Af saltvondum saltara ...

Bankastræti í framtíðinniÆvintýrin héldu áfram í dag. Við Inga skruppum aðeins niður í bæ fyrir hádegi í dag og þegar við komum að Kaffitári var ekkert stæði laust nema stæðið fyrir fatlaða. Sammála um að leggja ekki þar fór Inga upp á gangstéttina hjá Sólon og skagaði EKKI út á götuna, enda á smábíl og gangstéttin akkúrat þarna er mjög breið. Þegar við Baltasar Kormákur gengum út úr Kaffitári með kaffimálin okkar sáum við að stór saltbíll kom upp Ingólfsstrætið og bjó sig undir að beygja niður Bankastrætið. Þrengsli voru þarna og greinilegt að hann þurfti að fara upp á gangstéttina til að geta beygt. Hann flautaði geðillskulega og Inga færði sig strax á stæðið fyrir fatlaða, enda beið ég á gangstéttinni hinum megin og var að koma. Inga var með opinn bílgluggann til að geta tekið við kaffinu sínu. Saltkarlinn skellti allt í einu græjunum á fullt, greinilega í þeim tilgangi að salta Ingu inn um bílgluggann. Inga sá við honum og lokaði í hvelli en við Baltasar fengum saltrigningu yfir okkur af miklum krafti. Ég skildi ekkert í þessum stingjum sem ég fann fyrir í fótunum. Svo snöggstoppaði saltmaðurinn fyrir utan Kaffitár, enda næstum búinn aka niður ungan mann á leið yfir götuna. Salti hafði ekki fylgst með neinu fyrir framan sig í tilraun sinni til að láta Ingu finna fyrir því að hafa verið fyrir honum. Hún var vissulega ólögleg þarna, þótt hún hefði fram að þessu ekki verið fyrir neinum, en hann ætlaði að fara ólöglega yfir gangstéttina sjálfur. Inga hló bara og ég brosti í gegnum tárin á meðan ég plokkaði saltkúlurnar úr lærunum. Smá vatn að auki og þá hefði þetta verið næring í æð.

very_windy-clipartVeðurspáin er ömurleg (dásamleg) fyrir morgundaginn. Föstudagar eru þeir dagar sem blaðið er lesið yfir og sent til prentsmiðju. Mögulega kemst ég í bæinn, ef veðrið verður ekki skollið á, en þá er líklegt að ég verði veðurteppt seinnipartinn. Æ, nenni ekki að hafa áhyggjur af þessu. Gott að erfðaprinsinn verður heima á morgun og getur hangið neðan úr þakinu svo að það fjúki ekki af.

Hlini, prinsinn hennar Ástu í bókasafninuHlini, prinsinn hennar Ástu í bókasafninu, konunnar sem gerði æsku mína dásamlega, sat við hliðina á mér í strætó á heimleiðinni. Hann tilkynnti mér reyndar í morgun úti á stoppistöð að hann hefði verið æskufélagi pabba úti á Flatey á Skjálfanda. Ég tjáði honum að mér fyndist það ótrúlegt, hann liti ekki út fyrir að vera 70 plús. Hann dæsti og varð sorgmæddur á svip, sagðist svo hafa lent í því að þurfa að sýna skilríki til að fá afslátt fyrir eldri borgara. Mikið er ég sammála honum, það er óþolandi þegar fólk heldur að maður sé yngri en maður er! 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Ég var söltuð svo hressilega úti á Granda kl 7 í gærmorgun þar sem ég í sakleysi mínu ók með rúðuna skrúfaða niður að ég þurfti ekki að borða meira fyrr en eftir hádegi. Bruddi salt klukkutímum saman. Sennilega hefur Salti verið þar á ferð líka !

Brynja Hjaltadóttir, 13.12.2007 kl. 20:01

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Flatey á Skjálfanda, þekkið ég kannski þitt fólk??? vona að rokið gangi ekki fram af ykkur í nótt.  Lognkveðjur frá Selfossi.

Ásdís Sigurðardóttir, 13.12.2007 kl. 20:20

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þú lifir spennandi lífi. Kemur bara til okkar ef þú dagar uppi, Hanna er að koma á morgun, svo það yrðu fagnaðarfundir, ekki satt?

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.12.2007 kl. 20:31

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

"Smá vatn að auki og þá hefði þetta verið næring í æð." Arg ég dey. 

Væri ekki ráð að skrifa metsölubók?  Um saltarann sko.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.12.2007 kl. 20:45

5 Smámynd: www.zordis.com

Þetta er með ólíkindum ákafur saltari!  En vona að þú náir góðu svingi í bænum og skellir þér bara í hitting hjá Önnu!

Næring í æð  ... hvað annað!

www.zordis.com, 13.12.2007 kl. 21:11

6 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Knús  á þig Gurrí mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 13.12.2007 kl. 21:27

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ungversku baðbomburnar og óróinn sem ég keypti í Santa Fe bíða þín ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.12.2007 kl. 21:32

8 identicon

Æ elsku, viltu vera svo væn að skella inn slóðinni á mögnuðu veðursíðuna þína.  Google hæfileikar mína virðast ekki vera nógu góðir til að finna almennilega veðursíðu.

Valdís (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 22:23

9 identicon

hæfileikar mínir átti þetta auðvitað að vera;)

Valdís (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 22:25

10 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Ég þakka mínu sæla fyrir að búa hérna á Skáni.

Vilhelmina af Ugglas, 13.12.2007 kl. 22:30

11 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Magnaða veðursíðan er með slóðina: www.yr.no Svo skellir þú inn þeim stað sem þú vilt vita allt um veðrið á: Þórshöfn, Reyðarfjörður, Akranes osfrv. Efst koma þrír næstu dagar og mismunandi tímar hvers dags, við hliðina kemur stórt kort af Vesturlandi sem sýnir regnið. Neðar er spá viku fram í tímann. Snilldarsíða, ekki kannski mjög örugg langt fram í tímann en samt skemmtileg. Sýnist að skv. síðunni komist ég ekki í vinnuna í fyrramálið ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 13.12.2007 kl. 23:31

12 identicon

Takk kærlega fyrir:) Þú klikkar ekki...

Valdís (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 23:40

13 identicon

Virðing þín fyrir Bílastæðum fatlaðra er til fyrirmyndar  .Færslunar þínar eru altaf skemmtilegar. Eitthvað svo fjölskylduvænar!

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 08:57

14 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Góða dag það er kolbrjálað veður í núna ég vona að þú sért heima.

Kristín Katla Árnadóttir, 14.12.2007 kl. 09:59

15 identicon

Mér blöskrar þessi færsla.  Að einhver kelling sem ætlar á kaffihús og leggur kolólöglega nánast hrósi sér af því.   Og að hún kvarti yfir slæmri framkomu manns sem er að vinna að öryggi vegfaranda þegar hann getur ekki haldið sinni vinnu áfram vegna asnaskapar annarra.  Hvernig var það.  Gátuð þið ekki gengið frá löglegu bílastæði að þessu kaffihúsi?   Hér er greinilega dæmi um fádæma dónaskap.  En ekki af hálfu bílstjórans á saltbílnum.  Heldur af hálfu bílstjórans sem leggur uppi á gangstétt þannig að bíllinn er fyrir gangandi vegfarendum og líka stórum bílum sem hugsanlega þurfa að komast þarna um,  greinilega við þröngar aðstæður.  Og svo dónaskapur gagnvart þeim starfsmanni sem var að salta götuna.   Mér finnst að þú,  Guðríður ættir að nota næstu færslu til að biðjast afsökunar á þessu.  

Steinar Frímannsson (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 10:30

16 Smámynd: Þröstur Unnar

Steini minn, er hvasst hjá þér?

Þröstur Unnar, 14.12.2007 kl. 10:50

17 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Steinar minn, ekki æsa þig svona, það var akkúrat svona æsingur sem olli því að saltarinn var næstum því búinn að keyra á manninn. Inga sat í bílnum, bíllinn var í gangi og hún var ekki fyrir neinum. Það var vont  veður og mér var illt í bakinu, þess vegna vildi hún komast eins nálægt að hægt var. Gangstéttin er þreföld þarna, það hefði samt nægt þeim saltvonda að flauta og biðja hana að færa sig, ekki hefna sín með saltaustri yfir okkur sem vorum óvart þarna. Áhersla mín var á geðillskuna og hefnigirnina í honum, ekki hrós á Ingu fyrir að leggja ólöglega. Mér fannst reyndar flott hjá henni að leggja frekar þarna en fara í stæðið fyrir fatlaða eins og ég hef séð marga gera og það hlýtur að vera óþolandi fyrir fatlaðan einstakling.

Vona að dagurinn verði góður hjá þér, Steinar minn, eða hvað sem þú heitir.  

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.12.2007 kl. 11:45

18 identicon

Að mínu viti hefði nú verið gáfulegra að leggja í stæðið fyrir fatlaða, úr því hún ætlaði ekki að fara úr bílnum. Líkurnar á að einhver þurfi að fara eftir gangstéttinni eru miklu meiri en líkurnar á að einhver þurfi að nota bílastæði fyrir fatlaða, á þeim stutta tíma sem þið voruð að kaffivesenast þetta. En meginmálið er samt að allir eiga að muna eftir að vera góðir hverjir við aðra, líta í eigin barm og hugsa: hvernig vil ég láta koma fram við mig?

Tóti (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 11:57

19 identicon

Halló!   Bílstjórinn sat undir stýri, vél ökutækisins í gangi og ekkert mál að færa sig ef þess gerðist þörf!  Saltinn var sennilega bara í vondu skapi þessa stundina og lét það bitna á meðborgurum sínum.   Ég lít oft á  síðuna  þína og þakka fyrir skemmtilega pistla og bið að heilsa köttunum.  Kettirnir mínir biðja líka fyrir kveðju!

Auður (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 14:39

20 identicon

Oooo - enn eitt ofurmennið, SALTMANN.

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 15:51

21 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hhahaha, Saltmann, frábært ofurmenni. Snilld!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.12.2007 kl. 16:42

22 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Ja hérna...bara hiti í mönnum. Sennilega vinna þeir við að salta. Að fólk skuli nenna að vera að ergja sig á annars skemmtilegum bloggfærslum. Ég er svo aldeilis steinhissa. Eða eins og einhver sagði...steinhlussa

Brynja Hjaltadóttir, 14.12.2007 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 19
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 643
  • Frá upphafi: 1506042

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 528
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband