Dulbúið kristniboð í spennumynd? Read all about it!

I am legendVið erfðaprins fórum í gær á myndina I am legend. Hún var að mörgu leyti góð og spennandi en undirtónninn, kannski öllu heldur boðskapurinn, truflaði mig heilmikið. Hann varaði við að fólk skipti sér um of af „sköpunarverkinu“. Kristileg samtök hafa líklega styrkt gerð myndarinnar. Læknir nokkur fann lækningu við krabbameini með því að breyta mislingaveirunni ... veiran stökkbreyttist með geigvænlegum afleiðingum; næstum útrýmingu mannkyns. Í lok myndarinnar opnast stórt hlið og það fyrsta sem sést er falleg og friðsæl kirkja inni í miðju afgirtu þorpi sem er eflaust fullt af vingjarnlega, trúuðu fólki. Þarna væri vonin, þarna var hið sanna bjargræði fólgið ... arggggg! Æ, af hverju fá áhorfendur ekki að draga sínar eigin ályktanir, af hverju á að troða inn í okkur svona boðskap, dulbúnum í vel leikinni spennumynd? Ef ekki væri fyrir læknavísindin og „fikt“ þeirra værum við enn að deyja úr lungnabólgu, berklum, svartadauða, bólusótt ... og það héti guðsvilji.

GlansmyndMér líður reyndar afskaplega vel í kirkju, þegar ég á erindi þangað, finnst gaman að hlusta á góðan prest og uppáhaldstónlistin mín er háklassísk kirkjutónlist ... en ég er farin að óttast þessa þróun sem er t.d. mjög áberandi í Bandaríkjunum. Meira að segja Gyllti áttavitinn, sú frábæra ævintýramynd, var dæmd óguðleg (eins og Harry Potter) og þótti svakatrúuðum ástæða til að vara fólk við henni. Aðvörunin þýddi minni aðsókn frumsýningarhelgina og það getur kostað að ekki verði gerðar framhaldsmyndir eftir bókum II og III. Öll þessi læti í heiminum, á Íslandi og á blogginu hafa sannfært mig um að best væri að fá trúarbragðakennslu í skólana, og að kenna þyrfti börnum heimspeki, víðsýni og umburðarlyndi. Agaleysi er það sem amar að flestum íslenskum börnum, ekki skortur á meiri kristinfræðslu. Það gerði mér a.m.k. ekki gott að hafa ofsatrúarmann sem umsjónarkennara í gamla daga, frekar hið gagnstæða.
Ekki sammálaTil eru kristileg samtök, t.d. KFUM og KFUK, sem stunda trúboð allan ársins hring fyrir börn. Foreldrum er í lófa lagið að senda börn sín á samkomur hjá þeim. Í æsku fannst mér hún Kristrún í Frón (KFUK) miklu ljúfari en nokkurn tíma þeir kennarar/prestar sem kenndu mér kristinfræði í skólanum og svo gaf hún okkur alltaf flottar glansmyndir.

Ja, hérna. Þetta átti sko ekki að vera kristileg færsla ... hvað þá ókristileg. Ég nenni yfirleitt ekki að taka þátt í heitustu umræðunum, fleygja þar fram frábærum skoðunum mínum og uppskera ekkert nema vanþakklæti ... en ég flissa þó oft yfir kommentum frá sumu fólki sem segir með ýmsum tilbrigðum á bloggsíðum fólks: „Skoðun þín er ekki rétt, þú átt að hafa sömu skoðun og ég!“ Jamm, ég elska bloggið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skoðun þín er röng, en ég elska þig samt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.1.2008 kl. 16:33

2 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

alveg sammála henni Jenný, MÍN skoðun, hver svo sem hún er, er RÉTT

Guðrún Jóhannesdóttir, 5.1.2008 kl. 16:37

3 identicon

Langmest af bíó og sjóvarpsefni kennir ómeðvitað, að trú sé atriði í lífinu sem hafi lítið með velgengni að gera . Við trúaðir höfum áhyggjur af þessari þróun, en erum stimplaðir ofsa eða öfgatrúar er við förum eitthvað að kvarta yfir því .

En á sama tíma eykst útúrbrenglað sjónvarpsefni er beint er að viðkvæmum unglingum, og öllum virðist slétt sama . Farið niður í miðbæ um helgar, og sjáið hvernig þetta framkallast í hegðun ungdómsins .

conwoy (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 16:37

4 Smámynd: Ragnheiður

Ég er skoðanalaus auli oftast en mér leiðast bæði besserwisserar og innrætingameistarar....

Mér leiðast hinsvegar ekki mínir kæru bloggvinir

Ragnheiður , 5.1.2008 kl. 16:43

5 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Öfga- og ofsatrúaðir skemma fyrir kristninni og það er kjánalegt að stimpla allt kristið fólk sem öfgafólk ... en slíkt hafa einmitt múslimar þurft að þola. Hún Shabana, vinkona mín, er ein kærleiksríkasta manneskja sem ég þekki.  Ég á líka trúaða vini og kunningja sem eru fjarri því að vera með nokkra öfga.

Hjartanlega sammála þér Conwoy með unglingana, klám- og ofbeldisvæðingin síðustu árin (í nafni frelsis) hefur ekki haft góð áhrif.

Jenný og Guðrún: Ég elska ykkur samt þótt ÞIÐ hafið kolrangar skoðanir! Hehhehe 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.1.2008 kl. 17:09

6 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Já, og þig líka Ragga mín, þótt þú sért skoðanalaus.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.1.2008 kl. 17:10

7 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég fór á þessa umtöluðu mynd, en eitthvað hlýt ég að hafa verið út á þekju; það hvarflaði ekki að mér að myndin væri dulbúið kristniboð, ekki eitt augnablik, ekki einu sinni þegar ég sá kirkjuna í lokinn.

Þótt ég hafi skemmt mér svo sem ágætlega á myndinni fannst mér frekar vanta meiri hugsun í söguþráðinn, hvað þá að hann væri svo eins margslungin eins og þú lýsir.

Þetta var bara spennumynd og leikstjórinn og handritshöfundar eyddu alltof miklum kröftum í að bregða áhorfendum í brún; láta þá hrökkva í kút, en of litlum tíma í að svara ýmsum spurningum sem óneitanlega hljóta að vakna við þessar aðstæður, að vera einn í New York eða annarsstaðar í heiminum þar sem annað fólk hefur breyst í skrímsli!

En skrímslin voru of ýkt, hreyfingar þeirra út í hött. Sjúkdómar auka sjaldnast hreyfigetu fólks, hvað þá að það gæti hlaupið á 100 km hraða, stokkið margfalt lengra en nokkur núlifandi vera og þolir ekki einu sinni smá ræmu af sólarljósi!

Auk þess hafa verið gerðar ótal myndir þar sem fikt vísindamanna hefur vondar afleiðingar. Dæmi: Júrasik park, Frankeinstein og allskonar veirumyndir. Listinn er langur en það hefur ekkert með gagnrýni á vísindin að gera, það er aðeins verið að skapa hrollvekjandi aðstæður til að skemmta okkur í bíó.

Allar hrollvekjur skírskota til trúar, guðs eða einhvers sem fólk kannast við.

Þannig er myrkfælni og allskonar hjátrú fólks einmitt notuð í hrollvekjum til að ýta undir hræðslu og flestir tengja það illa við myrkur. Allir hafa fundið fyrir myrkfælni og skilja því að skrímslin sem við ímynduðum okkur sem börn að væru undir rúminu þegar við fórum að sofa, þyldu ekki sólarljósið, enda voru þau alltaf horfin þegar sólin kom upp.

Benedikt Halldórsson, 6.1.2008 kl. 04:57

8 identicon

Við erum sammála um flest, einna helst er það að líða vel í kirkjum, mér svoleiðis hrútleiðist og fíla mig eins og voodoo doctor eða eitthvað álíka :)

DoctorE (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 15:17

9 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég söng í svo skemmtilegum kirkjukór ... Kór Langholtskirkju. Það voru skemmtileg ár. Svo var mamma í Kirkjukór Akraness í mörg ár og þegar ég var krakki fór ég oft með henni á tónleika í kirkjunni, mjög yndislegt. Fer samt ekki ofan af því að þetta skemmdi fyrir mér myndina, fannst einmitt verið að lauma öfgakristni inn í hana.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.1.2008 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 619
  • Frá upphafi: 1506064

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 509
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband