Mistök í skóbúð og býfuglar í heimsókn

Vinna vinna vinnaStundum þegar ég er í biluðu vinnustuði heima á þriðjudögum þá langar mig mest til að afpanta tímann í sjúkraþjálfun og halda áfram vinnunni. Sem betur fer hef ég aldrei fallið í þá freistni, það er nefnilega fínt að skera aðeins sundur daginn, ég sit mun meira við hér heima en í vinnunni, þar stendur maður þó upp annað slagið; sækja kaffi, sódavatn, fara í mat, sækja úr prentaranum og svona, en hér heima líða kannski klukkutímar á milli.

skechersÁkvað að fá mér holla og góða súpu á Skrúðgarðinum eftir sjúkró og hitti aðeins Ástu mína, sem ég sé örsjaldan. Gæti breyst með haustinu þegar hún fer að vinna aftur. „Sjáðu fínu, nýju skóna mína!“ sagði ég grobbin. „Nú verður gaman að fara í gönguferðir,“ bætti ég við enn grobbnari. „Keyptir þú þá hjá Nínu?“ spurði Ásta. Ég sagði svo vera og þá sagði Ásta: „Þú gerir þér vonandi grein fyrir því að þetta eru unglingaskór?“ „Votttt?“ argaði ég upp yfir mig, „loksins þegar ég dríf í að kaupa skó þá gleymi ég að biðja um kerlingaskó, hvað er að mér?“ Við erfðaprins eftir nokkur árÁsta reyndi að hughreysta mig og sagði að ég væri bara svona ung í anda. Ég veit að hún meinti óþroskuð en hún er allt of vel upp alin til að segja slíkt. Þegar ég klagaði í erfðaprinsinn þegar hann sótti mig varð hann sótrauður af bræði og sagði að þetta væru bara venjulegir svartir Skechers- íþróttaskór, meira að segja þrælflottir (sem sannar kannski orð Ástu). Hann passar sko upp á móður sína og er einstaklega langrækinn fyrir hennar hönd. Ásta á von á góðu þegar hún kemur næst í heimsókn ... Nei, djók, hann er ekki alveg svona slæmur og veit að ég var að grínast þegar ég klagaði Ástu. Maður er sko passaður hér í himnaríki. Ef birtist t.d. sölumaður stendur hann við hlið mér, grimmdarlegur á svip, og gætir þess að vonda fólkið plati mig ekki. Ég þarf alltaf að kasta bolta eða súkkulaðistykki inn í stofu til að losna við hann svo ég geti fengið kaupfíkn minni svalað.

Við EllýÁ leið í Skrúðgarðinn kallaði Ellý til mín en hún var að gera fínt á veröndinni hjá sér. Hún býr mitt á milli sjúkraþjálfunarinnar og Skrúðgarðsins. Ég kíkti eitt augnablik inn í húsið hennar, langt síðan ég hef komið, og það er geðveikislega, klikkaðislega flott. Hún kann listina við að búa til mikið úr litlu og getur t.d. látið hræódýra hluti úr Rúmfatalagernum líta út fyrir að hafa verið keyptir í Habitat ...

B�flugaBýfugladrottning sveimar fyrir utan himnaríki núna og reynir að komast inn svo að hún geti gert sér bú hérna og búið til milljón aðra býfugla. Mér finnst þessi kvikindi voða krúttleg ... í teiknimyndum. Erling skordýrafræðingur sagði mér einu sinni að ef ég vildi losna við sambýli með geitungum og býflugum ætti ég að búa við sjóinn. Nú, ég gerði það nokkrum árum síðar, flúði fokkings trén og blómin en allt kemur fyrir ekki. Fengu sumir skordýrafræðingar prófskírteini á kornflakespakka?

Beiskja dagsins var í boði frú Guðríðar ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Unglinaskór?? vissi ekki að þeir byggju til skó úr unglingum.  Þú ert flott á svona skóm stelpa  You Go Girl

Ásdís Sigurðardóttir, 13.5.2008 kl. 16:00

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Arg.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.5.2008 kl. 16:19

3 Smámynd: Ragnheiður

Ó ég finn til með yður frú. Ég fór í garð áðan og ætlaði að hafa það næs þar á stól með hvuttum. Í garðinum var heilmikill hávaði og ég endaði með að hypja mig inn aftur. Hvuttar horfðu hinsvegar í forundran á þessar hlussur suðandi um allt.

Þessi kvikindi eiga ekkert að geta flogið, svona feitar á smávængjastubbum en það hefur alveg gleymst að segja þeim það og þær fljúga bara samt.

Það vill til að þær eru meinlausar, nú, nema þær fljúgi á mann og hrindi manni svoleiðis..!

Ragnheiður , 13.5.2008 kl. 16:54

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Eru þetta svona skór með hjól undir hælunum? Svaka held ég sé gaman að þeim.

Fagnaðu degi með hungangsflugunum. Þær eru fallegar. Verra með helvítis geitungana.  Þá grípur frú Guðríður bara eiturspreyið!

Sigurður Hreiðar, 13.5.2008 kl. 17:05

5 Smámynd: Vera Knútsdóttir

Býflugnasagan minnir mig á þegar ég var að læra um daginn í sakleysi mínu inni í herbergi, ákveð að fara í eldhúsið og fá mér vatnsglas og á leiðinni er mér litið í stofugluggann, þar er risa stór vespa suðandi í glugganum að reyna að komast út. Ég var fljót inn í herbergi aftur og lokaði hurðinni, þegar ég loks hætti mér út úr herberginu gerði ég heljarinnar leit um alla íbúðina að kvikindinu þar sem að það var ekki í glugganum en fann ekki neitt FJÚFF! Þetta var algjört neyðarástand! Ég er farin að geta brugðist aðeins rólegar við að sjá þessi kvikindi, þetta er út um allt hérna í Vín! Vertu bara fegin að það er þó ekki svo mikið af þessu á klakanum

Vera Knútsdóttir, 13.5.2008 kl. 17:33

6 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sem stundum fyrr er mér spurn. Hver er þessi frú Guðríður eiginlega?

Nema hvað, í Himnaríkinu er bara pláss fyrir eina drottningu svo eins gott að "sú minni" komst ekki inn. En ætli sé ekki eitthvað um gróður innandyra fyrst sú smáa vill komast inn.

Ertu gróðursæl fröken Guðríður?

Magnús Geir Guðmundsson, 13.5.2008 kl. 18:06

7 identicon

Geðveikt flottir skór langar ekkert smá i  svona Skechers skó og er sko MIKLU ELDRI EN  ÞÚ

Gurri mín hugsaðu bara um Maju býflugu þegar hunangskeddlingarnar eru að angra þig. Manstu ekki hvað hún Maja var mikið krútt ????

Þarf að kíkja og fá góðar bækur

sigþóra (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 18:07

8 identicon

Gurrý, Skechers eru bara málið fyrir skvísur á okkar aldri (ég er fædd 1962) fór í einum spánýjum hvítum í brúðkaup í vor og var bara flottust. Gat líka dansað frá mér allt vít án þess að vera með fótamein í viku eftir geimið   Mæli alveg eindregið með þessari tegund fótabúnaðar.

Jóhanna Guðríður (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 18:22

9 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þið eruð æði, nú á ég eftir að njóta mín vel á takkaskónum mínum ... sem eru því miður ekki á hjólum, Sigurður minn Hreiðar, ég set mörkin þar þótt það sé kannski vitleysa.

Lítið um gróður í himnaríki, alla vega ekkert blóm í vinnuherberginu, Magnús.  

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 13.5.2008 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 207
  • Sl. sólarhring: 371
  • Sl. viku: 899
  • Frá upphafi: 1505906

Annað

  • Innlit í dag: 166
  • Innlit sl. viku: 732
  • Gestir í dag: 160
  • IP-tölur í dag: 154

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband