5.1.2024 | 12:48
Óbeinar kúganir og stórhættulegt himnadót
Samfélagsmiðlar eru skemmtilegir tímaþjófar og reglulega furða ég mig á óbeinum tilfinningakúgunum þegar ég skrolla t.d. niður Instagrammið mitt. Sætir kettir eru látnir segja með krúttlegri mannsrödd (sem er spiluð of hratt): Ef þú skrollar fram hjá mér án þess að setja hjarta sérðu mig aldrei framar, viltu það? Í alvöru? Ég fer fram hjá á ljóshraða þótt ég elski ketti.
Pirrandi erlendu heklsíðurnar koma enn reglulega upp hjá mér (á mánaðarfresti, ég slekk á þeim jafnóðum en bara hægt í mánuð í senn). Þá er birt mynd, alltaf sömu myndirnarog textinn svipaður: Frændi minn (frænka mín) heklaði þetta fallega teppi en konan hans (maðurinn hennar) sagði það vera ljótt svo hann (hún) þorir ekki að hekla framar. Myndin er jafnvel af bútasaumsteppi ... og neðst í vælinu er hlekkur á síðu með uppskriftinni (held ég). Fólk í þúsundatali fellur fyrir þessu. Ó, hversu fallegt teppi, segðu honum (henni) að gefast ekki upp. Þetta er bara fyndið, nenni ekki lengur að pirrast yfir þessu, ýti bara jafnóðum á x-ið í færslunni. Lífið of stutt fyrir pirr ...
Mynd 1: Þessi gullfallega vera heldur á svokölluðu veðurteppi sem Keli kötturinn hennar heklaði fjórloppað. Nú hafa aðrir kettir heimilisins sýnt teppinu talsverða óvirðingu með því m.a. að hlæja að litavalinu (sem fer nú bara eftir hitastigi hvers dags árið 2016, 366 umferðir) og þeir stelast til að liggja ofan á því og klína þannig kattahárum á það, eins og það sé ekki nógu hlýtt, svo Keli er hreinlega að hugsa um að hætta að hekla, hann er svo sár. Lesið endilega meira um málið á blog.is/gurrihar.
----
Forsetarnir okkar:
Dóri DNA, Halldór Laxness, ætlar í framboð ef það gýs á morgun, á þrettándanum. Sennilega á hann við gos á Reykjanesskaga, Grímsvötn eru líka með stæla og þar gæti gosið, eiginlega löngu kominn tími á þau. Búið að færa kóðann yfir Grímsvötn upp í gulan. Dóri er fyndinn og skemmtilegur.
Ástþór Magnússon (Friður 2000) hefur einnig lýst því yfir að hann ætli í forsetaframboð. Kannski tekst Ástþóri ætlunarverk sitt að boða frið. Ekki veitir af.
Mynd 2: Kristnir gegn gervitunglum. Myndin tengist hvorki Ástþóri né Dóra DNA en hver veit hvers konar frambjóðendur bætast við með alls konar áhugaverðar skoðanir. Arnar tekur þetta, ef skoðanakönnun ÚS er rétt en þá voru þessir tveir líklega ekki komnir undan feldi, allavega ekki Dóri. Á ekki að kjósa í byrjun júní? Nægur tími til stefnu.
----
Bóklestur í Himnaríki:
Talandi um gervitungl sem bjaga bænir ... Var að klára bókina Brúður Krists: Alin upp í sértrúarsöfnuði. Virkilega athyglisverð bók. Á undan henni hlustaði ég á Lee Child-bók um Jack Reacher, risastóra, sterka og klára fyrrum herlögreglumanninn sem ráfar um Bandaríkin, oft á puttanum, og lendir í ýmsum hættulegum ævintýrum. Hún var lesin af manni sem var greinilega óvanur ... setning gat hljómað: Hann sá að þetta var búið spil sautjándi kafli. Allt í einni bunu. Þó voru engin leikræn tilþrif sem var fínt, en lesturinn lagaðist smám saman og var orðinn ágætur í lokin nema ég hafi bara vanist þessum "stíl". Bókin of skemmtileg til að ég tímdi að hætta að hlusta og ganga að bókahillu inni í stofu og taka hana og endurlesa á gamaldags hátt. Ég endur"les" ansi mikið á Storytel - finnst gaman að njóta þannig bóka sem ég las einu sinni og þótti fínar.
----
Facebook:
Á síðunni Gamaldags matur (ekkert annað en masókismi heldur mér þar) mátti sjá í gær mynd af steiktu kjöti. Óhrein eldavélin vakti þó meiri athygli og til skiptis skammast fólk yfir óhreinindum eða skammast yfir skömmunum í garð þess sem póstaði.
Í dag hafa margir birt víkingamynd af sér á fb, eins og margir gerðu líka í gær, og myndirnar eru ansi keimlíkar. Með því að rýna í þær sést nú samt alveg svipur viðkomandi. Sjá mína hér, ég minni á frægan vélsagarmorðingja, eins og ég geri á ljósmyndinni á Costco-kortinu mínu (alltaf jafnmóðgandi að eftirlitsfólkið í Costco þekki mig af henni) ... óttist samt eigi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2024 | 18:33
Flottustu Bessastaðaboðin og bestu húsráðin
Fréttirnar um að Guðni byði sig ekki fram til forseta aftur hafa orðið til þess að margir reyna að finna hæft forsetaefni. Bara svo það komi fram, enginn þrýstingur hér og vinir mínir hafa ekki skorað á mig. Vá, hvað þeim verður ekki boðið í afmælið mitt. Ein tillagan á Facebook er Halldóra Geirharðsdóttir leikkona en hana langar víst ALLS EKKI, sá ég einhvers staðar. Hún á reyndar flottan afmælisdag (12. ágúst) og ef hún skipti um skoðun og yrði forseti gæti henni alveg eins dottið í hug að bjóða okkur sem eiga sama afmælisdag til dýrlegs fagnaðar á Bessastöðum. Gæti maður ekki skemmt sér stórfenglega með Ásdísi Rán, Sveini Andra, Krossinum trúfélagi, (ég sver það), Oddnýju Sturludóttur, unga manninum í göngubrettabúðinni, Hlyni (bróður Elvu Óskar leikkonu), ljúfa manninum hjá skattstofunni í denn (1995), stöðumælum í Reykjavík (jamm) og Mark Knopfler?
Held að það séu ýmis fordæmi fyrir því, t.d. að forsetinn hafi boðið Álftnesingum árlega á jólaball (kannski hætt?), svo fá allir sem verða 100 ára heillaóskakort frá Karli kóngi í Bretlandi, áður mömmu hans, svo allt er til og ekkert ómögulegt. Birti samt ágæta framboðsmynd af mér hér til öryggis. Ég myndi passa sérlega vel við kóngafólk heimsins, hugsa ég. Bara, ekki láta ykkur detta í hug að kjósa Arnar fram yfir mig en samkvæmt ÚS er hann nánast sjálfkjörinn ... Hann veit nú samt rosalega margt, meira en til dæmis vísindamenn, læknar og orkumálasérfræðingar, svo örfá dæmi séu tekin, það getur unnið með tilvonandi forseta sem gæti þá frætt þjóð sína, aðra þjóðhöfðingja og fleiri um hið rétta. Man eftir að Trump talaði þvert á skoðanir landlæknis Bandaríkjanna og mælti hugrakkur með því að drekka klórblöndu við Covidsmiti ... Ja, ekki trúi ég öllu sem jarðvísindamenn og eldgosafræðingar segja þessi misserin, eða ljúga ... við vitum mörg að nokkur af síðustu eldgosum voru gerð með speglum og eldspýtum og jarðskjálftarnir framkvæmdir í samráði við alla rúmframleiðendur landsins, IKEA og JYSK og rúmin hristast mismikið, allt í takt við vilja ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Takk, RB-rúm, takk kærlega.
Ég leiðrétti færslu gærdagsins, afmælisbarnið og tilvonandi tónleikaförunautur (á Skálmöld) á afmæli í dag, ekki 2. jan. (Til hamingju, elsku Aníta). Sit nú við tölvuna og hlusta á plötuna Börn Loka til að geta öskursungið með hverju lagi (djók ???). Geri síður ráð fyrir því að ég verði komin með leiða á þessari dásemdartónlist þótt ég hlusti á plötuna reglulega til tónleikadags eftir bið í óbærilega langa mánuði.
Nú er verið að salta göngustígana með fram Langasandi, vonandi virkar það betur en söltunin á hlaðinu í gær, sér ekki högg á vatni (sjá sannfærandi ljósmynd dagsins), saltflögurnar fjúka eflaust bara um eins og gaddarunnar í Arizona (sjá sumar kúrekamyndir). Kannski skiptir það engu, þetta með saltið, sennilega búið að verðleggja sig út af markaðnum, hér er allt autt núna, sést ekki í bíl, þarna er stöku einmana göngumaður með hetjulund og svo fuglinn fljúgandi. Loksins hef ég hlaðið mitt út af fyrir mig.
Nýliðið ár er merkilegt fyrir þær sakir að ég lærði að búa til uppstúf. Lágur hiti á hellunni og réttur þeytari sem nær til allra kima pottsins var allan tímann galdurinn. Og að hræra stöðugt til að brenni ekki við. Uppstúfmeistarinn var lengst af mamma í jóladagshangikjötsboðum mínum og svo tók Hilda systir við. Ég, sem gamall blaðamaður, ákvað að forvitnast um hver galdurinn væri og tókst með lævísi og blekkingum að ná því upp úr henni og birti útkomuna fyrir bloggvini nær og fjær því maður á að deila. Sennilega verð ég búin að steingleyma öllu saman um næstu jól svo bara spurning um að hafa uppstúf með öllum mat þar til ég get búið það til blindandi. Var ég ekki örugglega búin að láta vita að galdurinn við að halda púðursykri mjúkum er að geyma hann í ísskáp? Ég set aukaplastpoka utan um aðalplastpokann frá Kötlu, skelli inn í ísskáp og lendi aldrei í vandræðum. Nota svo auðvitað utanyfirplastpokann aftur og aftur.
Nýja árið leggst ljómandi vel í mig. Kannski flyt ég í bæinn á árinu, kannski ekki. Jarðskjálftar og eldgosaspádómar eru ögn fælandi, hér er öruggara að búa með tilliti til þess, og svo er auðvitað sturlað flotta útsýnið og frábæra fólkið sem heldur í mig, og of kors gítarleikarinn í Skálmöld. Það væri eftir öðru að það kæmi hér hótel í göngufæri og besta latte landsins fengist þar og ég flutt í burtu. Kom ekki Kaffi Vest í gamla hverfið mitt nánast daginn eftir (ok, átta árum) að ég flutti upp á Skaga? Ýmsir vilja meina að það sé ekki pláss fyrir nýtt hótel hér við hliðina þótt þyrlupalli verði fórnað og fótboltavöllurinn færður til austurs. Eitthvað kremjulegt við það. Eins og verðlaunatillagan var æðisleg þarna um árið sem gerði þó ekki ráð fyrir hóteli. Held að sé meira pláss fyrir hótel nærri sementsreitnum og smábátabryggjunni, myndi halda að það pirraði fæsta og það er verulega flott staðsetning, miklu nær miðbæ Akraness og samt sjór, brim og allt.
Hvað gerir svo Vegagerðin varðandi strætó í bæinn? Verður fækkað niður í eina stoppistöð hér svo fjöldafótbrot verði daglegt brauð yfir hálkutímann? Það mun skipta mig máli líka en sjáum samt til hvort gönguferðahatur mitt minnki eitthvað eftir þrotlaust labb á brettinu góða. Ef ég flyt í bæinn, á stað þar sem stutt er í strætó, búðir og kaffihús, þarf ég ekki að hafa neinar áhyggjur. Sakna nú samt kaffihúss á Skaganum en það gæti komið með nýju hóteli, hvar sem það verður byggt, ef fólkið þar hefur vit á að bjóða upp á gott kaffi, ekki láta sölufólk plata sig til að vera með eitthvað annað en fyrsta flokks. Og ef fyrsta flokks er valið, ekki hafa það kaffi með mikilli sýrni (súru bragði) í vélinni sem gerir espressó eða latte ... Fékk eitt besta kaffi lífs míns hjá Rjúkanda á Snæfellsnesi sumarið 2018 á leið í Stykkishólm. +Ótrúlega góð uppskera af Kólumbíukaffi. Þar hef ég líka fengið bragðlausasta kaffi lífs míns (Eþíópíu?), bað fyrir rest um þrefaldan espressó og að fá að hella sjálf mjólkinni út í ... samt var nánast ekkert bragð. Það litla bragð var samt gott en ... Öðruvísi uppáhelling fyrir svona kaffi, takk. Annars er ég svolítill plebbi þegar kemur að kaffi, vil hafa bragð af latte og það er það t.d. í latte hjá Kaffitári og í tvöföldum latte hjá Te og kaffi. Á kaffihúsinu Önnu Jónu vildi ég skipta á tegundum, nota í espressóinn það sem þau nota í venjulega uppáhellingu og öfugt, latte á ekki að vera "súr"(sýrni). Valería í Grundarfirði fer bil beggja einhvern veginn, og ég var yfir mig hrifin af latte sem ég fékk þar, jú, jú, sýrni og alls konar bragð, en bara svo flott jafnvægi að ég var alveg heilluð. Ég keypti baunir til að taka með mér heim og kaffið var fínt úr vélinni minni en samt ekki jafngott og hjá Valeríu.
Mér þótti virkilega vænt um öll hjörtun, lækin og fallegu orðin við færslu mína (á Facebook) í gær þar sem ég tróð í leiðinni bloggfærslu gærdagsins upp á fólk. Yndislegur samhugur sem gladdi gamalt hjarta mitt. Ég veit að lífið verður ekki eins og ég hélt að það yrði ... en það er samt dásamlegt. Margt til að gleðjast yfir og njóta. Ég er hrikalega heppin með ættingja og vini, kunningja, nágranna, útsýni og það allt. Vissulega fékk ég talsverða lífsgleði í vöggugjöf og það er eins og fátt fái haggað henni til lengdar.
Fann sæta mynd (frá c.a. 1991)af okkur mæðginum áðan og skellti henni sem prófílmynd á fb ... sjá mynd.
Út af meðfæddri hógværð hugsa ég að ég gæti ekki orðið forseti, sorrí, krakkar, ég hef legið undir feldi á meðan ég bloggaði. Það er reyndar margt sem ég get ekki orðið því tíminn líður svo hratt ... eins og forseti hæstaréttar ... ekki nóg að fara í lögfræði, það tekur líka tíma að vinna sig í álit. Aldrei kjarneðlisfræðingur, aldrei læknir eða hjúkka eða sjúkraliði en ég hef alltaf pælt í því hvort ég hafi orðið fréttaritari eins og Beverly Gray af því að mamma átti svo margar bækur um hana, en mun færri um Rósu Bennett hjúkrunarkonu. Mamma var tvíburi og þær systur fengu oft eina gjöf saman (en sú grimmd) og urðu síðar að skipta bókasafninu í tvennt þegar þær stofnuðu heimili sjálfar. Nokkrar Beverly Gray-bækur sem ég hef aldrei lesið eru til þarna úti. Svo fannst mér Wilie læknir, eða hvað hann hét nú, svo leiðinlegur, alltaf að segja hinni rjóðu Rósu að þurrka kinnalitinn af sér, en hún var samt aldrei með kinnalit. Þætti gaman að vita hvort læknar geri þetta enn. Ef svo er, valdi ég rétt þegar ég fór í hagnýta fjölmiðlun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2024 | 16:37
Minningar, hristingur ... og Skálmaldarmiðar í höfn
Hvunndagshetjan eftir Auði Haralds var mikil uppáhaldsbók hjá mér og ekkert langt síðan ég endurlas hana síðast, ásamt Læknamafíunni og Hvað er drottinn að drolla (hlustaði á hana). Ég var ein af barnfóstrunum hennar Auðar. Þá var ég 13 ára og nokkrum árum seinna lúslas ég það sem hún skrifaði um skrautlegu barnapíurnar í Hvunndagshetjunni en fann mig ekki í lýsingunum, sjúkkitt. Þegar ég flutti í bæinn eftir örfá milliár á Akranesi (1978-1982), byrjuðum við að heilsast og spjalla saman og að sjálfsögðu fór ég að bjóða henni í afmælin mín. Hún vakti auðvitað mikla lukku, skemmtileg og sérlega orðheppin. Hún neitaði alltaf að sitja í stofunni. Eldhúsið var best, sagði hún, gott að sitja á gamla bekknum þar sem hún náði niður á gólf með fæturna, svo gat hún líka talið brauðtertu- og kökuferðirnar hjá hinum gestunum og að sjálfsögðu daðrað við sætustu karlana ...
Skyldleiki eða langur vinskapur hefur aldrei aldrei verið skilyrði fyrir því að fá afmælisboð. Til dæmis nóg að hafa haft mig í vinnu í nokkra mánuði ... Mamma vildi að ég hætti hjá Auði því henni fannst pössunin bitna á náminu og ég hlýddi án þess þó endilega að bæta mig í náminu (aldrei flytja með unglinga á milli landshluta). Þetta var góður tími hjá Auði og hún var frábær mamma, eins og ég hef eflaust sagt frá áður hér á blogginu.
Ég fór í ljómandi fínt jólakvennaboð til hennar um mitt sumar eitt árið og þar ríkti mikið fjör. Sambandið minnkaði smám saman niður í ekki neitt eftir að ég flutti upp á Skaga, held þó að hún hafi mætt einu sinni í afmæli hér, þá með Halldóri fjanda, en hún kom oft til mín í afmæli á Hringbrautina. Oftast kom Sara, frábæra dóttir hennar með henni og reyndist vera með sama beitta húmorinn og mamman, þegar ég fór að kynnast henni en hún fæddist ekki fyrr en löngu eftir að ég hætti að passa. Ég hafði ekki hugmynd um að Sara hefði látist fyrir nokkrum árum fyrr en ég sá það í fjölmiðlum í dag.
Auður kom inn í líf einnar systur minnar þegar hún flutti í sama hús og systa fyrir nokkrum misserum. Eina nóttina kviknaði í íbúð Auðar og mikil heppni að unglingar áttu leið fram hjá og sáu eldinn. Einn þeirra hringdi dyrabjöllunum á hinum íbúðunum stanslaust og hinir björguðu Auði út.
Systir mín varð ekki vör við neitt en aldrei þessu vant voru allir gluggar lokaðir hjá henni, nema í herberginu sem frænka okkar gisti í en hún var næturgestur ... og vaknaði við reykjarlyktina. Þær voru rétt komnar fram þegar dyrabjallan fór að hringja á fullu.
Systir mín hefur aldrei á ævinni fundið lykt sem getur verið mjög hættulegt og bruninn varð til þess að hún er nú með sjö reykskynjara í íbúðinni. Ég veit að hana langar mikið til að hitta unglingana knáu og þakka þeim fyrir skjót og góð viðbrögð.
Ég sendi ástvinum Auðar innilegar samúðarkveðjur.
Í dag eru sex ár síðan sonur minn dó í bílslysi. Ég hef ekki gert þessum degi hátt undir höfði, bara reynt að lifa hann af með hjálp hversdagsleikans og passa að gera hann ekki að kvíðvænlegu skrímsli, það hefur gengið vel og sífellt betur með hverju árinu. Tíminn hjálpar.
Á morgun á yndisleg ung kona þrítugsafmæli, og í dag keypti ég tvo miða á Skálmaldartónleikana 1. nóv. nk., annan í afmælisgjöf fyrir hana, og hinn fyrir mig.
Tix.is úthlutaði mér miðum á 18. bekk, upp við hljóðfólkið, eflaust góðum miðum, en mig langaði að vera nær sviðinu þótt hljómburður sé eflaust betri aftar, ég fæ líka hálfgerða innilokunarkennd ef ég sit í miðjunni á bekk. Sviðið í Hörpu jafnbreitt og áhorfendabekkirnir svo maður sér ágætlega úr flestum sætum. Ég kunni ekki að velja sjálf, enda aldrei áður keypt miða á netinu í Hörpu (þarf samt að læra það því mig langar að verða miklu duglegri að sækja tónleika). Fb-vinkona benti mér á að hringja í miðasöluna og eftir spjall við eina dásemdina þar er ég verulega sátt við tíunda bekk, ögn til hliðar. Þegar ég fór á Töfraflautuna með mömmu og syni mínum, (sjá eldgamla mynd af þeim, síðan um jólin 1981) sátum við á sjötta bekk og það var ljómandi fínt, minnir mig. Auðvitað hefði ég átt að tékka fyrst á því hvort vantaði í kórinn hjá Skálmöld, ég er með reynslu sko (Kór Langholtskirkju (fullt af dásemd), Mótettukórinn (Eliah eftir Mendelson) og Fílharmonía (Krýningarmessa Mozarts) ... einnig brilleraði ég í Kór Barnaskóla Akraness, hlýtur að vera.
Til öryggis ætla ég að vera með eyrnatappa í töskunni ... þegar ég fór á tónleika með Dúndurfréttum á Gamla kaupfélaginu um árið, var hljóðið mjög bjagað ... og eitt andartak datt mér í hug að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hversu falskt þeir hljómuðu ... en svo horfði ég á alsæla tónleikagestina í kring sem gátu ekki allir verið með slæmt tóneyra. Mikil vonbrigði en þarna voru eyrun í mér eitthvað að stríða mér (nei, ég hef ekki enn farið til HNE-læknis). Ég tók upp hálft lag á símann minn til að sannfæra mig um eigin eyrnavesen og það hljómaði alls ekki falskt þegar ég spilaði það svo í tölvunni minni. Skilst að eyrnatappar geti hjálpað í svona tilfellum, annars verður bara að hafa það, ég skal á þessa tónleika.
Ég var vöknuð en lá í leti uppi í rúmi og hékk í símanum þegar allt fór að hristast og skjálfa í Himnaríki og ég nærri sofnuð aftur við ruggið ... djók. Ahh, 4,1, kannski 4,2, hugsaði ég, komin úr æfingu eftir hlé í tvo mánuði. Hann reyndist svo vera mun stærri, eða 4,5. Vér Skagamenn finnum bara þá sem eru fjórir eða stærri, nema hún Gunna, Hekls Angels-vinkona af Sunnubraut. Hún finnur nánast enga skjálfta, er á sérsamningi við þann í neðra, grunar mig. Þetta var víst bara harður gikkskjálfti sem tengist ekki jarðveseninu, eða svo segir fólk sem hefur vit á þessu.
Akraneskaupstaður kom og saltaði hlaðið hjá mér fyrr í dag, Langasandsmegin. Held að það hafi ekkert gagn gert, sjá mjög átakanlega mynd sem ég tók rétt áðan, það þarf sprengiefni á svona svell. Grófa saltið í kassanum niðri í stigaganginum hjá mér er búið, svo ég fer sennilega ekkert út fyrr en byrjar að vora. Nema ég láti hússtjórnina vita, ég er reyndar riddari húsfélagsins en frekar gagnslaus - þar sem ég fékk ekki að vera í saltnefndinni.
Bloggar | Breytt 4.1.2024 kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.1.2024 | 18:28
Ó, þá fögru steina ...
Gleðilegt ár, elsku bloggvinir, nær og fjær. Þá eru rólegheitin skollin á, eftir endalausar ferðir í bæinn til að halda jól, áramót og ýmislegt þaðan af jafnskemmtilegt. Flóttakona frá Úkraínu hefur verið hinn nýi kattahvíslari og -passari Himnaríkis eftir að Hildur dirfðist að flytja úr húsinu, og flóttamaður frá Sýrlandi skutlaði mér í bæinn fyrir hátíðarnar, þau eru bæði góðir vinir mínir og einstaklega yndisleg. Þessi fjölmenning sko.
Myndin var tekin um áramótin, þar sést fólkið sem ég djammaði með, stráksi lengst til vinstri. Ég var inni með Hildu að knúsa hundana. Við vorum ánægð með Skaupið, það nægir mér að glotta eða flissa þrisvar og þá er ég ánægð og þakklát fyrir vinnu alls þessa fólks við að reyna að skemmta mér. En ég fann líkamlegan mun á mér eftir þáttinn sem var sýndur á RÚV daginn áður, Allt eðlilegt hér, með Sögu Garðars og Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Ég hló svo mikið að ég man varla eftir öðrum eins öskrum, fann endorfínið og alls kyns gleðihormón fylla út í öll skúmaskot líkamans. Þetta er bannað innan tólf ára, svo horfðu á þetta í laumi og gættu þess að vera búin/n að pissa.
Mér tókst að lifa árið 2023 af, það var frekar rólegt ár, tvær utanlandsferðir samt (Liverpool, Glasgow) sem hefur aldrei áður gerst, sendi frá mér eina bók með elskunni henni Möggu Blöndal, Þá breyttist allt. Leiðbeindi á tveimur námskeiðum í íslensku fyrir útlendinga sem er alltaf jafnskemmtilegt. Fór með Hildu og fleirum til Hafnar í Hornafirði, tókst að finna út að við ættum 17 klst. og 53 mín. eftir á næstu bensínstöð (á gönguhraða) en Hilda hefndi sín óvart með því að pína mig í 10 þúsund skrefa gönguferð úr miðborginni í Glasgow þar sem hún sagði sífellt meira undrandi í svona klukkutíma að það væru bara fimm eða tíu mínútur eftir á hótelið, var með stillt á ökuhraða. Svona vinnur karmað, myndi einhver segja. Nema Hilda hló að mínum mistökum í 785 Öræfum en ég kvaldist yfir hennar, svo ég á kannski eitthvað inni.
Ég sagði þessari systur fyrir einhverjum vikum að ég hefði séð girnileg göngubretti auglýst, það á broti þess verðs sem slík tæki fara vanalega á, eitthvað um að fullur gámur hefði verið pantaður til að ná verði niður, hægt að brjóta það saman og rúlla undir rúm og ýmislegt fleira sem mér fannst nú samt hljóma of gott til að vera satt.
Daginn fyrir gamlárs, á leið í matvörubúð, rúllaði litlasystir upp að lítilli verslun og sagði: Þarna fæst göngubrettið þitt!
Ja, ég er nú ekkert að ... reyndi ég að segja. Hún heyrði ekki í mér, svo æst var hún að láta mig kaupa þetta. Ég elti hlýðin og það var ekki fyrr en ég komst að því að annar afgreiðslumaðurinn átti sama afmælisdag og ég að ég gleymdi mér og sleppti heljartakinu af veskinu. Hef nefnilega ekki þorað að róa á dýrlegu róðrarvélinni minni síðan hún lagði mig í rúmið í viku (bakið), eftir mikinn ofróður, nánast lífróður á haustdögum.
Brettið er lágvært, það fer lítið fyrir því og ég gæti meira að segja skokkað þar á 8 km hraða, ef ég þori. Einn frændi minn sagði að ég væri græjusjúklingur, ég á vissulega 15-20 ára gamalt nuddtæki úr Elkó, 2 ára nuddbyssu (sem heldur vöðvabólgunni niðri) og nudddæmi úr Costco til að setja í stól. Hvernig átti ég að vita að lausnin á öllum mínum bakverkjahryllingi fælist í vináttu við ónefndan viðskiptafræðing sem heimsótti mig nýlega. Það voru ekki snjöll viðskiptaráð sem hefðu gert mig ríka á svipstundu og ég hefði efni á að láta skipta um bak í mér, nei, hún kann alvörusvæðanudd og í einhverju bríaríi spurði ég hvort hún gæti tékkað ögn á iljunum á mér, ég hefði verið verulega slæm vikum saman (þrátt fyrir allar græjurnar), bakið ömurlegt, orkan engin, ef þetta héti að eldast væri ég alls ekki til í slíkt. Hún samþykkti og boraði fingrum sínum á ýmsa ansi hreint viðkvæma punkta (iljarnar loguðu eftir nuddvanrækslu margra ára) og þar sem ég hef ekkert sigg þurfti varla snertingu til að ég orgaði. Fasti verkurinn (til margra vikna) hægra megin í bakinu er horfinn, og ég þarf ekki að taka verkjalyf lengur eða liggja lon og don á hitapoka til að fúnkera. Ég get auðveldlega tekið eldhúsið í gegn eftir kvöldmatinn, þarf ekki að bíða þar til morguninn eftir eins og stundum upp á síðkastið. Ég talaði auðvitað aldrei við lækni, fann bara ástæður fyrir þessu sjálf ... það hlaut að taka sinn tíma að venjast nýju dýnunni, ég hefði setið eitthvað skökk ... beygt mig vitlaust ... Þetta bakvesen hófst nefnilega þegar ég var 14 ára, vön kona hér.
Nú þarf ég bara að finna mér svæðanuddara á Akranesi og fara til hans reglulega, mikilvægt að hitta á einhvern sem hægt verður að nota öryggisorð hjá, til að þetta verði ekki algjörar pyntingar. Eins og við höfum gert alla tíð í saumaklúbbnum mínum, Gaddar og grilláhöld, með miklum ágætum.
Mynd 2: Stráksi og Hilda um jólin ... alltaf sama fjörið.
Vinkona mín með galdrahendurnar kom til mín á síðasta föstudegi fyrir áramót og vildi endilega fara í Einarsbúð. Við vorum vissulega ekki þar á milli 18 og 18.30 á þeim tíma sem einhleypir Skagamenn para sig fyrir helgina við grænmetiskælinn þar sem erótísku ávextirnir eru geymdir. Við vorum einfaldlega á röngum tíma, hún gerði samt einhver innkaup og við drifum okkur í antíkskúrinn og garnbúðina (vinkonan kann að prjóna!). Svo á heimleiðinni spurði hún mig um flottu fatabúðina sem við höfðum aldrei farið saman í. Hún átti við Bjarg og þangað héldum við í sérdeilis góða heimsókn. Ég var næstum búin að kaupa mér gervipels, sjúkk, hvað kom sér vel að vera ... með bjúg. Þetta var fyrir örlagaríka nuddið sem fjarlægði ekki bara verkina heldur líka allt aukavatn. Hún fann sér æðislegar buxur sem hún var svo ánægð með. Þjónustan í Bjargi er svo góð að ég hef aldrei fundið lífslöngunina minnka þar eins og geris oft í búðum. Vinkonan sagði þegar við vorum komnar út: Það er sniðugra að koma bara í heimsókn á Skagann og fara í þessa búð ef mig vantar eitthvað, þarna eru svo mörg góð merki á einum stað, maður þarf ekki að fara um alla borg og leita. Og þessi dýrð er í göngufjarlægð frá mér.
Nú eru Skagamenn svolítið svekktir, nema bæjarstjórnin, hugsa ég. Það kostaði 500 kr. að fara í Guðlaugu en hækkaði óvænt upp í 2.500 kr. nú um áramótin. Eins og tryggir bloggvinir vita, hata ég flest blautt nema drykkjarvatn, kaffi og sturtuna heima hjá mér, og myndi aldrei fara í Guðlaugu eða sund, en get alveg sett mig í spor þeirra sem eru ekki sáttir við fimmföldun á verðinu. Minnir þó að það kosti mjög lítið eða ekkert fyrir þá sem eiga árskort í sund. Sundlaugin er nálægt og fyrir þennan 2.500 kall er þá frítt í sund og það allt, sýnist mér. Þetta hefur verið afskaplega vinsælt hjá heimafólki en nú segja sumir að þetta sé túristaverðlagning, selt í "lón" sem er samt ekki lón ... til að vera eins og hinir. Svo er hótel á leiðinni hingað og þar á að vera lón líka ... Sérstaða er kannski ofmetin.
Daginn fyrir gamlárs fórum við niður í miðbæ og "sóttum" ársgamla jólagjöf, við systir fengum gjafabréf á augnmyndatöku frá góðri frænku og drifum loks í þessu. Ég ákvað að gefa stráksa mynd líka, enda ekki svo dýrt. Tekur um tíu mínútur frá því myndin er tekin og þar til útprent af fögru auganu er tilbúin, eitt auga, 4.990 kr. sem er ódýrast. Er á Skólavörustíg 16A, ef ég man rétt, og þarf ekki að panta tíma. Augun í mér (til hægri) voru furðuleg, eins og ég vissi, ekki bara blá, ekki bara græn, ekki bara grá (mamma var brúneygð og tvö systkini mín með móbrún augu) en þegar ég spurði hvort gulu deplarnir táknuðu að ég væri af ætt Ísfólksins, hristi stúlkan höfuðið og sagði deplana vera fæðingarbletti eða freknur! Þvílík vonbrigði.
Augað í stráksa er geggjað flott! Það sést ekki á myndinni en það eru bláir blettir um allt í því, og svo eru þar eins og heilu fjallgarðarnir. Ansi töff augu, ættuð frá Palestínu.
Kaffihúsið Babalú var næsti viðkomustaður okkar. Ótrúlegt en satt, við höfðum ekki komið þangað áður, virkilega gaman, gott kaffi og meðlæti, ofsatöff Starwars-snyrting, frábærir þjónar. Ég aftur þangað. Oft.
Bloggar | Breytt 4.1.2024 kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.12.2023 | 13:11
Skatan ... jólatréshindrun ... gleðileg jól
Tuttugasti og annar desember kominn, í mínum huga var sá dagur alltaf afmælisdagurinn hennar Rósu æskuvinkonu - og er enn. Það var ógnvekjandi tilhugsun, fannst mér, að eiga afmæli næstum því á jólunum. Hún heitir líka næstum því Rósa Bennett, eins og söguhetjan í bókunum hennar mömmu. Afmælisknús, Rósa mín, ef þú ert einhvers staðar þarna úti (ef þú lest æðisleg blogg ...)
Facebook var að rifja upp beiskjublandinn þrettán ára gamlan status:
Hafa feisbúkkvinir mínir velt fyrir sér orðunum SKATAN og SATAN? Held ekki ... Mér finnst þetta enn virkilega umhugsunarvert.
Það tókst ekki að koma upp jólatrénu. Allt orðið voða fínt en en ekki jólatréð sem ég keypti í Húsó. Einn veggurinn í stofunni var eitthvað tómlegur, fannst mér í gær og þarna var nagli, án myndar! Almáttugur! Jú, flott indversk mynd hafði dottið niður, bandið hafði gefið sig (frá 1985) og myndin hrapað niður á innstungu, brotið hana svo nú sést innvolsið, stórhættulegt! Hreyfði ekki við neinu. Held að hirðrafvirkinn verði að kíkja í heimsókn bráðum, þótt það verði ekki fyrr en á næsta ári. Ég er svolítið veik fyrir jólatrjám af öllum stærðum og gerðum, án þess þó að ég sé nokkuð endilega að safna þeim ... en í IKEA um daginn, einmitt í leit að almennilegu tré, fann ég eitt pínulítið sem ég greip með mér, kannski er ég bara svona mikill miðill að ég hef fundið þetta á mér (djók) - en sjáum til hvað gestir á jóladag gera þegar þeir sjá himnaríki ÁN JÓLATRÉS! Svoddan jólabörn sem ég þekki, ég er algjör skröggur miðað við þau flest. Myndin sýnir drög að jólatré, ágætis drög sem ég læt kannski bara nægja.
Annars er þetta bara algjört örblogg, eingöngu til að óska ykkur öllum gleðilegra jóla, elsku krúttin mín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2023 | 16:07
Partístand, misheppnað grín og vanrækta baðið ...
Síðustu dagar hafa einkennst af veisluhöldum og samt ekki komin jól! Eins gott að ég pantaði ekki Eldum rétt fyrir þessa viku. Það þarf að halda afmæli, það þarf að útskrifast, borða úti, fagna komandi hátíð og allt þar á milli. Ég mætti stundvíslega degi of snemma til Hildu, það varð að undirbúa komu jólasveins og sitthvað fleira sem hún þurfti andlegan styrk og hjálp við ... Í sömu ferð tók ég allar jólagjafir sem ég gef, eða nánast, til að geta afhent ættingjum og vinum sunnan rörs, eins og mestu töffararnir orða það. Tók einnig stóra tösku með mér með alls kyns fíniríi, sturtusápum, sjampóum og einhverju sem hafði verið óhreyft hjá mér en kannski helmingur eftir í, í körfu á baðinu síðan árið 2020 þegar allt var tekið í gegn í Himnaríki. Nú var kominn tími til að vanrækta baðið (á efri hæðinni hjá Hildu) fengi smávegis umhyggju og ást og minni hættu á að ég notaði óvart hundasjampó í hárið á mér. Nýja glæsilega og flotta baðið niðri höfðar meira til heimilisfólks sem neitar að baða sig uppi. Bara við stráksi elskum að hafa þetta næstum því einkabaðherbergi okkar þegar við erum í bænum. Ég raðaði þessu dásemdardekurdóti samviskusamlega inn í baðskápinn á vanrækta baðinu og hlakkaði meira en nokkru sinni fyrr til að fara í sturtu að morgni afmælisdags systur minnar og Keiths Richards. Ég hefði átt að ... jæja, allsnakin og tilbúin í steypibað opnaði ég skápinn þar sem handklæðin eru geymd og sjúkk, þarna var eitthvað eitt dökkgrænt alveg á botninum. Ég setti það í seilingarfjarlægð frá sturtuklefanum. Þegar ég svo teygði mig í það eftir böðinuna reyndist þetta vera lítil handklæðamotta, verulega þykk, þó skárra en ekkert. Ég fylltist þakklæti yfir því að þetta hafi ekki verið gúmmímotta.
Í partíi tvö áttaði ég mig endanlega á því hversu ömurlegan húmor ég hef, hugsa að viss kona í vissri búð á Akranesi taki undir það því ég sé alltaf undir iljarnar á henni þegar ég mæti (mætti) ... en óánægju- og vanþóknunarsvipurinn á henni þegar hún þurfti að berja mig augum gerði alkabarnið mig svo taugaveiklað að ég varð helmingi leiðinlegri í tilraun minni til að létta andrúmsloftið. Stráksi var með í síðdegisboðinu, eins og í þeim öllum, og á meðan hann fór og sótti sér veitingar settist kona á stólinn hans og sneri bakinu í okkur, var að tala við fólk á næsta borði. Þegar stráksi kom til baka sagði ég létt: Sestu hérna við hliðina á mér, því vonda, vonda konan þarna tók stólinn þinn.
Stráksi hló, til þess var leikurinn eiginlega gerður, ég nota hvert tækifæri til að þróa kímnigáfu hans þar sem hann er einhverfur, og mér hefur gengið ótrúlega vel að kenna honum að taka ekki öllum hlutum bókstaflega (hef reyndar sett skýlaust bann á vodkabrandarana hans á veitingastöðum) en þetta á auðvitað ekki að bitna á saklausum gestum. Unga konan gerði sig líklega til að standa upp og ég sagði að þetta hefði nú bara verið asnalegt grín, henni væri svo innilega velkomið að nota stólinn, stráksi gæti bara sest hinum megin við mig. Án þess að virða mig viðlits gekk hún samt á brott og ég sat eftir alveg eyðilögð. Héðan í frá verða lélegir fósturmömmubrandarar bara sagðir í mjög vernduðu umhverfi.
Þriðja partíið var með Löllu vinkonu, við stráksi skruppum út að borða með henni á Brasserí Kársnes í hádeginu í fyrradag. Mjög fínn staður og virkilega gaman. Stráksi hló þegar hann pantaði það girnilegasta (að hans mati) á matseðlinum, Grillaðan helvítis hamborgara, hann heitir það. Við erum ýmsu vön, hér á Skaganum var eitt sinn hægt að kaupa Haltu kjafti-hamborgara ... en stráksa þótti ansi hreint fyndið að blóta um leið og hann pantaði. Við Lalla ræddum allt milli himins og jarðar og að gefnu tilefni tjáði ég henni að ég væri hrifnust af spaghettíi með festist-við-ísskápinn-suðu, pínku pons meira soðið en al dente ... svona blaðrar maður leyndarmálunum nánast í ógáti og stendur ekki undir matgæðingsvæntingum bloggvinanna - og ekki nokkur einasti ítalskur sjarmör lítur við mér framar, en satt er satt. Það er vissulega millivegur frá al dente og að hálftímasuðu sem ég afplánaði í æsku, jæks. Ég rifjaði upp hvað ég varð stjörnustjörf yfir því að Lalla ætti vinkonu (Sara Lee, ég gúglaði) sem spilar á bassa með King Crimson - og var í afmælisveislu Löllu í fyrra, verulega indæl og skemmtileg! Ef ég hefði komist á King Crimson-tónleikana í París 2018 hefði hún mögulega spilað þar á bassann ... en ég sá bara plakötin upp um allt og hreifst yfir því að þetta gamla uppáhald mitt væri enn að túra. Fannst svolítið eins og ég hefði hoppað inn í tónlistarsöguna eitt andartak þarna í fyrra. Þetta var svipað og þegar frænka mín, mesti Arvo Pärt-aðdáandi sem ég þekki, sat fyrir tilviljun við hlið þessa eistneska tónskálds í flugvél en tók íslensku aðferðina á hann, lét eins og hann væri ekki þarna, alveg stjörf samt.
Síðasta partíið í aðdraganda jóla var geggjuð útskriftarveisla í gær, sonur-barnabarn í vinahópnum var að útskrifast sem rafvirki með ágætiseinkunn. Veitingarnar stórkostlegar, enda eiga mömmur.is helling í nýja rafvirkjanum. Ég hafði spurt smekkvísa vinkonu mína um mögulega sniðuga útskriftargjöf og hún nefndi eitthvað sem mér fannst spennandi en sá þó vesen við að finna, nema fara í mjög flotta og sértæka bókabúð, eða flotta deild í bókabúð - og efaðist samt um hæfileika mína til að velja eitthvað nógu geggjað.
Enginn tími var til þess á meðan ég var í borginni og þessum partíum, og stjórnendur Eymundsson senda ekki einu sinni erlendar metsölukiljur til okkar á Skagann (svo vér Skagamenn þurfum að fara í bæinn (eða sérpanta) til að halda við enskunni með hjálp Stephen King) svo mér fannst eigi líklegt að ég fyndi svona sérhæfða bók. Í afmæli Hildu var staddur dásemdardrengur, réttur maður á réttum stað, á réttum tíma, meira að segja nemi í rafvirkjun, ár í útskrift, og að auki er Skálmöld uppáhaldshljómsveitin hans!!! svo aðdáun mín á honum jókst um mörg þúsund rokkstig og var þó mikil fyrir. Ég spurði hann hreinlega, ef hann gæti valið um þetta sem vinkona mín stakk upp á (vönduð og virkilega eiguleg hönnunarbók) eða falleg orð á korti með nokkrum brakandi seðlum í, var hann aldrei í vafa: Peningar, allan daginn, sagði hann.
Nú er runninn upp eini dagurinn sem ég hef til að taka til og skreyta, stráksi í gistingu, ég fæ hann bara lánaðan í veislur, og ég bara sit og blogga þar til verður dimmt. Það kemur í ljós seinna í dag hvort ég kann að setja saman nýja jólatréð, setja á það seríur og skreyta það svo vel fari. Held ég hafi keypt allt of stórt tré, 1,80 m. Hmmm.
Svo hélt ég að ég hefði keypt AAA-rafhlöður um daginn, en nei, þetta voru tvær mismunandi pakkningar af AA, frá sama fyrirtæki og allt.
Sjáum hvað Einarsbúð finnur handa mér, nú er hangikjöt, laufabrauð, grænar baunir og rauðkál á leiðinni og sitt af hverju fleira, m.a. AAA-batterí.
Af því að það eru að koma jól pantaði ég rommkúlur. Yfirleitt gæti ég þess að ekkert slíkt sé að finna á heimilinu til að ég borði það ekki ... en ég skreyti bara betur í rommkúluvímu. Er einhver 1944-réttur nógu góður og sparilegur á jóladag fyrir þá sem geta ekki borðað hangikjötið hjá mér? Nei, djók, en ég þarf að láta mér detta eitthvað í hug, fljóteldað, lítt flókið og rosagott - fyrir einn eða tvo.
Mynd af Kela: Tekin í gær, ég er að reyna að hekla barnateppi sem er stundum svolítið flókið þegar maður á kött sem er hrifinn af plötulopa og að sitja nánast í fanginu á manni og reyna að veiða hannyrðirnar þrátt fyrir að vera kominn á virðulegan aldur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2023 | 13:35
Völvur, mistök og móðgandi stjörnuspá
Árum saman kvartaði ég yfir því að mamma hafi sagt öllum sem það vildu heyra að ég væri völva Vikunnar, kannski hélt hún það því ég prýddi forsíðu eins völvublaðsins, vandlega dulbúin samt, en ég var hrukkóttust starfskvenna og þótt því hæfust í þetta. Ég tók aftur á móti nokkur viðtöl við völvuna og það var ég sem klúðraði algjörlega einu stóru atriði, mögulega hef ég viðurkennt þetta áður, finnst það eiginlega líklegt. Hérna kemur það samt:
Gurrí: Hvað geturðu sagt um Saddam Hussein?
Völvan: Ég finn voða lítið fyrir honum á nýju ári.
Gurrí: Réttarhöldin halda sem sagt áfram og hann í fangelsi?
Völvan: Gæti verið.
Gurrí skrifaði: Réttarhöldin yfir Saddam Hussein halda áfram á nýju ári.
Það sem gerðist: Hann var tekinn af lífi um áramótin.
Ég viðurkenni fúslega að það kemur stundum fyrir að ég leiti til véfréttarinnar minnar og gerði það um daginn. Sjaldan eða aldrei hef ég fengið betri spá í lífinu og hlakka því mikið til nýs árs. Eina sem ruglaði mig var new car-dæmið, gleði mín var hamslaus þegar ég las það sem new cat ... en svo ég sá ég það. Nýir bílar eru svo sem ágætir ef ég hef einhvern til að aka honum. Spáin hljóðaði upp á bæði kærasta og eiginmann (trúlofun, gifting) svo annar þeirra gæti þá orðið bílstjórinn ... Krúttlegt barn líka svo kraftaverkin gerast.
Stjörnuspekin er líka alltaf voða skemmtileg þótt ég sé ósammála því að ljónið sé athyglissjúkt en ég viðurkenni glysgirni mína, allt (flest) sem glitrar höfðar mikið til mín. Ég á orðið það mikið af glitrandi hálsfestum og armböndum að ég verð að vera með búningadaga hér heima í himnaríki eftir að fólkið í Einarsbúð sagði trekk í trekk: Mikið ertu fín, ertu að fara í veislu? Og ég laug og sagðist einmitt vera að fara í afmæli, brúðkaup eða eitthvað, en spurnarsvipurinn á fólkinu þegar það fór að hugsa um af hverju ég færi fyrst í búðina ...
Ég vildi ekki vera í sporum fólks tvíburamerkinu. Í gær birti beiskur Tvíburi spána sína og þar sagði orðrétt: Þér hættir stundum til að vera of ljótur ... Sjá mynd.
Ég þekki reyndar eintóma fallega Tvíbura sem aldrei eru ljótir, svo þarna brást stjörnuspánni bogalistin: Önnu vinkonu, Þorgeir Ástvaldsson, Angelinu Jolie, Boggu vinkonu, Kristján Jóhannsson, Johnny Depp, Bubba Morthens og Marilyn Monroe (í gegnum miðilsfundi).
Gurrí þó! æpti stráksi upp yfir sig þar sem ég stóð við gluggann og var að bíða eftir að ketti (Krumma) þóknaðist að færa sig svo ég gæti skipt á rúminu. Ég vissi alveg um hvað stráksi var að tala svo ég horfði staðföst á hann og sagði: ALDREI, ALDREI GEFA MÉR NÓAKROPP ÞEGAR ÉG LIGG UPPI Í RÚMI Á HITAPOKA! (Bakið e-ð að angra mig) Honum fannst þetta svooo fyndið en ég vissi ekki að Nóakropp gæti skriðið og fært sig til í rúmi svo nokkrir ljósbrúnir blettir kæmu á ansi hreint vandræðalega staði í lakinu ... mest þó undir bakinu á mér, frekar neðarlega samt! Bara HVERNIG? Ég er mjög óvön því að snæða mat eða sælgæti eða bara nokkuð þegar ég er útafliggjandi svo að klaufaskapurinn í mér við að borða lúku af Nóakroppi olli þessari mikilli skemmtun hjá stráksa. Hér á þessu heimili vöxum við seint upp úr prumpbröndurum. Þetta verð ég að segja Hildu, sagði stráksi. Ég skal gefa þér þúsundkall ef þú gerir það ekki! Hann lætur ekki múta sér, eins og ég vissi svo sem, svo ég játa þetta hér með fyrir alþjóð svo hann geti aldrei notað þetta gegn mér.
Svona æsispennandi getur lífið verið hér í Himnaríki. Gleði mín er líka mikil því þetta er síðasti dagurinn í bili sem Hilda getur beitt mig aldursofbeldi, því tölulega séð verður hún, á morgun sem sagt, aðeins einu ári yngri en ég. Alveg fram í ágúst þegar það verða tvö ár. Hún heldur svaðalegt partí á morgun, eins og alltaf, jólasveinn og allt, og ég fer með allar gjafirnar frá mér til minna þangað og með því er ég nánast laus við að keyra út yfir 20 gjafir með strætó. Bílstjórarnir eru aldrei til í að bíða bara í þrjár mínútur á meðan ég hleyp ... ekki einu sinni þótt ég bjóðist til að lauma að þeim eins og fimmtíu krónum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2023 | 00:00
Sparifoldin og fleira jóló
Þegar maður man allt í einu eftir fundi sem verður um hádegisbil á morgun, þá nýkomin úr kvöldbaði og stefnan tekin á ból og bók næstu korterin, og uppáhaldsbuxurnar í óhreina tauinu, setur maður í vél og sest við blogg til að geta nú örugglega sett í þurrkarann og svooo farið í ból. Annars gætu syfja og leti spillt fyrir fagurlegri framsetningu minni á sjálfri mér.
Eftirmiðdagurinn sem átti að fara í eintóm leiðindi (tiltekt) fór í óvæntan, ögrandi prófarkalestur. Þetta er voða lítill texti, því miður á pdf-i, sagði vinur minn. Eftir gríðarlega einbeitingu í fjóra tíma, hugsaði ég: Jæja, lítill texti, er það virkilega? þá búin á sál og líkama, enda ekki um að ræða spennandi glæpasögu, eins og stundum, heldur nokkuð sem tengist efnum og þrifum á vissum hlut sem ég hef aldrei eignast og langar ekkert í en samt er þetta mjög vinsælt dæmi. (Ath. Ekki getraun) Samt tel ég mig hafa sloppið vel frá deginum, Himnaríki er á hvolfi. Ég eldaði suddalega góðan mat ofan í okkur stráksa. Þorsk, hrísgrjón og salat. Frá Eldum rétt, auðvitað.
Facebook rifjar annað slagið upp skemmtilegar minningar og sumar eru hreinlega sjokkerandi og með spádómsívafi. Hvern hefði grunað að fyrir tíu árum hefði ég sett orðið gamlárskvöld í stafavíxlvélina (sem er óvirk, snökt) og fékk orðin lágmarksdvöl, vargöld kláms OG ... varg-skálmöld!!! Að ég skyldi svo, tæpum tíu árum seinna, hlusta á sniðugt vídjó á YouTube í gegnum einhvern á Facebook, og fengi svo í framhaldinu nokkur lög með Skálmöld sem nánast samstundis varð uppáhaldshljómsveitin mín (fyrirgefðu, Radiohead, fyrirgefðu, Pink Floyd, fyrirgefðu, Wu Tang Clan og miklu fleiri).
Fyrir þrettán árum skemmti ég mér vel yfir bókinni Biðukollur út um allt (eftir Kleópötru ...?). Efni hennar: Dauðvona, hjartahrein aðalsöguhetja sækir mikla visku til sorphreinsunarmanns (í fimm mínútur alla miðvikudaga) sem kennir henni að berja fólk (með orðum). Hann er eini karlmaðurinn í bókinni sem ekki er þroskaheftur. Þetta skrifaði ég næstum orðrétt á fb-síðu mína þá.
MYND: Facebook bauð upp á leik í dag, finndu jólasveinanafnið þitt ... ég er Gluggastaur, stráksi er Yngisgámur, Hilda er með fyndnasta nafnið, Skyrskræfa. Ykkur er velkomið að leika ykkur. Ekkert að þakka.
Annars í dag, 12. des. má geta þess að þetta er u.þ.b. 33. tólftidesemberinn í röð sem ég fæ ekki í skóinn. Það er alltaf jafnerfitt en ... ég fæ þó iðulega pakka frá jólasveininum á aðfangadagskvöld (grunar vissa ættingja sem vilja halda mér í góðu skapi en er samt ekki viss). Stráksi er sérfræðingur í jólasveinum (og álfum) og eftir að ég sagði honum frá heilögum Nikulási sem bjó í Mýru (nú Tyrklandi) og dó 6. des., gerði ýmis kraftaverk, bjargaði meira að segja lífi ungra drengja sem búið var að skera í bita og salta í tunnu (ekki lesa um dýrlinga ef þið eruð viðkvæm), hann fleygði gullpeningum inn um glugga (þarna byrjaði það) hjá þremur fátækum systrum en þeirra beið ekkert nema gatan og þaðan af verra sem ég útskýrði þó ekkert nánar. Löngu, löngu seinna kom stráksi með spjaldtölvuna til mín og benti á frétt sem hann hafði gúglað: Fornleifafræðingar telja sig hafa fundið hina fornu Mýru. Þetta var frétt á ensku og ég hafði ekki hugmynd um að hann kynni orð í ensku. Ég er gríðarlega montin af þessu og hef mögulega bloggað um þetta áður. En miðað við allt og allt ætti hann ekki að hafa getað þetta. Litli snillingurinn!
Fyrir ári sagði ein af fjölmörgum systrum mínum frá jólatónleikum sem hún hafði farið á og valdið henni miklum vonbrigðum. Frekar litlir og hógværir tónleikar en það kostaði nú samt helling inn á þá. Hún hafði góða reynslu af þessu tónlistarfólki en þarna í fyrra var hún ósátt við algjört skipulagsleysi, langar þagnir á meðan var verið að ákveða hvaða lag yrði næst, allt í þessum dúr sem hafði slæm áhrif á upplifun gestanna. Ég mundi eftir þessu þegar ein vinkona mín af Skaganum fór að tala um frábæra tónleika sem hún hefði farið á fyrir mörgum árum, og væru eiginlega bestir allra í minningunni, og það með sömu flytjendum og systir mín var svo svekkt út í. Ég hef látið mér nægja minninguna um Jólasöngva Kórs Langholtskirkju sem ég tók sjálf þátt í um hríð og fór svo nokkrum sinnum á eftir að ég hætti í kórnum. Sat eitt skiptið uppi, beint fyrir aftan þáverandi prestinn þar og sá að hann stóð upp, mjög pirraður, þegar gestir tónleikanna dirfðust að klappa í kirkjunni hans. Uss, við vorum allt of frjálslynd í þá daga ...
Uppáhalds-alltaf var og er Fögur er foldin, í sænskri útgáfu, við kölluðum það spari-foldina og það var gaman að syngja hana. Það var svo tengt jólunum í mínum huga en ég spurði samt fyrir útför sonar míns hvort það væri viðeigandi. Ójá, heldur betur. Og kórinn flotti, kammerkór Kórs Akraneskirkju (m.a. Steini í Dúmbó) tók spari-foldina. Rosalega góður átta manna kór. Þau tóku líka Ave Maria eftir Eyþór Stefánsson, reyndar bara konurnar, en ég heyrði það fyrst í flutningi Karmelsystra í Hafnarfirði. Eitthvað sem mætti svo innilega koma inn á YouTube.
En fyrst ég fann spari-foldina á YouTube gat ég ekki stillt mig um að leyfa ykkur að njóta:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2023 | 17:30
Jólamyndir - ómissandi hryllingur
Gærkvöldið fór í sömu ómennskuna og dagurinn, eða ekki í að flokka gjafir og gjafþega saman. Um 30 manns gjafir. Held að ég hafi náð að gera það í dag, svona að mestu. Nú sé ég svolítið eftir því að hafa ekki keypt alla vega tíu jólagjafir í Glasgow ...
Inga mætti upp úr sjö, ekki til að heimsækja mig, heldur horfa á dóttur sína keppa í æsispennandi spurningakeppni á Stöð 2. Þar kepptu ÍA gegn ÍR. Sjá mynd! Okkur Ingu gekk frábærlega í sófanum mínum og gátum svarað sumu sem liðin voru í vandræðum með. Sigrún hefði átt að hafa okkur með. Hugskeyti dugðu ekki til því við notuðum nýjustu tækni við að horfa á byrjaðan þátt frá byrjun. Þið tæknivædda fólkið skiljið hvað ég á við.
Ég átti smávegis suðusúkkulaði og pínkulitla (fyrir einn) flösku af freyðivíni (keypt í fríhöfninni í okt.) sem ég hellti í glös fyrir okkur. Lítil vatnsglös, alltaf sami plebbinn. Það jók okkur nú samt kjark og þor til að horfa á tvær jólamyndir frá árinu 2022. Sú fyrri fjallaði um unga fjölskyldulausa konu (mamman dó þegar hún var níu ára og hún vissi ekkert um föður) sem að gamni sendi DNA í Find my family-eitthvað, í þeirri von að finna kannski fjarskylt frændfólk. Hún fann heilan föður úti á landi, sem reynist algjör dásemd og ekki er konan hans síðri og hann býður henni að verja með þeim jólunum, hann hafði ekki haft hugmynd um tilvist hennar. Bróðir og tvær systur í kaupbæti, auðvitað miklu yngri en hún. Hún hafði val um fjölskyldujól eða hámhorf með hundinum sínum á 50 jólamyndir. Ungur maður, fjölskylduvinur, lögmaður, munaðarlaus, pabbi hans var í hernum með þessum nýja pabba hennar, ætlaði að kippa henni og hundinum með út á land.
Hann verður ábyggilega sætur og þau ná saman, sagði ég spámannslega við Ingu. Hann reyndist semi-sætur og spádómur minn var líklegur til að rætast. Hún var í drapplitaðri kápu (ég dey í drapplitu) en setti fallegan vínrauðan trefil um hálsinn sem breytti bókstaflega öllu. Kannski þess vegna tók ég eftir því að í hverju útiatriði myndarinnar eftir það var hún komin í nýja yfirhöfn (fjórar alls), samt var ferðataskan hennar lítil. Vissulega án jólagjafa en samt bara lítil. Við Inga flissuðum bara.
Þegar hún var farin að elska nýju fjölskylduna sína afar heitt og fjölskyldan hana, og sá sem keyrði hana orðinn ástfanginn af henni, fékk hún SMS frá DNA-fyrirtækinu um að mistök hefðu verið gerð, önnur kona, alnafna hennar, hefði átt að fá skilaboðin um föðurinn. Pabbinn fékk líka staðfestingu á þessu með dótturina, en ekki um mistökin.
Hún lét heilan dag í fjölskyldudásemdarsamveru líða án þess að viðurkenna sannleikann en svo gerði hún það loks við mikla sorg allra og vinkona hennar sótti hana. Hún og pabbinn voru reyndar með sitthvort nafnið á mömmunni og staður sem látna mamman hafði búið á vissi dóttirinn ekkert um, en það voru bara smáatriði, héldu þau.
Ef ég væri handritshöfundurinn, myndi ég láta fjölskylduna fara til hennar í New York og klára jólin með henni, hélt ég áfram og Inga var sammála. Eitt sem ég sá ekki fyrir var að pabbinn fann loksins mynd af gömlu ástinni sem hann týndi (óléttri) og nýja dóttirin var alveg eins og hún, svo DNA-fyrirtækið var í ruglinu. Auðvitað má ekki hleypa ó-blóðskyldum inn í fjölskyldu um jólin, hvað var ég að hugsa? Maður lætur frekar litlu stúlkuna með eldspýturnar frjós-
Þetta rættist og skömmu seinna kom ungi lögfræðingurinn sem skutlaði henni og bað hennar á bak við jólatréð sem fjölskyldan hafði tekið með. Hundurinn sást hvergi og mér datt helst í hug að hann hefði sloppið út í öllum látunum. Hvar var ég þegar allir hnútar voru hnýttir?
Mynd 2: Þetta þarf ég að þola / búa við ...
Varð líka vör við í spennusögunni sem ég er að hlusta á núna að grunaður maður í morðmáli slapp að heiman þrátt fyrir að vera vaktaður (með því að beina athygli löggunnar annað) sem átti kött, að dýravernd var ekki höfð í huga. Ósennilegt að maðurinn kæmi nokkurn tímann aftur á heimilið og þegar rannsóknarfólkið kom datt það nánast um köttinn sem fór inn og út um glugga þar. Hefðu þau ekki átt að fylla allt af mat og vatni eða láta dýraeftirlitið vita? Er ég of smásmuguleg eða eiga rithöfundar (og leikstjórar) að passa upp á svona hluti?
Hin myndin var eitthvað ögn flóknari, ekki jafnaugljós og hefðbundin, og ofnotkun á yfirhöfnum átti sér ekki stað í henni. Það var þarna önnur girnileg en sama aðalleikkonan og sú sem fann pabba sinn, svo það hefði verið eins og framhjáhald að horfa á hana. Seinni myndin: Minnislaus kona á spítala, karlkynshjúkka þar ákveður að aðstoða hana við að endurheimta minnið með því að elta einu vísbendinguna sem finnst um hana. Og já, maðurinn sem hún faðmaði við jólatréð og litla stelpan sem kom hlaupandi og heilsaði, voru ekki maður hennar og barn, heldur mágur og litla frænka - sem hjúkkinn sá úr fjarlægð og fór, asninn sá. En auðvitað náðu þau saman.
Þetta eru hræðilegar myndir en samt algjörlega ómissandi afþreying væminna kvenna í biðinni eftir jólum. Ég er búin að sjá Die Hard of oft ... og hef Hildu systur grunaða um að hafa horft á Holiday án mín.
Eftir að gömul og góð vinkona afþakkaði dagbók fyrir næsta ár (Fucking 2024 stendur framan á henni) þar sem hún notar aðeins rafræna, fór ég að prófa það sjálf og nú finnst mér ekkert vit í því að nota venjulega dagbók ... síminn er alltaf við höndina og komandi viðburðir skráðir samviskusamlega þar. Það er heilmargt fram undan á næstunni: Þann 12. des. fer stráksi á tónleika og ég má koma með, ef hans hátign samþykkir. Daginn eftir er fundur. Þann átjánda á bráðum eldgamla systir mín afmæli og nítjánda ætla ég í löns með vinkonu. Eini gallinn er að rafræna dagbókin minnir mig ekki nógu hávært á atburðina - þarf að reyna að laga það.
Hef fiktað mig fróðleiksfús áfram, stundum með hræðilegum afleiðingum ÓVART. Stundum þegar ég fletti snappinu mínu ýti ég á eitthvað og sendi í leiðinni manneskjunni tjákn sem passar örugglega alls ekki við innihald þess sem ég var að horfa á, er jafnvel óviðeigandi! Hver man ekki þegar kinnin á mér breytti algjörlega messenger-samskiptum okkar Hildu systur, í staðinn fyrir þumal, fær hún pylsu með öllu! Þá var ég að hlusta á Storytel í strætó með símann við eyrað, en láðist að slökkva á skjánum. Þetta er orðið vandræðalegt. Held að ein Skagakona hafi hent mér út vegna þessa og mamma hennar er hætt að heilsa mér. Ég hef pókað ÓVART nýlátinn mann á Facebook (poke, pot, hnippt í, mjög hallærislegt viðreynsludæmi), ég hef sent látinni manneskju afmæliskveðju ÓVART, sett hláturskarl við sorglega færslu ÓVART, náði að leiðrétta það í hvelli en samt of seint ... Já, það er stundum vandlifað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2023 | 18:34
Spælandi símtal og gleðirík bæjarferð
Síminn hringdi, ahh, Hilda, hugsaði ég glöð og svaraði.
Halló!
Er þetta Gleymríður, eldgamla risastórasystir mín? sagði kuldaleg rödd, gemsinn hrímaði. Ég hló hátt en gat ekki leynt pirringi mínum. Í dag eru tvö ár á milli okkar systra en eftir níu daga verður bara eitt ár (frá 12. ágúst til 18. des. ár hvert er líf mitt algjört helvíti þegar kemur að aldursfordómum litlu systur).
Hringdir þú bara til að særa mig svöðusári svona rétt fyrir jól? spurði ég. Rödd mín titraði. Djöfull skal ég gefa henni hallærislega jólagjöf. Vatteraður greiðslusloppur kom upp í hugann. Eða bjóða henni kannski með á Skálmaldartónleikana? Það væri ljót hefnd gagnvart konu sem hlustar ekki á rokk.
Nei, en gleymskan í þér er fáránleg, nema þú hafir verið að ljúga að mér fyrir þremur árum, sagði Man-allt-hildur og hélt áfram. Þú fórst í neglur í heimahúsi, ekki fótsnyrtingu, hélt hún ótrauð áfram, ég á ekki að þurfa að muna allt fyrir þig en allar vinkonur mínar á Skaganum hafa hringt og viljað fá númerið hjá þögla fótafræðingnum! Hafa beðið mig að spyrja þig. Þú sagðir mér alla vega að konan sem gerði neglurnar á þér flottar hafi verið fúl af því að þú hafir ekki viljað gel, bara láta snyrta og lakka, en þú hafir farið á snyrtistofu með tærnar og það hafi verið fínt. ERTU VIRKILEGA ORÐIN SVONA RUGLUÐ?
SPEGILL! þrumaði ég. Þarna heyrði ég jólagjöfina mína frá henni lækka í verði og má einnig búast við hnetusteik á minn disk á aðfangadagskvöld, með rúsínusósu, döðlumauki og möndlukartöflum, ef ég þekki hefndarþorstann í ættinni rétt (sjá bloggfærslur um litla rúsínukassann sem ég finn reglulega á ólíklegustu stöðum í Himnaríki og í martröðum mínum).
Hvað segirðu annars gott? sagði systir mín hressilega.
Bara alltiddafína, svaraði ég. Og svo ræddum við um sitt af hverju en ég þorði ekki að minnast á jólamat til að gefa henni ekki hugmyndir. En svona er líf mitt, ég gleymi, hún man. Hún er löngu hætt að trúa mér þegar ég segi henni að þegar fólk er utan við sig og gleymið sé það bara gáfumerki. Hún vill hafa hlutina rétta og hikar ekki við að leiðrétta mig fyrir framan sæta karla sem missa jafnvel samstundis áhuga á mér, það er pottþétt það, heyrnarleysi mitt í háværri tónlist og heimakærð mín kannski líka, sem er ástæðan fyrir skammarlega fáum giftingum síðustu árin.
Þar sem ég sat í leti minni og heklaði lítið barnateppi úr plötulopa (í jólagjöf), hlustaði á glæpasögu á Storytel (geymi bækurnar sem ég keypti mér til jóla) og gaut augunum á fótboltann í sjónvarpinu heyrðist bling í símanum mínum. Inga.
Eigum við að skella okkur til Ástu (í Gallerí Bjarna Þórs), á jólamarkaðinn og antíkskúrinn? spurði þessi frelsari lífs míns. Ég var sko til í það og við byrjuðum á stoppi hjá Ástu og áttum góða stund þar að vanda við spjall og konfektát.
Þá var stutt í jólamarkaðinn (sjá efri mynd) þar sem ég keypti fínustu eyrnalokka af Gísla löggu sem var svo oft samferða mér úr strætó upp Súkkulaðibrekkuna í gamla daga, það var ómetanlegt að fá lögreglufylgd í gegnum Hálsaskóg ...
Tveir fallegir kertastjakar, stjakar sem ég hef þráð að eignast hálfa ævina komu svo með mér heim úr antíkskúrnum. Ég sýndi Kristbjörgu líka mynd af lampanum fagra úr síðasta bloggi og bað hana að hafa augun opin fyrir slíkri dýrð í næstu innkaupaferð til Danmerkur. Hann þyrfti ekki einu sinni að vera blár. Hún ætlar að gera það.
Ég keypti líka nokkrar jólakúlur hjá henni, nýja jólatréð er 1,80 m hátt og þá þarf að fjölga jólakúlum. Ef stráksi flytur í eigin íbúð á næsta ári finnst mér ekki ólíklegt að ég gefi honum tréð, hann er svo miklu meira jólabarn en ég ... eða hvað.
Hmmm, held að orðið jól komi fyrir tíu sinnum í þessari færslu, ellefu sinnum með þessu, og aðfangadagskvöld einu sinni. Afsakið, afsakið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 2
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 138
- Frá upphafi: 1529819
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 123
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni