Svefnsýki, Monkmissir og draugagangur á unisex-klósettinu

Strætó í morgunÉg skellti mér í sætið beint fyrir aftan Gumma bílstjóra í morgun og reyndi að dorma þrátt fyrir fyrir óvenjugóðan nætursvefn. Sigþóra og pólsk vinkona hennar, hinum megin við ganginn, hlógu svo mikið og Gummi var með útvarpið svo hátt stillt að það reyndist illframkvæmanlegt. Samt allt í lagi, bara kósí. Í leið 15 í Mosó settist Sigþóra hjá mér og sagðist m.a. hafa hitt Tomma bílstjóra í gær, hressan og kátan, alsælan með nýju vinnuna í BYKO. Sigþóra hoppaði svo út við Vesturlandsveginn og tókst snilldarlega að fikra sig niður háan og stórvarasaman vegkantinn án þess að kollsteypast. Þetta er ömurlegasta stoppistöð sem ég veit um, hættuleg og fáránlega staðsett. Nokkur hundruð metrum nær Ártúni og þá væri hún strax skárri.

MonkVið erfðaprins steinsváfum bæði yfir Monk í gærkvöldi, því eina sem við ætluðum virkilega að horfa á í gær, og vitum því ekki hver morðingi rapparans var. Fór óvenjusnemma í bólið og tókst að ljúka við Falskan fugl, bókina hans Mikaels Torfasonar. Ég missti af henni þegar hún kom út á sínum tíma, enda seldist hún upp. Skil vel að þessi bók hafi vakið athygli þegar hún kom út, hún er djörf og tæpitungulaus ... og bara ferlega góð! Ég las Heimsins heimskasta pabba eftir Mikael fyrir nokkrum misserum og háskældi yfir henni, þurfti hreinlega lak til að þurrka tárin í! Svakalega góð.

Unisex WCÉg hef ekki opinberað það áður en salernið í vinnunni er svona UNISEX, eða fyrir bæði kynin, ekkert ólíkt því sem var í Ally McBeal-þáttunum, nema án spennandi atburða og uppákoma ... held ég. Fólk gætir þess að pissa bara pent í þessari miklu nálægð við hitt kynið og fær með tímanum hægðatregðu og gyllinæð, nema kannski mestu dónarnir. Við Illugi Jökulsson hittumst  fyrir framan við vaskana í morgun og buðum hvort Ally McBeal-þættirniröðru góðan dag. „Eigið þér þennan síma?“ spurði hann síðan, afar kurteislega, en gemsi lá á vaskaborðinu. „Nei,“ sagði ég. Sko, svona meinlausar  uppákomur, skiljið þið! 

Það er reyndar hevvví draugagangur á unisex-wc-inu. Ilmsprei hanga á vegg inni á öllum fjórum klefunum og þarf að ýta á takka til að ilmurinn sprautist út í loftið. Í einum klefanum spreiast stundum sjálfkrafa. Ég hef tvisvar lent í að heyra í kvikindinu út úr tómum klefanum. Samstarfsfólki mínu finnst þetta ekkert spennandi og enginn áhugi yfirmanna er fyrir því að fá draugabana á staðinn. Ég verð líklega að gera þetta sjálf. Notar maður ekki  annars kross og vígt vatn við særingar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki er verra að Gunnar Þorsteinson, kenndur við Krossinn, sé með í för!  

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 13:56

2 Smámynd: Fjóla Æ.

Ég las líka einhvern tímann að það væri nauðsynlegt að hafa hvítlauk og silfurkúlur með í vopnalistanum.

Var það kannski í baráttunni við vampýrur? Það sakar varla að hafa það með, svona ef ...

Fjóla Æ., 28.4.2008 kl. 14:27

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég mæti með Gunnar, hvítlauk og silfurkúlur, betra að hafa of mikið í farteskinu en of lítið ... múahahhaha

Vona, Einar, að Monk verði endurtekinn, það eiginlega hlýtur að vera! Best að skamma strætó fyrir þessa ábyggilega ólöglegu stoppistöð.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 28.4.2008 kl. 14:46

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er að drepast úr forvitni yfir Fuglinum hans Mikaels.  Er hún rosa djúsí?  Hvar var ég eiginlega þegar hún kom út 1994?  Örgla í óminni.

Knús og takk, takk, takk og þúsund sinnum takk

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.4.2008 kl. 15:13

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Segi það nú....bara færa stoppistöðina á öruggari stað. Hvað eru menn að hugsa??? Þarf ferlið alltaf að vera einhvernveginn svona...einhver bendir á slysahættu..aftur og aftur og aftur og Gurrí bloggar eins og óð um óðubrekku en ekkert gerist. Einhver dettur og meiðir sig í brekkunni..annar dettur og meiðir sig meira í brekkunni..enn annar dettur og hálsbrotnar í brekkunni..meira bloggað og fleiri ábendingar um stórhættulegu brekkuna. Menn segja..já þurfum að athuga þetta. Gurrí dettur og tognar á hnénu í brekkunni. Bloggar um það og það kemur viðtal í Vikunni um hættulegu brekkuna og þá verður sett upp skilti  við brekkuna. Varúð.Brött brekka.

Svo heldur strætó áfram að stoppa við Óðubrekku alveg við skiltið sem á stendur. Varúð. Brött brekka.

Ísland í hnotskurn.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.4.2008 kl. 15:20

6 identicon

Er sammála um það að þessi stoppistöð er á óheppilegum stað, ætli það þurfi ekki að verða alvarlegt slys til að eitthvað verði gert í málunum.

Ef fólk hringir í strætó eða þetta kemur í fjölmiðlum að þá er möguleiki á að þessu verði breytt, annars verðum við að bíða eftir hálsbroti.

Einn þreyttur 

Farþegi Strætó (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 15:36

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Best að hringja í Strætó bs á morgun, þeir eru alltaf svo almennilegir og vilja án efa ekki nein beinbrot á farþegunum. Snilli Sigþóru í morgun var rosaleg, hvernig hún fetaði sig af öryggi niður sleipt grasið á vegkantinum. Hún hefur samt oft rúllað þarna niður .... og er frábært efni í áhættuleikara, svona ef hún verður leið í Rekstrarvörum.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 28.4.2008 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 56
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 694
  • Frá upphafi: 1505985

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 558
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband