Geitungaleysi, bláberjatínsluferð, tilfinningakúgun, gjafir og örbold

Í leið 15 í morgunÓsköp ljúf strætóferð með Skúla í næstum fullum vagni í morgun og enginn geitungur kom inn í leið 15 í Mosó þar sem Haraldur ljósmyndari sat undir stýri (brosmildi bílstjórinn). Í leið 18 var líka allt eins og venjulega, nema kannski fleiri farþegar en vanalega. Mér tókst með naumindum að varna því að eldri maður með strætósvip (skeifu) settist hjá mér því beint fyrir aftan hann var Elín. Hún hlammaði sér hjá mér og sagði mér af frábærri bláberjatínsluferð sem þau Daði fóru í um helgina. Í SkaðræðisbrekkunniVið vorum glaðar yfir því að enginn geitungur væri í vagninum því að nú vantaði útlendinginn morðóða, sem myrti kvikindið um daginn. Ég stakk upp á því að þeir væru allir dauðir en það var ekki samþykkt. Elín vinnur sem klinka (aðstoðarstúlka tannlæknis) og sagði mér að gluggarnir á tannlæknastofunni hefðu þurft að vera lokaðir allan síðasta föstudag vegna geitungaráps. Ekki fann ég fyrir að hún hefði mögulega samúð með sjúklingunum, hún sagði að klinkan myndi sturlast sem væri miður gott.

Í leið 18 í HálsaskógSaman fylgdumst við Elín með aumingja fólkinu sem fór út við Vesturlandsveginn og átti fyrir „fótum“ að feta sig niður skaðræðisbrekkuna/vegkantinn en þar sem Sigurður Mikael var óhaltur þegar ég sá hann næst í vinnunni hefur a.m.k. honum tekist að komast þetta án þess að slasa sig.

Vildi óska þess að strætó færi nokkrum metrum lengra í stað þess að stoppa þar sem kanturinn er hæstur og fer þess vegna sjálf í Ártún og þaðan með leið 18 í Hálsaskóg. Þögul mótmæli. Eyði sætisáklæði og dýrri olíu fyrir Strætó bs á meðan þetta er ekki lagað. Tröppur ... eða færsla á stoppistöð talsvert vestar, takk. Smile

Afar tilfinningakúgandi bréf barst öllum í vinnunni þar sem okkur var tjáð að ansi hreint sæt tveggja ára kisa ætti að fara í kattahimnaríkið kl. 14.30 í dag nema einhver hjartahlýr starfsmaður tæki hana að sér. Ég fann hvernig stállæsingin í kringum hjartað, sú sem ég nota grimmt til að lenda ekki í ástarsorg, herptist hratt saman og tvílæstist með hraði. Gat þó ekki stillt mig um að klappa snúllunni, enda trúði ég ekki á þessi sviplegu örlög. Einhver ráðlagði tölvumanninum, þeim sem sendi kúgunarmeilið, að prófa að fara í Kattholt með kisuna. Hann tók viðkomandi á orðinu ... og viti menn! Þar sem hann stóð við afgreiðsluborðið og bar sig illa klappaði kona/engill á öxlina á honum og sagði: „Ég er að leita mér að kisu, ég skal taka þessa!“ Okkar maður brast næstum í grát af gleði og afhenti konunni köttinn. Þessi „okkar maður“ er nýkominn með slæmt kattaofnæmi og varð að gefa heimilisköttinn heittelskaða.

Yndislegu hjóninHingað í himnaríki komu í gær yndisleg hjón með barnahjól og sitthvað fleira handa nýja Skagafólkinu okkar. Maðurinn er með kattaofnæmi, eins og fleiri, en fékk engan frið fyrir Tomma. (sjá mynd) Kettir eru mannþekkjarar og láta ekki smámuni eins og fólk á flótta hafa áhrif á ástarjátningar sínar. Maðurinn er víst með meira ofnæmi fyrir hundum og hundar sækja því enn meira í hann. Hahahha. Bestu þakkir, frábæra fólk. Ég fer með þetta allt í Rauða krossinn í kvöld og eiga flottu unglingafötin án efa eftir að vekja lukku og bara allt saman. Svo kom kona af Skaganum með barnastól til að setja á hjól, alveg frábært, segið svo að blogg sé ekki góður miðill.

BOLD: Stefanía er á leiðinni til mömmu sinnar, ætlar að „feisa“ hana eftir 30 ára þögn og beiskju. Pabbi Stefaníu barði hana með belti í æsku og mamman varði hana ekki, frekar hið gagnstæða. Þegar Eric frétti þetta heimtaði hann að koma með frúnni sinni og sagðist elska hana. Fyrst var hann reiður en þegar Taylor, geðþekki geðlæknirinn, var búin að segja honum að Stefanía gerði þetta til að komast til botns í því hvers vegna hún væri svona stjórnsöm, róaðist hann. Held að fátt annað hafi gerst í þættinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Merkilegt hvað hundar og kettir sækjast í fólk sem er annaðhvort hrætt við þá eða með ofnæmi. Mig langar að spyrja hvort það sé ekki einhver söfnunarreikningur eða eitthvað fyrir flóttafólkið ykkar. Mig langar til að gera eitthvað en er búin að gera dauðaleit heima hjá mér og hef ekkert fundið sem gæti komið að gagni.

Helga Magnúsdóttir, 15.9.2008 kl. 18:43

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Veit ekki hvort slíkt er í gangi en ég skal spyrjast fyrir á fundi á eftir. Hlýjar hugsanir skipta líka rosalega miklu máli, Helga mín.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 15.9.2008 kl. 18:47

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ekkert ofnæmi hér er hundar eru brjálaðir í mig,

Hvað er?

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.9.2008 kl. 18:56

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Frábært að heyra hvað margir eru viljugir til að hjálpa til á einn eða annan hátt.

Ef kattareigandinnmeðofnæmið hefði farið aðeins fyrr eða aðeins seinna með kisu í Kattholt þá hefði kannski ekki þessi engill tekið kisuna. Bold hvað? Þessi kisusaga er saga um örlög, ástir og sameingu og gerist bara mitt í hinum gráa hversdagsleika Reykjavíkur.

Jóna Á. Gísladóttir, 16.9.2008 kl. 00:08

5 Smámynd: Brynja Dögg Ívarsdóttir

En hvað þetta er falleg kisusaga, fólk á að elska dýrin, þau elska okkur ef við hugsum vel um þau.

Takk fyrir að leyfa okkur að lesa, skemmtileg færsla hjá þér.

Hafðu það sem allra best, bið að heilsa kisunum þínum.

Brynja Dögg Ívarsdóttir, 16.9.2008 kl. 08:49

6 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

kvitt kvitt fyrir fallega kisusögu ég hef nánast alltaf á kött eftir að ég fór að búa, en er kattarlaus núna er bara með hana Lady, hundinn okkar sem lengi saknaði kattarins Brands  eftir að það þurfti að svæfa hann vegna einhverra innanmeina. Sætir kettir allt í kringum mig í götunni svo ég er ekki beint kisulaus

Guðrún Jóhannesdóttir, 16.9.2008 kl. 11:16

7 Smámynd: Brynja skordal

Brynja skordal, 16.9.2008 kl. 15:09

8 identicon

 kíktu á þetta http://kviknaktaspunakonan.blogspot.com/2008/09/g-er-uggandi.html verð að segja að ég er pínu sammála,

kv Inga

Inga (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 16:14

9 identicon

Hahahæ!

Mikið er ég fegin að vera ekki ein um að finnast þetta út í hróa hött þarna á Vesturlandsveginum! Ég er sum sé ein af þessu aumingjafólki á myndinni - dálítið á bak við annan... Ég er komin á 8. mánuð meðgöngu og þarf að paufast þarna niður brattann og stórkvíði fyrir hálku og snjó...  Kannski ég athugi hvort vagn nr 18 komi mér nálægt ákvörðunarstað - Tunguhálsi!

Kv - María

maría pálsdóttir (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 16:43

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Gerðu það, María, prófaðu leið 18, fyrst fer hann aðeins upp í Árbæ og tekur svo Hálsana hvern af öðrum, alla vega á meðan þú ert ófrísk. Þú ferð þá út á næstu stoppistöð, ferð niður tröppurnar, undir brúna og upp brekkuna hinum megin, þriggja mínútna bið eða svo og þá kemur leið 18. Bara lúxus. Ég fór þarna niður í hálku einu sinni og rúllaði alla leiðina, eins og áhættuleikari, get kannski kennt skónum um en sólarnir voru ekki nógu grófmynstraðir. Það gengur samt ekki að hafa þetta svona við Vesturlandsveginn.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 16.9.2008 kl. 17:20

11 identicon

Elsku Gurrí og aðrir farþegar sem fara úr vagninum við undirgöngin EKKI HÆTTA AÐ FARA ÞARNA !!!! Er að röfla aftur og aftur við Strætó bs og ekkert gengur !!!!! svo ég BIÐ YKKUR UM HJÁLP VIÐ ÞAÐ !!!!! þetta á ekki að viðgangast því STRÆTÓ ER FYRIR ALLA FATLAÐA OG HEILBRIGÐA !!!! Sjáið þið fyrir ykkur fatlaða manneskju fara upp brekkuna nú eða niður hana ????? EKKI ÉG. Hafði samband við Visi.is um daginn og það hafði samband einhver blaðamaður frá þeim og honum hefur sennilega ekki fundist þetta nógu merkileg frásögn að eyða mætti plássi vegna einhverrar pirraðrar Skagakonu. Svo er nú stoppistöðin við Shell annað vandamál  hefur margt oft komið fyrir að ég og ´(fleiri náttúrulega ) þurfum að sitja rennandi blaut og köld í strætó allaleið á Skagann eftir að hafa staðið þarna í roki og rigningu að bíða eftir leið 15 sem er mjög oft allt að 10 mín. of seinn 

Búin að fá smá útrás !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Hjálpumst á við að koma skilaboðum til Strætó bs og fá þetta lagfært FYRIR VETURINN TAKKK

Sigþóra (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 18:12

12 identicon

Sambandi við þessa síðu sem Inga bendir á hér fyrir ofan, að ég gæti ekki verið meira ósammála. Las þessa færslu og finnst mér hún vægast sagt furðuleg.

En eins og flestir vita komu hingað á Akranes flóttamenn fyrir nokkrum dögum. Margir hér á Akranesi hafa lagt sitt af mörkum til að gera komu þeirra sem besta. Skagamenn hafa verið virkilega duglegir við að gefa föt og húsgögn og efast ég um að fólk hafi nokkuð á móti komu þeirra. Það þætti mér allavega mjög dapurlegt.

Hvort einhver taki fram á bloggi sínu um að viðkomandi hafi farið í heimsókn til flóttakonunnar og hjálpað til með kaffikönnu og kennt á þvottavél og þurrkara.... hvað er að því??

Hvaða hvatir ætli séu bakvið svona gagnrýni...??? það vildi ég svo sannarlega vita.

Veriði sæl.

Stuðningsmaður

Skagamaður (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 18:13

13 identicon

Já þessi stoppi stöð er alveg hrikaleg það liggur við að ég fari með stutta bæn fyrir farþegunum sem fara þarna út.

Það er svo margt sem gæti hent og svo þegar maður þarf að aka út á Vesturlandsveiginn aftur þá sér maður kanski 40 Tonna trukk á 80 kmh og og fólk jafnvel að reina að hlaupa yfir akgreinarnar 4. Uff þetta er pottþétt versta og hættulegasta stoppistöð í kerfinu.

En það er altaf gaman að fá brosmildar skagakonur í vagninn  

kv hag

hag (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 21:24

14 identicon

Alveg sammála með brekkuna, skil þetta ekki að fólki skuli vera nánast sturtað þarna niður ! Nú er ég búin að hantera bláberin og 6 af 10 lítrum fóru í bláberjasnafs, honum er ætlað að gleðja okkur og okkar nánustu eftir nokkrar vikur og restin fór í litla poka í kistuna til að hressa okkur enn frekar í vetur. Takk fyrir fræðandi og bráðskemmtilegt blogg Gurrí mín. Ég blæs á færslun hjá konuni á blogspot.....frusss ! 

Elín (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 9
  • Sl. sólarhring: 198
  • Sl. viku: 647
  • Frá upphafi: 1505938

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 521
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband