Færsluflokkur: Bloggar

Plat og prettir og þetta "eina" sem karlar vilja

Blekking 3Allrahanda plat og prettir hafa viðgengist í gegnum tíðina og ýmsir glæpónar nýta sér Internetið til að svíkja óteljandi marga. Ég lenti nýlega í óteljandi-hópnum, þegar sakleysisleg eldri kona, Aðalbjörg að nafni, reyndi að gefa mér háa fjárhæð þar sem hún var sjálf við dauðans dyr. Við vitum flest að böggull fylgir ætíð skammrifi þegar svona skilaboð berast. Til að fá milljónirnar frá Aðalbjörgu hefði ég þurft að reiða fram einhverjar upphæðir sjálf til að liðka fyrir en sæi aldrei krónu af „gjöfinni“.

 

Ég nennti ekki að tilkynna hana, blokkaði frekar, Facebook er nefnilega ansi hreint eftirlát við ýmsa svindlara og orðljóta rasista eða transfóbíska. En ... ef þú vogar þér að segja heil-lin við fb-vinkonu þegar þú óskar henni til hamingju með afmælið, eftir að hafa fengið viðvörun fyrir að gera grín að nýnasistum, grín sem ekki skildist, þá er þér umsvifalaust fleygt út. En að láta sér detta í hug að einhver falli fyrir þessari frægu blekkingu, þegar látlaust er varað við svona svikahröppum. Íslenskan hefur vissulega skánað til muna í þessum póstum og nú hef ég alveg hætt að fá bréf frá lögmanni í útlöndum sem segir mér að gamall frændi minn, John Haraldsdóttir, sé látinn og hafi arfleitt mig að auðæfum sínum. Ég sakna þess ekki þótt það hafi stundum verið fyndið. 

 

Strax í barnæsku er byrjað á blekkingunum:

-Ef þú verður ekki þæg, verður þú send í Villingaholt. (Vissi í æsku að það gæti ekki verið til staður með þessu nafni) 

-Ef þú verður ekki þæg, gefur jólasveinninn þér ekkert í skóinn. Kartöflur voru ekki mikið notaðar til óttastjórnunar á mínu heimili. (Þetta virkaði einna best)

-Ef þú borðar of mikið poppkorn festist það inni í þér og það þarf að skera úr þér botnlangann. (Borða örsjaldan poppkorn) 

-Ef þú skrökvar verður tungan á þér svört. (Trúði þessu ekki lengi)

-Ef þú bendir upp í himininn á flugvél, mun hún hrapa. (Finnst enn hálfóþægilegt að sjá fólk gera þetta)

-Ef þú drepur járnsmið (skordýrið) hrapar flugvél. (Myndi aldrei drepa járnsmið, punktur)

-Ef þú hættir ekki að naga neglurnar muntu aldrei giftast. (Ég nagaði neglur frá 8 ára til 58 ára, fyrsta gifting mín var þegar ég var 22 ára og þeim átti bara eftir að fjölga)

 

BlekkingHvítar lygar sem fá börn til að fara snemma að sofa hálfan mánuð á ári eru algjörlega réttlætanlegar ... en sumt er óskiljanlegt. Af hverju má ekki benda á flugvél? Af hverju var það kallað að skemmta skrattanum ef maður söng við matarborðið?

 

„Karlmenn vilja bara eitt,“ sagði mamma stundum við mig þegar ég var unglingur, án þess að hirða um að útskýra það nánar. Eitthvert hræðsluáróðurslygabull, hugsaði ég. Loksins, eftir mörg hjónabönd, komst ég að því hvað hún meinti. Þetta EITT sem karlar vilja í raun er að fá að fara í búðir og versla óáreittir án þess að vera dæmdir fyrir það. Þeim hefur sumum verið innrætt að þeir eigi að láta konum það eftir ... fáránlegt. Þannig helst einhvers konar ógnarjafnvægi í hjónaböndum, eiginlega í lífinu á jörðinni.

Tek mig og Halldór fjanda sem dæmi um hið gagnstæða ... þegar við fórum saman í flotta og stóra vöruhúsið í Washington-ríki um árið. Ég missti lífsviljann eftir fimm mínútur á meðan fjandi fataði sig upp ofsaglaður. 

-Ha, tóm karfa? sagði hann felmtri slegin þegar við hittumst loks á landamærum karla- og kvennadeildar.

-Jamm, ég fann ekkert, eigum við ekki að drífa okkur!

Á næstu tveimur mínútum hraðvaldi hann, alveg fumlaust, á mig úlpu og kápu en sá hafði allan tímann verið tilgangur búðarferðarinnar. Úlpan reyndist vera nr. 22 og kápan 20. Tók ekkert eftir því þegar hann neyddi mig til að máta, og hann ekki heldur, vanalega nota ég nr. 16. Sú uppgötvun var gerð eftir heimkomu til Íslands.

 

Blekking 2Ég seldi kápuna og gaf drapplitu úlpuna eftir um það bil ár. Notaði kápuna ekkert, en úlpan kom sér afskaplega vel og ekki bara sem vörn gegn kulda. Þetta ár hafði ég getað farið með kettina innanklæða í vinnuna nokkrum sinnum og heim aftur án þess að nokkur tæki eftir búrunum, faldi líka stöku fjölskyldu þar, sem hafði ekki efni á fargjaldinu með strætó. Þvottavélin kom eitt sinn með, fór í viðgerð í bænum, heim aftur, líka undir úlpunni og enginn sá neitt athugavert.

Þessi úlpa var dýrgripur. Þótt ég liti sannarlega ekki vel út í henni og missti allan séns (með fölva í vöngum vegna litarins, ég "dey" í drapplitu, og minnti ég óneitanlega á Eric Cartman úr South Park, jafnvel Hulk, ljósbrúnn Hulk) en karlvanhylli mín stóð vissulega bara í þetta eina ár.

Þegar við sonur minn fórum í tískubúðina Nínu þar sem ég keypti árlega handa honum skyrtu í sumargjöf, settist ég fljótlega í "karlahornið" (kommon) og fletti tímaritum á meðan hann virtist skemmta sér vel við að leita að flottri skyrtu.

Ég held að þessi kenning mín sé rétt, þetta er alla vega reynsla mín og að auki sé ég karlmenn mjög oft í búðum og yfirleitt alltaf glaðlega og káta, og ef það sannar ekki mál mitt veit ég ekki hvað ætti að gera það ...

 

Það er alltaf verið að reyna að plata okkur á einn eða annan hátt! Mitt hlutverk í bloggheimum ætti auðvitað að vera að fletta ofan af blekkingum. Að minnsta kosti þegar ég finn nógu góðar afsannanir, eins og núna!  


"Komment" í eigin persónu og óvænt kjötsúpuheppni

Mosi frægiHeimsfrægð Mosa hefur varla fram hjá bloggvinum mínum, eða þegar ég skellti ljósmynd af honum að prófarkalesa og með sjóinn minn í baksýn, inn á Fb-síðuna View from YOUR window. Myndin fékk ótrúlega mörg læk og yfir þúsund athugasemdir. Ein „athugasemdin“, eða bandaríska konan sem skrifaði hana, mætti svo í heimsókn til mín í dag ásamt vinkonu sinni. Þær voru á leið til Borgarness og gista þar í tvo daga. Báðar eru nú sjúkar í flatkökur með hangikjöti, sérstaklega Anne mín en Sue, vinkona hennar, virtist líka ansi hrifin. Anne ætlar að taka hangikjötsálegg með út til Maryland, og auðvitað flatkökur.

Ég bauð þeim upp á allt það íslenskasta sem ég fann; kleinur, flatkökur, hangikjötsálegg, grafinn lax, graflaxsósu, Myllu-fransbrauð til að rista, þrjár tegundir af osti, chili-sultu, malt og appelsín, bingókúlur og Hraun. Ég hefði bakað pönnukökur líka (eigin uppskrift) ef nýleg pönnsupannan mín væri ekki ómöguleg þar sem ég kann ekki að steikja hana til. Festist allt við alltaf, óþolandi.

 

Inga kom líka, að sjálfsögðu, og gerði allt enn skemmtilegra eins og vanalega. Ann og Sue fannst pínku fyndið að við værum vinkonur, alla vega vegna þess að önnur elskar til dæmis að ganga og sú gönguglaða fer í ferðalög til furðulegustu landa eins og Íraks (um páskana í fyrra), Víetnam, Madeira og annarra ógeðslega heitra pöddulanda. Ég ferðast vissulega líka, reyndar til ansi spennandi staða, eins og Seattle (Conway, Liverpool og bráðum Glasgow, sigldi um Karíbahafið 2018 (í svaðalegum hita reyndar). Finnland er sennilega einn mest ögrandi staður sem ég hef heimsótt ... út af reiðum geitungi sem- æ, skiptir ekki máli.

 

Anne, Sue og IngaInga viðraði okkur eftir gott spjall og mikinn hlátur, og við byrjuðum á að kíkja niður á vita. Eftir breytingarnar þar er ógeðslega langt að ganga þangað frá bílastæðinu (enn lengra í roki og rigningu) og þær nenntu ekki að vitanum (skiljanlega þótt ég segði þeim að Hilmar vitavörður væri æði). Næst kíktum við á brjálað brimið að norðanverðu, hjá skipasmíðastöðinni gömlu, svo í galleríið hans Bjarna Þórs þar sem Ásta hans tók vel á móti gestum, eins og vanalega á laugardögum. Okkar konum þótti frábært að fá að skoða sig þar um. Ekki var gleðin minni að fá að sjá antíkskúrinn þar sem Anne keypti bæði dúk (800 kr.) og litla mjög sæta diska (1.200). Ég keypti tvö föt (ekki fatnað) undir kartöflur og uppstúf um jólin, í stíl við matarstellið mitt fína sem ég fékk þar. Að síðustu skoðuðum við byggðasafnið okkar og vorum það seint á ferðinni að ljúfi maðurinn í afgreiðslunni sagðist ekki hafa brjóst í sér til að rukka okkur, tæpur hálftími í lokun. Við þutum frekar hratt í gegn, hlustuðum ekki á fræðslu og upplýsingar í tækinu sem hver og ein fékk, það bíður þar til næst þegar við mætum tímanlega. Það var samt ótrúlega gaman að hraðskoða allt. Þetta er mjög flott safn og góð sýning. Anne talaði um hvað henni fyndist gaman að fara á íslensk söfn (þetta er ekki fyrsta ferð hennar hingað) því þar væru svo góðar upplýsingar og skýringar á öllu, vandað mjög til verka, sagði hún, mér til mikils monts. Þær voru einstaklega ánægðar að hafa fengið leiðsögn um Akranes, þeim leið eins og við hefðum farið með þær á spennandi leynistaði. 

Mynd: Frá vinstri: Anne, Sue og Inga.  

 

Flott tertaÞær hafa orðið varar við andúð á erlendu ferðafólki í Reykjavík, að túristar fylli allar íbúðir svo Íslendingar hafi ekki húsaskjól en ég leiðrétti það snarlega:

Ferðamenn (1,5 milljón á ári) eru algjörlega saklausir, líka erlent fólk sem komið er til að vinna hér (17.000 í fyrra), einnig er Reykjavíkurborg saklaus þótt byggt sé of lítið, eins Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður ... sökudólgarnir eru hælisleitendur (3.000) ...

 

Vinkona mín frá Litháen sagði mér nýlega frá góðum sið í heimalandi hennar. Skólarnir hófust í gær og hver einasti nemandi mætti með blóm (vönd eða eina rós eða sólblóm) og færði kennara sínum. Í október verður svo Dagur kennara og þá verður þetta endurtekið. Mjög til fyrirmyndar, kennarar eiga þetta skilið og miklu meira en það.

 

Ótrúlegt hvernig heppnin getur elt mann ... tengdasonur vinkonu minnar eldar stundum kjötsúpu ofan í fjölskylduna en getur ómögulega haldið stillingu svo súpan dugir ofan í tuttugu manns. Konan hans er ekki hrifin af kjötsúpu og krakkarnir nenna ekki að borða hana marga daga í röð - svo vinkona mín bjargaði súpurestinni í gær, kom áðan með vænan skammt handa mér svo ég þarf ekki að borða afganga af flatkökum með hangikjöti eða ristað brauð með graflaxi og graflaxsósu í kvöldmatinn. Eldi hann sem oftast og bjargi tengdamóðir hans restum sem oftast. Er mér of sjaldan boðið í mat? Játs. Er ég sjálf dugleg við að bjóða fólki í mat? Well, sko, uuu, neee, eiginlega ekki.

 

Mynd 3: Flott terta.   


Óvæntur matargestur og byrjað að hvessa ...

Elsku JónatanÓvæntur gestur mætti á svalahandriðið um kvöldmatarleytið í gær, klár gaur sem veit greinilega hvar uppruna súpueldhúss Himnaríkis er að finna. Hann fékk heila tertusneið að launum fyrir dirfskuna. Yfirleitt eru það bara smáfuglarnir sem þora að setjast á handriðið, síðan Jónatan I. var og hét, sá sem fékk mig til að sjá máva í nýju og betra ljósi, réttu ljósi. Sem skemmtilega og gáfaða ... sem geta ekkert að því gert þótt þeir séu stórir og sterkir fuglar sem garga í stað þess að syngja fagurlega. Lögfræðingur MAST sagði á Facebook-veggnum mínum í gær að mávar væru eiginlega lagðir í einelti, og ég trúi gamla strætóvini mínum.

Ein fb-vinkona mín varð eitt sinn vitni að því þegar gömul kona sem var að gefa fuglum veifaði viskustykki til að koma í veg fyrir að rangir fuglar fengju mat. Bara þeir fallegu máttu verða saddir. Ég vona innilega að hún hafi ekki átt ófrítt barnabarn sem fékk ekki pönnukökur hjá henni eins og hin barnabörnin. Ég hef sagt frá því áður þegar Jónatan fyrsti flaug á svalaglugga Himnaríkis og hálfrotaðist. Sonur minn fór út á svalir með vatn og brauð sem fuglinn vildi ekki, fylgdist svo með honum jafna sig. Vinir hans og ættingjar hvöttu hann óspart til dáða þar sem þeir flugu fyrir ofan hann og eftir um tvo tíma treysti hann sér til að yfirgefa svalirnar. Eftir það mætti hann alltaf á handriðið ef hann langaði í brauðsneið. Við hættum fljótlega að gefa honum svona nálægt húsinu ... og með árunum fjölgaði afkomendum hans sem biðu vongóðir á staurunum við sjóinn. Einar fór alltaf í kringum afmælisdag Madonnu (16/8) með leifar af kræsingum afmælisins og fann góðan stað við Langasand. Ég á mynd af honum með fjölmarga máva sem fylgdu honum eins og litlir hvolpar. Þeir þekktu sinn mann - og líka krummarnir.   

 

Hetjur á sjóþotumÞað er byrjað að hvessa nokkuð og hetjur sjóþotanna hafa svifið um sæinn um og eftir hádegi en strax um tvöleytið var orðið of hvasst. Þeir pökkuðu saman, nenntu eflaust ekki að fjúka á bryggjuna, skil það vel. Hviður komnar vel yfir 20 m/sek.

Ég þarf sennilega að leggja mig í dag til að missa ekki af stuðinu í kvöld (eða athuga hvort komist nokkuð vatn inn um eina óþétta glugga Himnaríkis - sem snýr akkúrat á móti veðrum, vindum og regni í kvöld. Í austur.

Það rétt náði að koma september en sumum finnst ansi bjánalegt að tala um haustlægð þegar enn er ágúst.

 

Mynd: Því miður verður bláfáninn tekinn niður innan tíðar, þótt Langisandur sé ómenguð bláströnd allt árið, og þá verður ekki nokkur leið að vita vindáttina nema reka fingur út um glugga ... eða kíkja í símann sinn ... eða á vedur.is. Dæs.  

 

Mömmu- og pabbabrandarar á Facebook

„Það eru ótrúleg afföll af bílum. Fæst alltaf miklu minna fyrir bílinn heldur en maður vonaði. En að fjárfesta í steypu er talið vera mun betra. Ég hef því ákveðið að næsti bíll sem ég kaupi verði steypubíll.“

 

„Þetta er stóra trampólínhelgin. Hver dettur í lukkupottinn og fær frítt trampólín?“

 

„Veit einhver hvar maður skráir sig í Skaftárhlaupið?“


Helgarsukk í komandi stormi og ögrandi vinnuaðstaða

Hata gönguferðirDagurinn fyrir storm. Hlakka ég virkilega svona til? Ég veit það eiginlega ekki, rigningin skemmir þetta svolítið, eða útsýnið. Austan- og suðaustanhvassviðri eru algengari en önnur og ég þarf eiginlega helst að skipta um hurð að litlu svölunum sem snúa í austur og þétta betur eldhúsgluggann sem snýr í sömu átt. Alltaf hreinustu gluggarnir. 

Stráksi þurfti að erindast smávegis í bankanum um þrjúleytið og bað mig að koma með, held að hann hafi séð á mér að ég þurfti á viðrun að halda. Þótt ég hati gönguferðir veit ég að þær eru nauðsyn annað slagið. Ég gekk löturhægt, reyndar að drepast í maganum, en hádegisverður samanstóð af flatköku með osti og skyri. Mögulega einhvers konar óþol fyrir mjólkurvörum sem ég tek samt ekki í mál því ég get ekki drukkið kaffi mjólkurlaust. Með því að setjast niður smástund í bankanum minnkaði pínan. Kannski var þetta bara svekkelsi sem braust svona út vegna komandi "kval"veiða.  

 

Bók eða bíóAð sjálfsögðu kíktum við í bókabúðina bestu í leiðinni og keyptum þar afmælisgjöf handa ungri vinkonu, en stráksa er boðið í afmælisveisluna hennar um helgina. Svo óstjórnlega heppilega vildi svo til að elskan hún Peta var á ferðinni þarna í einni miðju alheimsins (Krónuplanið) og heimtaði hreinlega að fá að skutla okkur stráksa heim. Þar fór svo sem viðrunin fyrir lítið, en 50% er betra en ekkert (sjúklega vel sloppið fyrir gönguhatara).

Stráksi fer í helgargistingu fram á mánudag sem táknar auðvitað ekkert nema sukk og svall í himnaríki. Ég á enn eftir aðra pínulitlu freyðivínsflöskuna sem ég fékk í afmælisgjöf og ef ég man eftir því verður henni kálað en mig grunar að það verði bara kaffi. Svona getur nú vaninn komið í veg fyrir slark og svínarí. Það var fullt af girnilegum bókum í bókabúðinni en þar sem stórt verkefni er fram undan til að lesa yfir og sem helgin fer í þorði ég ekki að horfa (slefa) mikið. Mig langar rosalega í Holly, nýjustu bókina eftir Stephen King (fæst bara í Rvík, sjúkk) þar sem Holly var ein persónan í þríleiknum um Mr. Mercedes. Ég þarf að rifja upp kynnin við þær bækur en margir eru eflaust búnir að sjá þættina, minnir að þeir hafi verið ágætir. Voru þeir ekki á Stöð 2, og núna Viaplay? Þótt ég sé almennt hrifnari af bókunum en myndunum eftir þeim er það ekkert algilt. Það var gaman að bæði horfa á myndina og lesa bókina The Shining eftir King, en það þarf svo sem alltaf að minna sig á að hvort um sig er sjálfstætt verk sem ætti helst ekki að bera saman. Ég sá myndina á undan. Það var æðislegt að horfa á Harry Potter-myndirnar, Karlar sem hata konur-þríleikinn og Hringadróttinssögu ... OG lesa bækurnar en ég vona að í vetur detti ég ofan í stemninguna við að horfa á góðar mynd annað slagið, ég er hætt að nenna að horfa á fréttir, hvað þá þætti eða myndir, þótt ég sé með flest sem í boði er, nema kannski Viaplay, (Netflix, Sjónvarp Símans premium, Stöð 2 og S2-plús, Disney plús og Amazon). Þegar ég get farið að horfa aftur á ég heilu þáttaraðirnar og myndirnar óséðar og það er ekki fúlt.

Eldhús til vinstriStráksi er frekar duglegur að horfa en kvartaði nýverið yfir því að við værum allt of löt við að horfa saman á myndir. En alltaf þegar við förum til Hildu og gistum eigum við kósíkvöld og horfum á mynd. Hún á klakavél og ég er nánast háð því að drekka heilu stóru glösin af vatni með klaka ... bestu nammikvöldin. Kannski er vatnið í Kópavogi svona gott. Ég vildi stundum að eldhúsið mitt væri stærra, þá ætti ég klakavél. Mér leiðast bekkir fullir af dóti á borð við: brauðrist, hrærivél, örbylgjuofni, kaffivél, hraðsuðukatli, matvinnsluvél ... er sjálf bara með kaffivél og örbylgjuofn uppi við - af tækjum sko.

Mér finnst vinnusvæðið vinstra megin við vaskinn best (sjá mynd) og það virðist vera ákveðin áskorun, hreinlega ögrandi að skera grænmeti og slíkt á nokkrum sentimetrum þar sem örbylgjuofninn tekur eiginlega allt plássið - en það er ekkert mál. Svæðið hægra megin er talsvert stærra, og það sem er vinstra megin við helluborðið fyrir aftan (sést ekki) er miklu stærra. Svona er nú vaninn sterkur. Og maturinn sjúklega góður þrátt fyrir að valin sé langminnsta vinnuaðstaðan á heimilinu.        

Myndin: Skrapp fram og tók mynd núna. Tók ekki til eða sjænaði, sorrí. Þarna sést örlitla vinnusvæðið mitt. Klukkan á örbylgjuofninum er ekki rétt, ég þarf bara að halda mér vakandi til kl. eitt einhverja nóttina (sem er lítið mál fyrir B-manneskju sem er hvort eð er sjaldnast sofnuð þá), taka hann úr sambandi og setja aftur í samband. Klukkan á ofninum hefst þá handa kl. 01.01 við að telja tímann og helst rétt þangað til næst. Færði nefnilega og faldi ofninn (og kaffivélina) frammi í fatahengi á afmælinu mínu og síðan eru engar klukkur réttar nema í gemsum og einu armbandsúri. Að við skulum fúnkera ... 


Otandi samfélagsmiðlar

Facebook vill að þú sjáirMiðlarnir ota að okkur alls konar efni, oft kostuðum auglýsingum en líka annars konar og skemmtilegra efni. Facebook minnir mig stundum á Bold and the Beautiful þegar kemur að því að vera með eitthvað ákveðið málefni, þema. Í gamla daga, þegar ég treysti mér til að horfa á þættina (aðallega til að geta boldað um þá) man ég eftir því að t.d. málefni heimilislausra voru til umræðu, alla vega í heila viku, og Stefanía heitin lét sig þetta varða, hvort hún vann ekki í súpueldhúsi í hátt í 2 mínútur í einum þættinum ... Alnæmi var tekið fyrir, minnir mig, einnig fordómar í garð þeldökkra sem varð til þess að einn gaurinn (Rick?) var látinn giftast þeldökkri konu til að sýna hvað þau í þáttunum væru innilega fordómalaus ...

... já, en sem sagt, Facebook er með þemu og kannski í nokkra daga, upp í viku, birtast myndbönd af einhverju tilteknu. Núna eru það ótrúlega sætir hvolpar sem koma á ný heimili þar sem fyrir býr hundur og mjög krúttlegt að sjá þá fara að leika sér eftir fimm mínútur. Þetta er svolítið eins og Stubbarnir fyrir fullorðna, og eykur vonandi kærleikann í garð dýra. Eitt sinn lenti ég í hálfgerðu orðaskaki við mann sem sagði kattaeigendur vera mestu óvini fugla, nánast gerðu út gæludýr sín til að myrða unga. Ég nenni yfirleitt ekki að munnskrifhöggvast, en gerði það þarna. Kvaðst vera hinn mesti fuglavinur. Nefndi vini mína mávana því til sönnunar, en þá voru þeir ekki réttir fuglar til að eiga að vinum, heldur bannsett óféti ... sem ég er alls ekki sammála. Stórir, flottir og klárir fuglar, það þarf enginn (sem býr við sjóinn) að setja mikið í lífrænu tunnuna ... Svanir gæða sér líka á andarungum og enginn vill losna við þá, líklega út af ævintýrinu um Dimmalimm, samt eru sumir svanir mannýgir. Jú, mér finnst þeir mjög fallegir. Munið þið ekki þegar bæði dúfur og hrafnar voru flokkuð í ömurlega flokkinn? Dúfum var miskunnarlaust útrýmt í Reykjavík, með eitri á húsþökum, en hrafninn (uppáhalds hér) var sem betur fer friðaður.

 

Í gær var svo ekki þverfótað fyrir vissri aðferð til listsköpunar (sjá efri mynd t.h.) sem fólk sýndi í myndböndum. Þá hellti viðkomandi málningu yfir striga, í rétt rúmlega dropatali, ýmsum litum sem hver var settur yfir annan, og svo var striganum snúið á alla enda og kanta þar til málningin var í alls kyns mynstrum og náði yfir allan strigann. Þetta sýnir bæði og sannar að það er engin nauðsyn á því að vera með rándýran listaháskóla!

Svo var auglýsing í gær um galdurinn við að klæða sig sexí (sjá efri mynd t.v.) til að næla sér í réttan mann ... Ég hef aldrei kunnað að veiða menn með lengdum augnhárum og veðurbörðum barmi, finnst ég líka hreinlega of ung til að binda mig enn einu sinni, en hver veit hvað veturinn ber í skauti sínu. Aldrei að segja aldrei.

 

Uppgrip

Í morgun var Mogginn áberandi á fésbókinni, eða viðtal á forsíðu við mann sem talar um að aukin vanskil landsmanna auki á gróða hans. Svona játningu sér maður ekki á hverjum degi, eða að opinbera ánægju yfir því að græða á erfiðleikum annarra. (Ég tók skjáskot af þessu hjá Fb-vini). En tímarnir hafa vissulega breyst. Reglulega birtist á fésbókinni minni kostuð auglýsing frá söfnuði sem ég hef löngum dáðst að fyrir að gera góðverk án þess að stæra sig af því. Nú les ég, ekki jafnánægð, minnst vikulega: Fylgstu með náungakærleikanum á samfélagsmiðlum XXX (xxx er nafn safnaðarins). Eitt sinn (undir aldamót) fékk ég meðlim þessa safnaðar í útvarpsviðtal til mín og m.a. hrósaði honum og þeim fyrir þeirra góða starf. Það var á viðorði flestra hversu mikið þau gerðu fyrir illa stadda, verkin auglýstu þau, ekki auglýsingar um góðmennsku þeirra. 

Það var svo sem innprentað í mig í æsku að maður hreykti sér ekki af góðverkum sínum - eða montaði sig almennt af sjálfum sér. Það þýddi auðvitað að frekar erfitt var fyrir mína kynslóð að sækja um vinnu og eiga að telja upp hæfileika okkar og getu eftir að búið var að segja svo oft við okkur, hvað heldurðu eiginlega að þú sért? Það er vissulega til millivegur og mjög fínt að krakkar í dag séu meðvitaðir um hæfileika sína og ánægðir með sig ... upp að vissu hámarki þó.

Jæja, nú ætla ég að hætta, setja handklæðin í þurrkarann, taka á móti sendingu úr Einarsbúð (áttavitar, álpokar, nesti, rafhlöður, allt til í Einarsbúð fyrir storminn) og gefa svo fátækum og svöngum fuglum eitthvað að borða, þið getið fylgst með fuglakærleika mínum á snappinu og fésbók ...   


Móðganir sem listgrein

AkrafjallYfirleitt gleymi ég hratt og vel móðgunum í minn garð, þakka það sumum frænda (fjanda) sem er með doktorsgráðu í að herða viðkvæmar sálir. Vissulega sagði stráksi við mig fyrir nokkrum árum: Var Akrafjallið til þegar þú varst lítil? Honum finnst enn alveg furðulegt að það hafi verið til flott tónlist þegar ég var unglingur. Árið 2008 bloggaði ég um hinar fullkomnu móðganir og þar sem komin eru nánast 100 ár síðan finnst mér allt í lagi að rifja þær upp núna. Misjafnar að gæðum, sumar jafnvel nánast óviðeigandi ... á mörkunum kannski.

 

Elsku frábæri Hjörtur minn Howser sem lést langt fyrir aldur fram, fyrr á þessu ári, sagði mér oft skemmtilegar sögur úr tónlistarbransanum, fyrstu tvær sögurnar eru frá honum og þessar erlendu úr bók um móðganir sem ég fékk einu sinni í afmælisgjöf.

 

Brezhnev og Brooke- Nú ert þú alltaf svo flottur í tauinu, alltaf með svo góðar græjur og kannt alla nýjustu frasana. En ert samt alltaf svo glataður. Björgvin Halldórsson við gítarleikara í fremstu röð.

 

- Carl Billich píanóleikari þótti með eindæmum kurteis maður. Eitt sinn var hann að spila á balli í Þjóðleikhúskjallaranum og drukkinn maður var þar sem frammíköll og læti. Loks missti Carl þolinmæðina, stóð upp frá píanóinu, gekk að manninum og sagði ákveðinn: Mig langar að biðja yður vinsamlegast um að halda munni og snæða óhreinindi.

 

- Og hvað með það? spurði Elvis Presley þegar honum var sagt að Bítlarnir væru komnir í heimsókn til hans á Graceland.

 

- Hvernig í ósköpunum gæti ég átt í kynferðislegu sambandi við fimmtugan steingerving? Ég á guðdómlegan kærasta sem er 28 ára gamall. Hvers vegna ætti ég að skipta honum út fyrir risaeðlu? Carla Bruni um Mick Jagger.

 

- Tónleikar hans standa yfir í fjóra og hálfan tíma. Það eru pyntingar. Hatar hann áheyrendur sína? John Lydon um Bruce Springsteen.

 

- Hvernig er mögulegt að hafa það að atvinnu sinni í 30 ár að spila á munnhörpu og sýna ekki minnstu merki um framfarir? David Sinclair, The Times, um Bob Dylan.

 

- Ef myndin mín gerir að minnsta kosti eina manneskju óhamingjusama hefur mér tekist ætlunarverk mitt. Woody Allen.

 

- Tilhugsunin um Karl prins að spjalla við grænmetið sem hann ræktar er ekki svo óhugsandi þegar maður man eftir því að hann hefur mmikla æfingu í að spjalla við ættingja sína. Jaci Stephens, The Sunday Times.

 

- Hún var svo loðin að þegar hún lyfti upp höndunum hélt ég að Tina Turner væri í armkrikunum á henni. Joan Rivers um Madonnu.

 

- Rússar elska Brooke Shields vegna þess að augabrúnirnar á henni minna þá á Leonid Brezhnev. Robin Williams. (SJÁ MYND)

 

- Ég vildi að ég hefði þekkt þig á meðan þú varst á lífi. Leonard Louis Levinson við leiðinlegan mann.

 

- Ég ætla að leggja nafn þitt á minnið og síðan fleygja höfðinu á mér. Oscar Levant.

 

- Ein hrukka í viðbót og allir halda að þú sért sveskja. Ókunnur höfundur.

 

- Þú ert svo lítill að þegar fer að rigna ertu þá sá síðasti sem fattar það. Ókunnur höfundur.

 

- Ég hef heyrt skemmtilegri samræður í stafasúpu. Ókunnur höfundur.

 

- Ólýsanlegur, hæfileikalaus og óheflaður ungur skemmtikraftur. Bing Crosby um Elvis Presley.

 

- Drengurinn inniheldur meira plast en plastpoki. Melody Maker um Michael Jackson.


Að missa stjórn í kannski áttunda ríkasta ...

Sýrlenskur maturRétt áður en ég fór í bæinn á föstudaginn gerði ég himnaríki fínt, setti í uppþvottavélina og fleira, svona eins og maður gerir til að koma heim í fínt hús. Þótt ég hefði náð að fylla vélina fannst mér óábyrgt að setja hana í gang og ég að yfirgefa heimilið yfir nótt, en fannst fúlt að hafa ekki komið öllu í vélina. Eiginlega óskiljanlegt, ég er ekki vön að safna miklu í vaskinn ... en svo áttaði ég mig á því að í fyrsta sinn á ævinni hafði ég ekki tekið hreina leirtauið út fyrst ... Vélin fór í gang við heimkomu í gær og ég gekk frá öllu í dag í skápa og skúffur. Flest var alveg sérlega hreint ...

 

MYND: Dásamlega sýrlenska fjölskyldan í næsta húsi eldaði aðeins of mikið í hádeginu í dag ... og hvað gerir fólk þá? Jú, það færir Gurrí sinni og stráksa fullan disk af mat. Ég fæ vissulega megnið því að stráksi er eigi svo hrifinn af sterku en eiginmaðurinn sem eldar iðulega elskar chili, kannski aðeins of mikið, segir konan hans. Þetta smakkaðist frábærlega og restin verður etin í kvöld. 

 

Ríkustu þjóðir heimsJæja, varúð, nú ætla ég aðeins að missa stjórn á mér ... Hvernig stendur á því að ung frænka mín greiddi núna síðast 351.000 í afborgun af húsnæðisláni sínu, þar af 31.000 kr. inn á lánið og 320.000, í vexti? Uuu, af einbýlishúsi í Garðabæ? Nei, bara íbúð í Kópavogi, sem er ekki einu sinni stór. Hver stjórnar landinu, og heldur vörð um velferð okkar borgaranna? Hvar er fólkið sem við kusum til þess? Ef fjármálaráðherra ber ekki ábyrgð á neinu, bara seðlabankinn, má þá ekki leggja starf hans niður? spyr frænka mín.

Mitt gamla og verðtryggða lán hefur ekki hækkað um nema 40 þúsund á mánuði, sjúkk. Frænka mín og maðurinn hennar völdu skynsamlegustu leiðina í lánamálum á þeim tíma. Held samt að skipti varla máli hvaða leiðir eru farnar, það er alltaf hægt að klína ábyrgðinni á almenning.

Hvað á það að þýða að bankar séu alltaf með belti og axlabönd til að tryggja sig ef eitthvað gerist? Það er sennilega kominn tími á aðra búsáhaldabyltingu. Fólki er meira en nóg boðið! Ekkert skrítið þótt sumir brottfluttir landsmenn kalli Ísland þrælaeyjuna. Myndin gefur fyllilega í skyn að við gætum gert svo miklu betur. Gert meira fyrir alla ... jafnt útigangsfólk sem húseigendur sem hælisleitendur sem öryrkja sem sjúklinga, svo dæmi séu tekin.

Jæja, þá hef ég náð sæmilegri sjálfstjórn aftur og mun halda áfram að vinna og nota tækifærið á meðan stráksi fór í sund. Bíddu, frú Gurrí, vinnur þú á sunnudegi? Játs, fyrst ég ætla til Glasgow í október þýðir ekkert hangs á borð við fullt helgarfrí. Svona er nú líf okkar venjulega fólksins, meira að segja með eitt axlarband (verðtryggt lán).

 

P.s. Ég sé ekki betur en ástsjúkir aðdáendur mínir (m.a. einn Elon Musk-inn) á Instagram læki ekki síður grettumyndina af Hildu systur, en þá með jólasveininum, þeir halda í alvöru að þetta sé ég, nema þeir séu að ýta mildilega á mig að fara í lýtaaðgerð svo ég líkist henni meira?  


Krassandi kaupgleði í kaupstaðarferð

Stefnir í þettaÉg (RF) var varla búin að sleppa síðasta orðinu í gær í blogginu, þegar ég var stigin upp í strætó og komin í bæinn, hviss, bang. Einn uppáhaldsfrændinn (34) sótti okkur stráksa (19) í Mjódd og hvert lá leiðin? Jú, auðvitað í Hamraborg, nafla alheims míns eftir að dásamlegur dýralæknir (28+) opnaði stofu þar. Ég skilaði kærri kveðju til hans frá Kela (13) sem er farinn að borða eins og almennilegur köttur aftur og leika sér - svo stuttu eftir að hann virtist vera lagstur banaleguna. Gigtarverkir, hélt dýralæknirinn, og gaf mér verkjalyf fyrir hann sem virka svona líka vel. Fjórir dropar núna þriðja til fjórða hvern dag. Sumir kettir sem finna til hætta að borða - það gerði Keli. Gaman að sjá hvað hann er orðinn sprækur aftur.

 

MYND: Svona er þetta að verða, allt í nafni „bættrar þjónustu“. Eins og Fúsi frændi í Englandi segir: „Nú er þessi tilætlunarsemi komin víða. Krafan um að kaupandi þjónustunnar vinni vinnu seljandans. Því þetta er bara það!“

 

Við vöknuðum fyrir allar aldir í morgun, ég var búin í sturtu og komin á fyrsta kaffibolla dagsins um tíuleytið sem er magnþrungið afrek hjá B-manneskju. Upp úr hádegi var ekið suður í Hafnarfjörð (115) og þar festi ég kaup á fínasta rúmi sem verður sérsmíðað fyrir mig af RB-rúmum (80). Hátt, stíft og sturlað flott. Gömul séffertík (13), ættuð af Akranesi (81) lá þarna bak við búðarborðið og dormaði og vera hennar gerði búðarferðina einhvern veginn helmingi betri. Ég tímdi ekki að fara út fyrr en ég var búin að velja mér rúm, kaupa kodda, tvö lök, yfirdýnu ... Vika í að rúmið komi og þá vonandi rétt rúmlega vika í að ég fari að svífa um Akranes, laus við bakverkina. Góð dýna er gulli betri, held ég.

 

Auðvitað skruppum við í Kost í leiðinni og ég birgði mig upp af þvottaefni og þurrkaraklútum. Sjálfsafgreiðslan þar gekk þokkalega með aðstoð Hildu, ég horfði mjög hjálpsömum augum á hana sjá um þetta. Það voru bara fjórir pakkar eftir af klútunum og ég kláraði þá, afsakið innilega, þið sem síðar mættuð. Eftir ferð í gegnum Smáralind (22) þar sem Hilda (RF) þekkti alla (hún býr í Kópavogi (68)), ég þekkti bara Gurrí með ý-i (RF)) sem bjó í Miðausturlöndum í áratugi en er flutt heim. Stúlkan sem afgreiddi okkur hjá Te og kaffi (39) talaði ansi hreint góða íslensku, ég hélt fyrst að hún væri íslensk, eða þangað til hún bað mig um að endurtaka eitthvað ... hún er frá Sýrlandi, svo ég gat notað arabískukunnáttu mína: „Sjúkran, habibti“ (takk, elskan) henni til mikillar skemmtunar. Nú þarf ég bara að fara að læra fleiri orð. Stúlkan sem þurrkaði af borðum og tók okkar í leiðinni af því að Hilda (RF) hellti niður kaffi ... er frá Grikklandi og íslenskan hennar ansi hreint góð líka. Kann því miður ekki orð í grísku. Ég veit um svo marga útlendinga sem vilja frekar að maður tali íslensku við þá í stað ensku, svo ég geri það alltaf fyrst. Vinur minn frá Líbíu kunni enga ensku þegar hann flutti hingað til lands, en vann á svo enskumælandi stöðum (veitingahúsum) að enskan varð honum miklu tamari en íslenskan lengi vel.

 

Systir mín, SinfjötlaSystir mín (sjá ljósmynd) skutlaði okkur stráksa heim á Skagann seinnipartinn, bíllinn fullur af dóti sem hefði aldrei komist í strætó; kattamat, þvottaefni og þurrkaraklútum, ásamt tveimur sokkapörum úr Hagkaup (64, eins og Barbie) og sængurgjöf (galla og smekk) til granna minna í næstu blokk. Örfáir dagar í barnið.

Auðvitað keypti ég líka gjöf handa stóra bróður (3), eða pínulítið (en hávært, held ég) rafmagnspíanó og áttaði mig ekki fyrr en á leiðinni heim að sennilega myndu foreldrar hans og hinn ófæddi litli bróðir, kála mér fyrir þetta ... svona gjöf er pottþétt verri en trommusett. Ég þarf eiginlega að lauma gjöfinni til hans og flytja svo í hvelli frá Akranesi - ef mig langar að verða eldri en rúmlega fimmtug. Samt líkar mér mjög vel við þetta fólk. Stóribróðir á eftir að verða ofsaglaður og það er fyrir öllu.

 

Við borðuðum á Galito í kvöld, gátum fengið borð um sexleytið en ögn seinna var ekkert laust. Ég tók fínustu mynd af henni systur minni (sjá ögn ofar) þar sem ég bað hana að gera sig sæta. Hún, með sinn eilífa mótþróa við stórusystur, gerði hið gagnstæða og ég fékk ljósmyndina sem ég vildi allan tímann. Hún fer beinustu leið á Instagram (13) hjá mér, og verður við hliðina á annarri mynd af henni (í fangi jólasveinsins (1.752)). Allir útlendingarnir mínir þar (flestir hjartaskurðlæknar og hershöfðingjar) sem vilja meira en vináttu en fá ekki, hafa reynt að mýkja stálhjarta mitt með því að læka MYNDINA AF HENNI í fangi jólasveins. Nú fá þeir loksins að sjá hvernig hún lítur út þegar hún gerir sig sæta. Það ætti að kenna þessum apaköttum sem halda að Instagram sé Tinder, að læka ekki myndir ... af öðrum konum!

 

P.s. Veit að sumir sakna Séðs og heyrts og vona að aldur nokkurra einstaklinga og staða og fyrirbæra í sviga fyrir aftan, sefi sárasta söknuðinn. Veit einhver hvað Hamraborg er gömul, eða Mjódd?

RF stendur auðvitað fyrir RÚMLEGA FIMMTUG.   


Helgarplön í uppnámi ...

Kaffihús í HamraborgRigning á morgun setti helgarplönin í uppnám, vér systur og fylgifiskar (fólk og hundar) ætluðum að skella okkur á Snæfellsnes á morgun og gera okkur stórglaðan dag. Þess í stað býst ég við að skreppa sjálf í bæinn og jafnvel leita mér að nýju rúmi. Bakverkirnir eru ekkert grín. Þegar ég keypti þessa dýnu og rúm fyrir fimm árum eða svo, fékk ég loforð um að dýnan myndi haldast stíf ... og hún var svo ótrúlega góð fyrstu þrjú árin. Svo er hún bara ekki eins góð, svo mögulega verður kíkt í aðra búð, eftir að ég reyndi árangurslaust að leita réttar míns í búðinni þar sem ég keypti rúmið. Það rúm var það besta sem ég hafði sofið í ... en endingartíminn styttri en hann ætti að vera miðað við verðið. 

Í leiðinni ætlar stráksi að fá sér KFC, ég ætla að kaupa (hjá dýralækninum í Kópavogi) sjúkrafæðið fyrir Kela, hinn þvagsteinaviðkvæma, sem hinir tveir njóta góðs af, enda sérlega fagrir á feldinn. Kannski förum við aftur í Kost, þetta þvottaefni sem ég keypti síðast er algjörlega brilljant og líka þurrkaraklútarnir. Svona utanbæjartúttur þurfa að birgja sig upp. Og mögulega á kaffihús ... þess vegna þessi mynd hér að ofan. 

 

Vinkona mín var ekki ýkja hrifin þegar ég sagði henni frá draumi mínum að komast í hálfgerðan miðbæjarsoll og flytja í Hamraborgina í framtíðinni þar sem auðvelt er að komast í strætó, dýralækni, blómabúð og kaffihús (hvað þarf maður meira?). Hún sagði ekki sérlega gaman að búa þar sem eilífar sprengjur og loftpressur og hamarshögg dyndu á, enda verður mikið byggt þarna fyrir aftan á næstu árum. Þetta er auðvitað háð því hvort ég tími að fara úr Himnaríki og sé orðin ónæm fyrir hristingi eftir skjálftana á Reykjanesskaga. Sumir finna stigum allt til foráttu, ekki Inga vinkona (sjúkraþjálfari, samt ágæt) sem segir þá allra meina bót, flottur rass og lipur skrokkur ... Jamm, þetta þarf að hugsa vel.   


Kaja kvödd og hætturnar utandyra

Hjá elsku Kaju okkarHádeginu var vel varið hjá Kaju sem er verslun og kaffihús og ... hætti rekstri í dag sem er sorglegt. Framleiðir áfram hollustu og dásemdir sem verða til sölu í góðum búðum. Ég væri mun hollari og mögulega orðin vegan ef væri ekki svona mikið af þess konar mat með hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum. Þetta síðasta, d og r, er mögulega matvendni en hitt tengist ofnæmi. Lífið er of stutt til að borða vondan mat svo ... jamm. Get reyndar borðað marsipan (úr möndlum) en alls ekki neitt með möndlumjöli, því miður, svo t.d. sykurlausu eftirréttirnir frá Kristu Ketó eru ekki borðanlegir af mér, botninn á ostakökunum. Þannig að ég held bara áfram að vera frekar holl með Eldum rétt.

Fór með Helgu Olivers sem ég kynntist hjá Rauða krossinum í matarklúbbnum góða, og hún þekkti bókstaflega alla á staðnum. Hún vildi sitja við borð úti. Ég er ótrúlega sveigjanleg og þrátt fyrir hroðalegan hita og fleira ógnvekjandi samþykkti ég það, vantar ekki alltaf D-vítamín í okkur landsmenn? Á 32. sekúndu byrjaði ég að svitna, enda skein sólin fast á mig án nokkurrar miskunnar og markísan hlífði ekkert. Helga sá aumur á mér og þegar inn var komið og við sestar þar, viðurkenndi ég varfærnislega fyrir henni að nú væru aldeilis uppgrip hjá geðillum geitungum, eða sá árstími. Vegna ofurhitans úti og mögulegrar árásar væri ég sérlega fegin því að vera inni. Hún hló og sagðist alltaf sitja úti sjálf og  hefði aldrei séð geitung. Hmmmm, einmitt.

Við fengum okkur ristað súrdeigsbrauð með avókadó og drukkum latte með, hálfan snúð hvor í eftirmat. Spjölluðum af kappi. Stóri gólfsíði glugginn við hlið okkar (reyndar dyr sem eru ekki í notkun) var galopinn og hinum megin við hann, sem sagt úti, sátu tvær ungar konur sem létu sólina ekki angra sig. Skyndilega upphófust skrækir og síðan kapphlaup upp á líf og dauða við ... haldið ykkur ... geitung í árásarhug. Hann hafði áhuga á vellyktandi veitingum þeirra en hefði pottþétt ekki hikað við að stinga þær í úrillsku sinni. Fyrir nokkrum árum hefði ég fært mig talsvert fjær, ég var hættulega nálægt, en nú horfði ég áhugasöm á flóttann sem heppnaðist farsællega og hugumstóra afgreiðslumanninn sem aðstoðaði við að bjarga veitingum ungu kvennanna inn. Sá grimmi varð eftir úti, hefur eflaust séð annað fórnarlamb í sólinni því hann reyndi ekki að elta konurnar. Mögulega sá hann Moggann þarna á einu borðinu og veit sennilega að upprúlluð dagblöð geta verið bráðdrepandi.

 

KajukaffiStráksi kom og hitti okkur fljótlega eftir hádegi þegar skólinn var búinn og þá drifum við okkur í besta banka í heimi, Íslandsbanka á Akranesi. Eftir að hann varð 18 ára hefur kerfið komið fram við hann eins og alla aðra fullorðna einstaklinga þar sem ekki er svigrúm fyrir neitt á borð við fötlun ... svo rafræn skilríki, væni minn, eða þú færð ekki Heilsuveru eða aðgang að einu eða neinu, þú færð lögfræðihótanir vegna reikninga sem bárust þér ekki því þeir enduðu í rafrænu svartholi. Elsku frábæri bankinn hans bretti bara upp ermar og reddaði málum, breytti stöðu hans mjög til hins betra í tilverunni, hann er alsæll. Hvernig starfsfólkið þarna kemst í peysur á morgnana fyrir vængjum, skil ég ekki. Við fórum líka í Omnis (símar, raftæki og fleira) og drengurinn gaf sjálfum sér fínustu heyrnartól í afmælis- og jólagjöf. Hann gat ekki hugsað sér að bíða til jóla og fá mig til að gefa sér í jólagjöf. Í Omnis hefur tækniblómálfurinn ég fengið mikla aðstoð þegar ég þarf (Davíð frændi harðneitar að flytja á Skagann) við hluti sem ég þarf bara að kunna á nokkurra ára fresti (eins og að skipta um síma) og fullur skilningur ríkir á því. Það er rosalega gott að búa hér á Skaganum, þótt nú sé bara eitt kaffihús eftir, Kallabakarí, sem opnar snemma og lokar snemma, eins og víða í borginni, þar sem verið er að ýta manni út í óreglu (bara barir eru opnir). En sums staðar, eins og á Kaffibarnum, alla vega í gamla daga þegar við hittumst alltaf vinkonurnar eftir vinnu á föstudögum, var hægt að fá súpergott kaffi. Best að tékka á Útgerðinni (bar á Akranesi). Það er ágætt kaffi á Galito (veitingastað) og líka á Vitakaffi hinu nýja (íþróttabar og matsölustaður, á móti Gamla Kaupfélaginu).

Hjá Kaju hittum við Bjössa Lú, Bowie-veggsmálara með svo miklu meiru, og eðlilega barst talið að kaffi. Hann kaupir súpergóðar baunir (m.a. hjá Valeria í Grundarfirði) og brennir þær sjálfur ... app kemur við sögu! Við Helga voru heillaðar. Jenna, konan hans, hefur skrifað heilmikið, var áður viðskiptablaðamaður í London eða New York áður en hún flutti hingað, og skrifaði m.a. bókina sem er fremst á mynd nr. 2, æðisleg bók fyrir erlenda ferðamenn. Frá vinstri: Karen, eða Kaja sjálf, Jenna og Bjössi.         


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.7.): 6
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 238
  • Frá upphafi: 1530039

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 203
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Desember 2018
  • Einarsstaðir
  • Ég er rík

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband