eruð þér að gefa í skyn að ég sé feit?“ spurði ég illskulega. Manni getur nú sárnað ... 

 

Veislan var afskaplega fjörug og skemmtileg og ég drakk mestmegnis vatn, ég veit ... og allt fljótandi í víni. Nú veit ég af hverju ég fæ aldrei þynnku! Jesssss. Það er sko hægt að skemmta sér edrú, og sérlega auðvelt nálægt hressu og skemmtilegu fólki sem vinir og vandamenn brúðhjónanna eru, við systurnar þar taldar með, að sjálfsögðu. Ekki margar ræður, en allar stuttar og skemmtilegar, öll atriðin þannig en vá, hvað tónlistarbingó er skemmtilegt! Við fengum að heyra hluta úr lagi, fundum það á lista sem hver hópur fékk og númer þess, þá var hægt að strika yfir númerið og bíða svo vonlaus eftir að fá bingó. Held að vinningar hafi mestmegnis verið drullusokkar því brúðguminn er pípari ... en ég er samt ekki alveg viss. Ég heklaði utan um minn drullusokk á sínum tíma og nota hann sem hurðarstoppara, þann besta!

 

Eldur í rútuSætaferðir voru á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar (625) þar sem veislan var haldin ... eða áttu að vera. Óvænt fengum við systur bílfar frá hótelinu til Ólafsfjarðar sem var sennilega eins gott því rútan sem var á leiðinni var víst löglega afsökuð því það kviknaði í henni á Ólafsfjarðarvegi. Brúðguminn var í sjokki þegar bílstjórinn hringdi í hann, hélt fyrst að þetta væri grín. Skriður og grjóthrun við Strákagöng og kviknað í rútunni sem átti að flytja gestina. Önnur rúta átti vissulega að koma, alla vega til að flytja gestina heim á Sigló (eða hótel) aftur en vér systur fengum óvænt far með dásamlegum hjónum til baka. Hún mundi eftir okkur síðan í gamla daga á Akranesi en af því að það er smávegis aldursmunur (við þorðum ekki að horfa á eldri krakkana og fyrirlitum þá yngri) Honum kynntumst við skömmu eftir að við fluttum til Reykjavíkur, þá 12 og 13 ára gamlar. Hann var vinur bróður okkar - heimurinn er svo lítill.

 

Fjör í veislu100 árum seinna, í brúðkaupi á Siglufirði, hann skyldur brúðinni, við brúðgumanum, hann að fara að skutla okkur systrum: 

Ég: „Varst þú ekki svo góður í leikfimi?“ 

Úlli: „Jú, sá fyrsti í Austurbæjarskóla til að fá tíu í leikfimi!“

 

Þynnkulausar systur að ljúka við að pakka niður eftir morgunverðinn í gær: 

Systir 1, afar greind og þokkafull: Þetta er fínasta hótel.

Systir 2: Já, vantar bara skóhorn.

Systir 1: Líka ísskáp en það er auðvitað kalt vatn í krananum.

Systir 2, bæði fögur og jákvæð: Það var í fínu lagi að geyma appelsínflöskuna við opinn gluggann.

 

Þegar systurnar, nú kallaðar hinar sjónlausu, voru búnar að taka yfirhafnir, slár og kórónur úr fatahenginu sást ágætt skóhorn hanga þar á snaga. Þær höfðu ekki tíma til að leita að ísskáp en sá hefði þá verið vel falinn og sennilega undir öðru hvoru rúminu.

 

HamraborgLeit mín að fasteign - nýju heimili - stendur nú sem hæst. Keðjan mín hefur gengið upp og ég get gert tilboð í fasteign án þess að setja fyrirvara um fjármögnun. Mig langar ógurlega mikið að komast á stað þar sem allt er í göngufæri. Ég missti af tveimur íbúðum í Hamraborg, sem eru sérdeilis algjörlega í göngufæri við allt ... tattústofu, Katalínu, bókasafn, dýralækni, kaffihús, matvörubúð, nuddstofu, sjúkraþjálfara (hásinin), Salinn, Gerðarsafn og STRÆTÓ! Gallinn við þann stað eru vissulega gífurlegar sprengingar fyrirhugaðar vegna framkvæmda, það á að byggja mikið upp þarna. Og ég yrði að kaupa lofthreinsitæki vegna umferðarinnar. Kostirnir vega þyngra fyrir bíllausa kjéddlingu og margir sem ég þekki eru mjög hissa á hrifningu minni á þessari staðsetningu, kjósa allt öðruvísi umhverfi - kannski ekki það fallegasta en það er hægt að gera sjálft heimilið fallegt.

 

Mér finnst Kópavogur fínn, þekki margt gott fólk þar, og gæti mjög vel hugsað mér að búa þar. Spennan hefur magnast mikið í þessum málum! Svo hafa verkefnin hlaðist upp hjá mér. Ég man eftir að hafa hér áður fyrr horft með samúð á gömlu, fertugu kerlingarnar sem kvörtuðu yfir því hversu erfitt væri fyrir þær að fá vinnu ... sökum aldurs. Nú er ég orðin vel rúmlega fertug en það heppin að vinnuóöryggi hefur ekki angrað mig síðan ég var vel yngri en fertug. Hefur kannski eitthvað með það að gera að endajaxlarnir eru enn ókomnir, ellifjarsýnin líka ... og það vaxa ekki hár á leggjunum á mér. Því miður var hrukkuleysi ekki inni í þeim annars góða samningi ... 

 

 

Með aðstoð frábæru Hönnu minnar dríf ég mig af stað hið fyrsta og leita að hinu nýja himnaríki. Það er alls ekki sniðugt að einblína á eitthvað eitt, takmarka sig við einn stað ... en Hlemmur og miðborgin í Rvík eru því miður of dýr fyrir mig og á meðan þetta sem er í boði er ekki í mjög grónu úthverfi þar sem ekkert sést út um glugga nema tré, runnar og blóm, og talsvert styttri vegalengd en 400 metrar í næsta strætó - er ég sátt.          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komdu bara á Sigló 😂

Bylgja Hafþórsdóttir (IP-tala skráð) 26.8.2024 kl. 19:17

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það væri nú fjör að búa á Sigló. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 26.8.2024 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 43
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 870
  • Frá upphafi: 1515965

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 726
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband