Ævintýrahöfuðborgin

HH á ísskápnumHvað er Hermann Hreiðarsson að gera á ísskápnum mínum?“ spurði ég erfðaprinsinn skömmu eftir heimkomu í dag. Ég tók allt í einu eftir því að einn flottasti íþróttamaður landsins glápti illilega á mig þegar ég var að búa mér til kaffi. Fátt varð um svör en ég kvarta ekki. Hann er orðinn ósköp skrautlegur ísskápurinn, m.a. nokkrar myndir af sjálfum erfðaprinsinum frá því hann var lítill og sætur. Nú er hann bara sætur. Hilda er þarna líka og Elvis Presley.

Stærsta hús í heimiVið Inga byrjuðum í Rúmfatalagernum í Smáratorgi og ég gekk út með fjögur teppi. Tvö svo hroðalega ódýr að það hefði verið bjánalegt að kippa þeim ekki með. Við fórum með fenginn út í bíl og svo var gengið yfir bílastæðið til að kíkja á nýju leikfangabúðina í stærsta húsi í heimi sem verið er að byggja í Kópavogi. Við vorum  báðar svo fátækar þegar börnin okkar voru lítil að okkur datt í hug að bæta þeim upp æskuna núna þegar við erum orðnar svona ríkar ...  Hvorug okkar er orðin nógu gömul til að verða amma þannig að við höfðum eiginlega enga afsökun fyrir því að ganga í gegnum búðina. Þarna var eitthvað um tómar hillur og heilmikið um börn með blik í auga.
 

Kommóðan guðdómlegaÁður höfðum við kíkt inn í Pier, nýja búð við hliðina á Toys-búðinni, sem opnaði í gær. Hún er óhugnanlega flott, eiginlega bara sjúklega æðisleg! Verðið á sumu þarna var líka ansi gott og þá er ég ekki að tala um hátt. Án þess að hafa ætlað að kaupa nokkuð féll ég kylliflöt fyrir míní-kommóðu án þess að vera mikið fyrir mínídót. Litirnir á skúffunum heilluðu mig algjörlega. Það kemst ansi lítið í skúffurnar, verð að viðurkenna það, varla eldspýtustokkur ... en erfðaprinsinn, stórhrifinn, sagði að hlytum að finna not fyrir þetta með tímanum. Hann fékk stórt og þykkt og grátt flísteppi úr RL, mitt teppi var svart og hvítt og fínrósótt, hrikalega mjúkt. Ódýru teppin voru ekki svo slæm heldur.

Það var alltaf eitthvað í gangi alla bæjarferðina. Ég sá t.d. lögguna í slag við skátaflokk, virtust vera mótmæli, og allt voða spennandi, blikkandi ljós og íslenski fáninn á fleygiferð, en Inga vildi meina að skátarnir væru bara í skrúðgöngu og löggan að liðka fyrir umferðinni. Mér finnst mín saga betri. Svo var haldið í Taco Bell sem er til húsa í KFC í Hafnarfirði, það vissi ég ekki. Inga valdi, enda vön, pantaði og borgaði sem var voða kósí. Virkilega góður matur og við drukkum fjalladrykk með.

Enn eitt ævintýriðÞað var ekkert lát á ævintýrunum. Á leiðinni í Taco Bell létum við þvo bílinn og fórum í gegnum nokkur æsispennandi stig á bílaþvottastöðinni. Skvettustigið, árásarstigið, bládraugaganginn, gardínustigið og í lokin Kjalarnes í hviðum-stigið.

Tók með mér Mary Higgins Clark-bókina til að lesa í strætó á heimleiðinni sem reyndist vera algjör óþarfi. Inga ákvað bara að skutlast á Skagann með teppin og kommóðuna og ég fékk að fylgja með, heilir tveir tímar í strætó frá Mosó ... sem hún vissi ekki, þannig að þetta voru bara helber almennilegheit hjá henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fjóla Æ.

Vá þvílík ævintýri sem þú hefur lent í í dag. Gott þú ert komin heim svo þú getir hringað þig niður í Lasygirl umvafin dúnmjúkum svarthvítum rósum, með svaka spennu í fanginu  og starandi á þennan hrikalega sexy Hermann.

Fjóla Æ., 3.11.2007 kl. 18:12

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Kommóðan er fyrir krydd elsku Gurrí mín. Þarna getur þú komið fyrir karríinu þínu, paprikunni og piparkornunum eða bara einhverju öðru sem þér finnst æðislegt.

Steingerður Steinarsdóttir, 3.11.2007 kl. 19:07

3 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Og ég sem var alveg viss um að hitta þig í Skrúðgarðinum í dag....

Guðrún Vala Elísdóttir, 3.11.2007 kl. 19:52

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ó, Guðrún Vala, ég ætla að mæta á þjóðahátíðina á morgun og kynnast allra þjóða kvikindum. 

Er þetta kryddkommóða, Steingerður almáttugur? En þornar kryddið ekki upp í svona hálfopnu dæmi? 

Ætla sko að eyða kvöldinu inni í rósóttu teppi, Fjóla. Við erfðaprins erum hreinlega ástfangin af teppunum okkar, föðmum þau án þess að skammast okkar. Ástin er á góðu verði í Rúmfatalagernum. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.11.2007 kl. 20:24

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe, er nýbúin að fjárfesta í teppum, algjör unaður að skrúfa sér upp í þau.  En þessi kommóða er æðisleg, ég myndi þó halda að Steingerður almáttugur væri aðeins of fljót á sér með kryddið, verður það ekki að vera í lokuðum umbúðum? Hm.. hvað veit ég svo sem.  Geymdu alla demantshringana í kommóðunni.

Smjúts á ykkur þarna í Himnaríki.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.11.2007 kl. 21:16

6 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

mig langar í svona kommóðu

Jóna Á. Gísladóttir, 3.11.2007 kl. 21:27

7 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Setja ískápinná Ebay --- örugglega verðmætur með allar þessar myndir á

Halldór Sigurðsson, 3.11.2007 kl. 21:36

8 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Ekkert smá flott kommóða en greinilega smekkmanneskja á ferð,knús til þín

Katrín Ósk Adamsdóttir, 3.11.2007 kl. 21:57

9 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Flott kommóða knús til þín

Kristín Katla Árnadóttir, 3.11.2007 kl. 22:21

10 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Vá, þessar skúffur!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.11.2007 kl. 22:24

11 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæl Guðríður, ég heiti Maggi, hef aldrei skrifað þér áður, er svo feimin!

en læt samt eins og ég hafi þekkt þig í ótal ár og finnist þú sannarlega vera svo skemmtileg!

Nú missti rænu og ráð,

af rosahlátri í bráð.

Í Gurrí er gríni sáð,

guðs af mestu náð!

Magnús Geir Guðmundsson, 3.11.2007 kl. 22:59

12 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Takk fyrir daðrið, Magnús, enn einu sinni. Vísurnar þínar klikka ekki ... heheheh

Ég ætla að geyma demantshringana mína í nýju kommóðunni (sem kostaði innan við 3.000 kall) ... hún er tóm en ég hlýt að fá einhverja hringa í afmælisgjöf næst ef ég "síkrita" það. ("Ég ætla að eignast demantshring eða eitthvað glitrandi og nógu lítið til að komast í skúffurnar") 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.11.2007 kl. 23:28

13 Smámynd: Saumakonan

gegguð kommóða!!!!    Þarf greinilega að komast í þessa nýju búð í næstu borgarferð  (eins fallegt að kallinn verði hvergi nærri þá)

Saumakonan, 3.11.2007 kl. 23:38

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Rétt hjá þér, Anna. Ekki áttaði ég mig á þessu, mjög athyglisvert. Stúlkan sem kallaði upp númerið okkar Ingu á Taco Bell sagði: "Number fifty four, number fifty four!" til að kóróna þetta allt saman ... þetta sem ég fattaði ekki fyrr en þú bentir á það. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.11.2007 kl. 23:58

15 identicon

Æðislega Flott míni-kommóðan En já það jafnast fátt við að vefja sig inn í mjúku teppin Frá RL Magasýn

Brynja www.blogg.central.is/skordal_1 (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 01:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 626
  • Frá upphafi: 1506025

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 512
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband