Færsluflokkur: Bloggar
19.2.2022 | 18:50
Óvæntur stuðningsaðili Póstsins ...
Covid nálgast með ógnarhraða (ég þekki svo marga smitaða) svo ég hamast við að elda góðan mat áður en ég missi bragðskynið og bera á mig unaðslegan ilm áður en ég missi lyktarskynið. Alla vega elda. Það vantar fjóra upp á að 400 Skagamenn séu með covid. Yndislegt frændfólk liggur, eða börnin, og viss systir fékk það næstum því. Við ákváðum að treysta á neikvætt heimapróf sem hún tók og fékk neikvætt úr, og að hún hafi ekki knúsað vissan iðnaðarmann sem kom til hennar og greindist með covid í dag ... sennilega. Fólk í sama húsi og Himnaríki hefur fengið þetta. Ég hef alls ekki lokað mig inni, reyndar farið minna út VEGNA HÁLKU og snjóa og hefði mögulega farið í bæinn í dag ef veðurspáin hefði verið betri. Hef notið þess að horfa á skafrenninginn í dag og kettirnir eru líka mjög hrifnir og þrá að gluggaveiða hann. Án hans hefði ég sennilega skotist út í bakarí og keypt mér eina bollu. Í tilefni konudagsins á morgun en tertan sem allir bakarar baka af því tilefni er með hnetum, því miður. Svo bakarar geta bara hoppað!
Hugumstóra frænka mín (ein þeirra) fékk venjulegt sendibréf frá Vottum Jehóva í gær, henni fannst það bara sætt og krúttlegt þótt það hafi ekki hreyft við henni á annan hátt en ég fékk algjört áfall þegar ég sá bréfið eða símanúmerið (munið, tölur skipta öllu) sem hún mátti hringja í til að frelsast ... eitthvað hafði Satan haft fingurna í þessu því númerið endaði á 666.
Svo mundi ég eftir því að sú tala er ekki rétt og skrifast víst á þýðingarmistök. Rétta djöfullega talan er 616. Rússar breyttu eitt sinn strætó númer 666 vegna þessa misskilnings ... í 616 en svo gat einhver fróð eða fróður leiðrétt það svo alveg spurning númer hvað strætóinn er núna. Og margir óttast töluna 666, eins og töluna 13. Segið svo ekki að tölur skipti máli en það er auðvitað kjánalegt að óttast þær, eins og ég gleymdi að segja frænku sem er sennilega í sjokki út af símanúmerinu.
Flott hjá Vottunum samt að styðja Póstinn sem glímir við mikinn fjárhagsvanda, eða hefur ábyggilega gert nánast síðan ég hætti að hafa efni á að senda jólakort um árið (1985). Hefði samt haldið að allar aukagreiðslurnar sem teknar eru af fólki sem kaupir vörur frá útlöndum í gegnum netið héldu öllu þar uppi en nei, nú fækkar pósthúsum ört, eins og bankaútibúum. Ef það væri ekki fyrir veðrið (ég meina þetta í alvöru) myndi ég hugsa mér til hreyfings - en ég á erfitt með hita og skort á fjölbreytileika í veðrinu ... Munið þið þegar alls staðar var hugsað um að veita þjónustu og gróðinn var ekki aðalatriðið?
Bloggar | Breytt 21.2.2022 kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.2.2022 | 14:47
Brim í Brighton og aðför að okkur áhrifavöldum ...
Dæmigert alveg að þegar ég ákveð að gerast áhrifavaldur fer skatturinn að rannsaka slíkt fólk, skv. fréttum dagsins. Ég get þó huggað skattmann með því að ég hef ekki fengið eitt einasta korn frá einum eða neinum sem er bara skandall þegar svona flottur stjörnubloggari á í hlut. Ef ég fengi eitthvað myndi ég með aðstoð endurskoðanda míns gefa allt upp. Að sjálfsögðu. Þessar götur gera sig ekki sjálfar og einhver verður að borga laun sumra ráðherra þótt þeir séu sennilega frekar mikið andsnúnir útlensku fólki sem vill setjast hér að vegna stríðs og rauna heima fyrir. Hvað eru aftur margir Íslendingar sem búa í öðrum löndum? Og hvað var aftur verið að tala um marga sem við þyrftum virkilega mikið að fá hingað til lands til að landið fúnkeraði?
Í eina skiptið sem ég sveik undan skatti, eða reyndi það, var það óvart og svo klaufalegt að góði maðurinn hjá Skattinum hló bara og sektaði mig ekki því þetta var svo augljós gleymska, launin voru frá ráðuneyti, stök verktakagreiðsla. Þegar þarf að vera í milljón störfum til að ná endum saman getur eitthvað gleymst. Og svo loksins þegar allt varð svo auðvelt að það þurfti bara að kíkja og ýta svo á Senda til að skila skattskýrslunni, er ég komin með endurskoðanda. Dæs.
Myndin hér að ofan var tekin í gær úr einum af þríhyrningslaga gluggum Himnaríkis og sýnir svo ekki verður um villst skemmdarverkið á ósnortnum snjónum þarna hægra megin. Sökudólgurinn sést meira að segja kominn inn á Höfðabraut. Hann slapp næstum því, það tók tímann sinn að finna símann og svo að munda hann sem myndavél.
Af því að ég er nörd datt mér ekkert annað í hug en að kíkja á vefmyndavélar í Bretlandi þegar ég heyrði í hádegisfréttum að þar hefði verið gefin út rauð veðurviðvörun. Ég hélt til Brighton og sá svo fagurt og tryllt brim að ég ætla að gista einhvern daginn á hótelinu sem heldur utan um þessa vefmyndavél, helst í vondu veðri.
Ég lét Hildu systur vita. Auðvitað. Svar hennar: Við þangað. Systraklikkun, myndi kannski einhver segja en það verður bara að hafa það. Ég viðurkenni að mér tókst að vinna í dag ÞRÁTT FYRIR brimið á vefmyndavélinni, en það var erfitt. Allar dauðar stundir sem upp komu fóru í að mæna á öldurnar og óska þess að vera í Brighton. Þær eru oft glettilega stórar öldurnar hérna við Langasand en talsvert prúðari en þetta.
Hér er hlekkurinn, ef einhvern langar að sjá dýrðina, aðeins þó farið að sljákka í veðrinu, en oft er sjórinn minn vel hress daginn eftir svona hvassviðri.
https://www.skylinewebcams.com/en/webcam/united-kingdom/england/brighton/brighton-pier.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2022 | 17:18
Enn eitt konudagshneykslið og óvæntar Ísfélagsmyndir
Meiri dagurinn ... stefnumót rétt fyrir kl. 13 við einn heimilismeðlim í öllum snjónum. Ekkert búið að moka á Skagabraut (gangstéttina) en þegar ég var komin hana á enda mætti ég ótrúlegum fjölda gröfukarla á gröfum sínum sem allir einbeittu sér að hag og þægindum gangandi vegfarenda, en á Kirkjubraut sem er aðalgatan okkar. Ég hinkraði við húsið hennar Ástu í bókasafninu á meðan gönguleiðin fyrir mig var gerð fín, hneigði mig, sendi þumalputtann upp og átti bara eftir að senda fingurkoss eða kyssa gröfuna - en engin viðbrögð.
Hástemmt þakklæti á ekki upp á pallborðið hjá gröfukörlum, ég veit það núna. Við tókum svo bara strætó heim sem var snjöll ákvörðun því næsta verkefni beið okkar kl. 14, eða heimsókn frá elsku Ástu (ekki bókasafninu) okkar. Svo kl. 15 rauk drengurinn í klippingu, þá fyrstu á árinu og mátti ekki seinna vera, hárið allt út um allt, en ekki lengur. Svo hitti hann Matthías sinn kl. 16-18. Þvílík dagskrá í gangi hjá einum dreng. Ég er nánast móð, ekki móðguð eins og í gær ...
Móð (guð)- samsetningar sumra orða. Tilviljun? Held ekki.
Alheimsnetið, veraldarvefurinn eða bara facebook sýndi í gær ljósmynd úr verbúð, sem tekin var í Ísfélagi Vestmannaeyja árið 1974. Sem,sagt verbúðinni minni. Sjálf Valdís Óskarsdóttir tók myndina og fleiri myndir. Ég var alveg búin að gleyma þessu en það rifjaðist upp að Valdís var alls staðar með myndavélina um tíma en ég var alls ekki viss um að hún hefði tekið mynd af ykkar einlægri. Að gamni kíkti ég samt á Ljósmyndasafn Reykjavíkur, skellti í leit: Ísfélag Vestmannaeyja 1974 og ýtti á enter. Ekki kannaðist ég við mörg andlitin þarna, enda langt síðan (48 ár, hóst) en þarna voru vissulega Shady Owens, Þráinn, Áslaug, Bogey og systir hennar ... það var meira fjör og minni vinna um sumarið svo ég man betur eftir fólkinu þá. Á þessum tíma skrifaði ég Gurrí með ý-i, eins og sést á svuntunni minni á myndinni, en með auknum þroska og betri smekk, um það bil tveimur árum seinna, breytti ég því í núverandi horf sem er á allan hátt réttara, finnst mér, og það fannst góða manninum hjá Orðabók Háskólans líka á níunda áratugnum þegar ég hringdi í hann út af öðru, eða stafsetningu í mikilvægu bréfi sem samstarfskona þurfti að senda. Í leiðinni spurði ég hann út í Gurrí og hann taldi ý-ið gjörsamlega fáránlegt, ef ég man þetta rétt. Svakalega stutt síðan maður reddaði sér svona, ekkert Internet eins og núna. Ég man meira að segja eftir því að hafa farið með mömmu til að borga í sjúkrasamlagið sem stóð við Kirkjubraut, á móti Andvara, búð sem er ekki lengur til.
Aðeins var hægt að skoða hluta af heilum haug mynda Valdísar en gaman væri að fá að sjá þær allar - mig langar að kaupa þessa sem ég birti hér af 15 ára stelpunni sem fór á vertíð og var þarna að vinna í ufsa, sýnist mér. Hef nú sagt frá því áður en þegar árshátíðin var haldin fékk ég að panta vodkaflösku eins og hinir því ríkið var á þeim tíma ekki enn tekið til starfa eftir gos. Frekar ömurlegt en ... unglingadrykkja var ekki bara umborin á þessum tíma, heldur samþykkt.
Vonbrigði dagsins, konudagskaka ársins enn og aftur með hnetum sem er ekkert annað en hneyksli. Þakklæti dagsins fer svo til bakarans (Rúnars Felixsonar) sem á heiðurinn að konudagskökunni í ár sem mun ekki fita mig. Ég hef sloppið ágætlega frá þessum kökum síðustu árin, bæði í peningasparnaði og minna sykuráti. En spennu dagsins og í raun ársins eiga þættirnir um Jack Reacher (á Amazon), ég setti fjórða eða fimmta þátt á pásu i gærkvöldi, of spennandi atriði, bara of spennandi þættir. Ég þyrfti í alvöru að fá reglulega höskuldarviðvörun - eða hreinlega lesa bókina til að vita á hverju er von. Eftir að hafa lesið um árið bókina Hausaveiðararnir eftir Jo Nesbö fékk ég eiginlega nóg af endurteknum taugaáföllum. Gekk um gólf af því að það var svo erfitt að halda áfram lestri og svo gerðist ekkert hræðilegt. Það var ekki fyrr en okkar maður var ofboðslega öruggur þar sem hann sat í lögreglubíl á milli tveggja lögreglumanna sem versta sjokkið kom - gjörsamlega óvænt. Í gærkvöldi setti ég bara á pásu og fór að sofa. Gekk bara um gólf í þetta eina skipti vegna of mikillar spennu. Þessi bók fór eiginlega svolítið fram hjá fólki af því að hún var ekki um Harry Hole. Mæli innilega með henni og bíómyndinni. Hausaveiðari er sá sem finnur réttu manneskjuna í starfið (mikilvægustu störfin, forstjórastörf og slíkt) og bókin er um ofboðslega hæfan gaur sem okkar maður finnur - en efast samt eitthvað og þá verður allt vitlaust. Geggjuð bók.
Stráksi tók því ekki sérlega vel að við værum hætt með Eldum rétt - sem er ekkert annað en áfellisdómur yfir eldamennsku minni. Ég elska nú ekki vondan mat, en það er meiri tilbreyting hjá Eldum rétt, viðurkenni það fúslega. Síðasti rétturinn frá þeim verður eldaður í kvöld. Svo leggst ég í matreiðslubækur og drengurinn finnur engan mun, vona ég. Sennilega hakk og spagettí á mánudaginn, í fyrsta sinn á árinu. Svo ræðst þetta bara ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2022 | 15:11
Sigrar og sorgir tæknitrölls í Himnaríki
Hamingjuríkum viðskiptum mínum er nú lokið við Eldum rétt. Ég er greinilega móðgunargjarnari en ég hélt eða þessi tími mánaðarins hjá mér; fyrsti til tuttugasti og áttundi, eða kannski röng manneskja í réttum síma sem svaraði. Ég gleymdi nú um helgina að biðja Ellen frænku um að sýna mér hvernig ég gæti pantað mat hjá ER á netinu án þess að þurfa að setja inn greiðsluupplýsingar í hvert skipti. Ég kemst ekki fram hjá því, sama hvað ég reyni og eftir að hafa fengið að hringja og panta einu sinni og verið sagt þá að það væri minnsta mál í heimi að hringja alltaf, hef ég gert það undanfarnar vikur. Þetta með að þurfa í hvert sinn að setja inn greiðsluupplýsingar, dregur úr gleðinni við að panta, eins og símtalið áðan:
Eldum rétt, góðan dag.
Já, góðan dag, ég ætla að panta mat fyrir næstu viku.
Það er gert á netinu, þú þarft að gera það þar.
Ég kann það ekki nógu vel, ég hef fengið að panta í gegnum síma síðustu vikur, eins og fleiri, skilst mér, af hverju er það ekki hægt núna?
Þú hefur þá fyrir einhverja tilviljun hitt á fólk sem getur tekið við pöntuninni.
Mér var sagt að ég mætti alltaf hringja og ég hef fram að þessu fengið ljúft viðmót, hvað hefur breyst?
Ég get svo sem reynt að finna einhvern til að hri-
Nei, veistu, sleppum þessu bara, sagði ég og lagði á. Reif síðan fína miðann með girnilegu réttunum sem hægt var að panta fyrir næstu viku og henti honum í endurvinnslupokann. Var virkilega svona erfitt að segja: Ég get ekki tekið við pöntuninni en ég skal láta einhvern sem getur það, hringja í þig. Þess í stað leið mér eins og algjörum fávita fyrir að kunna ekki að panta á netinu. Svo drengurinn verður að þola mína eldamennsku framvegis en ég hef vissulega lært sitt af hverju á þessum vikum, aðallega varðandi ofnbakaðar kartöflur, og á líka nokkrar dásamlegar matreiðslubækur sem ættu heldur betur að gefa mér hugmyndir. Netið er sniðugt og veit uppskriftina en þá þarf að vera á hreinu hvað maður ætlar að elda. Skemmtilegra að fletta matreiðslubók upp á hugmyndir að gera.
Það hlýtur samt að vera vont fyrir fyrirtæki að missa fastakúnna sem borgar yfir 40 þúsund kall á mánuði. Já, það er ýmislegt hægt að veita sér þegar búið er að drepa í, ég á tveggja ára reykingaleysisafmæli í apríl.
Myndin að ofan sýnir aldeilis gómsætan ER-lax gærkvöldsins.
Uppi í rúmi í gær kíkti ég á Facebook sem ég geri iðulega á kvöldin og eins og svo oft áður var ákveðið þema í gangi, stutt vídjó inn á milli færslna fb-vinanna. Núna endurbætur, DIY (do it youself) á alls konar.
Nú kann ég að flísaleggja gólf og veggi, leggja hitaleiðslur í gólf og flota yfir, byggja kofa frá grunni úti í skógi og taka baðherbergi í nefið.
Hefði nú verið gott og verulega hentugt að kunna þetta áður en ég lét taka Himnaríki í gegn fyrir tveimur árum. Vissulega voru þessar stuttu myndir sýndar mjög hratt svo ég verð sennilega að fara á YouTube til að læra listina enn betur.
Þetta er sko ekkert mál, sýnist mér. Bara tímasóun að hanga í skóla í einhver ár þegar allt fyrirfinnst á netinu ... Held meira að segja að ég gæti skipt um glugga hér ein og hjálparlaust og myndi gera það til að sanna það fyrir bloggvinunum ef ekki væri búið að því. Verst að ekkert er að Himnaríki eftir að Diddi smiður lagaði opnanlegu fögin svo þau lokuðust almennilega og hann er búinn að panta blikk-dæmi eitthvað til að vernda litlusvaladyrnar svo eigi geti lekið þar inn í verstu lægðunum hér við hafið - en kannski þiggur hann hjálp mína þegar hann fer í að gera þetta.
Svo ... ef ykkur vantar fb-menntaða iðnaðarkonu ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.2.2022 | 14:42
Stóla- og bakaríshneyksli og veiðilendur í Mjódd
Utanbæjarfólk á borð við mig safnar saman erindum til að reka í borgarferðum sínum. Þegar ég hossaðist mjúklega með strætó sl. laugardag voru tvö aðalerindi til borgarinnar; raða bókhaldinu fyrir endurskoðandann með aðstoð litlu systur og kaupa skrifborðsstól. Hvernig hefði sárasaklausa Skagakonuna átt að gruna að ætlast væri til að landsbyggðartúttur tækju sér frí úr vinnu til að komast á virkum degi því sterkir og góðir skrifborðsstólar eru ekki til sölu um helgar. Bara á skrifstofutíma! Ég kom með fúlgur fjár, veskið svo þungt að ég gekk skökk, sársvekkt á bakveiki eftir að hafa verið ansi lengi á sama stólnum sem fyrrum framkvæmdastjóri einnar vinnunnar minnar leyfði mér að eiga þegar skipt var um stóla. Mögulega 20-25 ára gamall stóll. Eflaust dúndurgóður á sínum tíma en fyrir löngu hættur að vera það. Myndin er af eins stól og ég hafði setið á í áratugi áður en ég fékk þennan gamla sem ég er á núna. Aldrei of illa farið með gott bak ...
Haldið var í Skeifuna, í A4 - ég viðurkenni að það var ekki bara til að kaupa skrifborðsstól, heldur líka til að hitta Diego, Skeifuköttinn fagra. Þegar hann reyndist hvergi sjáanlegur ofan á prentarapappír (í stærð A4) hefði mig átt að gruna hið allra versta ... eða að skrifborðshúsgagnadeildin væri lokuð, þar misstu þau af góðri sölu þrátt fyrir dásamlega þjónustu og heilmikla samúð með mér. Ákvað að fara í Pennann þarna rétt hjá, þar gæti nú varla verið lokað, svo margir þyrftu að nota helgarnar til að kaupa nauðsynjar ... En það var lokað þar líka. Kannski verð ég að nota þennan áfram næstu 20 árin. Frekar léleg þjónusta við okkur tútturnar.
Eins og þetta hefði ekki verið nóg. Ég ákvað að kaupa eitthvað gott með kaffinu, húsið fullt af börnum (með mér og drengnum) og gífurleg skrifborðsstólsvonbrigðin kölluðu á huggun. Við fórum í Bakarameistarann í Mjódd og þar ætlaði ég að kaupa tertuna sem ættingjar mínir kalla Gurríartertu: rúllutertu með góðu kremi og banönum, uppáhald síðan 1995 og keypt við ýmis hátíðleg tilefni. Við erum hætt með hana, sagði afgreiðslukonan án nokkurrar miskunnar.
Já, af því að hún seldist svo vel? hugsaði ég beisk en þessi terta var þónokkuð ódýrari en þessar venjulegu fínu sem ég tími aldrei að kaupa. Með gúgli komst ég að því að Gamla bakaríið á Ísafirði (myndin þaðan) gerir svona tertur og alveg spurning að sýna þakklæti í verki fyrir það með að verja þar eins og einni helgi á Ísafirði í sumar, þar ríkir ekki kattahatur bæjarfulltrúa, eins og á sumum stöðum fyrir norðan. Okkur systur langar á Vestfirðina og ég myndi kaupa bananarúllutertu. Það var einmitt bananarúlluterta sem ég keypti um árið í Bakarameistaranum í Mjódd þegar stúlkan sagði: Á ég að setja hana í kassa fyrir þig? og ég ætlaði að vera voða fyndin: nei, takk, ég ætla að borða hana hérna ... sem mögulega gæti á einhvern hátt verið ástæða fyrir því að tertan fáist ekki lengur. Svona þegar ég fer að hugsa. Eftir að ég gekk í fb-hópinn Sögur af dónalegum viðskiptavinum, hef ég ekki þorað að reyna að vera fyndin. Ég hefði elskað svona bull þegar ég vann við afgreiðslu, en á síðunni komst ég að því að meirihluti afgreiðslufólk hatar brandarafólk.
Um leið og ég flutti frá Reykjavík fór allt til fjandans.
1. Póstnúmerum er breytt, gamla húsið mitt tilheyrir nú í 101 Rvík., eflaust hækkað verðið á því - þá of seint fyrir mig.
2. Bananarúllutertan hættir í sölu hjá Bakarameistaranum örfáum árum eftir að ég flyt til Akraness.
3. Alvöruskrifborðsstólar eru ekki seldir um helgar.
4. Sú þjónusta að hafa kaffihús opin þannig að fólk komist í kaffibolla eftir vinnu, ekki lengur veitt. Fólki beint á bari. Allir í sleik. COVID breiðist hratt út.
5. Og margt, margt fleira.
Bókhaldsvinnan gekk aftur á móti vel, enda hafði ég flokkað allt eftir mánuðum og síðan eftir lit kvittananna. Hilda gretti sig yfir litaröðuninni, vildi frekar eftir stærð - en það tafði snillinginn hana ekki lengi.
Nú er ég komin með YouTube-tónlistarveituna sem er svipuð og Spotify - skilst að Spotify hafi hlunnfarið tónlistarmenn, borgað þeim smánarlega lítið fyrir hverja spilun en átti samt stórfé til að fá einkarétt á hlaðvarpi sem var var víst eitt sinn gott (Rogan) en nú er fólk fúlt yfir rasisma og falsfréttum, ef marka má marga á Facebook. Davíð frændi skutlaði mér heim í gær og við skutluðum mér yfir á YouTube-veituna. ég hafði lagalista S opinn og fann sömu lögin í Y. Leyfi stráksa að fá loks einokun á Spotify (ekki áskrift). Svo gerðist algjört kraftaverk, Davíð þurfti Apple ID-ið mitt til að opna á enn eina sjónvarpsveituna fyrir mig ekki-sjónvarpssjúklinginn, Amazon til að ég geti horft á Jack Reacher-þættina sem hafa fengið mjög góða dóma, OG ÉG MUNDI AÐGANGSORÐIÐ! Horfði á einn þátt undir svefninn í gær ... skemmti mér vel.
Myndin hér að ofan er af leikaranum sem leikur hann, sá er hávaxinn eins og persónan í bókinni. Tom Cruise var góður en ekki nógu sannfærandi í þeim tveimur bíómyndum sem hafa verið gerðar um Reacher. Hann er svipað stór og ég, í kringum 1,70. Sem er ekki sama og tæpir tveir metrar.
Svo þarf ég að biðjast afsökunar á kærastaleysinu, ég lofaði að vera komin með gæja á Valentínusardag en ... ég sagði ekki hvaða ár. Svona færð, bæði hálka og snjór, og mér dettur bara ekki í hug að reyna að eltast við menn núna. Það er alveg óvíst að Eldum rétt-maturinn komist til mín í dag, en ég hugsa samt að ég geymi nautasteikina rómantísku þar til á fimmtudag, verði með fisk eða kjúkling í kvöld - ef maturinn kemst Kjalarnesið sem ég efast um.
Spurning hvort björgunarsveitir aðstoði - svo Skagamenn verði ekki hungurmorða. Lokað til miðnættis, hótar Vegagerðin. Hvar er Akraborgin núna?
Ég hljóp inn í Nettó í Mjódd örstutt í gær og sá þar mögulegar veiðilendur við kælinn þar sem tilbúni maturinn fæst, 1944 og slíkt. Þar voru tveir frekar girnilegir karlar sem horfðu harmþrungnir á bakkana - og völdu eflaust bjúgu eða lambalæri í örbylgjuna í hundraðasta skiptið. Þá langaði svo mikið að láta bjarga sér. Sjáum til næst þegar ég hef tíma. Hvernig byrjar maður aftur samræður á veiðum? Kemurðu oft hingað?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2022 | 18:45
Sextán ár og enn er von
Tíundi febrúar í dag, og nákvæmlega 16 ár síðan ég flutti í Himnaríki, 300 Akranesi. Seldi 56 fermetra íbúð á Hringbraut (þá 107 Rvík, nú 101) og fékk 99 fermetra með sjávarútsýni og borgað á milli sem dugði meðal annars fyrir yfirdekkingu á antíksófa og stólum, innrömmun á málverkum, ísskáp og baunavél (kaffi). Bjó á Hringbrautinni í átján ár, upp á dag og varð annar eigandi íbúðarinnar á sjötíu árum, þarna í gömlu Verkó og ég vona að gömlu hurðirnar og efri eldhússkápurinn hafi fengið að halda sér. Afrekaði meira að segja fá hina dásamlegu Völu Matt í heimsókn, Innlit-útlit á SkjáEinum, og veit ekki enn hvort ég á að vera móðguð þegar hún talaði um hversu gaman væri að koma í venjulega íbúð. Sindri Sindrason hefur ekki sýnt hinn minnsta áhuga á að koma í Himnaríki, mögulega fæla stöku þvottafjöll frá, það er sennilegt.
Þarna 2006 hétu heimiliskettirnir Tommi og Kubbur (kvk) en núna ráða ríkjum heiðurskettirnir Keli, Krummi og Mosi. Ég kvaddi með krókódílatárum geitungana og umferðarhávaðann og fékk í staðinn sjávarnið og máva. Verulega góð skipti. Mávar eru vanmetnir, þeir eru æði og sérlega duglegir að borða afganga á sumrin. Krummi sér um málin yfir vetrartímann. Og í stað Kjötborgar fékk ég Einarsbúð þar sem sama ljúfmennskan ríkir. Þetta voru góð skipti þótt mér þyki alltaf vænt um höfuðborgina mína samt.
Mynd nr. 1 sýnir Akranes um svipað leyti og ég flutti þangað, mikið verk óunnið og Himnaríki enn ekki byggt, hvað þá Jaðarsbraut og íþróttamannvirkin. Langisandur var alltaf svo stór og mikill í minningunni (náði samt mynd) en sjórinn (kk) kominn svo miklu nær, allt karlkyns vill vera sem næst mér, held ég oft. Ef sest á mig fluga, er það strákur, ekki spurning.
Á mynd nr. 2 frá 2015 má sjá hverju ég hef áorkað í smíði húsa, göngustíga hér við sandinn og fleira, mér tókst meira að segja að færa Esjuna talsvert nær Akranesi en áður var. Himnaríki sést lengst til vinstri og fyrrnefnd tiltölulega nýkomin þá, Esja fyrir miðri mynd.
Mér líður afar vel hér í Himnaríki og held að sjórinn minn spili stórt hlutverk í því. Mannbætandi og heilandi að fylgjast með þessari elsku, síbreytilegri og flottri. Mín vegna mætti þó alltaf vera brim, mér finnst það langflottast. Bláfáninn mætti líka hanga uppi yfir vetrartímann líka, svo gott að fá vindáttina beint í æð ... en það er kannski óþarfa frekja, nægir alveg að fá oftar brim.
Enn er gífurleg vinnuþrælkun Guðríðar í gangi, stefni á að klára verkefnið alveg á næstunni, hafði hugsað mér að blogga ekkert fyrr en því væri lokið, en sextán ára afmæli í Himnaríki kallar nú alveg á blogg, finnst mér.
Ég hef heldur ekki alveg afskrifað að vera komin á fast á mánudaginn kemur. Enn er von! Ég pantaði alla vega rómantískan mat fyrir tvo frá Eldum rétt fyrir okkur þrjú, ef það gengur upp, og fæ mér bara núðlur.
Samt hugsa ég stundum með hryllingi til þess að hitta kannski hinn fullkomna mann, ljúfan, fyndinn, skemmtilegan og auðvitað stórmyndarlegan - og svo þegar við værum gift færi hann að reyna að sannfæra mig um að jörðin væri flöt. Það væri vissulega pínku fyndið en samt ekki næstum því strax. Kannski um áttrætt. Eru stefnumót ekki einmitt til að ganga úr skugga um slíka hluti og flokka frá? Svo er heldur ekkert víst að slíkur maður vildi nokkuð með kringlóttjörðung að gera.
Vá, hvað okkur Skagamenn fer að vanta fleiri kaffihús fyrir stefnumót. Við erum með Kaju sem er æði og svo Grjótið sem er samt meiri matsölustaður þótt þar sé selt kaffi. Galito er með fínt kaffi og eftirrétti (köku, minnir mig). Læt svo vita hér hvernig gengur, auðvitað montar maður sig af ástamálum eins og öðru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2022 | 17:50
Af ástum og bolludagsraunum vinnusjúklings
Dagur elskenda nálgast með ógnarhraða og sennilega næ ég því ekki að komast á séns á tæpri viku í allri þessari hálku. Ég leitaði á náðir véfréttarinnar sem sagði mér það sem ég vissi svo sem nú þegar. Frábæru, gáfuðu og skilningsríku kettirnir í Himnaríki sögðu mér að láta ekki hugfallast, þeir myndu elska mig til eilífðarnóns svo lengi sem ég gæfi þeim annað slagið almennilegt kattanammi. Drengurinn hefur tekið nánast í sama streng en meira þó í áttina að Eldum rétt-kvöldmat en kisunammi.
Ég er orðin frekar ringluð (og ryðguð) í þessum svokölluðu ástamálum. Það næsta sem ég hef komist einhverju slíku lengi, lengi, kom í morgun í formi Instagram-skilaboða frá útlendum aðdáanda: Halló, glæsilegt! (Hún var kölluð þetta) og svo var mynd af honum berum í sturtu, myndin náði þó bara niður að mitti. Þrátt fyrir nánast sorglega siðsamlega mynd er hún þó það allra dónalegasta sem ég hef fengið sent af þessu tagi frá því að veraldarnetið hóf starfsemi sína.
Annaðhvort óttast karlar mig, hart blikið í augunum, herptur handavinnupoka-munnsvipurinn (sjá mynd) og þora ekki að senda mér dónalegar myndir af sér, eða ég er ekki í markhópnum vegna aldurs, menntunar, hárlits, skóstærðar, búsetu, kattaeignar, staðsetningar á hæð í húsi, starfs, gönguferðahaturs míns eða hrifningar á miklum sjógangi, eitthvað af þessu kemur til greina.
Það eru stórkostlega yndislegir menn úti um allt, langflestir giftir vinkonum mínum og dætrum þeirra, eins og ég hef löngum sagt, hinir hangsa mögulega í ávaxta- og grænmetisdeildinni í Einarsbúð og hafa ekki hugmynd um að ég hringi reglulega einmitt í Einarsbúð, panti og láti senda mér heim ... í hálkunni sem mér er frekar illa við, eins og marga grunar eflaust. Fínir kvenbroddar kæmu mér sennilega, eiginlega mjög líklega, á séns fyrir þann fjórtánda en það er samt of mikið að gera hjá mér, eins og lesa má út úr efstu myndinni. Sjáum til að ári.
Annars er mér nokk sama um Valentínusardaginn, það er konudagurinn sem vekur spennu hjá mér (og bolludagurinn) eða öllu heldur konudagskakan. Verða hnetur (möndlur, döðlur, rúsínur, núggat) í konudagskökunni eða verður hægt að borða hana í ár? Jafnvel þótt ég sé og hafi verið í nokkuð strangri sykurminnkun frá áramótum finnst mér þetta alveg jafnspennandi og fyrri ár.
Þó hefur þroskinn sem ég hef komið mér upp á síðustu árum valdið því að étanleg kaka orsakar gleði, þá get ég keypt hana (og allir aðrir líka) en ... ef hún er með hnetum og því öllu, þá gleðst ég yfir því að fitna ekki á meðan. Gaman væri að sjá sölutölur á milli m/ hnetum og án. Bestu tertuna frá upphafi eiga Siggi og Bernhöftsbakarí, hvítsúkkulaði-dásemd sem var hættulega góð. Ég handjárnaði sjálfa mig við ofninn í stofunni í nokkra sólarhringa til að hlaupa ekki út í bakarí og kaupa aðra, minnir mig. Mér hefur svo sýnst á auglýsingum frá þessu góða bakaríi að þar séu til rjómabollur alla daga.
Mikið er ég ofboðslega fegin því að búa hinum megin hafsins og líka því að það sé hálka megnið af árinu því Kallabakarí hér á Skaga er lúmskt fullt af freistingum. Sennilega myndi ég skríða báðar leiðir þangað eftir bollum einu sinni í viku. Skríða þó langar leiðir til að fá góða hreyfingu svo bolluátið hafi ekki allt of mikil áhrif á útlínurnar. Hvenær er eiginlega bolludagurinn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2022 | 17:19
Að skammstafa rétt og gluggar sem halda
Gluggarnir sem Diddi smiður gerði við í síðustu viku stóðust prófið í þessu villta óveðri sem lék við okkur landsmenn í nótt. Suðsaustanstormur. Ég hafði ákveðið að sofna snemma og rífa mig svo upp með látum eldsnemma og reyna að ná nokkrum eldingum, en nei. Sennilega var ég of spennt til að geta sofnað snemma. Og loks þegar ég sofnaði var það við brjálað vindgnauð. Litlusvaladyrnar sem snúa einmitt í suðaustur láku eins og Eurovision-lögin - bleyttu í gegn eitt þykkt baðhandklæði og nokkur dagblöð, ekki fór dropi á dagblöðin sem voru á gólfinu fyrir neðan þröskuldinn. Góð sjálfsvörn, myndi gamli karate-kennarinn minn kalla það. Geggjaður lás, myndu gömlu nemendur mínir í Ju Jitsu segja kátir. En auðvitað í gríni og meina að ég hefði nánast skellt í lás á alla bleytuna sem reyndi inngöngu í himnaríki. Þegar næsta svona veður kemur verður Diddi búinn að redda þessu.
Mynd: Svona leit ytri vettvangurinn út í morgun, snjólétt (Hilda) að vanda og sjórinn alveg geggjaður. Kvöldflóðið inniheldur stærri öldur, sýnist mér að verði, nú mætti vera bjart lengur.
Eins og glöggir blogglesendur mínir vita, hef ég áhuga á veðri og tölum (og vefmyndavélum, hekli, kisum, bóklestri og auðvitað friði á jörð eins og ég sagði svo eftirminnilega í fegurðarsamkeppninni um árið (Jómfrú Heimur-eitthvað) og allar fegurðardrottningar hafa sagt á eftir mér, sumar unnið meira að segja) en skammstafanir geta líka verið skemmtilegar. Nú langar mig svolítið til að bæta við millinafni til að herma eftir systkinum mínum og heita tveimur. Hrefna finnst mér fallegt og koma vel út en skammstöfunin samt verulega boring; GHH. Dæmi um það sem ég meina:
Davíð frændi!
Já, kæra Gurrí uppáhaldsfrænka mín í öllum heiminum. (Sviðsett samtal til útskýrinar)
Ef þú eignast einhvern tímann dóttur, væri þá ekki sniðugt ef hún yrði látin heita t.d. Lena Sigurfljóð Davíðsdóttir?
Ha, af hverju?
Nú, út af skammstöfuninni.
Guðríður almáttugur, sagði stórhneykslaður en samt súperindæll frændi minn sem léti dótturina frekar heita Tinnu. Eða Guðríði Oddnýju ... sem ég sætti mig alveg við.
Hægt væri að búa til sniðug orð úr upphafsstöfum nafna barna sinna ... ég gleymi t.d. aldrei manninum með upphafsstafina RÓS og fæddist um jólin, við vorum að gantast með þetta í síma í vinnunni hjá mér, ég þurfti að skrá nafn hans og kennitölu og rak augun í þetta skemmtilega mynstur. Maðurinn var sérlega hress og fannst þetta bráðskemmtilegt. Svo mætti hann í eigin persónu í vinnuna til mín og samstarfskona mín varð steinhissa þegar þessi ungi og myndarlegi maður mætti, heilsaði mér vingjarnlega og sagði: Ég er jólarósin. Þetta þurfti talsverðar útskýringar síðar en hún skildi samt ekki snilldina við þetta, held ég. (Hef áður sagt frá þessu hér en þetta bara smellpassar inn í umræðuna).
LED: Light Emitting Diode / Linda Emilía Davíðsdóttir?
GPS: Global Positioning System / Guðríður Pálína Schiöth?
PDF: Portable Document Format: Petra Dögg Fjóludóttir.
Jónína Árnadóttir er JÁ. Sigrún Ágústa Ármannsdóttir er SÁÁ. Og svo framvegis.
Vona að ég hafi gefið ykkur margar dásamlegar hugmyndir.
Það verður eitthvað gott í matinn í kvöld ... Eldum rétt-bílstjórinn mætti áðan með fullan kassa af fersku góðgæti. Ég reyni alltaf að gleyma því hvað ég pantaði tæpri viku áður svo ég verði alltaf jafnánægð og hissa, og ekki síst stórhrifin af góðum matarsmekk mínum. Fiskur í dag og fiskur á morgun, bara æði. Og hjartans Einarsbúð kom með restina af því sem vantaði núna rétt áðan. Nú getur tilveran haldið áfram.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2022 | 17:46
Fullir skápar, furðudraumar og bið eftir fárviðri
Frábæra Inga mín sá aumur á mér og hringlandi tómum skápum Himnaríkis og skutlaði mér í búð. Ég var búin að skrifa niður þrjá eða fjóra hluti sem vantaði, keypti samt ábyggilega 10, þá bara eitthvað sem fæst ekki í Einarsbúð. Ég bíð ekki eftir að hlutirnir klárist alveg áður en ég man eftir að kaupa þá og tryggi í leiðinni streituminna líf ... en salernispappírinn var í alvöru á síðustu gufunum og lítið hægt að pissa í kvöld nema þá fara í sturtu á eftir. Eftir að hafa hlustað á Veitur fer ekkert ofan í mitt salerni nema pappír við hæfi, svo t.d. costco-eldhúspappír er eigi nothæfur, ekki einu sinni í neyð. Ég keypti ágætan pappír, jú, jú, einhverjar 12 rúllur, ekki til í minna, og vistir að auki og fékk undarlegt augnaráð frá fólkinu í Bónus, af því að það er spáð fárviðri í nótt.
Mín bara að hamstra? sagði augnaráðið (nema ég hafi misskilið og þetta hafi verið daður). Ég hugsaði ofsahvasst á móti: Ég hamstraði ekki wc-pappír þegar covid skall á, og ekki heldur núna! Fólk hrökklaðist undan ákveðninni í mér og leit í aðra átt skömmustulegt. Og skrambans nýi Royal-búðingurinn var uppseldur en ég kunni ekki við að biðja Ingu um að keyra á milli búða. Langaði svo að smakka hann, bara hálfa teskeið og gefa krummunum svo afganginn, vitanlega.
Mig dreymir alveg rosalega mikið þessa dagana, stöku sinnum Einar, son minn, sem þá er á lífi eins og ekkert sé eðlilegra. Kærasta hans sagði mér í nótt að ég yrði amma núna í apríl. Strákur, minnir mig.
Í draumráðningabókum segir um drauma sem tengjast börnum, að best sé að eiga barnið sjálf og þá sveinbarn - ætli þetta tákni ekki bara góða hugmynd sem skellur niður í hausinn á mér í apríl? Á netinu segir að það sé fyrir góðum fréttum að vera ólétt. Að eiga von á barnabarni er þá sennilega fyrir sæmilegum fréttum, eða sennilega frekar ofsagóðum sem ég tel líklegra.
Ég ætlaði að slaka aðeins á í gærkvöldi, horfa á eins og eina mynd til að hreinsa hugann frá vinnunni áður en ég héldi áfram. Valdi gamanmynd á Stöð 2 um skartgripaverslun sem þjáist af skammtímaminnisleysi - en svo var þetta bara starfsmaðurinn í skartgripabúðinni og myndin svokölluð ástarvella. Svona orðaröð er svaka fín fyrir fólk sem þjáist af aulahúmor ... En þetta var hálfgerð stæling og ekki sérlega góð, á 50 first dates með Drew Barrymore og Adam Sandler - en ég tolldi samt yfir henni.
Svo er ég loks búin að flokka allar kvittanir 2021 niður á mánuði sem flýtir mikið fyrir okkur Hildu, hirðbókhaldshjálparkonu minni, um næstu helgi. Best að vera tilbúin áður en endurskoðandinn gargar eftir gögnum. Það hefði sparað mér stórfé að hafa haft endurskoðanda í gamla daga. Þá hefði ég borgað rétta skatta, ekki of háa eins og ég gerði þá. Ég var oft með eitthvað frílansdót, gaf það upp en ekki kostnað á móti svo ég borgaði árum saman of mikið. Ekki neinar milljónir, hahahaha - en kannski hefði verið gott að geta notað ögn fleiri þúsundkalla á ári. Vona bara að heilbrigðiskerfið hafi notið aukaauranna minna en ég reyndi með hugarorkunni að senda þá á sem réttu staðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2022 | 16:09
Bergmál í ísskápnum og misskilin skápaþrif
Virðuleg frænka mín hringdi í mig og sagði mikla nauðsyn á því að ég hlustaði á dægurlagatexta stöku sinnum svo ég gerði mig ekki endalaust að fífli hér á blogginu. Hvað áttu við? spurði ég steini lostin. Þú sagðir í blogginu þínu í gær að rapparinn Eminem hvetti þig til að halda skápunum þínum fínum. Ja, ég hvet þig til að hlusta á textann við Cleaning out my closet(sjá mynd). Það fjallar ekki um skápaþrif, Gurrí mín. Horfðu líka á myndbandið við það, sagði hún ákveðin. Svo skiptumst við á fréttum en rétt í þann mund sem við ætluðum að kveðjast, sagði hún: Já, bara svo þú vitir það, Victoria Beckham borðar ekki gufusoðinn fisk í hvert mál, eins og þú sagðir nýlega, það er grillaður fiskur og gufusoðið grænmeti. Hafa staðreyndir á hreinu, mín undurfagra frænka!
Mun sko gæta mín á þessu, auðvitað, en veit samt alveg að bloggið mitt getur haft stórkostleg áhrif á líf fólks. Dæmi: Vinkona mín var nýlega í heimsókn hjá dóttur sinni sem bauð henni í Eldum rétt-mat. Og það vantaði ferska basilið í sósuna. Ahhh, kíktu betur inn í ísskáp, það gæti hafa komið í lausu, sagði móðirin, sem hafði lesið áhrifamikla færslu mína um basilið sem hvarf og mikið rétt, basilið fannst og maturinn heppnaðist fullkomlega, eins og minn á sínum tíma þótt ég hafi bara notað basil í duftformi, fann svo týnda basilið mitt síðar í ísskápnum og það var notað með tómötum og ferskum mozzarella-osti.
Nú vantar bara níu upp á að við séum 200 með smit á Skaganum (166 í sóttkví) og fréttir úr bænum af andláti berast nánast daglega. Kóvid-kortið segir 183 en löggan 191. Mér finnst hratt farið í afléttingar, skil að mörgu leyti hinn málstaðinn, sumir nenna þessu ekki lengur. Það er verið að segja gleðifréttir, tilkynna afléttingar dag eftir dag á meðan smitum fjölgar - og dauðsföllum. Ég ætla að halda áfram mínu annars frekar fábrotna lífi, búðir, Kaja kaffihús (reyndar lokað í dag vegna smits en opnar á mán.), fá vini í heimsókn og það allt, og læt mig hafa það ögn lengur að sleppa því að fara í sleik við ókunnuga. En þetta ástand líður undir lok fyrr en síðar. Dánartíðni á Íslandi (Stundin) er samt langlægst af Norðurlöndunum og víðar (takk, Þórólfur og co), eða 128 á hverja milljón, í Svíþjóð eru það 1.548, USA 2.711. Og þegar verið að líkja þessu við bara-flensu ... flensa getur nú verið slæm og árlega bólusett við henni. Ég fór tvisvar í flensubólusetningu í gamla daga, þá boðið upp á á vinnustað, fékk miklar aukaverkanir, man ég. Hvar voru mótmælendur þá?
Ég á ekki að blogga um covid, uppsker sem áhrifavaldur alltaf svo mikið hatur þegar ég geri það. Færri læk er auðvitað pjúra hatur, og nú þegar ég er komin upp í sjötta sæti aftur á hraðri leið í fyrirheitna-fimmta, verð ég að passa mig.
Heyri líka mömmu í huganum segja mér að hætta að bulla ... svo hér kemur alvaran: Nú þarf ég að herða upp hugann, skella mér í bomsurnar og hætta mér gangandi út í þetta hvíta landslag, bara út í Krambúð, hún er næst en yfir óhappamölina að fara, þaðan sem ég á blóðugar minningar af saumaskap í hné, og kaupa nokkrar nauðsynjar, það er farið að bergmála hátt í ísskápnum. Svo mikið var að gera í gær; í vinnunni, fá heilan smið í gluggavinnu og koma drengnum í helgardvölina að ég gleymdi að panta í Einarsbúð innan tiltekins tíma. Var búin að gera innkaupalista og allt. Ég á einn 1944-rétt, nokkra banana, kotasælu, útrunninn rjóma og frekar krumpað grænmeti. Get kannski gert veislumáltíð úr þessu, með glassúr? Kvöldmaturinn í gær var reyndar kotasæla og grænmeti plús síðustu eggin sem ég sauð í sjö mínútur. Gúrkan samt ekki nógu góð svo hún fór í ruslið.
Samt langar mig ekki í bíl. Strætó verður að duga en ókeypis innanbæjarbæjarstrætóinn keyrir bara virka daga - og skammarlegt að fara bara á næstu stoppistöð, ég yrði að haltra til að gera svo örstutta ferð þess virði að stoppa fyrir mér og hleypa mér út eftir eina mínútu. Það er stundum svo erfitt að vera gönguhatari.
Ég heyrði nýlega að heyrnarskerðing sem ég glími við og hef gert alla tíð og áður bloggað um, að geta nánast bara heyrt eitthvað eitt í einu, hafa misst alla sætu sénsana á Borginni og Gauknum í gamla daga, af því að ég heyrði ekki ástarjátningar þeirra fyrir tónlistinni (öskraði bara HA?) ... gæti verið eitt einkenni ADHD. Það væri spennandi að fara í heyrnarmælingu einhvern daginn því stundum heyri ég kannski bling úr símanum mínum þar sem hann er í hleðslu í herberginu mínu og ég inni í stofu, þótt enginn annar heyri það. Stutt er síðan einhver sagði við mig: Svakalega heyrirðu vel. Ég sit og hlusta stundum á tónlist við vinnuna (ekki á lægsta, ekki á hæsta) og ef drengurinn er kominn heim og reynir að segja mér eitthvað, kallar jafnvel hátt, heyri ég ekki orðaskil, verð að lækka alveg niður og biðja hann um að endurtaka. Mér finnst ekki sérlega líklegt að ég sé með ADHD (nema þá þetta eina einkenni) en þetta hafði ég aldrei heyrt áður. Bara aldurstengdar spælingar. Já, þrítugt og fertugt fólk fær alveg yfir sig aldursfordóma. Mun meiri en t.d. sextugt fólk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.7.): 1
- Sl. sólarhring: 29
- Sl. viku: 177
- Frá upphafi: 1529733
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 156
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni