Engill undir stýri og súrsæt frægð ...

Ég í morgunÞað tók ekki nema nokkur andartök í morgun þegar klukkan hringdi 6.10 að ákveða að fresta lífinu um klukkutíma. Tók ferð númer tvö  með endastöð í Mosó. Enginn annar en Andri Backmann var undir stýri á 15 við strætóskiptin. Ég var í fínasta skapi þegar ég steig upp í vagninn en þegar Andri var búinn að heilsa okkur farþegunum fóru allir í sólskinsskap ... hann er svo frábær.

„Náum við ekki örugglega leið 18 í Ártúni?“ spurði ég. „Jú, að sjálfsögðu,“ svaraði Andri og hristi vængina glettnislega. Algjört umferðaröngþveiti ríkti þegar við skriðum inn í borgina og útlit fyrir tafir og læti. Andri ýtti bara á takka í mælaborðinu og stórir englavængir spruttu út úr hliðum vagnsins sem hóf sig á loft og flaug yfir umferðarsultuna. Við lentum í Ártúni á réttum tíma og ég rifjaði upp kynnin við lúmsku brekkuna en gekk rólega upp hana, enda voru heilar 10 mínútur í leið 18. Þær urðu nú reyndar 20-25 vegna seinkunar. Brrrrrrr, kalllltttttt að bíða.

DVSvo er mín bara orðin fræg, í DV og allt, með öðru heimsfrægu fólki, á borð við Hugleik og Auði Haralds, fólki sem nennir ekki að eiga bíl. Sá mér til mikillar skelfingar að ég hef ekki verið nógu skýr í tali og ljúfi, yndislegi blaðamaðurinn sem tók símaviðtal við mig í fyrradag misskildi sitt af hverju. Æ, ég hefði átt að biðja um að fá að lesa þetta yfir ...

DÆMI: "Ég bjó á Sauðárkróki þegar ég var 17 ára og tók bílprófið þar. Þar með var ekki öll sagan sögð því í eina skiptið sem ég var beðin um að keyra eitthvað var ég með handbremsuna á allan tímann." SAGAN ÖLL: Jú, jú, ég tók prófið á Króknum og keyrði síðan sama og ekkert eftir það. Um 15 árum síðar var ég að vinna á heildsölu en framkvæmdastjórinn þar vildi endilega að ég gæti keyrt og neyddi mig til að taka tíu rándýra æfingatíma (sem ég borgaði sjálf). Í EINA SKIPTIÐ sem fyrirtækið þurfti á aksturshæfileikum mínum að halda þetta ár sem ég vann þarna þurfti ég að fara niður í Toll með skjöl og var skelfingu lostin allan tímann. Þegar ég kom aftur í vinnuna og var að leggja bílviðbjóðnum sá ég að ég hafði keyrt allan tímann með handbremsuna á.

StrætóSvo kemur líka út eins og ég sé að dissa elsku strætó ... „... þó að strætókerfið henti mér ekki fullkomnlega.“ er haft eftir mér á einum stað. Þetta átti nú bara að vera smánöldur út í það að leið 18 hætti að keyra Stórhöfðann og upp súkkulaðibrekkuna (hjá Nóa Síríus) og fór þess í stað upp í Árbæ. Það og tímaáætlun leiðar 18  hentar mér illa. Fyrir utan þetta og hvað ljósmyndin af mér er skelfileg þá er þetta annars mjög skemmtileg opna um strætólúsera sem hafa ekki efni á því að kaupa sér bíl og hafa fundið upp á hinum ýmsu hallærislegum afsökunum.

Ég er alsæl með að framhaldsskólakrakkar fái frítt í strætó, Andri sagðist finna mikinn mun á fjölda farþega, nú kæmu svo miklu fleiri. Nei, ég vil sko ekki dissa strætó neitt. Ég var alsæl að fá Blaðið og sá að ég var ekki ein um það. Svo efldi það veðurvitund mína sem Íslendins mikið þegar ég beið svona lengi eftir leið 18. Loftræstingin er kannski aðeins of góð í skýlunum ... sama hvar maður stóð fann golan sér alltaf leið til að kitla kinnar og fara undir buxnaskálmar og svona. Það er sko sannarlega að koma vetur.

P.s. Fólkið þarna á myndinni af forsíðu DV hefur enga aðstöðu í himnaríki, eins og þau segja ... ég ætti að vita það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Góðan daginn Gurrí, þá þarf maður að ná eins og einu DV til að líta í og lesa rangfærslurnar hehehehe. Mikið er ég fegin að þessi ágætu hjón skuli ekki hafa aðstöðu í himnaríki, ég er nú afar heitt trúuð á mátt bænarinnar, en svona fullyrðingaglatt fólk hef ekki mikla trú á því.

En annars! broskallinn er 25 ára í dag, til hamingju með daginn kallinn

Guðrún Jóhannesdóttir, 19.9.2007 kl. 11:39

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

André er engum líkur er hann flýgur um á vængjum bjartsýninnar.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.9.2007 kl. 11:51

3 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Já André kallinn er yfirleit með mikinn byr, og þá í báða vængi, skilaðu kveðju til hans næst þegar hann brosir til þín  frá mér einkum

Kjartan Pálmarsson, 19.9.2007 kl. 11:58

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Já, André er frábær ... en hann er nú svo sem ekkert einn um það.

Broskallinn orðinn aldarfjórðungsgamall ... ja hérna, var það ekki Forrest Gump sem fann hann upp? (djók)

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.9.2007 kl. 11:59

5 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Mér finnst alltaf svo gaman þegar þú talar vel um strætó.  Það fær mig til að hugsa til skólaáranna með söknuði, þegar ég tók leið tvö frá Vesturgötunni í Menntaskólann við Sund.  Mér þótti alltaf notalegt í strætó, þar gat maður lesið eða hugsað. Það voru oftast sömu bílstjórarnir og mikið til sömu farþegarnir, góð stemning og kuldinn sem læddist upp leggina var fljótur að gleymast í hlýjum vagninum.

Núna bý ég svo nálægt vinnustaðnum að ég geng sem er það allra besta en þegar ég les strætósögurnar þínar langar mig í strætó. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 19.9.2007 kl. 13:32

6 identicon

Sumir eru a.m.k. ekki í handbremsu þegar þeir skrifa.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 13:43

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... og ekki var búið að finna upp rafmagn, því voru torfbæirnir svo kaldir, man sko alveg eftir þessum tíma, Anna. Held að þú hafir lesið yfir þig af ættfræði, stelpa!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.9.2007 kl. 13:57

8 identicon

Tilkynning um óviðeigandi tilvísun:

Ekki á við að birta með blogginu mynd af "The Sleeping Beauty." 

 Bloggarinn kommenteraði síðast kl. 00.09 og lét klukkuna vekja kl. 06.10 

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 13:59

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ekki gleyma leið eitt "Sólvöllum" og "Njásgötu-Gunnarsbraut".  Dásamlegt.  Í gömla strætó þurftum við segja "já takk" þegar við ætluðum út, gettu Gurrí hvort ég þorði að garga það yfir allan vagnheim?

Smjúts og ég hló og hló.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.9.2007 kl. 14:15

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Leið tvö hét Grandi-Vogar

Leið 5 fór allavega um Langholtsveg, Laugarnesið og fram hjá Laugardalslauginni.

Leið 4 var með endastöð við Kleppsveg/Holtaveg þar sem Jói Fel og Adam og Eva snúa bökum saman í dag

Jóna Á. Gísladóttir, 19.9.2007 kl. 14:33

11 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Glúmur ... þess vegna frestaði ég morgninum um klukkutíma og hengslaðist á fætur eftir allar aldir, eða skömmu fyrir hálfátta. Gerði mig ögn fegurri þessi aukaklukkutími rúmi þarna. takk samt fyrir að benda á þetta.

Ohhh, þegar ég flutti í bæinn frá Akranesi tók ég alltaf Njálsgötu Gunnarsbraut. Bílstjórunum þótti mamma svo sæt að við systkinin fengum að borga fargjaldið með karamellum, alla vega stundum. Nú veit ég af hverju ég elska bílstjóra! Þarna hófst þessi ást. Leið 4 hét Hagavagninn. Því miður var þessi kurteisi um JÁ, Takkið hennar Jennýjar aflagt þegar ég fór að taka strætó. Hefði verið kúl!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.9.2007 kl. 14:48

12 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Man ég það ekki rétt Gurrí mín, að þessi kraftaverkahjón hafi falast eftir viðtali í Vikunni en ekki fengið inni. Þá voru þau með aðstöðu á Skúlagötu og mig minnir að þú hafir verið send til að taka viðtalið en ekkert síðan orðið úr.

Steingerður Steinarsdóttir, 19.9.2007 kl. 15:07

13 identicon

líkist þú móðurinni? (Sbr. aths. 15)

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 15:11

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Nei, Glúmur ... mamma er svarthærð með brún augu ... við Hilda systir erfðum það ekki frá henni ...  Anna, þetta 1970 kerfi er það sem ég vandist og ´fór að þykja vænt um ... takk fyrir fræðsluna, þú ert frábær!  

Nei, Steingerður, ég held að mér hafi aldrei verið sigað á þessi hjón! Það hefði verið æsispennandi að að taka viðtal við þau og fá kraftaverkasögurnar í æð. Ég missti alveg af því.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.9.2007 kl. 15:30

15 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Glúmur, ég var samt ekki að segja að við Hilda værum ljótar ... þótt við séum ljósari. :)

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.9.2007 kl. 15:32

16 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Anna viskubrunnur ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.9.2007 kl. 15:48

17 identicon

Fór að sofa seint vor bjútý

samt hún náði sinni djútí.

Seint mun verða kveðin kút í:

Kaffið fyrst - svo mjólkin út í. 

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 15:49

18 identicon

Æææ! Ofstuðlun. Skárra svona:

Fór að sofa seint vor bjútý

samt þó náði´að mæta´á djútí.

Seint mun verða kveðin kút í:

Kaffið fyrst - svo mjólkin út í. 

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 17:06

19 Smámynd: krossgata

Þegar ég kom til Reykjavíkur og fór að nota strætó þá hétu leiðirnar:  Hlemmur-Fell, Grandi-Vogar og þess háttar.  Ég varð fljótt alfræðitímatafla strætó þar sem svona tímatöflur heilla mig og lærði þær fljótt.  Mér finnst líka London Underground yndislegt fyrirbæri aðallega fyrir leiðakerfið og tímatöflurnar.    Ég er löngu hætt að taka strætó og löngu hætt að vita nokkuð um áætlanir strætó.

krossgata, 19.9.2007 kl. 17:45

20 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ó, þá gömlu góðu daga þegar maður gat hoppað upp í Granda-Voga, Hlemm-Fell, eða Haga-Sund. Það kerfi var gott og hefði frekar átt að endurbæta það en breyta öllu. Ein í nostalgíukasti!

Glúmur, þú ert ansi góður í að yrkja, karlinn!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.9.2007 kl. 18:17

21 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Hey! Akkurru var ekki hringt í mig! Ég kann sko ekki einusinnað keyra. Ég næstum hætti að geta tekið strætó eftir að kerfið breyttist. Við miðbæjarrotturnar urðum útundan í öllu skipulagi. Not fair. Nú labba ég oftast frekar. Ég ætlað skokka og sækja Blaðið til að skoða ykkur fagra fólkið! Ég var einmitt að spá í hvað þetta fólk í DV hefði verið að gera heima hjá Gurrí. Gott að fá skýringar á þessu. ...og alltaf að lesa yfir! Ótrúlegustu hlutir sem fólk getur misskilið. Hef lent í því!

Laufey Ólafsdóttir, 19.9.2007 kl. 19:30

22 identicon

Ekki kyn þótt Gurrý kvarti undan DV. Þeir fella út það mikilvægasta; ekki orð um nýjan stjúpa né sjálfvirku ryksuguna í því sambandi.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 19:39

23 identicon

KARLINN!

Skrifar hún. Nú má Þröstur sko hrauna yfir allt með "eldri konum " og "ljóskum" fyrir mér, sem er bara 63ja.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 19:44

24 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hahahha, Glúmur, ég kunni ekki við að kalla þig krútt en það munaði litlu. Ég segi oft við strákinn minn (27 ára): Jæja, karlinn! Það fer eftir hljómi raddarinnar hvort hann leggur á flótta eða bíður spenntur. Þetta er mikið hrósyrði hjá mér, eins og orðið nörd, svo ég taki lítið dæmi.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.9.2007 kl. 20:08

25 Smámynd: Þröstur Unnar

Aldrei þessu vant settist ég niður í dag á kaffihúsi í Kópavogi, þar sem er svo gott að búa, og ákvað að fletta DV, sem ég geri helst ekki nema í ýtrustu neyð og ekkert annað lesefni á boðstólum, og viti menn það fyrsta sem ég sé er Himnaríkisdrottningin brosandi sínu fegursta og haldandi utan um strætóstaur. Sýndist staurinn vera Akurneskur. Þetta hlýtur að vera vísbending til mín, hugsaði ég. Hún sem þarf að ferðast 100 km á dag notar þessa gulu bekkjabíla, en ég sem þarf aðeins að fara 2 km á dag nota 2ja milljón krónu jeppa. En svo áttaði ég mig. Við erum bæði ástfangin, af sitt hvoru farartækinu, og ástin spyr ekki að skynseminni.

Hrauna aldrei yfir eldri frúr og ljóskur Glúmsi minn, þær eru alveg í uppáhaldi hjá mér.

Þegar mér var hent suður í borg dauðans, enn blautur bakvið eyrun, notaði ég Hagavagninn frá Langholtsvegi til að komast í Iðnskólann og á margar góðar minningar frá þeim ferðum.

Þröstur Unnar, 19.9.2007 kl. 20:17

26 identicon

O jæja, ég veit allavega hver skrifaði þetta ekki. Annars er örugglega gott að ferðast með strætó, mér dettur stundum í hug að taka vagninn sem keyrir hér í sveitinni, kalla það augnabliks geðveiki, sprottin af sama meiði og þegar mér dettur í hug að fara að hjóla..eða í ræktina. Yfirleitt bjargar góður kaffibolli og súkkulaði þessu öllu :Þ

Hrefna S. Reynisdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 20:42

27 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Við Anna höfum greinilega ekki verið í ungdæmi á sama tíma Vagninn minn var númer tvö og ekkert hnu með það.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 19.9.2007 kl. 23:24

28 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Gaman að fylgjast með ykkur tala um strætó, ég hélt í alvöru að fólk almennt fussaði og sveiaði yfir þessum gulu djöflum. Sem voru reyndar í minni tíð grænir og hvítir, og þá átti ég það til að ferðast með

9.VINSTRI-HRINGLEIÐ og 8.HÆGRI-HRINGLEIÐ. 5.Skerjafjörður-Laugarás. 6.Lækjartorg-Sogamýri. 7.Lækjartorg-Bústaðir. 3.Nes-Háaleiti. 1.lækjartorg-Norðurmýri

Svo seinna meir keyrði ég ,, 6-7 '' já í þá gömlu góðu daga  þegar ...................

Kjartan Pálmarsson, 20.9.2007 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 636
  • Frá upphafi: 1505989

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 513
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband