27.5.2024 | 23:33
Ætlaði bara rétt að kíkja ...
Fyrsta ferðalag sumarsins var farið í dag, örstutt og gott og innihélt skúffukökusneið, Hagkaupsferð og umferðarhnúta. Já, við fórum tvær (ég farþegi) og skutluðum stráksa í sumarbúðir drauma hans. Minna mátti það ekki vera. Í þetta skipti verður hann í fjögurra stráka herbergi og leist vel á það. Okkur var boðið upp á kaffi og skúffuköku fyrir brottför sem var ágætis bensín á skrokkinn í umferðarsultunni sem ríkti um hálffimm í Ártúnsbrekkunni, á leið í Skeifuna. Samferðakona mín sagði mér að það hefði oft hangið þarna köttur í búðunum, aðallega í A4, hélt hún. Kattakjéddlíngin ég gat nú aldeilis sagt henni að kötturinn sá væri enn á sveimi og ætti sína eigin Facebook-síðu, Spottaði Diegó, heitir hún. Meðfylgjandi mynd sem ég rændi af síðunni sýnir hversu mikil dásemd hann er ... og ég keypti einmitt rándýra skrifborðsstólinn minn (sjúklega æðislega góða) í A4 í Skeifunni þegar ég ætlaði bara rétt að kíkja á Diegó ... nánast. Ég er hættuleg þegar ég ætla bara rétt að kíkja ...
Við skruppum í Hagkaup, ég ætlaði bara rétt að kíkja og athuga hvort ég fyndi ekki besta pestó landsins (Önnu Mörtu-pestóið) og kannski huga að einhverju matarkyns því ég sleppti Eldum rétt í dag (fyrir þessa viku) því ég yrði að heiman. Í stutta ferðalaginu í Mosfellsdal og Reykjavík. Svo bara sá ég Eldum rétt-kassa í kælinum og skellti mér á einn ... máltíð fyrir tvo sem dugir mér nú alveg í þrjár máltíðir. Ég fer bara út í ruglmat ef ég passa mig ekki. Svo keypti ég auðvitað nýútkomna bók, þá síðustu eftir Jussi Adler-Olsen um Q-deildina (sjá mynd) og ég keypti hana þótt ég hafi svo mikið á tilfinningunni að höfundur detti í þann drullupytt að drepa slatta af söguhetjunum. Þarf samt ekki að vera ... ég vona ekki, ég bara trúi því ekki. Mig langar ekki einu sinni að lesa bókina um síðasta mál Poirots ... og í mínum huga er Erlendur líka sprelllifandi. Ég man hvað ég varð pirruð út í höfund sem drap annan eineggja tvíburann í fyrstu bók sinni án þess að hugsa út í afleiðingarnar og hvað hefði verið hægt að búa til margar skemmtilegar senur með tveimur alveg eins, þar sem annar var spæjari.
Svo keypti ég auðvitað flottar ólífur (ragnar grímsson), bakka af rótargrænmeti til að elda mér á morgun, voðalega fínt vítamín fyrir liðina, virkar vonandi á hásinar. Já, og lítinn sushi-bakka í kvöldmatinn ... en allt í einu tók ég undir mig stökk, til að flýja þessa hroðalega girnilegu og hættulegu búð og stefndi hratt á kassana. Ég setti ekkert í körfuna sem ég ók á undan mér, tókst að koma öllu á staðinn þar sem börnin sitja, og meira að segja ofan á töskuna mína ... en samt kostaði þetta rúmlega 19 þúsund krónur. Þegar maður ætlar bara rétt að kíkja ... á besta pestó landins. Er samt ekki búðasjúk. Samferðakonan þurfti í Jysk og ég kom með. Nánast í anddyrinu fann hún plastkassana sem hana vantaði og við beint á kassa og svo út. Ég sá fullt af búðasjúkum karlmönnum þarna með fangið fullt af eflaust óþörfum rúmfötum og gerviblómum. Síðan var það bara umferðarsultan heim á Skagann aftur. Ólífurnar eru æði og ég sé ofboðslega eftir því að hafa ekki keypt meira en tvær krukkur af pestóinu ... og ég borða ekki einu sinni pestó (nema þetta). Skilja bloggvinir núna hvers vegna ég vil flytja í bæinn?
Von var á tveimur vinkonum í heimsókn kl. 11 í morgun og 30 mínútum áður fékk ég þá hugmynd að bjóða þeim upp á pönnukökur. Alveg búin að gleyma því að ég kann ekki að tilsteikja slíkar pönnur en hva, ég átti "gamla" mjólk, útrunna en óopnaða og í góðu lagi og þá er allra best að baka pönnsur. Þær urðu svolítið þykkar hjá mér og ég þarf að æfa mig meira, finna rétta hitastigið og slíkt en ég held að mér hafi tekist að tilsteikja pönnuna núna, það fór ekki allt í kássu og vesen eins og í fyrra, þegar ég prófaði síðast. Það var ekkert mál með gömlu pönnunni og á gömlu eldavélinni en allt þarf að venjast.
Ég kemst pottþétt ekki á fleiri forsetaframbjóðendafundi. Halla Hrund mætti á Skagann þegar yfir 70 stúdentar voru að útskrifast frá FVA og Katrín mætti í kvöld á Nítjándu, hjá golfvellinum, en þangað kemst enginn nema fuglinn fljúgandi og fólk á bíl. Held að Halla T. hafi líka mætt en ég varð ekki vör við það fyrr en eftir á og ég stórefa að fjórmenningarnir knáu, Ásdís Rán og þau, mæti hingað úr þessu. Þegar Baldur kom var ég stödd í Reykjavík, svo hingað til hef ég misst af þeim öllum nema auðvitað Jóni Gnarr um daginn. Það var mikill gleðidagur, ekki bara hjá stráksa, heldur mér líka. Við fengum svo gott knús, bæði tvö, held að það að knúsa lömb og lítil börn sé ofmetið hjá frambjóðendum, það á frekar að knúsa fólk ... með kosningarétt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2024 | 23:41
Ofmetnir ferðamannastaðir og letidagurinn mikli
Sérdeilis góður letidagur í dag - nákvæmlega ekkert gert að gagni. Alþjóðlegi letidagurinn verður 10. ágúst nk. Tveimur dögum seinna, eða 12. ágúst, er alþjóðlegur dagur unga fólksins. Ég átti að fæðast þann tíunda en mætti tveimur dögum of seint, mögulega vegna leti ... Gott að slaka vel á til að hlífa fætinum og ná honum góðum því á morgun verður land lagt undir fót og haldið í Mosfellsdal (ekki samt gangandi) nánar tiltekið í Reykjadal. Fæ að koma með þegar stráksa verður skutlað þangað í uppáhaldsstaðinn sinn í öllum heiminum (fyrir utan Glasgow kannski). Hann vildi endilega hafa mig með í bílnum, kannski af því ég hef nánast alltaf farið með honum.
Ég er að hlusta á bækur eftir Angelu Marsons núna, bækur sem ég hef nú þegar lesið en búin að gleyma að mestu. Kim Stone rannsóknarfulltrúi stjórnar glæpadeild á lögreglustöð í Mið-Englandi (West Midlands). Hún á sér marga aðdáendur hér á landi og víðar, enda mikill töffari. Ég kláraði fyrstu bókina í dag og er byrjuð á þeirri næstu. Sýnist vera um tíu bækur um Kim inni á Storytel en þegar ég gúglaði höfundinn virðist sem bækurnar verði 20 eða jafnvel 25 sem er mikið tilhlökkunarefni. Fínustu glæpasögur. Ég hafði byrjað á nokkrum nýútkomnum sem ég var búin að hlakka til að hlusta á en þær ná mér ekki ... Stundum er maður bara í stuði fyrir eitthvað sérstakt, núna kannski glæpa- og löggudæmi, stundum eitthvað annað, eins og ástir og örlög. Ætla að nota þennan rólega kafla í lífi mínu (er á meðan er, það skellur á vinnulota innan tíðar) til að flokka dót; gefa, henda, eiga ... og þá er gott að hafa eitthvað að hlusta á, allt gengur betur, finnst mér, með skemmtilega sögu í eyrunum. Þá verður líka heldur betur þægilegt að pakka niður og flytja í bæinn þegar að því kemur.
- - - - - - -
Ferðalög í sumar verða eflaust fá og jafnvel bara dagsferðir. Mér finnst ógurlega gaman að fara á Snæfellsnes, ekki síst Grundarfjörð og drekka skuggalega gott kaffi (Valería, af hverju fæst það ekki í Einarsbúð?). Svo er líka alltaf svo gaman að heimsækja Hvammstanga, þekki marga þar.
Nýlega rakst ég á óformlega könnun á því hvaða þekktir ferðamannastaðir væru ofmetnir ... það voru þúsund komment og ég nennti bara að lesa helminginn. Parísarborg á algjörlega vinninginn sem ofmetnasta borgin (þegar ég gúglaði vinsæla ferðamannastaði kom mynd af Eiffel-turninum fyrst upp). Disneyland (um allt) fékk líka mörg atkvæði og Dúbaí. Ég leitaði örvæntingarfull að einhverju dissi um Ísland en fann ekkert, mér til léttis. Við erum kannski ekki ofmetinn staður, heldur bara fokdýr og mögulega stutt í að okkur takist að okra okkur út af markaðnum, eins og sumir vilja meina.
Hér eru nokkur komment um ofmetna staði:
París, Frakklandi. Falleg borg en maður er minna en velkominn þangað.
Hawaii ... æðislegur staður en ferðamannaiðnaðurinn þar er ömurlegur og skiljanlegt að innfæddir séu ekki hrifnir af gestum.
Disneyland og Lególand.
Stonehenge. Klettar á svæði þar sem er mikil umferð og hávaði af henni. Svo var líka ógeðslega kalt og vindasamt þar.
París, Vegas og Feneyjar. Sólarhringur nægir. Vanmetnir staðir eru Vín og Buenos Aires.
Dúbaí.
Dubrovnik í Krótatíu er stærsta túristagildra sem ég hef lent í.
Hef aldrei áttað mig á Dúbaí. Er þetta ekki bara risastór verslanamiðstöð sem var plantað niður í eyðimörkinni?
Indland, svo kaótískt. Ég varð tilfinningalega örmagna á örfáum tímum.
Vatíkanið og Sixtínska kapellan. Vissulega allt voða flott og allt í gulli (sem ætti frekar að nýtast fátækum) en mikil þrensli og fólki ýtt áfram því það mátti ekki stoppa.
Taj Mahal.
París. Samt fer ég aftur og aftur.
Nánast allar eyjarnar í Karíbahafinu.
Balí sökkar.
Alcatraz. Fangelsið er mjög lítið.
Pýramídarnir í Egyptalandi. Mætti alveg gera snotrara í kringum þá, það eru bara sölubásar með drasli þarna.
New York.
Indy 500. Horfðu frekar á keppnina í sjónvarpinu.
Hollywood, ekkert nema heimilislaust fólk og eiturlyf þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2024 | 23:54
Sæþotur á hlaðinu, bjórmisskilningur og versti Bond-inn
Heimatilbúinn kaldur bakstur tókst alveg hreint ágætlega þegar ég loks mundi eftir því að kona í apótekinu hafði talað um slíkan, ásamt verkjakremi og hækkun á hæl. Ég hef prófað krem og hækkun en átti grisju í baðskúffu, veit ekki síðan hvenær og við hvaða tilefni ég ætlaði að nota hana fyrir rosalega löngu síðan en hún var til. Ég bleytti hana, tók frystiplastpoka og frysti kvikindið. Reyndi að laga það ögn til svo það passaði á hásinina og þar í kring. Setti síðan hið frosna ofan í sokkinn svo nam við hásin. Verklagna Hurrí. Var að setja á mig í annað sinn núna rétt áðan og þetta er svo stíft núna að það horfir eiginlega til vandræða en það lagast eftir smástund. Óttast samt kuldakrampa og að kvefast, fá jafnvel lungnabólgu! Hef aldrei haft trú á köldum bökstrum, t.d. á bakið, legg mig stundum á hitapoka ef bakið er með stæla og það virkar ágætlega. Í þetta sinn held ég þó að kuldinn sé málið. Brrrrr
Mynd: Hér var allt vaðandi í sæþotum á hafsvæðinu mínu fyrir framan himnaríki en þar sem ég naut þess að horfa á þessar hetjur hafsins svífa á öldunum, lét ég það óáreitt.
Dagur dugnaðar var í dag, reyndar bara viðhald á fínheitunum í himnaríki, allt svo auðvelt þegar ég er bara ein. Allt rusl út, pappi og plast ásamt fuglamat fyrir alls konar krúttmola sem líta á lóðina upp að þyrlupallinum hér við hafið sem sérstakt súpueldhús fyrir heppna fugla. Ég verð að viðurkenna að lífið er orðið svo rólegt allt í einu sem er eiginlega alveg dásamlegt. Alltaf fínt, enginn sem draslar ... eða jú, kettir hafa ansi gaman af því að henda niður dóti, taka á sprett svo mottur færast til. Þar sem Keli er orðinn gigtveikur og á erfitt með að hoppa hrindir hann oft einhverju niður þegar honum misheppnast stökkin. Eftir að ég fékk almennilegt kattagras eru kettirnir hættir að kasta upp (reyna að gubba hárboltum) um öll gólf. Nema þeir hafi nartað stundum í blómin (ekki liljur en kannski eitruð?) sem ég fékk gefins sl. vetur og sem ég tróð nýlega yfir á eina systur mína sem er með græna fingur og getur alltaf á sig blómum bætt. Niðurskorin blóm er eiginlega ekki hægt að gefa mér lengur (þess vegna á ég ekki aðdáendur, ég afþakka alltaf pent) því kettirnir verða brjálaðir. mig grunar að það sé frekar afbrýðisemi en að þá langi að narta í blómin, í alvöru.
Hilda mætti á Skagann upp úr fimm og við sóttum stráksa eftir að hafa sötrað smávegis kaffi í himnaríki, nú var það útborðelsi á Galito kl. 18. Andri, glaðasti þjónn í heimi, var í vinnunni, stráksa (og öllum á staðnum) til mikillar hamingju.
Stráksi pantaði pítsu, ég fékk mér sushi og Hilda tvo girnilega forrétti. Stráksi gleymdi sér eitt andartak og pantaði sér vodka með pítsunni áður en hann mundi eftir því að við erum hætt með vodkabrandarana. Stúlkan sem tók niður pöntunina var ný svo hún henti okkur ekki út fyrir fúla brandara. Sjúkk. SevenUp var pantað að vanda, Hilda vildi ekkert og ég ...
....
... í kvöld lærði ég að Lite-bjór er ekki light, eða léttur og áfengislaus ... hann inniheldur bara færri kaloríur! Mér fannst hann reyndar ekkert spes og leifði en sennilega hefði sódavatn verið best með sushi-inu, ég er ekkert fyrir hvítvín. Valdi vegan-sushi sem var svakalega gott. Solla vinkona sat á næstnæstnæstnæsta borði en staðurinn var fullur af glöðu fólki, eins gott að ég pantaði borð í gær.
Fb-vinur minn, God, spurði: Þú þarft að finna þann versta leikara sem þér dettur í hug til að leika James Bond. Hvern velur þú?
Hér eru nokkrir frekar heimsfrægir sem voru nefndir:
James Woods
Idris Elba
Woody Allen
Jim Carrey
Will Ferrell
The Rock
RuPaul
Pete Davidson
Mr. Bean
Danny Devito ... en ég held samt að hann gæti verið flottur Bond.
Nicolas Cage
Tom Cruise
Roseanne Barr
Borat
Donald Trump
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2024 | 00:00
Gleðidagur, flott Diskóeyja og tími á yfirhalningu
Hátíðisdagur í dag þegar stráksi og rúmlega sjötíu aðrir útskrifuðust sem stúdentar frá FVA í dag. Ég mætti að sjálfsögðu og fylgdist hreykin með honum ná þessum stóra áfanga. Nokkrar ræður voru haldnar og allar virkilega skemmtilegar, ólíkar og vöktu mann til umhugsunar.
Skólameistari hélt þá fyrstu, síðan gamall nemandi (Idol-stjarna sem talaði um fokkitt-andartökin í lífi sínu) og formaður nemendaráðs. Ótrúlega fallegur hópur af gæðakrökkum sem voru að útskrifast úr námi sem þau þurftu ekki að fara í, eins og kom fram í einni ræðunni. Sennilega skemmtilegasta útskrift sem ég hef verið viðstödd. Þegar ég útskrifaðist úr hagnýtri fjölmiðlun (HÍ) voru það margir að útskrifast að athöfnin var löng miðað við það, samt minnir mig að ég hafi kosið að elta hópinn minn og útskrifast að hausti þar sem voru talsvert færri (Háskólabíó en ekki Laugardalshöll) því ég þurfti ekki að vinna á fjölmiðli um sumarið, eins og hinir, var þegar með reynslu. Aldarfjórðungur síðan ...
-----
Veður dagsins var glæsilegt í sinni gulri veðurviðvörun. Ég lét mig fjúka út á stoppistöð fyrir athöfn en við vorum svo heppin, við stráksi, að vera sótt af einni elsku sem vinnur á sambýlinu. Þangað héldum við og á borðum var fínasta marsipanterta, rækjusalat og kex. Dásamleg veisla í tilefni útskriftarinnar. Sambýlingarnir höfðu slegið saman í virkilega fína útskriftargjöf sem reyndist vera allur heimurinn ... mjög flottur hnöttur með ljósi inni í. Stráksi datt í lukkupottinn að fá að flytja þangað.
Ég tölti svo út á stoppistöð á Akratorgi og þegar strætó kom og hleypti mér inn að aftan, eins og öllum hinum, að nú er kominn tími á klipp og lit. Panta eftir helgi (sjá mynd hér fyrir neðan, sem sannar það sem bílstjórinn sá).
Dásemdardagurinn var sannarlega ekki búinn því vinafólk mitt kom og sótti mig skömmu fyrir sex því nú skyldi haldið í Bíóhöllina, á Diskóeyjuna, sýningu gamla skólans míns, Brekkubæjarskóla.
Elsta dóttirin dansaði í sýningunni og bar auðvitað af, ég var eins og stolt amma að fylgjast með henni. Sýningin var virkilega skemmtileg, mikið klappað og stappað.
MYND: Ég banna iðulega myndbirtingar af mér en eftir nokkrar rökræður við sjálfa mig fannst mér ég verða að fórna myndabanninu, jafnvel þótt ég væri í cartman-jakkanum, til að sýna sætu og frábæru dætur vinahjóna minna. Sú eldri er góður dansari og á neðstu myndinni má sjá hana dansa á fullu lengst til hægri. Yngsta var í fanginu á pabba sínum annars staðar í Bíóhöllinni.
Hæfileikaríkir krakkar í Brekkó, þau höfðu greinilega gaman að því sem þau voru að gera, það skilaði sér heldur betur. Við vorum virkilega glöð á heimleiðinni, ánægð með sýninguna og stolt af dansaranum góða. Við fórum sjávarleiðina heim og það var assgoti skemmtilegt þegar öldurnar skvettust yfir Faxabrautina og bílinn. Vona systur minnar vegna, að sjórinn verði áfram svona flottur á morgun þegar hún skýst á Skagann til að borða með okkur stráksa.
Eldamennska tók svo við þótt klukkan væri orðin margt, eða hálfátta, ekki dugir að láta fína matinn frá Eldum rétt skemmast vegna stórviðburða í samkvæmislífinu! Í gær var geggjaður kvöldmatur hjá Matarklúbbi Rauða krossins og á morgun förum við stráksi ásamt systu á Galito til að halda upp á útskriftina, brautskráninguna, stúdentinn ...
Ég hlustaði á gamla glæpasögu í gær, man ekki hvað hún heitir en gömul kona var myrt í henni, alveg rosalega eldgömul kona, það var einhvern veginn mikið talað um hvað hún væri gömul. Svo þegar aldurinn kom fram, að hún væri rétt rúmlega sjötug, fór ég að flissa, jú, höfundurinn var frekar ungur. Þótt ég sé í raun að kasta stórgrýti úr gróðurhúsi núna, mér fannst nefnilega sjö ára gamalli að 12 ára strákarnir í skólanum væru orðnir fullorðnir menn. Og þegar ég var 17, 18 ára hefði ég aldrei litið við 25 ára strákum, fannst þeir farnir að láta á sjá sökum aldurs. Einn daginn tóku svo kennarar fram úr nemendum í mínum huga og það var pínku skrítið. Man þetta betur varðandi strákana ... en það eina varðandi stelpur var um ótrúlega hressu stelpuna sem djammaði mikið og var alltaf hlæjandi og hress, svo varð hún 18 ára, gifti sig, fór að nota slæðu á höfuðið, væntanlega með rúllur undir, var ólétt, í óklæðilegri kápu, hélt á innkaupaneti og var í bomsum. Einhvern veginn svona er minningin um hana og ég vonaði að það yrði langt í að ég yrði 18 ára og myndi hætta að hlæja.
Mamma bjó heima hjá sér fram yfir áttrætt og naut þess að ráða krossgátur, drekka kaffi og horfa á spennandi myndir í sjónvarpinu. Tíu árum áður, eða á sama aldri og eldgamla konan í bókinni, var hún tiltölulega nýhætt að vinna og eldhress, hún var auðvitað ekki ung ... en samt ekki nálægt því sama "gamla konan" og lýst var í bókinni. Hér áður fyrr, ef marka má bækur um gömlu dagana, dó fólk í hárri elli jafnvel um fimmtugt, gjörsamlega útslitið af þrældómi.
Síðan Málspjall:
Getum við aðeins velt okkur upp úr því af hverju vettlingar heita ekki handklæði? (AK)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2024 | 00:08
Ómótstæðilegur sjór og hvað er ást ...
Með algjörum herkjum hefur mér tekist að snúa á unglinginn í mér og fer orðið snemma að sofa (milli tólf og eitt) og vakna frekar snemma. Það var lengi gott að kúra til ellefu en ég tek það ekki lengur í mál. Er á meðan er, hugsar ein systir mín örugglega, morgunhani með meiru. Sennilega aðstoðar dagsbirtan til við að vekja mig á morgnana, mér dettur ekki í hug að vera með myrkvunartjöld þótt ég hafi erft frá stráksa að vilja sofna í myrkri, ja, eins miklu og hægt er. Þannig að hér eru öll ljós slökkt. Eitt hefur líka hjálpað, og það er að flesta morgna núna hitti ég tvær vinkonur sem þrá heitast af öllu að læra íslensku hratt og vel. Við drekkum saman kaffi, til skiptis heima hjá hver annarri, og tölum saman á íslensku. Þar sem ég ræð mínum vinnutíma sjálf finnst mér þetta ansi skemmtileg næstum-byrjun á degi. Við hittumst kl. ellefu og þá hefur mér tekist áður að fara í sturtu og snæða staðgóðan morgunverð sem enn árrisulli brytinn minn hefur útbúið. Oftast súrmjólk, púðursykur og kornfleks.
Mynd 1: Svona var útsýnið meðan opna húsið stóð yfir. Hver getur staðist svona sætan sjó? Ég faldi bleiku fokkjústyttuna og bókina Dauðinn á opnu húsi. Stundum er best að ögra ekki.
Eitthvað er loks farið af stað varðandi himnaríki, fyrirspurnir og fá að skoða-beiðnir eru farnar að berast, skilst mér, svo ég verð víst að draga til baka þetta með stóra samsærið ... Nú spila ég bara Krýningarmessuna til að gleðjast og raula með (fyrsta verkið sem ég söng með Kór Langholtskirkju, 1985), íbúðin enn sjúklega flott og fín og sér ekki einu sinni skófar á parketi eftir trampið í dag. Eldaði mér ofnbakaða bleikju með fersku salati, brúnum pistasíuhrísgrjónum (mínus pistasíur), brokkolíi og hvítlaukssósu. Afgangurinn verður snæddur í hádeginu á morgun. Og af því að það er svo mikið útstáelsi á mér, fer ég "út að borða" hjá Matarklúbbi Rauða krossins annað kvöld, síðasta sinn í "vetur" því nú hefst þriggja mánaða sumarfrí klúbbsins og stefnan hjá mér er Kópavogur í haust svo það er eins gott að mæta! Ekki trúa þeim sem segja að það sé Katalína sem lokki og laði ... mér skilst reyndar að þar megi kaupa sér ágætan hádegisverð, mömmumat upp á gamla mátann, ekki samt eldgamla, held ég.
Upp á síðkastið hef ég verið að hlusta á Birgittu H. Halldórsdóttur, þá góðu sögukonu. Nýlega hlustaði ég á mikla örlagasögu hennar (Dætur regnbogans) sem gerðist í eldgamla daga og sú hlustun gerði mér kleift í dáleiðsluástandinu sem ég fer í við að hlusta á grípandi sögur, að snurfusa allt hér í himnaríki. Fráflæðivandinn hér er samt alltaf mikill ... en vex mér líklega í augum því ég þekki alveg fólk sem myndi án þess að hika skutla dóti og drasli fyrir mig um víðan völl. Eins og gamla kringlótta borðið mitt með taflborðsmynstrinu ... það er orðið skjöktandi og þarfnast ástar og umhyggju. Hef ekki pláss fyrir það en ætti frekar að auglýsa það en gefa á nytjamarkað þar sem því yrði örugglega hent því það skjöktir.
- - - - - - - -
Af því að það er að koma sumar verða allir eitthvað svo ástfangnir og rómantískir ... dæs, en sumum finnst ástin hreint ekkert æðisleg, ef þær hafa til dæmis takmarkaðan séns í Jason Statham. Ástin sökkar, segja sumir og mörg klár börn sem ég hef hitt fyllast hryllingi ef minnst er á ástina. Til er margs konar ást auðvitað og hér svara nokkrir erlendir krúttmolar spurningunni Hvað er ást?
Þegar amma fékk gigt gat hún ekki beygt sig og klippt á sér táneglurnar. Þá gerði afi það, samt var hann með gigt í höndunum. Rebekka, 8 ára.
Ást er þegar þú ert alltaf að kyssa. Svo þegar þú þreytist á kossunum viltu samt vera saman áfram og tala meira. Mamma og pabbi eru þannig. Það er ógeðslegt þegar þau kyssast. Emily, 8 ára.
Ef þú vilt læra að elska betur, skaltu byrja með vini sem þú hatar. Nikka, 6 ára.
Það er ást þegar lítil gömul kona og lítill gamall maður eru enn vinir þótt þau þekkist svona vel. Tommy, 6 ára.
Ég veit að stóra systir mín elskar mig því hún gefur mér gömlu fötin sín og þarf svo að fara út í búð og kaupa sér ný föt. Lauren, 4 ára.
Það er ást þegar mamma sér pabba á klósettinu og finnst það ekki ógeðslegt. Mark, 6 ára.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2024 | 23:54
Samkvæmislíf sumarsins og reynslusögur og ... uppskrift
Himnaríki er að verða eins og klippt út úr tískublaði í innanhússhönnun og How to clean your house-síðu, svo fínt er það ... nema fyrrum herbergi stráksa (og drengsa sem fór í morgun). Ástæðan fyrir að þeir eru aldrei nefndir með nafni er bara persónuvernd, ekki óvirðing við þá. Ég þarf að greiða stráksa milljónir núorðið til að fá að birta mynd af honum, svona nánast, mútur alltaf æskilegar.
Það herbergi er nú orðið hálffullt af alls konar, hlutum sem ég þarf m.a. að losna við (hvern vantar t.d. gamla, góða Ikea-kommóðu?) og öðrum hlutum sem þarf að flokka í: halda, gefa, henda - fer í það eftir OH á morgun.
Mynd: Sú vinstra megin var tekin um 11-leytið í gærkvöldi. Hin um kl. 8 í morgun - Krummi vildi endilega vera með. Sami sjór, sami gluggi og sami ljósastaur. (Það var auðvitað mjög gild ástæða fyrir því að ég vaknaði fyrir kl. 8 í morgun.)
OH, eða Opna húsið, er á morgun (kl. 17) og mig langar ekki að beita brögðum, vera með bökunarlykt eða missa algjörlega óvart út úr mér að jason statham komi og bjóði í himnaríki. En samt ... það eru til tvö epli (sem drengsi kláraði ekki) og hvernig er best að njóta epla? Jú, í eplaköku!
Ég gúglaði og fann uppskrift:
Einfaldasta eplakaka í heimi (undirfyrirsögn: Hættulega góð)
1 bolli sykur
1 bolli hveiti
1 bolli haframjöl
125 g smjörlíki
100 g suðusúkkulaði
4-5 epli
kanilsykur
Skerið eplin niður í litla bita og saxið súkkulaðið smátt. Setjið í eldfast mót. Myljið saman þurrefni og smjörlíki og stráið yfir eplin og súkkulaðið. Stráið að lokum kanilsykri yfir og bakið í 40-45 mín við 175°C. Gott með ís eða rjóma.
Ég á reyndar ekki haframjöl og hef ekki átt smjörlíki í mörg ár - og bara tvö epli. Heldur ekki ís eða rjóma. Svo kann ég ekki á bollamál - eru þetta ammrískir bollar eða breskir? Ég notast við grömm. Svo það verður bara skúringailmur í himnaríki á morgun. Og sjúklega flottur sjór, ef marka má veðurspána. Mögulega eldgos handan hafsins.
Elsku stráksi kom í heimsókn í dag en systir mín mætti með afmælisgjöf til hans þegar hún heimsótti mig í gær. Það þurfti að sækja hana. Eins og hann grunaði var eitthvað flott álfadót (stytta og smámunadót) og svo fínasta kex sem sló í gegn eins og álfadótið. Við ætlum að fresta út-að-borða-vegna-útskriftar til laugardags.
Vinafólk bauð mér á Diskóeyjuna á föstudaginn, sýningu krakkanna í gamla skólanum mínum, Brekkubæjarskóla. Dóttir þeirra dansar í sýningunni og sést meira að segja á myndinni. Þegar ég skoða dagbókina mína rafrænu sé ég að ég lifi ansi hreint spennandi lífi, einn punktur við ákveðinn mánaðardag táknar yfirleitt eitthvað skemmtilegt. Ég nenni miklu frekar að minna mig á viðburði í gemsanum en að leita kannski að gamaldags dagbók og skrifa í hana.
Á Facebook
Ég var ekkert að leita en rakst óvart á martraðarkenndar matarsögur frá útlöndum! Getur ekki verið tilviljun, litlu hlerunartækin í covid-sprautunni sem ég fékk (x3) vinna svo sannarlega vinnuna sína. Nema gervigreindin lesi bloggið mitt og beini mér blíðlega að "áhugamálum" mínum ...
Mitt innlegg inn í þessa umræðu er gamla sagan um að mamma sauð spagettí í hálftíma í gamla daga, jafnlengi og kartöflurnar. Tek það fram að mér fannst það ljómandi gott, það var ekki fyrr en ég smakkaði það nokkurn veginn mátulega soðið að ég vissi að það ætti ekki að vera eins og grautur. Í þá daga var allt gott með tómatsósu.
----
Móðir mín á aðeins matreiðslubækur um eldamennsku í örbylgjuofni. Hún kann tvær aðferðir til að elda grænmeti.
1. Settu frosið grænmeti í eldfast mót. Bættu vatni og smjörlíki við. Eldaðu í örbylgjuofni þar til það er mátulegt.
2. Settu grænmeti úr dós ásamt soðinu í skál. Bættu smjörlíki við og hitaðu.
Það var ekki fyrr en ég smakkaði ferskar grænar baunir með dassi af ólífuolíu, hvítlauk og salti að mér fannst grænmeti fyrst gott.
- - - - - -
Mamma harðneitaði að borða hummus þar til ég fór að kalla það baunaídýfu.
- - - - - -
Stjúpamma mín notaði endann á smjörstykki til að smyrja kalkúninn með áður en hann fór inn í ofn og setti svo restina af smjörinu á disk og á veisluborðið. Þetta var fyrir tuttugu árum og enn get ég ekki borðað matinn hennar.
- - - - - -
Það er alltaf erfitt að borða heima hjá tengdaforeldrum mínum. Tengdamamma er t.d. bara með eina kartöflu á mann, frekar litla. Á Þakkargjörðarhátínni leyfir hún sýrða rjómanum að vera á borðinu í kannski fimm mínútur áður en hún setur hann inn í ísskáp svo hann skemmist ekki. Hún tekur diskana frá okkur um leið og við erum búin, ekki séns að fá ábót.
- - - - -
Ég steikti mér eitt sinn egg heima hjá mömmu, hún fékk áfall þegar hún sá að ég notaði pönnu og eldavélina. Að hennar mati er eina rétta leiðin að elda egg í örbylgjuofni þar til þau eru orðin seig eins og gúmmí og með gráa himnu yfir rauðunni.
- - - - - -
Ég færði frænda mínum flösku af fínasta rauðvíni þegar ég mætti í matarboð til hans. Hann tók við henni, þakkaði fyrir og skellti henni inn í ísskáp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2024 | 23:03
Lífið er blekking ... og veðurspár með vesen
Sannkallaður gesta- og matardagur í dag í himnaríki (og í gær). Fékk óvænta matarsendingu frá sýrlensku vinafólki ögn fjær, ekki nágrönnunum í næstu blokk, eða guðdómlegt falafel sem ég gleymdi að mynda í allri geðshræringunni. Í gær snæddi ég svo rótsterkt kúskús í boði elsku grannanna frá sama landi, svo magnað að ég "losaði bjúg" á tveggja, þriggja tíma fresti í alla nótt. Nú er ég orðin há og grönn, takk, chili. Ég er mjög hrifin af svona mat og verulega þakklát.
Ein af dásamlegu systrum mínum heimsótti mig svo í dag og hafði komið við í bakaríi á leiðinni, þetta krútt. Hún harðneitaði svo að taka tertuna, eða afganginn af henni, með sér heim aftur, enda býr hún á litlu heimili eins og ég, mannfjöldalega séð. Spurning hvort súpergóðar súkkulaðikökur með karamellukremi megi fara í frysti. Þetta er annars svo ömurlegt ... eða að loksins þegar ég hef efni á og enginn sér til mín, gæti ég borðað kökur og súkkulaði í hvert mál, eins og ég ákvað í barnæsku eftir endalausar synjanir foreldra og vasapeninga við hungurmörk sem nægðu ekki einu sinni fyrir dýfu á ísinn, en finnist það þá viðbjóðsleg tilhugsun og kysi frekar gulrætur! Vegna þess að mér finnst þær betri! Þetta er stóri gallinn við að eldast. Að ég neyðist til að svíkja öll loforðin sem ég gaf sjálfri mér um allt nammið sem ég ætlaði að borða þegar ég yrði stór og enginn gæti bannað mér það. Lífið er bara blekking. Það er svo ofmetið að fullorðnast.
Þegar ég skoðaði veðurspána fyrir komandi viku stakk ég upp á miðvikudegi fyrir opna húsið, þá leit út fyrir afar meinlaust veður, það var sól og blíða í kortunum. EN ... daginn eftir ákvörðunina hafði fokið í veðurguðina og spáin orðin gjörbreytt, með líkum á útsynningi. Þá er sem sagt séns á því að sjórinn sýni sitt besta sem hann gerir svo oft í suðvestanátt. Þau sem vilja sléttan og rólegan sjó fá hann mjög oft líka hér við Langasand en mér finnst hann flottastur þegar hann er með dólg.
Í nóvember 2005, þegar ég skoðaði himnaríki fyrst, var sjórinn einmitt úfinn og flottur sem kveikti það mikið í mér að ég hringdi í fasteignasalann og vildi gera tilboð. Þá var himnaríki fjögurra herbergja íbúð, svo mér leið eins og drottningu að flytja úr hreysi í höll (úr 56 fm (ekki hreysi) í 100 fm), en svo lét ég rífa vegg á milli stofu og herbergis, missti herbergi við það en fékk danssalinn sem ég hafði alltaf þráð, fínasta bókasafn í öðrum enda hans og borðstofa í hinum. Það er búið að gera heilmargt hér í húsinu eftir að ég flutti ... komnar almennilegar svalir, búið að skipta um glugga og svo er verið að skoða núna lagnir undir húsinu, og gert við ef þarf. Við eigum digra sjóði svo það er ekki kvíðvænlegt. Svo styttist í að húsið verði málað, járnið meira og minna heilt utan á því sem er æði, en skipt um það sem er ekki æði.
Engin læti hér, ekkert vesen, en þegar ég flyt losnar staða riddara húsfélagsins sem yrði mögulega slegist um á fyrsta aðalfundi án mín. Stór kostur hér er að hafa ekki sérstaka úti-tiltektardaga, það er einn sem slær (og háþrýstiþrífur líka tunnurnar) svo garðvinna er engin NEMA ef maður er með blóm á svölunum.
Einu sinni sögðu tveir breskir miðlar við mig að ég væri svo gömul sál. Þetta átti að vera mikið hrós en ég náði að leiðrétta það snarlega, gamlar sálir elska víst að hlúa að garðinum sínum, ég gæti ekki verið það því ég hataði garðyrkju, ég væri nær því að vera ungbarnssál. Þau horfðu kuldalega á mig og sögðu: Hættu að draga svona úr þér. Síðan hef ég ekki talað við breska miðla.
Bókin sem ég var að lesa um daginn, Sálarhlekkir eftir Steindór Ívarsson, var nú bara ansi sæt og góð. Ég laug því auðvitað í einu blogginu að maturinn sem fólkið á dvalarheimili bókarinnar hefði fengið væri morðtilræði en eftir að hafa fengið spurningar í kjölfarið og fundið fyrir forvitni um þessa "snilldarbók" sem enginn virtist hafa lesið, ákvað ég bara að setjast niður og skrifa eina spennusögu sem gerist á dvalarheimili, matur kemur mjög mikið við sögu. En ... svona í alvöru talað, ég treysti mér ekki til að eldast og fara á slíkt heimili ef ekki verður hugað að matseðlinum (eins í 100 ár?) og hann færður til nútímans, og líka pælt í tónlistinni frammi í setustofu. Meira að segja mamma, þá 88 ára, flúði stundum setustofuna á deildinni sinni á Eir vegna hræðilegrar tónlistar (sem átti að vera við hæfi gamla fólksins). Hún var reyndar virkilega ánægð á Eir en hún hafði gaman af því að hlusta á Al Jolson, Pet Shop Boys og Coolio, fyrir utan Mozart og flotta karlakóra - vildi ekkert sem var sérstaklega hannað fyrir eldra fólk, sagði hún.
Þegar kemur að mér og mínum jafnöldrum verður tæknin mögulega vonandi orðin þannig að við ættum að geta kallað fram heilmyndir af uppáhaldshljómsveitum okkar, erum kannski með ígæddan kubb í höfðinu sem kemur í veg fyrir að ég sjái t.d. Geirmundar-heilmyndina hjá næstu manneskju, heldur hafi frið með mína Skálmöld og Pink Floyd. Ég VISSI í bernsku að það yrðu komnir flugbílar árið 2000 og ég veit að tækninni hefur fleygt enn meira fram á tilvonandi dvalarheimlisárum mínum. Nema allir í eldri kantinum fái heim til sín vélmenni sem þrífur, þvær, þurrkar, eldar, hjúkrar, þjálfar, skemmtir og gleður. Já, og kann svæðanudd án þess að bora of fast. Mig vantar svoleiðis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2024 | 18:39
Forsetafundur, fyrirhugaðar veislur og spælandi móðganir ...
Stefnumót við stráksa í dag, nákvæmlega einni mínútu áður en LIV-WOL hófst í Sjónvarpi Símans en hver tekur ekki stefnumót við hann fram yfir allt, líka Liverpool-leik? Einn mesti uppáhaldsmaðurinn hans í öllum heiminum ætlaði að koma á Skagann og þótt ég hafi ákveðið með sjálfri mér að fara ekki á forsetafundi eftir að hafa misst af þeim fyrsta á Akranesi, stóðst ég auðvitað ekki elsku Jón Gnarr. Skemmtilegan og góðan fyrrum samstarfsmann sem mætti meira að segja í afmælið mitt einu sinni - sá eini frambjóðendanna tólf, held ég alveg örugglega.
Brosið mun ekki hverfa af stráksa næstu vikurnar, hann skemmti sér mjög vel yfir ræðunni hjá Jóni og fékk svo knús í kveðjuskyni. Heppnasti strákur í heimi. Ræða Jóns var bæði málefnaleg, flott og fyndin. Hann er greinilega ekki að fíflast og er bara orðheppinn og fyndinn að eðlisfari, ekki slæmt. Svo er Jóga forsetafrú algjört yndi líka. Held að hún hafi eignast mjög dyggan aðdáanda í stráksa vegna sameiginlegs áhuga þeirra beggja á álfum.
Ætlaði ég að stoppa stutt á fundinum til að geta horft á leikinn í sjónvarpinu? Já. Var fundurinn svona áhugaverður að þú stoppaðir lengur? Já. Náði ég að horfa á síðustu 20 mínúturnar af leiknum eftir að ég kom heim? Já.
Svo er kaffið í Frystihúsinu skrambi gott (Costa) sem gladdi mig mjög. Bað um tvöfaldan latte, ekki sjóðandi heita mjólk og enga froðu, takk. Fékk snilldarbolla fyrir vikið. Þannig að Skaginn er kominn með vísi að kaffihúsi á Akratorgi. Enn ísbúð en líka gott kaffi og eitthvað meðlæti líka.
Þegar fóturinn er orðinn góður er ansi mátulegur göngutúr að fara niður í Frystihús á Akratorgi, kaupa sér kaffi í götumáli og rölta með það heim aftur. Þá erum við farin að tala um skref. Mig hefur vantað góða ástæðu til að fara út að ganga og nú er hún komin!
Tvær veislur eru fram undan í tilverunni. Fyrst er það veisla fyrir stráksa en hann útskrifast af starfsbraut í Fjölbrautaskóla Vesturlands núna á föstudaginn. Við ætlum reyndar að halda veisluna í Galito (ég býð) og fara út að borða. Stráksa langaði ekki í meira "vesen" en það í tilefni útskriftarinnar ... og hann ræður því auðvitað. Hin veislan er nafnaveisla fyrir mig, alls ekki mín hugmynd en samt æðisleg hugmynd. Þá get ég boðið fólki í kaffi og köku og látið skrifa nýja nafnið á hana. Mig grunar, án þess að hafa nokkuð fyrir mér í því, að það hafi verið haldin skírnarveisla þegar ég var skírð á síðustu öld og ég var auðvitað viðstödd - en nú er tækifæri til að vera viðstödd aðra veislu nema ná að njóta hennar líka. Hvar fást skírnarkjólar á fullorðna?
Mögulega er ég eina manneskjan í heimi sem ber nafnið Guðríður Hrefna Haraldsdóttir. Sem var þó ekki ætlunin, ég pældi ekkert í því. Við erum örfáar Guddur Haraldsdætur, og einhverjar með millinafn. Ein nafna mín (HH) þar sem Guðríðarnafnið vantar, er fjórum dögum eldri en ég ... og ég er fjórum dögum eldri en Madonna. Tilviljun? Nei, örugglega ekki.
- - - - - - - - -
Eitthvað (Satan?) leiddi mig inn á netsíðu með móðgununum ... og ég ætla að birta nokkrar í þeirri von að þær verði bara notaðar í gríni ...
- Einn daginn muntu ganga of langt! Ég ætla rétt að vona að þú haldir þig þar!
- Vá, flott hár, hvernig nærðu því út um nasaholurnar?
- BG og Ingibjörg orðuðu það svo réttilega: Góða ferð, góða ferð!
- Börnin okkar hafa fengið heilann frá þér. Ég er enn með minn.
- Þú ert eins og skýin. Þegar þú hverfur fer sólin að skína.
- Ég er ekki nörd. Ég er bara gáfaðari en þú.
- Mér varð hugsað til þín í dag. Það minnti mig á að fara út með ruslið.
- Almáttugur. Það talar!
- Ef ég liti út eins og þú færi ég í mál við foreldra mína.
- Ef ég kasta spýtu, muntu þá fara?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2024 | 23:32
Saga class í strætó og matarkyns morðtilræði
Örstutt Reykjavíkurferð mín orsakaði ekki eldgos, eins og ég var búin að spá, svo gleymið því bara, ég er komin heim aftur. Við stráksi fórum og heimsóttum Hildu okkar í morgun og skutluðumst með henni um víðan völl, reyndar ekki í Sorpu, ótrúlegt en satt ... hehehe. Bílleysi mitt er sennilega einna ömurlegast þegar kemur að því að þurfa að henda einhverju - eða gefa í Búkollu og Rauða krossinn. Alveg takmörk fyrir því hvað hægt er að misota góðvild og skutlgleði vina og vandamanna í grennd, vill samviska mín meina. Minnugir bloggvinir vita að stundum komu sérlega velviljuð ættmenni úr borginni til að fara með dót fyrir mig á markaði í bænum, eða henda, þegar himnaríki var gert upp.
Frændhundar mínir fríðu, Herkúles og Golíat, voru með í för og okkur fannst svolítið snjallt að kíkja á kaffihús þar sem hundar væru velkomnir. Ég var send inn í Dýrheima, Víkurhvarfi 5 í Kópavogi, þar sem er laugardagskaffihús og hundar sérlega velkomnir með. Kettir eflaust líka nema þeir nenna ekki slíkri upplyftingu. Tvö ungmenni, tveir hundar og ein systir biðu úti í bíl á meðan ég njósnaði. Það gat nú varla verið almennilegt kaffi á boðstólum í verslun sem seldi hunda- og kattamat, eða hvað? Hreinskilni er best svo ég vatt mér að ungum manni sem stóð við afgreiðsluborðið. Hvaða kaffi eruð þið með í boði hér? Frá hvaða fyrirtæki sem sagt?
Ungi maðurinn brosti, sýndi mér pakka með espressókaffi frá Te og kaffi. Ég þakkaði pent, hringdi út í bíl og sagði liðinu að koma inn. Frændhundarnir geltu á fallegu kínversku dýrðardúllurnar (mjög fallegir hundar) sem voru þarna fyrir með eigendum sínum en annars fór allt fram með friði og spekt. Veitingarnar voru fyrsta flokks svo við förum pottþétt þangað aftur - bara á laugardegi.
Stráksi keypti sér mjög fínan sófa í litlu íbúðina sína, nettan og þægilegan Ikea-sófa sem kom allur á Skagann nema áklæðið á vinstri arminn. Það kom í dag og við nýttum ferðina og sóttum það. Þarna mátti finna fjölda landsmanna í svipuðum erindagjörðum, að sækja sér vörur. Mikið verður sófinn fínn þegar áklæðið er allt komið, stráksi var þrælspenntur. Við fórum á bílasölu líka (Toyota) og í Kost (gott tannkrem og geggjaðir þurrkaraklútar).
Við fengum uppfærslu á Saga Class í strætó í morgun og ég hefði auðveldlega getað verið með tíu sentimetrum lengri læri en samt haft ágætt fótapláss. En sú dýrð. Sat sæti aftar á heimleiðinni með ferðinni kl. 20 frá Mjódd en þá með fæturna yfir öðru framdekkinu, upphækkun sem sagt. Mæli síður með en lifði af. Naumlega. Allt er samt betra en fótaplássið í innanbæjarstrætó - börnin eru þó ánægð.
Við fasteignos ætlum að hafa opið hús í himnaríki núna á miðvikudaginn - kl. 17 - í hálftíma. Svo má auðvitað hringja í fasteignasalann og biðja um að fá að skoða á öðrum tímum. Skrýtið hvað umhverfið hefur breyst á einum mánuði ... allt orðið svo fallega grænt og sumarlegt núna en á myndunum sem voru teknar fyrir ekki svo löngu er ekki einu sinni byrjað að grænka!
Bókin sem ég er að hlusta á kemur sífellt á óvart. Eftir kvalir mínar í gær og fyrradag við að lesa um gamaldags íslenskan mat sem var hafður í hávegum á ónefndu dvalarheimili kom í ljós að "góði" maturinn var í rauninni morðtilræði við íbúana. Gamla fólkið hrökk næstum upp af vegna m.a. kjötsúpueitrunar, sætsúpubyrlunar eða sviðaofnæmisviðbragða - og einn lögreglumaðurinn sem var sannur matgæðingur náði að leysa málið af því hann borðaði bara eðlilegan nútímamat. Þáði ekki einu sinni kleinur með kaffinu. Hann fann ýmsar sannanir um sekt á fb-síðunni Gamaldags íslenskur matur og ég stórefast um að sumir sem þar birta hryllingsmyndir sleppi nokkurn tímann úr steininum. Kokkurinn var auðvitað rekinn með skömm en því miður tókst ekki að sanna morðtilræði upp á hann. Ég bjó til hafragraut að vanda - en svo hefur einhver annar komið og hrært súru skyri út í hann, viðbjóður alveg, laug hann. Skæðustu sóttina fékk nefnilega vesalings fólkið sem þurfti að þola hræringinn. Þessi bók er eiginlega of erfið fyrir mig að hlusta á, mér er flökurt og misboðið til skiptis. Það hlýtur að fara að koma út blóðug glæpasaga svo ég geti farið að hlusta á eitthvað með viti.
Annars þarf ekki hryllingsbækur hér til að rústa tilveruna, það nægði að lofa stráksa að mæta með honum í Frystihúsið kl. 15 á morgun og hitta Jón Gnarr (sem við elskum bæði) - og átta mig svo á því að nákvæmlega klukkan þrjú þann sama dag hefst Liverpool-leikur (gegn Wolves) - sá síðasti sem Jurgen Klopp stýrir. Ég fæ far með grannkonu (sem fær ís fyrir skutlið). Vonandi tekst að ná mynd af stráksa og Gnarr saman, þá er myndasafnið hans fullkomið. Hann á mynd af sér með Áslaugu Örnu, Páli Óskari, jólasveininum, Hr. Hnetusmjöri og fleiri snillingum en sárvantar eina með Jóni.
Grasbletturinn græni sem ég stökk léttfætt eins og hind á út úr strætó við Garðabraut kl. 20.50 í kvöld, var skrambi þúfóttur svo ég reif upp nokkuð sæmilegan bata undanfarinna daga á hásin minni. Hvernig býr maður sér til kalda bakstra án þess að deyja úr kulda annars staðar en á hægri hásin? Þvottapoki, ísmolar, plastpoki? Dæs! Ég komst varla heim - en þessi dagur hefur samt gefið mér næstum 3.500 skref sem er meira en helmingi meira en meðalfjöldi skrefa sem ég tek yfirleitt. En þau síðustu í dag, Garðabraut-Himnaríki, voru ansi hreint minna glæsileg en þau fyrri. Það verður að viðurkennast.
- - - - - - - - - -
Fræg manneskja með gott orðspor? spurði God á Facebook. Þessi voru oftast nefnd:
Keanu Reeves
Dolly Parton
Tom Hanks
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2024 | 22:07
Tölur, ónýt nöfn og vondar bíómyndir
Sennilega hefst eldgos á morgun á Reykjanesskaga. Það hefur nefnilega gerst nokkuð reglulega þegar ég skrepp í bæinn að það fari að gjósa. Úkraínski kattahvíslarinn minn á annarri hæð hefur bjargað málum svo sem og tekið ljósmyndir. Svo er nákvæmlega enginn skilningur ríkjandi hjá viðkomandi sem ég heimsæki á morgun, á því sem fréttnæmt er, enda ekki útsýni nema rétt yfir Esjuna, það gamla fjallshró, heiman frá viðkomandi sem skilur heldur ekki stórfengleikann við HM og EM í fótbolta og nauðsyn þess að vera nálægt sjónvarpi í heilan mánuð annað hvert ár. En það er önnur saga.
Ég fór með drengsa í Landsbankann aftur - og þar var sama frábæra þjónustan og um daginn. Hann skellti sér í bæinn á eftir með strætó. Eftir það átti ég stefnumót við stráksa, hann losnar aldrei við mig, og saman nutum við ómetanlegrar hjálpsemi í bæði Omnis og Íslandsbanka, það er gott að búa á Akranesi. Stráksi blikkaði mig og ég fór auðvitað í vissa búð með honum og keypti Langa-Jón og tepakka (stráksi hlýtur að vera með bresk gen) og saman sátum við svo saman í klukkutíma í himnaríki og höfðum það náðugt, hann með te, ég með kaffi. Þegar hann síðan hoppaði út í strætó með bréfpoka frá mér til að henda í pappa-plasttunnuna í leiðinni, fór ég að hugsa um hversu mikið liðugri ég er orðin eftir að hann flutti frá mér. Ég þarf nefnilega að sjá um allar hneigingar og beygingar vegna kattanna, taka upp kattagubb og allt dót sem kettirnir henda niður á gólf, og mér líður núna eins og ég sé orðin 28 ára aftur, á aðeins einum og hálfum mánuði, fyrir utan vissa hásin. Of mikil hjálp getur greinilega verið óholl - það á ýmsum sviðum. Eins gott að ég var ekki lögst í kör ... nú fær hann aldrei aftur að hjálpa mér við þetta.
Ég fann ekki Galdraskjóðuna, mína stórkostlegu bók um margvíslega samkvæmisleiki, tarot, tölur, drauma, Feng Shui og alls konar skemmtilegt, bókina sem mér skildist að hefði ekkert selst en hefur samt verið algjörlega ófáanleg lengi vel! Alla vega að sögn unga mannsins sem hringdi í mig í fyrra til að vita hvort ég ætti aukaeintak fyrir sig, sagðist svo ætla að taka hana á bókasafni og ljósrita hana ... skil hann vel, þetta er meistaraverk ... sem ég sem sagt fann ekki heima, heldur þurfti að gúgla þessar upplýsingar um tölur sem hlytu að hafa breyst eftir viðbótarnafnið sem ég fékk mér á dögunum ... Hefði kannski átt að benda honum á Bókabúð Forlagsins, ótrúlega mikið úrval þar.
Fann (á íslensku) upplýsingar með gúgli um tölur og talnaspeki og samkvæmt þeim breyttist aðaltalan mín (?) úr 8 í 7 með því að bæta Hrefnu-nafninu við. Forlagatalan er líka 7, (fæðingardagur og ár) Svo til að fá einstaklingstöluna legg ég saman tölurnar úr G u r r í (7+3+9+9+9=37 ... sem styttist í 1 (3+7=10 ... 1+0=1) og sú tala er víst tala ljónsins, mergjuð tilviljun. Síðan þurfti að finna hjartatöluna (leggja saman útkomuna úr sérhljóðum nafna minna og föðurnafns (kom talan 2) og svo var það yfirbragðstalan sem fékkst úr samhljóðunum (talan 4).
... ég veit því miður ekkert hvað er átt við með hjartatölu, yfirbragðstölu eða einstaklingstölu og legg til almennilegt gúgl.
Stafirnir A, J, S og Æ eru með töluna 1, B K T Ö með 2, C L U með 3, D M V með 4, E N W með 5, F O X með 6, G P Y með 7, H Q Z með 8 og I R Þ með 9. Maður gefur hverjum staf nafns síns rétt númer og leggur svo saman eftir kúnstarinnar reglum og styttir svo niður í eina tölu. O er sama o Ó, I og Í osfrv.
Dæmi: Kona kölluð Lísa, þá eru tölurnar 3+9+1+1= 14, stytt: 5 - ferðalög, orka, sköpun ... Einstaklingstalan hennar er 5.
Þau sem nenna að ráðast í að reikna þetta fá þá örstutt um hverja tölu, eða mjög stytt:
1. Kraftmikil tala, tákn einingar og heildar, einnig upphafs, stjörnumerki ljón, litir appelsínugulur, gulur og gylltur.
2. Tvíhyggja, samhljómur, samvinna, tengist krabbanum, litur: pastellitir.
3. Vor, frjósemi, vöxtur, nýtt upphaf, fjölskylda, tala töfra, merki bogmanns, litir gráfjólublár og fjólublár.
4. Tala höfuðátta og árstíðanna, tengd steingeit, litir dökkgrár og svartur. (vinnutala mikil, hef ég heyrt)
5. Frelsi, orka, sköpun, ferðalög. Tvíburi og meyja, ljósir litir.
6. Ást, umhyggja, ábyrgðartilfinning, jafnvægi. Naut og vog, litir: ljósblár, blágrænn og grænn.
7. Heillatala, sjálfskoðun, töfrar, tengist fiskamerki, litir eru allir grænir og ljósblágrænn.
8. Sterk tala, tengist efnisheiminum, forlögum og óendanleika, stjörnumerki steingeit, litir dökkgrár og svartur.
9. Tala alheims, hugsjónir, heimspeki, fullkomnun, mikil heillatala. Hrútur og sporðdreki, liturinn er rauður.
Ég er að hlusta á Storytel-bók eftir íslenskan mann, nýkomin er bók 2 frá honum um sama fólk, held ég, svo ég dreif mig í að byrja á fyrri bókinni ... um gamla konu, nýflutta á dvalarheimili og hefur eitthvað hræðilegt á samviskunni, eitthvað sem gerðist í gamla daga. Sennilega spennubók, ég er ekki komin svo langt ... ég er alla vega orðin MJÖG hrædd við að eldast og fara á dvalarheimili. Það er BARA gamaldags matur á boðstólum þar. Fólkið tárast af gleði yfir kjötsúpu, sætsúpu, gellum ... Ég spyr mig bara, með óttablik í augum, mun eitthvað hafa breyst þegar kemur að mér - eða get ég treyst því að matarsmekkur minn umturnist á þessum árum sem ég á eftir fram að dvaló?
Ég stend mig að því að hraðspóla yfir vonda bóndann þegar hann gerir sig líklegan til að hefna sín á yrðlingum (horfi ekki á náttúrulífsþætti af svipaðri ástæðu). Alveg spurning hvort ég geti hlustað mikið meira, mikið mælt með henni en óraunverulegar bækur eru betri, finnst mér, fjöldamorðingjar sem drykkfellt lögreglufólk gómar loksins ... það er róandi af því að blóðið er bara tómatsósa í þeim.
Mynd: Þangað leitar kötturinn sem hann er heitastur ...
Það gerist víst bara í klámmyndum að iðnaðarmaður komi um leið og þú óskar eftir honum.
Skil ekki þetta trend í vinnunni hjá okkur, þegar fólk setur nafn á matinn í ísskápnum. Í dag borðaði ég túnfisksamloku sem hét Linda!
God, fb-vinur minn spyr núna út í nöfn: Hvaða mannsnöfn eru núna algjörlega ónothæf (ónýt)? Erlend síða, eins og sést.
Ken
Jesus
Adolf
Donald
Todd
Karen
(Hvað með Todd? Skil hin nöfnin en ekki Todd)
- - - - - - -
Og ...
Nefndu bíómynd sem þér finnst vond og enginn gæti sannfært þig um hið gagnstæða. Margir höfðu skoðun og sumir rökstuddu hana:
Guðfaðirinn, of löng, ég sofnaði
Titanic, skil ekki hvernig nokkrum getur fundist hún góð
The Rocky Horror Picture Show
The Big Lebowski
Avatar
Gone with the wind og Grease
Elf, fyrirgefðu, mamma, ef þú sérð þetta
Sound of Music
Pulp Fiction
Forrest Gump, algjör gubbmynd, líka Being There
The Wedding Singer
Lost in Translation, tveir tímar sem ég fæ aldrei aftur
50 shades of grey
Allar með Chevy Chase
Step Brothers, afsakið öll
The Notebook
... og fullt af öðrum alveg ágætum myndum! Titanic er þó ekki í uppáhaldi hjá mér, mig langar heldur ekki til að sjá Notebook aftur, eða Avatar. En kommon, Sound of Music, Pulp Fiction, Godfather?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.7.): 26
- Sl. sólarhring: 31
- Sl. viku: 178
- Frá upphafi: 1529800
Annað
- Innlit í dag: 22
- Innlit sl. viku: 158
- Gestir í dag: 21
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni