Tilraunir, vídjó, annir, heimför og bold ...

Tilraunir í matsalnumSkelfilegt að rúmur sólarhringur hafi liðið án bloggs um m.a. það hvað maturinn í mötuneytinu í hádeginu í gær var vondur! „Ó, er þetta buff?“ spurði maðurinn fyrir framan mig í biðröðinni. „Nei, þetta er ýsa,“ svaraði Anna glaðlega. Þetta reyndist rétt, en ýsan var marineruð í indverskum kryddlegi og var dökkblágræn á litinn ... í gegn. Hefði alveg getað verið frumlegt buff. Ég fann ekkert indverskt kryddbragð þegar ég reyndi að borða brimsaltan fiskinn. Fólk hneig niður í hrönnum í matsalnum, eða hefði gert ef það byggi ekki yfir svona mikilli sjálfsstjórn eftir ýmsar tilraunir í mötuneytinu. Það var því gaman að sjá afsakandi svipinn á kokkunum í dag þegar þeir reyndu að öðlast fyrirgefningu okkar með því að vera með lambalæri og ísblóm í eftirrétt.

Gagnkynhneigðir slökkviliðsmennGærkvöldið var annasamt en þá var þrennt á listanum við heimkomu: 1. klára tvær greinar, 2. fara í snöggt bað, 3. horfa á eina til tvær spólur til að skrifa um (DVD). Fyrir valinu varð 1. ágætis Medion-tölva með flatskjá, 2. blá freyðibaðsbomba frá lush, 3. I now pronounce you Chuck and Larry. Til öryggis var ég með aðra mynd því að ég bjóst ekki við miklu af grínmynd um gagnkynhneigða menn sem leika hommapar. Mér til mikillar undrunar grenjaði ég nokkrum sinnum úr hlátri og hefði jafnvel þurft að stoppa myndina stöku sinnum til að missa ekki af neinu. Ekki misskilja mig samt, þetta er hálfgerð bullmynd en á köflum komu ansi góðir brandarar sem kitluðu hláturtaugar okkar erfðaprinsins alveg hrikalega mikið. Vinkona hommanna spurði annan þeirra hvernig hann lokkaði hinn (þann feitlagna) í rúmið. „Það er ekki mikið mál,“ sagði Adam Sandler, „ég legg bara pítsu á rúmið og þá kemur hann hlaupandi!“ (já, feitabollubrandarar líka).

Bíllinn hennar Erlu vakti eftirtekt á KjalarnesiÁ mínútunni fimm í dag gekk ég virðulega út úr fyrirtækinu, fór yfir bílaplanið og gekk inn hjá Sko. Þar var elskan hún Erla (bæjarstjóradóttir) að slökkva á tölvunni sinni og gera sig tilbúna í heimferð á Skagann. Ég færði henni smáræði úr ávaxtadeild mötuneytisins, eða appelsínusúkkulaði, við mikinn fögnuð hennar. Þetta mauluðum við á leiðinni og nutum hverrar mínútu. Svo var það latte í himnaríki, boldið og bloggið ... og verðskuldað helgarfrí. 

Hingað og ekki lengra, sumir bloggvinir. Sá aðeins boldið í gær og þar grét Bridget af söknuði þar sem hún má horfa upp á barnið sitt í fangi réttu móðurinnar sem lifnaði við í sjúkrabílnum. Felicia er á einhverju flippi og er með stífan hanakamb, missti af því hvernig henni datt það í hug, sá síðast að hún bað móður sína að klippa af sér hárið þar sem hún var að missa það vegna lyfjanna. Brooke tilheyrir Ridge ...Hún vill helst láta barnið sofa í sjúkrarúminu hjá sér en dokksi bannar það. Jackie er enn í fangelsinu og Massimo gerði henni ljóst að ef hún reyndi ekki að hafa áhrif á Nick, son þeirra, svo hann hætti við Brooke sem á að vera gift Ridge, syni hans, þá mun hún sitja inni í 25 ár. Nick og Brooke ætla ekki að láta kúga sig til að hætta saman. Í dag: „Ég hélt að þú ætlaðir að gera eitthvað í þessu,“ sagði Ridge beiskur við pabba sinn. Þeir sjá Nick og Brooke í faðmlögum í dómshúsinu. „Það ríkir stríð í fjölskyldunni vegna konu sem tilheyrir Ridge,“ sagði Massimo við Jackie sem var að koma út úr lyftunni í handjárnum, ótrúlega vel útlítandi eftir nótt í fangaklefa.
Bridget talar eitthvað um sleepover Dinos litla en blóðmóðir hans, Felicia, ekki lengur með kamb, kallar hann Dominic og segir að nú búi barnið hjá sér ... á sjúkrastofunni! Læknirinn ungi og huggulegi, bróðir Hectors slökkviliðsmanns, daðrar á fullu við Feliciu og talar líka skynsamlega um þá ást sem Bridget ber eflaust til barnsins. Er búin að fatta þetta. Hann langar í Feliciu en ekki krakkagrisling í kaupbæti! Svona er boldið í dag!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hæ yndið mitt, var ekkert smá farin að sakna þín og bloggsins.  Smekkleg hún Brooke, í eins topp og jeg á. Hvernig datt nokkrum í hug að bjóða upp á græna ýsu, menn hafa nú verið reknir fyrir minna.   Hafðu það gott um helgina í himnaríki og látt þér líða vel, inni í snjónum.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.1.2008 kl. 19:28

2 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Að venju flottur pistill! Hafði gaman af alveg þar til að stóð ,,hingað og ekki lengra'' þá passaði að hætta lestri.

Feitletruð kveðja úr Kópavoginum

Kjartan Pálmarsson, 18.1.2008 kl. 19:29

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hafðu það líka gott um helgina, Ásdís, ég held að það komi brim á morgun! Jess, loksins!!!

Setti varúðarmerkið bara fyrir þig, Kjartan minn.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 18.1.2008 kl. 19:33

4 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Æ TAKK!

Þú ert svo einstök að ég fer að ,,bolda'' feitletra þig á bloggvinalistanum mínum

Kjartan Pálmarsson, 18.1.2008 kl. 19:58

5 Smámynd: Þröstur Unnar

Sko ekkert daður hér Guðríður við eitthvað utanbæjarlið!

Var búinn með helminginn af Feit og Fögur þegar ég fattaði varúðina.

Þröstur Unnar, 18.1.2008 kl. 20:07

6 identicon

Sá loksins þátt í dag. Þó að ég hafi ekki séð þátt í langan tíma þá er eins og ég hafi horft á þátt í gær

Bryndís R (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 20:27

7 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ertu ekki að djóka með fiskinn, gat einhver komið þessu niður? Annars dauðlangar mig í bílaskóinn þarna til vinstri, sé mig alveg í anda rúntandi með húsband í norðan garra og frosti Góða helgi....í himnaríki...

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 18.1.2008 kl. 21:21

8 identicon

Er ég að verða vitlaus eða er andlit í fiskinum? Sér þetta einhver annar? Merkilegt.

Gúrrí, tékkaru ekkert á póstinum þínum? Hef ekkert heyrt í þér.

Lalla (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 21:37

9 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Feit og Fögur...  Gurrí mín hafðu það gott í verðskulduðu helgarfríi.

Jóna Á. Gísladóttir, 18.1.2008 kl. 21:40

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það ER andlit í fiskinum, líklega fýlulegur indíáni að leika trúð. Svo er líka mjaðmamikil kona þarna sem styður handlegg á mjöðm og heldur undir annað brjóstið með hinni. Þetta er snilldarlega samansett hjá Gurrí, óvart eða ekki óvart, og vísar í tvær nýlegar fréttir - um brjóstabínur í sundi og trúða sem hrella börn.

Tær snilld.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.1.2008 kl. 21:41

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég er búin að endurskoða hugtakið "afkastageta" og lýsingarorðið "afkastamikill". Hélt ég væri það. EN, alas: Eftir empirískar stúdíur á bloggfærslum þínum, hef ég komist að raun um hvað þessi hugtök/orð innibera. Sic transit gloria mundi - hjá mér.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 18.1.2008 kl. 21:52

12 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Gott að geta treyst á hana Erlu mína Gísla en: fjólublár fiskur passar eitthvað svo vel inn í þessa færslu með boldið, hvorutveggja ótrúlegt

Góða helgi kæra Gurrí 

Guðrún Jóhannesdóttir, 18.1.2008 kl. 22:53

13 Smámynd: Steingrímur Helgason

Lambalæri með ísblómi í eftirrétt ?

Áhugavert, fersk nýjúng, dáldið 'bold'

Medion, viljandi ?

Steingrímur Helgason, 18.1.2008 kl. 23:05

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jammms, Anna fer í skóla. Örugglega í kjarneðlisfræði, ekkert minna hæfir konu sem man nöfn allra þeirra sem kaupa mat í mötuneytinu, hvort sem þeir eru hjá Birtíngi, Saga film, DV, Sko, Stöð 2 og fleirum sem rúlla þarna í gegn. Held samt að hún ætli í skrifstofunám. Mikið verður sá heppinn sem fær hana í vinnu til sín.

Já, Steingrímur, uppstúfið var búið og við fengum ísblóm út á lærið, það var ... athyglisvert! 

Og góða helgi allir, ætla samt að reyna að blogga eitthvað um helgina, það gengur ekki þessi leti. Horfi reyndar stjörf á Wallander!  

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 18.1.2008 kl. 23:28

15 identicon

BOLD------------------------------HOLD---------------------------------MOLD-----búið.

jensen (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 23:44

16 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

>Takk fyrir boldið frú Guðríður

Brynja Hjaltadóttir, 19.1.2008 kl. 00:28

17 Smámynd: Rebbý

já - er hann bróðir Hectors - fannst hann nefnilega svo krúttlegur læknirinn þegar ég sá hann fyrir einhverjum vikum vera að horfa á myndirnar af  Felicity
vá hvað maður getur verið brenglaður og setið yfir misgóðu sjónvarpsefni.
Chuck and Larry aftur á móti voru alveg ágætir eins og þú segir enda flottir gamanleikarar á ferð.
eigðu góða helgi

Rebbý, 19.1.2008 kl. 12:39

18 identicon

Ekki er ég hissa á því að þú hefðir ekki list á ýsunni,þegar ég sá bloggið þitt um ýsuna þá leit ég á myndina,og það eina sem ég sé,er gamall ljótur kall,hann er svo ógeðslegur á svipinn.

Margret (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 14:51

19 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Alltaf þega maður heldur að boldið geti ekki orðið asnalegra, þá toppar það sjálft sig. Ég sá þetta áðan.. no comment!

...þetta með matinn minnir mig á atvik sem tengist spítalamat. Á matseðlinum stóð "indverskur grænmetisréttur" en á diskinum var ofsoðið gulleitt og bragðlaust grænmeti sem augljóslega hafði á einhverjum tímapunkti verið fryst og ofsoðin hrísgrjón. Öllu má nú nafn gefa! 

Laufey Ólafsdóttir, 19.1.2008 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 25
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 659
  • Frá upphafi: 1506012

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 533
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband