Rangar verðmerkingar og pödduofsóknir

Okrað á ÍslendingumAllt er lok, lok og læs í Einarsbúð um helgar. Það venst ... og það lækkar líka vöruverðið þar alveg helling. Við erfðaprins skruppum því í lágvöruverslun í dag og ákváðum að kaupa eitthvað létt í kvöldmatinn.

Hinn íslenski neytandi hefur breyst ákaflega mikið að undanförnu (takk, doktor Gunni) og það þykir loks orðið hallærislegt að leika „greifa“ sem borgar allt á okurverði möglunarlaust svo að fólk haldi ekki að það sé blankt! Ég hef breyst líka og hika ekki við að leiðrétta mismun upp á eina krónu ... eða myndi gera ef ég lenti í því.

P�tsurÞað voru girnilegar Frísettapítsur á tilboði í búðinni, eða ein sæmilega stór á 298 krónur. Borða helst ekki pítsur en lét þetta eftir erfðaprinsinum og setti tvær í innkaupakörfuna. Minntist á það við hann að ég ætlaði að vera vel vakandi við kassann og það var eins gott, stúlkan stimplaði inn 369 krónur! Ég benti kurteislega á þetta, yfirmaður kom, gerði eitthvað þegjandi og hvarf ... og á strimlinum sá ég að ég hafði fengið aðra pítsuna ókeypis, borgaði 369 krónur fyrir hina. Fékk sem sagt skaðabætur og að auki ósköp sætt bros frá kassadömunni. Ég snarhætti við að snarhætta að fara framar í þessa búð (þegar Einarsbúð er lokuð) en ætla svo sannarlega að fylgjast vel með alls staðar. Ég stundaði þó þögul mótmæli í búðinni og keypti ekkert sem var óverðmerkt, jafnvel þótt mig vantaði það. Ég er orðin svo þreytt á því hvað farið er illa með almenning á Íslandi. Það er okrað hryllilega á okkur víðast hvar, lánin okkar eru verðtryggð og siðleysi og klíkuskapur viðgengst víða. Eins og mér þykir vænt um landið mitt.

KóngulóarmaðurinnEinu sinni ákvað ég að flytja aldrei úr landi, sérstaklega út af pöddumálum en pöddur verða reyndar sífellt fyrirferðarmeiri hérna, sbr. geitunga og býflugur sem námu hér endanlega land um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Ég gæti því alveg flutt úr landi skordýralega séð!

Vinkona mín býr í einbýlishúsi hér á Skaganum. Gróinn garður er umhverfis húsið hennar en ekki mikið af blómum þar. Hún er ekki sérlega pödduhrædd en er að sturlast yfir kóngulóm sem ofsækja hana í tugatali, hún bar hátt í 50 kóngulær út úr húsinu í gær. Hún er með tuskuæði en samt ná kvikindin að vefa stóra vefi í íbúðinni hennar, alla vega á meðan hún sefur. Þetta er ekki eðlilegt og hún ætlar að flytja að heiman í viku og láta eitra allt húsið á meðan. Hún hefur verið að vinna í garðinum og helluleggja. Hún þurfti að færa nokkrar hellur daginn eftir og þvílíkt pödduríki sem var komið strax undir nýlagðar hellurnar. Fiskiflugur eru líka í tonnatali í íbúðinni hennar og núna veit ég hvers vegna þær hafa ekki sést í himnaríki þetta sumarið, þetta fljúgandi, gómsæta sushi fyrir kettina mína er greinilega flutt til kattarlausu vinkonu minnar. (Fékk svo mikið sjokk þegar ég setti inn spider á google að ég ákvað að stela frekar mynd þar af kóngulóarmanninum).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Les "Einarsbúð" bloggið þitt?  Ég er í kasti.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.7.2008 kl. 18:22

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég veit það ekki, Jenný. Það eru tvær lágvöruverslanir á Akranesi, Bónus og Krónan, og ég vildi ekki nafngreina þessa sem við fórum í út af "skaðabótunum" ... held nefnilega að verslunarstjórinn hafi farið í að redda málunum í hvelli svo fleiri lentu ekki í þessu. Við þessir fjandans neytendur erum orðnir svo meðvitaðir. Einarsbúð getur boðið upp á gott verð vegna helgarlokunarinnar (og rosaflott kjötborð) og því ætla ég sko ekki að nöldra út af því.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.7.2008 kl. 18:34

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gott hjá þér að stunda verðeftirlit í búðum. Ég er svona líka þegar ég er í stuði, en það sem ég geri og þú ekki, sjálfsagt af því ég hef svo mikinn tíma aflögu, þá tek ég með allt sem er óverðmerkt og mig gæti vantað, byrja svo á því að láta kassafólkið segja mér hvað hvert og eitt kostar og ákveð þá rólega hvort ég láti það eftir mér eður ei.  Held þetta sé ágætis leið til að láta vita af ómerktu.  Ég bjó í einbýli úr timbri og húsið var reyndar risastórt fjölbýli kóngulóa, við keyptum mann til að eitra fyrir þeim og þær voru allar komnar eftir viku, eina sem hafðist upp úr þessu var að eyða fullt af pening íg svo fylltist allt af öðruvísi flugum inni svo við bara sópuðum húsið af og til og reyndum svo að lifa í samfélagi margfætlinga.  Nú erum við á fjórðu hæð í blokk og í forstofunni eru tveir litlir opnanlegir gluggar, það er ein hlussa á hvorum glugga og svo ógeðslega ljótar (ljós gul grænar) að við getum ekki hugsað okkur að opna og drepa þær. Horfum bara framhjá og opnum aðra glugga, þær frjósa í haust bölvaðar.  Annars eigðu ljúft kvöld og fyrirgefðu blaðrið í mér.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.7.2008 kl. 20:34

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Við Ásdís erum í verðeftirlitinu

Hólmdís Hjartardóttir, 19.7.2008 kl. 20:40

5 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Líst vel á okkur í verðeftirlitinu. Ekki veitir af.

Ásdís, þú mátt "blaðra" eins og þú vilt á blogginu mínu, elskan mín!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.7.2008 kl. 20:57

6 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þú getur verið skrambi skemmtileg og þess vegna er ég auðvitað helst skotin í þér, ekki vegna þess sem þú átt sameiginlegt með henni þarna Pam A.!

En þyrftir nú ekki að flytja lengra en til höfuðstaðar norðurlands til að losna við pöddurnar vondu, hér í mínu húsi hafa varla fleiri en tvær venjulegar veslingsflugur kitlað mig, engir geitungar né köngulær náð sér á strik og það þótt ekki vanti nú gróðursælu garðana!

Æ, held nú að Íslendingar láti sjálfir fara svona með sig, hérlendis er neytendavitund langt að baki til dæmis öðrum norðurlöndum held ég.

En karlinn hefur bara kannast við þig Gurrí, forréttindapíuna og spurningakeppnisdömuna frægu, hefur ekki þorað öðru en að bregðast skjótt við að ótta við að þú hefðir skammast ella hraustlega á blogginu. hann hefur þó líklegast orðið fyrir vonbrigðum með að þú lést ekki nafnið fljóta með á versluninni, svo ef þetta gerist aftur verður hann kannski ekki svona góður að gefa þér frítt!

Magnús Geir Guðmundsson, 19.7.2008 kl. 22:23

7 identicon

Gurrí mín .. ekki láta þér nokkurn tíma detta í hug að flytjast til Englands, því það er kóngulóarland í orðsins fyllstu merkingu!!!  

Edda í Englandi (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 00:17

8 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Edda, ég lofa!!! Systir mín var í framhaldsnámi í Danmörku, leigði kjallaraíbúð á tímabili og þar voru svo margar kóngulær að hún pældi í því hvort þetta væri nokkuð leggjandi á sig, hvort svona framhaldsnám væri ekki bara ónauðsynlegt. Einn daginn var allt breytt og hún vorðin vön pöddunum. Hefur ekki hræðst þær síðan. Vildi að ég kæmist á þetta stig ... samt er ég ekkert trítilóð, bara illa við kvikindin. Ætla þó ekki að heimsækja vinkonu mína fyrr en hún er búin að eitra ... heheheh

Magnús, þetta var reyndar kona og hún leit ekki einu sinni á mig, leiðrétti þetta bara og hvarf. Svo held að ég sé engin forréttindapía, gamli geithafur! Nema að ég hef það fram yfir vinkonu mína að hér í himnaríki sjást sjaldan pöddur og það ERU vissulega forréttindi!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.7.2008 kl. 00:29

9 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

neytendahorn gunna er frábært þetta vekur upp meðvitund í fólki og það hættir að þykja asnalegt að kvarta yfir okrinu...

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 20.7.2008 kl. 03:09

10 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Snilld! Eins og venjulega, er alltaf  svo glöð eins og ég eigi Einarsbúð þegar ég sé eitthvað á prenti um þá dásemdarbúð!

Edda Agnarsdóttir, 20.7.2008 kl. 08:29

11 identicon

Nú er ég í sjálfsásakanakasti. Ég var svo ákveðin (eftir Bónus-Krónumálið sem kom upp í fyrra) að fara að haga mér eins og ábyrgur neytandi og skoða alltaf strimla og bera saman verð og svoleiðis (það finnast nokkur sönnunargögn um þetta í gömlum bloggfærslum). Ég hef gjörsamlega klikkað á þessu og er örugglega búin að láta hafa af mér marga þúsundkalla fyrir vikið. Maður bara verður að fara að forrita kollinn á sér upp á nýtt ef þetta á að breytast.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 12:29

12 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Maðurinn minn sér um öll innkaup svo ég get ekki einu þóst vera meðvituð um verð. Ég væri sko löngu flutt úr þessu húsi vinkonu þinnar, hefði líklega verið borin út í spennitreyju.

Helga Magnúsdóttir, 20.7.2008 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 177
  • Sl. sólarhring: 345
  • Sl. viku: 869
  • Frá upphafi: 1505876

Annað

  • Innlit í dag: 143
  • Innlit sl. viku: 709
  • Gestir í dag: 137
  • IP-tölur í dag: 132

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband