Færsluflokkur: Bloggar
1.6.2024 | 15:04
Klístrað óhapp og útgöngulagið loks fundið
Vaknaði fyrir allar aldir í morgun um níuleytið. Nú skyldi gengið til kosninga, ekki þó gengið, heldur farið á hvítri drossíu, Teslu ... Reyndar ekki með riddaranum á hvíta, heldur dásamlegri vinafjölskyldu. Þau komu stundvíslega kl. 10.35 eins og samið hafði verið um, svo ég kaus í fyrsta sinn á ævinni fyrir hádegi. Nýr kjörstaður að þessu sinni, kosið í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Yfirleitt hefur það verið gamli skólinn minn, Brekkubæjarskóli, en síðast reyndar, eða í alþingiskosningunum, var íþróttahúsið hér á hlaði himnaríkis notað.
Kjördeild 2 var vingjarnleg - og setti ekki út á að í vegabréfi mínu stóð bara Guðríður Haraldsdóttir, ekki millinafnið Hrefna en svo stutt er síðan ég fékk millinafnið að kjörgögn eru sennilega enn með gamla nafnið mitt, sjúkk. Til öryggis var ég reiðubúin að heimta að tala við kjörstjórn og sýna henni bréfið frá Þjóðskrá um nýja millinafnið. Fagmannlega fólkið sem gætti þess að allt færi rétt fram, leit á ófalsað vegabréf mitt, leit svo upp og horfði á fegurðina sem hafði lítt dvínað frá því vegabréfsmyndin var tekin - en eina fölsunin var að ég hafði skellt farða í andlit mitt - svo ég leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en svona 45 ára, fannst mér svipur fólksins segja. Ég var auðvitað búin að ákveða mig og setti X-ið á þann stað sem mér fannst réttur. Ekkert taktískt en ég vona að minn frambjóðandi hljóti góða kosningu sem hann á skilið. Það verður svo sirka óhætt að fara á feisbúkk á þriðjudag, miðvikudag - og þá getum við farið að tala um ketti, kaffi og annað skemmtilegt.
Myndin: Það á ekki að bakka á myndum, heldur eins og taka skref áfram, beina sér fram á við, ekki aftur á bak, sagði eitt sinn klár atvinnuljósmyndari sem var að mynda viðmælanda minn (Katrínu Fjeldsted lækni) fyrir nokkrum árum. Þessi mynd er framávið-mynd - sem var betri en þær fyrri og þarna var ég að reyna að stilla mig um að hlaupa ekki til sætu hundanna hægra megin, uppstillt eins og fyrirsæta. Samt í fk. Cartman-jakkanum sem er 10-15 cm of stuttur ...
Ættum við ekki að kíkja í Kallabakarí og halda aðeins upp á þetta, spurði vinkona mín, maður hennar og sonur kinkuðu kolli og ég auðvitað líka. Hafði lagt svo mikið upp úr fegurðinni að ég borðaði bara mína súrmjólk, kornfleks og púðursykur, og gleymdi kaffibollanum. Lagði þó bara í kakóbolla í bakarínu þótt kaffið þar sé ekkert vont. Það átti eftir að reynast örlagaríkt. Ég er ekki vön því að hella niður eða detta og fá á mig gat (á 40 ára fresti) og slíkt, en á meðan við vorum að tala um hótelið sem kemur kannski við hliðina á himnaríki, og ég var að tala um andstöðu margra Skagamanna við það, þegar ég rak mig í kakóbollann sem skvettist yfir mig, töskuna mína í stæinu við hliðina og bjó til stóran kakópoll á gólfið. Kaffi hefði aldrei gert þetta óhapp svona klístrað því ég nota aldrei sykur eða bragðsíróp ... en elskuleg stúlka kom og bjargaði mér, þreif allt mjög vel. Við drifum okkur út áður en hún skellti mér í bað ... Þetta gerði einhver hóteldraugur, sagði ég spámannslega, þetta var fyrir því að annaðhvort komi hótel þarna eða ekki, bætti ég greindarlega við.
- - - - - - - -
Facebook er full af kosningaáróðri núna en Halldór fjandi skrifaði áðan: Ætli fólk sem skrifar kostningar stundi samtfarir?
Ég kveð frábæra forsetann okkar, Guðna Th., með miklu þakklæti (hann dýrkar og dáir Skálmöld) og óska nýjum forseta alls hins besta frá og með morgundeginum.
- - - - - - -
Eftir að hafa sest á rökstóla, aðallega með sjálfri mér, ákvað ég að halda áfram að reyna að selja himnaríki og sóttist eftir aðstoð fasteignasala úr bænum sem þarf þá að finna íbúð við hæfi handa mér í staðinn. Hún ætlar að kíkja á mig í næstu viku og henni finnst himnaríki gjörsamlega geggjað! Ekkert rosalegar kröfur sem ég geri um nýtt himnaríki í bænum, ég vil vera þar sem er líf og fjör, góð en "ódýr" íbúð, stutt í allt og sem minnst af gróðri í kring. Við erum nokkur sem teljum lífshamingju okkar ekki ógnað með steinsteypu.
Einstaklega falleg tónlist hljómar undir auglýsingu frá RÚV um menningarþátt ... og ég hef ekki munað eftir eða kannski ekki kunnað við að opinbera vanþekkingu mína en lengi langað til að vita hvaða tónlist þetta er. Var í tónlistarskóla í þrjú ár, þá sjö, átta og níu ára, og ætti að vita eitthvað. Lærði t.d. að það ætti að bera Chopin fram sem Sjópeng, ekki Tjópin, eins og einn lesarinn hjá Storytel gerir. Fannst aðeins of langt gengið að hringja í RÚV og spyrja, gerði það nú samt einu sinni fyrir langalöngu, upp úr tvítugu, minnir mig, og með góðum árangri, þá var það Ófullgerða sinfónían (nr. 8) eftir Schubert, og keypti mér plötuna í kjölfarið. Nú er ég minni óhemja og vonaði bara að þessa tónlist ræki á fjörur mínar einhvern daginn. Ég var búin að vígbúast með appi í símann minn, appi sem ber kennsl á alla tónlist, þarf ekki að heyra nema smáhluta úr lagi. Svo var ég að hlusta á Krýningarmessu Mozarts, eins og maður gerir annað slagið, og leyfði svo YouTube-veitunni að velja eitthvað svipað þegar henni var lokið ... og þannig fann ég þessa dýrð. Myndbandið er mjög áhrifamikið líka. Spurning um að biðja ættingja mína um að hafa þetta frekar útgöngulagið í útför minni, í staðinn fyrir Hel með Skálmöld, eins og ég var búin að fá samþykkt. Spila Hel frekar í erfidrykkjunni ...
Þetta er verk eftir Christopher Tin (f. 1976) og heitir Sogno di Volari (The Dream of Flight). Ég læt lagið fylgja með til að þíð fáið notið, elsku bloggvinir, þið sem ekki hafið nú þegar uppgötvað þessa snilld. Þetta hristir upp og hrærir í tilfinningum. Nú langar mig í kór aftur og fá að syngja þetta og fleira eftir þetta stórkostlega tónskáld. Um leið og ég hætti að reykja varð röddin svo miklu hreinni.
Bloggar | Breytt 3.6.2024 kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2024 | 00:11
Einnar konu kosningavaka - kókosbollur og allt
Þátturinn með efstu 6 er búinn, sá síðasti fyrir kosningar og sá fyrsti sem ég hef séð. Ég nenni nánast ekki lengur inn á Facebook vegna leiðinda þar. Vá, hvað ég er fegin að þessu er að ljúka. Seinni þátturinn með hinum sexmenningunum hófst með látum, veit ekki hvort Ástþór hefði getað stillt sig um ólæti ef þau hefðu verið öll 12 saman. Annars er ég sammála honum, við eigum að vera hlutlaus þjóð - sem er kannski flókið fyrst við erum í NATO ... Viktor er sniðugur - á köflum, en hann snýr of mikið út úr og er með stæla ... dáðist að spyrlunum að láta sem ekkert væri. Seinni þátturinn var talsvert fjörugri en sá fyrri, þó gaman að hlusta á þau öll.
Ég er búin að redda mér fari á kjörstað á morgun. Hásinin enn stokkbólgin þrátt fyrir góða og planaða hvíld undanfarið, engar skrefatalningar. Frekar stutt að ganga þessa leið í Fjölbrautaskólann en til hvers að leggja á sig sársaukafullt ferðalag fótgangandi þegar maður getur fengið FAR MEÐ TESLU! Til öryggis hef ég gætt þess að gefa ekki upp hvern ég kýs (með hjartanu - ekki taktískt) til að styggja ekki farið mitt ... sem væri samt alveg nákvæmlega sama, er ég viss um, kýs mögulega það sama og ég. Svo annað kvöld verð ég með einnar konu kosningavöku. Búin að kaupa kókosbollur og allt. Lenti í því að klára rommkúlupokann í algjöru ógáti yfir kosningaþættinum á RÚV.
Rammstolin mynd af frambjóðendum, henni var meira að segja nappað frá leikskóla ...
Bakaraofninn er enn skellóttur en virkar fínt, þorði að prófa í kvöld, ætla að fá fagmanneskju til að aðstoða mig við að þrífa hann - ef hægt er. Ég eldaði frekar vondan mat í kvöld, kjötbollur frá ER sem ég keypti í Hagkaup um daginn, og var svo upptekin eða utan við mig eitthvað að sósan klúðraðist. Maturinn í gærkvöldi var miklu betri. Tók þrjár sneiðar af hrökkbrauði, setti góða pestóið ofan á, rifinn ost, tómata (fyrirgefðu, Hilda) og ferskan mozzarella-ost, síðan rifinn aftur og smávegis pipar ofan á og hitaði, síðan pínku pestó. Gjörsamlega dýrlegt.
Leksands surdeig-hrökkbrauð er algjör snilld í pítsugerð. Hægt að raða því í hring og þarf ekki að skera ... Þrjár voru meira en nóg í kvöldmat. Holl drög að pítsum, myndi ég segja OG rosalega gott. Þetta pestó (sést á myndinni til vinstri, líka hrökkbrauðið) frá Önnu Mörtu er engu líkt. Maturinn hét: Að bjarga sér (með ónýtan ofn, sem var svo ekki ónýtur).
Gömul æskuvinkona af Skaganum skildi eftir ofnahreinsi við dyrnar hjá mér í morgun, einhver misskilningur en örugglega vel meint og algjör óþarfi ... ég á mjög góðan ofnahreinsi sem ég keypti í Omnis og hefði betur notað hann en þetta glæra stórhættulega gums sem er sennilega ætlað fyrir iðnaðarofna. Takk samt, kærlega. Fallega hugsað en harðbannað að mæta með meira handa mér. Ég er gjörsamlega að kafna í dóti.
Þarf að semja við einhvern sem á kerru að fara ferð upp á hauga eftir helgi. Vantar að losna við skjöktandi kringlótta borðið sem ég hef átt í áratugi, hægt að setja það í Búkollugáminn en ég efast samt um að þau nenni að bjóða upp á svona dót sem þarf virkilega að dedúa við. Ég má eiginlega ekkert vera að þessu kosningavökudæmi fyrir grisjunarþörf sem er að hellast yfir mig. Svo á ein systir mín afmæli á sunnudaginn og það væri gaman að kíkja ... en það er ekkert til sem heitir að kíkja þegar maður er háður eigi svo tíðum strætóferðum. Ég reiknaði einu sinni út að það tæki mig sex og hálfan tíma að skreppa í brjóstaskimun í Reykjavík eftir að Krabbameinsfélagið hætti að nenna að skima á Skaganum og heilsugæslan í bænum hélt sig við þá aumu ákvörðun. Væri snjallt hjá bæjarstjórninni að beita þrýstingi til að fá þetta aftur - og þá miklu meiri mætingu í kjölfarið. Fékk einmitt greiðslubeiðni í heimabankann frá Krabbameinsfélaginu í dag og eyddi henni, að vanda. Allt í lagi að vera langrækin þegar kemur að einhverju svona.
Kláraði Stephen King-bókina í dag, já, rólegur dagur og eina sem rauf spennuna þarna í bókarlok var koma Einarsbúðar með vörur, skyr, kókosbollur og slíkt. Nenni ég að horfa á Villibráð? Nei, ekkert fyrir fyllirís-, leyndarmála- og trúnó-myndir (hún mallar undir bloggskrifum), verð að fara snemma að sofa, kjörstaðarskutlaragengi mitt kemur fyrir allar aldir, eða kl. 10.30! Ég hef aldrei í lífinu kosið fyrir hádegi áður. Hef reynt að sofa lengi til að geta vakað fram á nótt en ég held ég láti bara tíufréttir á sunnudagsmorgun segja mér allt af létta. Nema auðvitað verði rímur og glíma, hagyrðingar hittast-innskot í kosningasjónvarpinu, jafnvel Sirkus Billy Smart ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2024 | 22:32
Að bíða eða ekki bíða ...
Dagurinn í dag hefði hér áður fyrr farið í að fylgjast með nýjasta eldgosinu en ég held að ég sé að verða eins og dóttir vinkonu minnar sem sagði ung að aldri og að gefnu tilefni: Ég nenni ekki eldgos! Fyrstu eldgosin handan hafs voru mjög spennandi, hægt að ganga að þeim (fyrir masókista, 8 klst. hvora leið, minnir mig). En þessi síðustu gos eru ekki jafnskemmtileg, ég get ekki ímyndað mér hvernig er að vera í sporum Grindvíkinga og sjá helv. hraunið reyna að hremma bæinn þeirra. Ég vann eitt sumar í Grindavík, þá bara 14 að verða 15 ára. Bjó á verbúð og kynntist skemmtilegu fólki, bæði innfæddum grindjánum og auðvitað aðkomufólkinu sem bjó í verbúðinni. Vinsælasta lagið þetta sumar var Dyer Maker með Led Zeppelin, svo gott að það er á aðallagalistanum mínum öllum þessum árum seinna. Við vorum tvær þarna í vinnu sem áttum afmæli 12. ágúst og þá bakaði matráðskonan vöfflur. Fyrirtækið hét Hraðfrystihús Grindavíkur en það virðist ekki vera til lengur, ég reyndi að gúgla. Sennilega of langt síðan ég var þarna því ég reyndi eitt sinn með google-maps að bera kennsl á húsið (sem var mjög auðvelt með Ísfélagið í Vestmannaeyjum í fyrrasumar sem hýsir nú íbúðir, held ég), en án árangurs. Besta kaffihúsið í Eyjum er þar við hliðina, við bryggjuna, og býður upp á mjög gott kaffi.
Myndin hér efst er frá Grindavík og húsið gæti mögulega verið Hraðfrystihús Grindavíkur ... Myndin var tekin stuttu áður en ég fór að vinna þar.
Sem minnir mig á að það er kominn nýr "staður" á Akranesi. Hann heitir Malíbó og er á Aggapalli við Langasand (fyrir aftan fótboltastúkuna, sjá mynd en vantar Aggapall þarna til hægri fjær) og í tveggja mínútna göngufæri við himnaríki. Þar verður eitthvað hollt og gott á boðstólum; búst, skálar, beyglur ... kaffi auðvitað og svaladrykkir/gosdrykkir.
Ung kona (Rakel Mirra Njálsdóttir) rekur Malíbó og vonandi verða Skagamenn og gestir duglegir að mæta. Ég ætla að minnsta kosti að gera það. Þetta lítur mjög vel út. (Það er alltaf hægt að ná mér ef avókadó er í boði, kannski eru slíkar beyglur í boði). Skessuhorn segir að það sé opið frá þri.-fös. kl. 10-17 en lau og sun 11-17. Lokað á mánudögum.
Áhyggjur mínar síðustu daga hafa mestmegnis snúist um bakaraofn himnaríkis. Hvort ég hafi mögulega eyðilagt hann með því að nota of sterkt hreinsiefni, ætandi mögulega, ég fékk efnið gefins í ómerktri glerklukku og átti að bera á með tusku og hafa gúmmíhanska á höndunum, láta liggja yfir nótt og þrífa svo af ... Nú eru hvít ský víða í ofninum sem fara ekki sama hvað ég þríf oft. Ef ég ætla að selja himnaríki, sem ég geri einn daginn, verð ég að kaupa nýjan ofn, nema ég gefi afslátt upp á c.a. verð ofns og leyfi nýjum eigendum að velja. Margir fínir á innan við 100 þús. hjá Elko, sýnist mér. Þá á svipuðu verði hér á Skaganum.
Ef ég hefði áhyggjurnar yðar, frú Guðríður Hrefna, myndi kannski einhver hugsa, en ég get verið voða viðkvæmt blóm stundum, það verður að viðurkennast. Eitt dæmi: Ég fékk vinnutengt símtal frá mjög indælli konu sem gaman var að spjalla við. Í lok símtalsins, þegar við vorum að kveðjast var hún orðið ofboðslega kuldaleg. Svo kuldaleg að ég notaði daginn og kvöldið til að fara aftur og aftur yfir símtalið í huganum, hvað sagði ég, getur verið að ég hafi móðgað hana eða sært og þá algjörlega óvart? Mér hefur reyndar skilist að ég hafi stundum móðgað (án ásetnings) nokkra með bloggskrifum mínum, þegar ég breyti kannski samtölum þannig að þau henti betur sjúkum húmor mínum, hef smávegis sannleikskorn til að gera það trúlegra, eins og samsæriskenningasmiðir, því ég plata, skrökva og ýki hér frekar oft. Ég á til dæmis ekki rosalega marga fyrrverandi eiginmenn, ég man ekki hversu marga en þeir eru ekki óteljandi, eins og ég hef oft gefið í skyn. Kannski bara einn, ég bara man það ekki.
Svo hringdi konan aftur nokkrum dögum seinna og var þá orðin svakalega elskuleg og ég lét á engu bera. Þegar við kvöddumst varð hún aftur svona rosalega kuldaleg og ég áttaði mig á því að hún var farin í næsta verkefni/símtal í huganum, hún var bara fjarlæg, ekki fjandsamleg. Ég barði mig nokkrum sinum í andlitið með blautu handklæði í refsingarskyni fyrir þetta rugl í mér.
Ertu hætt við að flytja í bæinn? hef ég verið spurð um. Nei, alls ekki en himnaríki var á sölu í tvo mánuði án árangurs og þá fannst mér rétt að hugsa mitt ráð. Ég á ráðagóða að og er auðvitað ansi snjöll sjálf, enda úr Þingeyjarsýslu.
Einn möguleikinn er að bíða átekta, jafnvel fram á næsta ár, og gera þá ný vinnuplön miðað við það. Annar möguleiki er að fá einhvern algjöran hákarl í borginni til að bæði selja himnaríki OG finna draumaíbúð handa mér. Mig langar í þriggja herbergja íbúð, á stað þar sem er mikið líf (og stutt í strætó), miðborgin kemur því miður ekki til greina því ég hefði bara efni á einhverju algjöru greni fyrir 54,9 milljónirnar sem eru settar á himnaríki.
Virðuleg frú á mínum aldri nennir ekki að skuldsetja sig og borga í framtíðinni allan ellilífeyrinn sinn í lán í staðinn fyrir brennivín og karlmenn! Ég var búin að finna mjög fína íbúð, á góðu verði, á draumastað með smá útsýni og allt, en missti hana af því að mín seldist ekki. Í raun liggur mér ekkert á núna, ég elska himnaríkið mitt og góða fólkið mitt hér á Akranesi, en ég sakna líka vina og vandamanna í bænum.
Allir Skagamenn vita að leiðin frá Reykjavík og upp á Akranes er svo miklu, miklu lengri en leiðin frá Akranesi í bæinn ... og það er bölvað vesen stundum, finnst mér, (sérstaklega á hátíðum) að vera strætóandi og upp á aðra komin með skutl þegar strætó gengur ekki.
Bíddu, bíddu, ertu ekki með þyrlupall á hlaðinu hjá þér? hugsa eflaust allir ... en þyrlur hafa bara hækkað of mikið í verði til að það sé forsvaranlegt að nota þann ferðamáta, líka skortur á þyrluskýlum á Skaganum, oft svo mikill vindur á Íslandi og það versta; Ásdís Rán, hirðþyrluflugmaðurinn minn, gæti endað á Bessastöðum og nennir þá tæplega að skutla mér á milli.
Er að hlusta á ansi skemmtilega bók eftir Stephen King og Richard Chizmar ... hún heitir Gwendy og er nýkomin inn á Storytel, lesin af Sigríði Lárettu Jónsdóttur sem er súperfínn lesari. King er á svipuðum slóðum og alltaf, ekki svo mikill hryllingur samt, alls ekki eins og er t.d. í Pet Semetery (fyrsta SK-bókin sem ég las og treysti mér ekki til að horfa á myndina). Þessi er hófstilltari og fyrir þau sem vilja langar bækur: hún er 16 klst. og 30 mín. Ég er með stillt á hraðann 1,2 sem styttir talsvert. Er búin með tæpa níu tíma og á fjóra tíma og 50 mín. eftir. Enda er allt afar fínt í himnaríki núna (nema bakaraofninn) og svo hefur heklaða teppið handa stolna barnabarninu í næsta húsi líka lengst nokkuð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2024 | 17:48
Stórviðburðir í þrennum ...
Hver stórviðburðurinn rekur annan og spurning hvað er orsök og hvað afleiðing. Ég ákvað í gærkvöldi að taka himnaríki úr sölu, hvort sem það er til lengri eða styttri tíma. Þarf að ákveða næstu skref. Það var svo eins og við manninn mælt um tíuleytið í morgun að Langisandur hlaut enn einn bláfánann - sem er alþjóðleg viðurkenning fyrir hreina og ómengaða strönd. Ekki bara montflagg, heldur nýtist hann einstaklega vel sem vindhani fyrir okkur íbúana við hafið.
Alltaf hálfgerður fúlheitadagur þegar fáninn er tekinn niður í sumarlok, þótt viðurkenningin tengist alls ekki bara sumrinu og sandurinn fái bæði innlenda og erlenda gesti allan ársins hring. Hér er allt of oft logn við Langasand á sumrin og ekki jafnmikil þörf á vindhana, frekar þegar lægðirnar dásamlegu koma og gera sjóinn sjúklega flottan en fyrstu árin fengum við notið fánans langt fram eftir vetri. Einhver sem stjórnar bláfánadæminu núna sviptir mig þeim möguleika að kíkja út um gluggann til að gá til áttar, svo ég neyðist til að nota gemsann sem síðan skammar mig í sífellu fyrir allt of mikla notkun. Það er talið með þegar ég nota símann til að hlusta á sögu - við húsverkin þannig að ég er algjör gemsabófi.
Ekki löngu eftir að bláfáninn fór að blakta byrjaði að gjósa handan við Faxaflóann. Ekki endilega tilviljun. Stórviðburðir koma oft í þrennum. Ég átti að vera úti í bæ í kaffi milli 11 og 12 en því var óvænt frestað. Það er greinilega passað upp á okkur nördana, líka óvart.
Þrír fjórðu af þeim sem hér búa sátu við tölvuna og fylgdust með - eftir að skjálftahrinan hófst og farið var að rýma. Sjá lýsandi mynd hérna efst. Keli og Mosi gáfust fjótlega upp og lögðu sig. Ég sat á vaktinni allt þar til fór að gjósa, vonaði nú samt að þetta yrði bara kvikuhlaup sem kæmist ekki upp. Myndin hægra megin á samsettu myndinni (sem sýnir tímaröðina) var tekin þegar sex mínútur voru liðnar af gosinu og strax nokkuð myndarlegur bólstur kominn, hann átti eftir að stækka en skýin fóru fljótlega að blanda sér í keppnina um athygli svo ég einbeitti mér að vefmyndavélum og RÚV2. Einhver þarf að fylgjast með þessu, eins og ég segi við áhugalausa ættingja mína sem láta sér nægja að horfa á fréttirnar í kvöld! Döh!
Í fjórum orðum ... hvernig eyðileggur maður stefnumót?
Svörin sem bárust voru sum byggð á reynslu!
Níu börn, fimm mæður! (sönn saga, fyrsta og eina stefnumótið)
Ég elska Jesú Krist.
Við mamma búum saman.
Minn fyrrverandi gerði vanalega ...
Tæknilega er ég gift/ur.
Sálfræðingurinn minn sagði að ...
Ég gleymdi veskinu mínu.
Ég kýs Arnar Þór! (djók, þetta var Trump)
Meðan ég sat inni ...
Giftur tvisvar, skilinn tvisvar!
Ég þoli ekki fótbolta!
Ég tók pabba með.
Ég tók mömmu með.
Ég er á skilorði.
Hef fylgst með þér ...
Mamma skutlaði mér hingað.
Hlauptu, frúin er hérna!
Ég þoli ekki hunda/ketti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2024 | 23:33
Ætlaði bara rétt að kíkja ...
Fyrsta ferðalag sumarsins var farið í dag, örstutt og gott og innihélt skúffukökusneið, Hagkaupsferð og umferðarhnúta. Já, við fórum tvær (ég farþegi) og skutluðum stráksa í sumarbúðir drauma hans. Minna mátti það ekki vera. Í þetta skipti verður hann í fjögurra stráka herbergi og leist vel á það. Okkur var boðið upp á kaffi og skúffuköku fyrir brottför sem var ágætis bensín á skrokkinn í umferðarsultunni sem ríkti um hálffimm í Ártúnsbrekkunni, á leið í Skeifuna. Samferðakona mín sagði mér að það hefði oft hangið þarna köttur í búðunum, aðallega í A4, hélt hún. Kattakjéddlíngin ég gat nú aldeilis sagt henni að kötturinn sá væri enn á sveimi og ætti sína eigin Facebook-síðu, Spottaði Diegó, heitir hún. Meðfylgjandi mynd sem ég rændi af síðunni sýnir hversu mikil dásemd hann er ... og ég keypti einmitt rándýra skrifborðsstólinn minn (sjúklega æðislega góða) í A4 í Skeifunni þegar ég ætlaði bara rétt að kíkja á Diegó ... nánast. Ég er hættuleg þegar ég ætla bara rétt að kíkja ...
Við skruppum í Hagkaup, ég ætlaði bara rétt að kíkja og athuga hvort ég fyndi ekki besta pestó landsins (Önnu Mörtu-pestóið) og kannski huga að einhverju matarkyns því ég sleppti Eldum rétt í dag (fyrir þessa viku) því ég yrði að heiman. Í stutta ferðalaginu í Mosfellsdal og Reykjavík. Svo bara sá ég Eldum rétt-kassa í kælinum og skellti mér á einn ... máltíð fyrir tvo sem dugir mér nú alveg í þrjár máltíðir. Ég fer bara út í ruglmat ef ég passa mig ekki. Svo keypti ég auðvitað nýútkomna bók, þá síðustu eftir Jussi Adler-Olsen um Q-deildina (sjá mynd) og ég keypti hana þótt ég hafi svo mikið á tilfinningunni að höfundur detti í þann drullupytt að drepa slatta af söguhetjunum. Þarf samt ekki að vera ... ég vona ekki, ég bara trúi því ekki. Mig langar ekki einu sinni að lesa bókina um síðasta mál Poirots ... og í mínum huga er Erlendur líka sprelllifandi. Ég man hvað ég varð pirruð út í höfund sem drap annan eineggja tvíburann í fyrstu bók sinni án þess að hugsa út í afleiðingarnar og hvað hefði verið hægt að búa til margar skemmtilegar senur með tveimur alveg eins, þar sem annar var spæjari.
Svo keypti ég auðvitað flottar ólífur (ragnar grímsson), bakka af rótargrænmeti til að elda mér á morgun, voðalega fínt vítamín fyrir liðina, virkar vonandi á hásinar. Já, og lítinn sushi-bakka í kvöldmatinn ... en allt í einu tók ég undir mig stökk, til að flýja þessa hroðalega girnilegu og hættulegu búð og stefndi hratt á kassana. Ég setti ekkert í körfuna sem ég ók á undan mér, tókst að koma öllu á staðinn þar sem börnin sitja, og meira að segja ofan á töskuna mína ... en samt kostaði þetta rúmlega 19 þúsund krónur. Þegar maður ætlar bara rétt að kíkja ... á besta pestó landins. Er samt ekki búðasjúk. Samferðakonan þurfti í Jysk og ég kom með. Nánast í anddyrinu fann hún plastkassana sem hana vantaði og við beint á kassa og svo út. Ég sá fullt af búðasjúkum karlmönnum þarna með fangið fullt af eflaust óþörfum rúmfötum og gerviblómum. Síðan var það bara umferðarsultan heim á Skagann aftur. Ólífurnar eru æði og ég sé ofboðslega eftir því að hafa ekki keypt meira en tvær krukkur af pestóinu ... og ég borða ekki einu sinni pestó (nema þetta). Skilja bloggvinir núna hvers vegna ég vil flytja í bæinn?
Von var á tveimur vinkonum í heimsókn kl. 11 í morgun og 30 mínútum áður fékk ég þá hugmynd að bjóða þeim upp á pönnukökur. Alveg búin að gleyma því að ég kann ekki að tilsteikja slíkar pönnur en hva, ég átti "gamla" mjólk, útrunna en óopnaða og í góðu lagi og þá er allra best að baka pönnsur. Þær urðu svolítið þykkar hjá mér og ég þarf að æfa mig meira, finna rétta hitastigið og slíkt en ég held að mér hafi tekist að tilsteikja pönnuna núna, það fór ekki allt í kássu og vesen eins og í fyrra, þegar ég prófaði síðast. Það var ekkert mál með gömlu pönnunni og á gömlu eldavélinni en allt þarf að venjast.
Ég kemst pottþétt ekki á fleiri forsetaframbjóðendafundi. Halla Hrund mætti á Skagann þegar yfir 70 stúdentar voru að útskrifast frá FVA og Katrín mætti í kvöld á Nítjándu, hjá golfvellinum, en þangað kemst enginn nema fuglinn fljúgandi og fólk á bíl. Held að Halla T. hafi líka mætt en ég varð ekki vör við það fyrr en eftir á og ég stórefa að fjórmenningarnir knáu, Ásdís Rán og þau, mæti hingað úr þessu. Þegar Baldur kom var ég stödd í Reykjavík, svo hingað til hef ég misst af þeim öllum nema auðvitað Jóni Gnarr um daginn. Það var mikill gleðidagur, ekki bara hjá stráksa, heldur mér líka. Við fengum svo gott knús, bæði tvö, held að það að knúsa lömb og lítil börn sé ofmetið hjá frambjóðendum, það á frekar að knúsa fólk ... með kosningarétt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2024 | 23:41
Ofmetnir ferðamannastaðir og letidagurinn mikli
Sérdeilis góður letidagur í dag - nákvæmlega ekkert gert að gagni. Alþjóðlegi letidagurinn verður 10. ágúst nk. Tveimur dögum seinna, eða 12. ágúst, er alþjóðlegur dagur unga fólksins. Ég átti að fæðast þann tíunda en mætti tveimur dögum of seint, mögulega vegna leti ... Gott að slaka vel á til að hlífa fætinum og ná honum góðum því á morgun verður land lagt undir fót og haldið í Mosfellsdal (ekki samt gangandi) nánar tiltekið í Reykjadal. Fæ að koma með þegar stráksa verður skutlað þangað í uppáhaldsstaðinn sinn í öllum heiminum (fyrir utan Glasgow kannski). Hann vildi endilega hafa mig með í bílnum, kannski af því ég hef nánast alltaf farið með honum.
Ég er að hlusta á bækur eftir Angelu Marsons núna, bækur sem ég hef nú þegar lesið en búin að gleyma að mestu. Kim Stone rannsóknarfulltrúi stjórnar glæpadeild á lögreglustöð í Mið-Englandi (West Midlands). Hún á sér marga aðdáendur hér á landi og víðar, enda mikill töffari. Ég kláraði fyrstu bókina í dag og er byrjuð á þeirri næstu. Sýnist vera um tíu bækur um Kim inni á Storytel en þegar ég gúglaði höfundinn virðist sem bækurnar verði 20 eða jafnvel 25 sem er mikið tilhlökkunarefni. Fínustu glæpasögur. Ég hafði byrjað á nokkrum nýútkomnum sem ég var búin að hlakka til að hlusta á en þær ná mér ekki ... Stundum er maður bara í stuði fyrir eitthvað sérstakt, núna kannski glæpa- og löggudæmi, stundum eitthvað annað, eins og ástir og örlög. Ætla að nota þennan rólega kafla í lífi mínu (er á meðan er, það skellur á vinnulota innan tíðar) til að flokka dót; gefa, henda, eiga ... og þá er gott að hafa eitthvað að hlusta á, allt gengur betur, finnst mér, með skemmtilega sögu í eyrunum. Þá verður líka heldur betur þægilegt að pakka niður og flytja í bæinn þegar að því kemur.
- - - - - - -
Ferðalög í sumar verða eflaust fá og jafnvel bara dagsferðir. Mér finnst ógurlega gaman að fara á Snæfellsnes, ekki síst Grundarfjörð og drekka skuggalega gott kaffi (Valería, af hverju fæst það ekki í Einarsbúð?). Svo er líka alltaf svo gaman að heimsækja Hvammstanga, þekki marga þar.
Nýlega rakst ég á óformlega könnun á því hvaða þekktir ferðamannastaðir væru ofmetnir ... það voru þúsund komment og ég nennti bara að lesa helminginn. Parísarborg á algjörlega vinninginn sem ofmetnasta borgin (þegar ég gúglaði vinsæla ferðamannastaði kom mynd af Eiffel-turninum fyrst upp). Disneyland (um allt) fékk líka mörg atkvæði og Dúbaí. Ég leitaði örvæntingarfull að einhverju dissi um Ísland en fann ekkert, mér til léttis. Við erum kannski ekki ofmetinn staður, heldur bara fokdýr og mögulega stutt í að okkur takist að okra okkur út af markaðnum, eins og sumir vilja meina.
Hér eru nokkur komment um ofmetna staði:
París, Frakklandi. Falleg borg en maður er minna en velkominn þangað.
Hawaii ... æðislegur staður en ferðamannaiðnaðurinn þar er ömurlegur og skiljanlegt að innfæddir séu ekki hrifnir af gestum.
Disneyland og Lególand.
Stonehenge. Klettar á svæði þar sem er mikil umferð og hávaði af henni. Svo var líka ógeðslega kalt og vindasamt þar.
París, Vegas og Feneyjar. Sólarhringur nægir. Vanmetnir staðir eru Vín og Buenos Aires.
Dúbaí.
Dubrovnik í Krótatíu er stærsta túristagildra sem ég hef lent í.
Hef aldrei áttað mig á Dúbaí. Er þetta ekki bara risastór verslanamiðstöð sem var plantað niður í eyðimörkinni?
Indland, svo kaótískt. Ég varð tilfinningalega örmagna á örfáum tímum.
Vatíkanið og Sixtínska kapellan. Vissulega allt voða flott og allt í gulli (sem ætti frekar að nýtast fátækum) en mikil þrensli og fólki ýtt áfram því það mátti ekki stoppa.
Taj Mahal.
París. Samt fer ég aftur og aftur.
Nánast allar eyjarnar í Karíbahafinu.
Balí sökkar.
Alcatraz. Fangelsið er mjög lítið.
Pýramídarnir í Egyptalandi. Mætti alveg gera snotrara í kringum þá, það eru bara sölubásar með drasli þarna.
New York.
Indy 500. Horfðu frekar á keppnina í sjónvarpinu.
Hollywood, ekkert nema heimilislaust fólk og eiturlyf þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2024 | 23:54
Sæþotur á hlaðinu, bjórmisskilningur og versti Bond-inn
Heimatilbúinn kaldur bakstur tókst alveg hreint ágætlega þegar ég loks mundi eftir því að kona í apótekinu hafði talað um slíkan, ásamt verkjakremi og hækkun á hæl. Ég hef prófað krem og hækkun en átti grisju í baðskúffu, veit ekki síðan hvenær og við hvaða tilefni ég ætlaði að nota hana fyrir rosalega löngu síðan en hún var til. Ég bleytti hana, tók frystiplastpoka og frysti kvikindið. Reyndi að laga það ögn til svo það passaði á hásinina og þar í kring. Setti síðan hið frosna ofan í sokkinn svo nam við hásin. Verklagna Hurrí. Var að setja á mig í annað sinn núna rétt áðan og þetta er svo stíft núna að það horfir eiginlega til vandræða en það lagast eftir smástund. Óttast samt kuldakrampa og að kvefast, fá jafnvel lungnabólgu! Hef aldrei haft trú á köldum bökstrum, t.d. á bakið, legg mig stundum á hitapoka ef bakið er með stæla og það virkar ágætlega. Í þetta sinn held ég þó að kuldinn sé málið. Brrrrr
Mynd: Hér var allt vaðandi í sæþotum á hafsvæðinu mínu fyrir framan himnaríki en þar sem ég naut þess að horfa á þessar hetjur hafsins svífa á öldunum, lét ég það óáreitt.
Dagur dugnaðar var í dag, reyndar bara viðhald á fínheitunum í himnaríki, allt svo auðvelt þegar ég er bara ein. Allt rusl út, pappi og plast ásamt fuglamat fyrir alls konar krúttmola sem líta á lóðina upp að þyrlupallinum hér við hafið sem sérstakt súpueldhús fyrir heppna fugla. Ég verð að viðurkenna að lífið er orðið svo rólegt allt í einu sem er eiginlega alveg dásamlegt. Alltaf fínt, enginn sem draslar ... eða jú, kettir hafa ansi gaman af því að henda niður dóti, taka á sprett svo mottur færast til. Þar sem Keli er orðinn gigtveikur og á erfitt með að hoppa hrindir hann oft einhverju niður þegar honum misheppnast stökkin. Eftir að ég fékk almennilegt kattagras eru kettirnir hættir að kasta upp (reyna að gubba hárboltum) um öll gólf. Nema þeir hafi nartað stundum í blómin (ekki liljur en kannski eitruð?) sem ég fékk gefins sl. vetur og sem ég tróð nýlega yfir á eina systur mína sem er með græna fingur og getur alltaf á sig blómum bætt. Niðurskorin blóm er eiginlega ekki hægt að gefa mér lengur (þess vegna á ég ekki aðdáendur, ég afþakka alltaf pent) því kettirnir verða brjálaðir. mig grunar að það sé frekar afbrýðisemi en að þá langi að narta í blómin, í alvöru.
Hilda mætti á Skagann upp úr fimm og við sóttum stráksa eftir að hafa sötrað smávegis kaffi í himnaríki, nú var það útborðelsi á Galito kl. 18. Andri, glaðasti þjónn í heimi, var í vinnunni, stráksa (og öllum á staðnum) til mikillar hamingju.
Stráksi pantaði pítsu, ég fékk mér sushi og Hilda tvo girnilega forrétti. Stráksi gleymdi sér eitt andartak og pantaði sér vodka með pítsunni áður en hann mundi eftir því að við erum hætt með vodkabrandarana. Stúlkan sem tók niður pöntunina var ný svo hún henti okkur ekki út fyrir fúla brandara. Sjúkk. SevenUp var pantað að vanda, Hilda vildi ekkert og ég ...
....
... í kvöld lærði ég að Lite-bjór er ekki light, eða léttur og áfengislaus ... hann inniheldur bara færri kaloríur! Mér fannst hann reyndar ekkert spes og leifði en sennilega hefði sódavatn verið best með sushi-inu, ég er ekkert fyrir hvítvín. Valdi vegan-sushi sem var svakalega gott. Solla vinkona sat á næstnæstnæstnæsta borði en staðurinn var fullur af glöðu fólki, eins gott að ég pantaði borð í gær.
Fb-vinur minn, God, spurði: Þú þarft að finna þann versta leikara sem þér dettur í hug til að leika James Bond. Hvern velur þú?
Hér eru nokkrir frekar heimsfrægir sem voru nefndir:
James Woods
Idris Elba
Woody Allen
Jim Carrey
Will Ferrell
The Rock
RuPaul
Pete Davidson
Mr. Bean
Danny Devito ... en ég held samt að hann gæti verið flottur Bond.
Nicolas Cage
Tom Cruise
Roseanne Barr
Borat
Donald Trump
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2024 | 00:00
Gleðidagur, flott Diskóeyja og tími á yfirhalningu
Hátíðisdagur í dag þegar stráksi og rúmlega sjötíu aðrir útskrifuðust sem stúdentar frá FVA í dag. Ég mætti að sjálfsögðu og fylgdist hreykin með honum ná þessum stóra áfanga. Nokkrar ræður voru haldnar og allar virkilega skemmtilegar, ólíkar og vöktu mann til umhugsunar.
Skólameistari hélt þá fyrstu, síðan gamall nemandi (Idol-stjarna sem talaði um fokkitt-andartökin í lífi sínu) og formaður nemendaráðs. Ótrúlega fallegur hópur af gæðakrökkum sem voru að útskrifast úr námi sem þau þurftu ekki að fara í, eins og kom fram í einni ræðunni. Sennilega skemmtilegasta útskrift sem ég hef verið viðstödd. Þegar ég útskrifaðist úr hagnýtri fjölmiðlun (HÍ) voru það margir að útskrifast að athöfnin var löng miðað við það, samt minnir mig að ég hafi kosið að elta hópinn minn og útskrifast að hausti þar sem voru talsvert færri (Háskólabíó en ekki Laugardalshöll) því ég þurfti ekki að vinna á fjölmiðli um sumarið, eins og hinir, var þegar með reynslu. Aldarfjórðungur síðan ...
-----
Veður dagsins var glæsilegt í sinni gulri veðurviðvörun. Ég lét mig fjúka út á stoppistöð fyrir athöfn en við vorum svo heppin, við stráksi, að vera sótt af einni elsku sem vinnur á sambýlinu. Þangað héldum við og á borðum var fínasta marsipanterta, rækjusalat og kex. Dásamleg veisla í tilefni útskriftarinnar. Sambýlingarnir höfðu slegið saman í virkilega fína útskriftargjöf sem reyndist vera allur heimurinn ... mjög flottur hnöttur með ljósi inni í. Stráksi datt í lukkupottinn að fá að flytja þangað.
Ég tölti svo út á stoppistöð á Akratorgi og þegar strætó kom og hleypti mér inn að aftan, eins og öllum hinum, að nú er kominn tími á klipp og lit. Panta eftir helgi (sjá mynd hér fyrir neðan, sem sannar það sem bílstjórinn sá).
Dásemdardagurinn var sannarlega ekki búinn því vinafólk mitt kom og sótti mig skömmu fyrir sex því nú skyldi haldið í Bíóhöllina, á Diskóeyjuna, sýningu gamla skólans míns, Brekkubæjarskóla.
Elsta dóttirin dansaði í sýningunni og bar auðvitað af, ég var eins og stolt amma að fylgjast með henni. Sýningin var virkilega skemmtileg, mikið klappað og stappað.
MYND: Ég banna iðulega myndbirtingar af mér en eftir nokkrar rökræður við sjálfa mig fannst mér ég verða að fórna myndabanninu, jafnvel þótt ég væri í cartman-jakkanum, til að sýna sætu og frábæru dætur vinahjóna minna. Sú eldri er góður dansari og á neðstu myndinni má sjá hana dansa á fullu lengst til hægri. Yngsta var í fanginu á pabba sínum annars staðar í Bíóhöllinni.
Hæfileikaríkir krakkar í Brekkó, þau höfðu greinilega gaman að því sem þau voru að gera, það skilaði sér heldur betur. Við vorum virkilega glöð á heimleiðinni, ánægð með sýninguna og stolt af dansaranum góða. Við fórum sjávarleiðina heim og það var assgoti skemmtilegt þegar öldurnar skvettust yfir Faxabrautina og bílinn. Vona systur minnar vegna, að sjórinn verði áfram svona flottur á morgun þegar hún skýst á Skagann til að borða með okkur stráksa.
Eldamennska tók svo við þótt klukkan væri orðin margt, eða hálfátta, ekki dugir að láta fína matinn frá Eldum rétt skemmast vegna stórviðburða í samkvæmislífinu! Í gær var geggjaður kvöldmatur hjá Matarklúbbi Rauða krossins og á morgun förum við stráksi ásamt systu á Galito til að halda upp á útskriftina, brautskráninguna, stúdentinn ...
Ég hlustaði á gamla glæpasögu í gær, man ekki hvað hún heitir en gömul kona var myrt í henni, alveg rosalega eldgömul kona, það var einhvern veginn mikið talað um hvað hún væri gömul. Svo þegar aldurinn kom fram, að hún væri rétt rúmlega sjötug, fór ég að flissa, jú, höfundurinn var frekar ungur. Þótt ég sé í raun að kasta stórgrýti úr gróðurhúsi núna, mér fannst nefnilega sjö ára gamalli að 12 ára strákarnir í skólanum væru orðnir fullorðnir menn. Og þegar ég var 17, 18 ára hefði ég aldrei litið við 25 ára strákum, fannst þeir farnir að láta á sjá sökum aldurs. Einn daginn tóku svo kennarar fram úr nemendum í mínum huga og það var pínku skrítið. Man þetta betur varðandi strákana ... en það eina varðandi stelpur var um ótrúlega hressu stelpuna sem djammaði mikið og var alltaf hlæjandi og hress, svo varð hún 18 ára, gifti sig, fór að nota slæðu á höfuðið, væntanlega með rúllur undir, var ólétt, í óklæðilegri kápu, hélt á innkaupaneti og var í bomsum. Einhvern veginn svona er minningin um hana og ég vonaði að það yrði langt í að ég yrði 18 ára og myndi hætta að hlæja.
Mamma bjó heima hjá sér fram yfir áttrætt og naut þess að ráða krossgátur, drekka kaffi og horfa á spennandi myndir í sjónvarpinu. Tíu árum áður, eða á sama aldri og eldgamla konan í bókinni, var hún tiltölulega nýhætt að vinna og eldhress, hún var auðvitað ekki ung ... en samt ekki nálægt því sama "gamla konan" og lýst var í bókinni. Hér áður fyrr, ef marka má bækur um gömlu dagana, dó fólk í hárri elli jafnvel um fimmtugt, gjörsamlega útslitið af þrældómi.
Síðan Málspjall:
Getum við aðeins velt okkur upp úr því af hverju vettlingar heita ekki handklæði? (AK)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2024 | 00:08
Ómótstæðilegur sjór og hvað er ást ...
Með algjörum herkjum hefur mér tekist að snúa á unglinginn í mér og fer orðið snemma að sofa (milli tólf og eitt) og vakna frekar snemma. Það var lengi gott að kúra til ellefu en ég tek það ekki lengur í mál. Er á meðan er, hugsar ein systir mín örugglega, morgunhani með meiru. Sennilega aðstoðar dagsbirtan til við að vekja mig á morgnana, mér dettur ekki í hug að vera með myrkvunartjöld þótt ég hafi erft frá stráksa að vilja sofna í myrkri, ja, eins miklu og hægt er. Þannig að hér eru öll ljós slökkt. Eitt hefur líka hjálpað, og það er að flesta morgna núna hitti ég tvær vinkonur sem þrá heitast af öllu að læra íslensku hratt og vel. Við drekkum saman kaffi, til skiptis heima hjá hver annarri, og tölum saman á íslensku. Þar sem ég ræð mínum vinnutíma sjálf finnst mér þetta ansi skemmtileg næstum-byrjun á degi. Við hittumst kl. ellefu og þá hefur mér tekist áður að fara í sturtu og snæða staðgóðan morgunverð sem enn árrisulli brytinn minn hefur útbúið. Oftast súrmjólk, púðursykur og kornfleks.
Mynd 1: Svona var útsýnið meðan opna húsið stóð yfir. Hver getur staðist svona sætan sjó? Ég faldi bleiku fokkjústyttuna og bókina Dauðinn á opnu húsi. Stundum er best að ögra ekki.
Eitthvað er loks farið af stað varðandi himnaríki, fyrirspurnir og fá að skoða-beiðnir eru farnar að berast, skilst mér, svo ég verð víst að draga til baka þetta með stóra samsærið ... Nú spila ég bara Krýningarmessuna til að gleðjast og raula með (fyrsta verkið sem ég söng með Kór Langholtskirkju, 1985), íbúðin enn sjúklega flott og fín og sér ekki einu sinni skófar á parketi eftir trampið í dag. Eldaði mér ofnbakaða bleikju með fersku salati, brúnum pistasíuhrísgrjónum (mínus pistasíur), brokkolíi og hvítlaukssósu. Afgangurinn verður snæddur í hádeginu á morgun. Og af því að það er svo mikið útstáelsi á mér, fer ég "út að borða" hjá Matarklúbbi Rauða krossins annað kvöld, síðasta sinn í "vetur" því nú hefst þriggja mánaða sumarfrí klúbbsins og stefnan hjá mér er Kópavogur í haust svo það er eins gott að mæta! Ekki trúa þeim sem segja að það sé Katalína sem lokki og laði ... mér skilst reyndar að þar megi kaupa sér ágætan hádegisverð, mömmumat upp á gamla mátann, ekki samt eldgamla, held ég.
Upp á síðkastið hef ég verið að hlusta á Birgittu H. Halldórsdóttur, þá góðu sögukonu. Nýlega hlustaði ég á mikla örlagasögu hennar (Dætur regnbogans) sem gerðist í eldgamla daga og sú hlustun gerði mér kleift í dáleiðsluástandinu sem ég fer í við að hlusta á grípandi sögur, að snurfusa allt hér í himnaríki. Fráflæðivandinn hér er samt alltaf mikill ... en vex mér líklega í augum því ég þekki alveg fólk sem myndi án þess að hika skutla dóti og drasli fyrir mig um víðan völl. Eins og gamla kringlótta borðið mitt með taflborðsmynstrinu ... það er orðið skjöktandi og þarfnast ástar og umhyggju. Hef ekki pláss fyrir það en ætti frekar að auglýsa það en gefa á nytjamarkað þar sem því yrði örugglega hent því það skjöktir.
- - - - - - - -
Af því að það er að koma sumar verða allir eitthvað svo ástfangnir og rómantískir ... dæs, en sumum finnst ástin hreint ekkert æðisleg, ef þær hafa til dæmis takmarkaðan séns í Jason Statham. Ástin sökkar, segja sumir og mörg klár börn sem ég hef hitt fyllast hryllingi ef minnst er á ástina. Til er margs konar ást auðvitað og hér svara nokkrir erlendir krúttmolar spurningunni Hvað er ást?
Þegar amma fékk gigt gat hún ekki beygt sig og klippt á sér táneglurnar. Þá gerði afi það, samt var hann með gigt í höndunum. Rebekka, 8 ára.
Ást er þegar þú ert alltaf að kyssa. Svo þegar þú þreytist á kossunum viltu samt vera saman áfram og tala meira. Mamma og pabbi eru þannig. Það er ógeðslegt þegar þau kyssast. Emily, 8 ára.
Ef þú vilt læra að elska betur, skaltu byrja með vini sem þú hatar. Nikka, 6 ára.
Það er ást þegar lítil gömul kona og lítill gamall maður eru enn vinir þótt þau þekkist svona vel. Tommy, 6 ára.
Ég veit að stóra systir mín elskar mig því hún gefur mér gömlu fötin sín og þarf svo að fara út í búð og kaupa sér ný föt. Lauren, 4 ára.
Það er ást þegar mamma sér pabba á klósettinu og finnst það ekki ógeðslegt. Mark, 6 ára.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2024 | 23:54
Samkvæmislíf sumarsins og reynslusögur og ... uppskrift
Himnaríki er að verða eins og klippt út úr tískublaði í innanhússhönnun og How to clean your house-síðu, svo fínt er það ... nema fyrrum herbergi stráksa (og drengsa sem fór í morgun). Ástæðan fyrir að þeir eru aldrei nefndir með nafni er bara persónuvernd, ekki óvirðing við þá. Ég þarf að greiða stráksa milljónir núorðið til að fá að birta mynd af honum, svona nánast, mútur alltaf æskilegar.
Það herbergi er nú orðið hálffullt af alls konar, hlutum sem ég þarf m.a. að losna við (hvern vantar t.d. gamla, góða Ikea-kommóðu?) og öðrum hlutum sem þarf að flokka í: halda, gefa, henda - fer í það eftir OH á morgun.
Mynd: Sú vinstra megin var tekin um 11-leytið í gærkvöldi. Hin um kl. 8 í morgun - Krummi vildi endilega vera með. Sami sjór, sami gluggi og sami ljósastaur. (Það var auðvitað mjög gild ástæða fyrir því að ég vaknaði fyrir kl. 8 í morgun.)
OH, eða Opna húsið, er á morgun (kl. 17) og mig langar ekki að beita brögðum, vera með bökunarlykt eða missa algjörlega óvart út úr mér að jason statham komi og bjóði í himnaríki. En samt ... það eru til tvö epli (sem drengsi kláraði ekki) og hvernig er best að njóta epla? Jú, í eplaköku!
Ég gúglaði og fann uppskrift:
Einfaldasta eplakaka í heimi (undirfyrirsögn: Hættulega góð)
1 bolli sykur
1 bolli hveiti
1 bolli haframjöl
125 g smjörlíki
100 g suðusúkkulaði
4-5 epli
kanilsykur
Skerið eplin niður í litla bita og saxið súkkulaðið smátt. Setjið í eldfast mót. Myljið saman þurrefni og smjörlíki og stráið yfir eplin og súkkulaðið. Stráið að lokum kanilsykri yfir og bakið í 40-45 mín við 175°C. Gott með ís eða rjóma.
Ég á reyndar ekki haframjöl og hef ekki átt smjörlíki í mörg ár - og bara tvö epli. Heldur ekki ís eða rjóma. Svo kann ég ekki á bollamál - eru þetta ammrískir bollar eða breskir? Ég notast við grömm. Svo það verður bara skúringailmur í himnaríki á morgun. Og sjúklega flottur sjór, ef marka má veðurspána. Mögulega eldgos handan hafsins.
Elsku stráksi kom í heimsókn í dag en systir mín mætti með afmælisgjöf til hans þegar hún heimsótti mig í gær. Það þurfti að sækja hana. Eins og hann grunaði var eitthvað flott álfadót (stytta og smámunadót) og svo fínasta kex sem sló í gegn eins og álfadótið. Við ætlum að fresta út-að-borða-vegna-útskriftar til laugardags.
Vinafólk bauð mér á Diskóeyjuna á föstudaginn, sýningu krakkanna í gamla skólanum mínum, Brekkubæjarskóla. Dóttir þeirra dansar í sýningunni og sést meira að segja á myndinni. Þegar ég skoða dagbókina mína rafrænu sé ég að ég lifi ansi hreint spennandi lífi, einn punktur við ákveðinn mánaðardag táknar yfirleitt eitthvað skemmtilegt. Ég nenni miklu frekar að minna mig á viðburði í gemsanum en að leita kannski að gamaldags dagbók og skrifa í hana.
Á Facebook
Ég var ekkert að leita en rakst óvart á martraðarkenndar matarsögur frá útlöndum! Getur ekki verið tilviljun, litlu hlerunartækin í covid-sprautunni sem ég fékk (x3) vinna svo sannarlega vinnuna sína. Nema gervigreindin lesi bloggið mitt og beini mér blíðlega að "áhugamálum" mínum ...
Mitt innlegg inn í þessa umræðu er gamla sagan um að mamma sauð spagettí í hálftíma í gamla daga, jafnlengi og kartöflurnar. Tek það fram að mér fannst það ljómandi gott, það var ekki fyrr en ég smakkaði það nokkurn veginn mátulega soðið að ég vissi að það ætti ekki að vera eins og grautur. Í þá daga var allt gott með tómatsósu.
----
Móðir mín á aðeins matreiðslubækur um eldamennsku í örbylgjuofni. Hún kann tvær aðferðir til að elda grænmeti.
1. Settu frosið grænmeti í eldfast mót. Bættu vatni og smjörlíki við. Eldaðu í örbylgjuofni þar til það er mátulegt.
2. Settu grænmeti úr dós ásamt soðinu í skál. Bættu smjörlíki við og hitaðu.
Það var ekki fyrr en ég smakkaði ferskar grænar baunir með dassi af ólífuolíu, hvítlauk og salti að mér fannst grænmeti fyrst gott.
- - - - - -
Mamma harðneitaði að borða hummus þar til ég fór að kalla það baunaídýfu.
- - - - - -
Stjúpamma mín notaði endann á smjörstykki til að smyrja kalkúninn með áður en hann fór inn í ofn og setti svo restina af smjörinu á disk og á veisluborðið. Þetta var fyrir tuttugu árum og enn get ég ekki borðað matinn hennar.
- - - - - -
Það er alltaf erfitt að borða heima hjá tengdaforeldrum mínum. Tengdamamma er t.d. bara með eina kartöflu á mann, frekar litla. Á Þakkargjörðarhátínni leyfir hún sýrða rjómanum að vera á borðinu í kannski fimm mínútur áður en hún setur hann inn í ísskáp svo hann skemmist ekki. Hún tekur diskana frá okkur um leið og við erum búin, ekki séns að fá ábót.
- - - - -
Ég steikti mér eitt sinn egg heima hjá mömmu, hún fékk áfall þegar hún sá að ég notaði pönnu og eldavélina. Að hennar mati er eina rétta leiðin að elda egg í örbylgjuofni þar til þau eru orðin seig eins og gúmmí og með gráa himnu yfir rauðunni.
- - - - - -
Ég færði frænda mínum flösku af fínasta rauðvíni þegar ég mætti í matarboð til hans. Hann tók við henni, þakkaði fyrir og skellti henni inn í ísskáp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.9.): 9
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 139
- Frá upphafi: 1533318
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 125
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni