Færsluflokkur: Bloggar

Áhrifarík listform og ómetanleg áhrif Jack Reacher á niðurpakk

3. feb 2022Íbúðin er verulega fín eftir að ég bar bunkann af útifötunum sem lá á gólfinu við fatahengið yfir á rúm drengsins svo væntanlegur smiður héldi ekki að það væri alltaf drasl. Stráksi sefur ekki þar um helgina en ... koma dagar, koma ráð, hugsaði ég. Eitt seinlegasta verkefni lífs míns bíður mín í tölvunni, að ég vinni það og klári um helgina svo það er harðbannað að koma með tillögur að einhverju á borð við þyrluferð til Hvammstanga að snæða gómsætan kvöldverð á Sjávarborg, hvað þá gönguferð upp á Akrafjall sem ég væri svo sannarlega til í ef ég væri ekki svona upptekin ...

Svo kom drengurinn heim kl. 16 og færði fatabunkann af rúmi sínu yfir á gólfið í kósíhorninu þannig að bunkinn er nú nánast á þröskuldi baðherbergisins þar sem þvottavélin stendur. Allt hjálpast svo að í lífinu. Heppin. Og smiðurinn farinn þá.  

 

Já, hirðsmiður minn mætti eftir hádegi og gerði eitthvað hviss bang-fljótlegt en flott, við opnanlegu gluggana sunnanmegin sem mæðir á í vondum vetrarveðrum, og nú lokast þeir svo svakalega fast að rigningin (?) sem kemur eftir helgi getur bara hoppað upp í rosalegu mánudagslægðina á sér. Samkvæmt heimildum mínum (yr.no) verður úrkoman frekar sem snjór en regn sem er ekki alveg víst, ég tek mest mark á sjónvarpsveðurfréttum RÚV.

 

Diddi hirðsmiðurDiddi kemur seinna og kíkir á litlu svaladyrnar, þarf fyrst að blikka blikkara og slíkt. Á meðan hann dvaldi hér í dag vann ég við tölvuna, pikkaði taktfast og róandi, þvottavélin mallaði og kettirnir möluðu á milli þess sem þeir (Krummi) reyndu ekki að knúsa hann, svo það er eiginlega ótrúlegt að hann hafi ekki sofnað hreinlega við vinnu sína. Sennilega stoppaði hann ekki nógu lengi til að rólegheitin svæfðu hann.

 

Þurrkarinn kláraði sitt svo áðan og ég lauk við að pakka niður. Sumir lýstu því yfir í morgun hvað þeir vildu frekar taka með fatakyns í Reykjadal svo það þurfti óvænt að þvo í dag. Tvær nætur er samt svo lítilvægt niðurpakkirí að ég er sallaróleg, mæting hjá honum ekki fyrr en kl. 19 í kvöld og hann er á leiðinni suður með dásamlegri manneskju.

 

Af og til á svona niðurpakk-stundum minnist ég þess þegar ég pakkaði niður fyrir þriggja vikna kórferðalagið 1985 og tók öll mín föt, ásamt lánsfötum, í þremur töskum, mamma lánaði mér smart töskusett - ekki á hjólum. Svo skelfileg uppgötvunin að vera með allar þessar töskur og bara tvær hendur. Svo þurfti auðvitað að kaupa gjafir handa öllum sem ég þekkti svo ekki léttust töskurnar. Eftir þetta ferðast ég eins og Jack Reacher. Með tannbursta og hreinar nærbuxur í vasanum, kaupi mér svo ný föt annað slagið og hendi þeim óhreinu í ruslakörfuna í mátunarklefanum.

 

 

ChagallBækur Lee Child hafa breytt lífi mínu á svo margan hátt. Ég lyfti lóðum til að geta kýlt þá sem þarf að kýla, eins og Reacher gerir, hef eflt til muna athyglisgáfuna, legg t.d. bílnúmer á minnið (sem er auðvelt) klæðaburð fólks og bara allt sem ég get í umhverfinu til að vera alltaf viðbúin sem vitni lögreglu - eða leysi málin bara sjálf ef eitthvað kemur upp, og ferðast ætíð létt, eins og áður hefur komið fram. Svona eru nú bókmenntirnar stórkostleg list sem breytir lífi manns, eins og myndlist, tónlist og það allt.

 

Til dæmis falleg verk listmálarans Chagalls af svífandi elskendum kenndu mér að ástin er bara frekar kúl og getur alveg enst, í sumum tilfellum. Og tónlist Eminem hefur heldur betur hvatt  mig til að taka skápana í gegn með reglulegu millibili.

 

Efsta myndin er tekin við eldhúsgluggann, sést í Akrafjall og Nýju blokkina. Lengst til vinstri grillir í gras sem ég er að rækta ...

 

Myndin fyrir miðju sýnir Didda smið laga gluggann í herbergi drengsins fyrr í dag. Það verður heldur betur spennandi að sjá hvort erfiði hans virkar gegn lægðinni sem á víst að herja á okkur aðfaranótt mánudagsins.

 

Neðsta myndin er af verki eftir Marc Chagall. Niels, gamall vinur frá Þýskalandi, sem kom einmitt með í kórferðalagið 1985, gaf mér mjög flott plakat, eftirprentum af verki Chagalls sem hann vissi að ég héldi mikið upp á. Hafði meira að segja keypt, þá skítblönk, tvö lítil málverk sem minntu á verk MC en voru eftir annan snilling, Jón Þór Gíslason, og fékk að borga þau með geymsluávísunum. Hef aldrei séð eftir þeim kaupum.  


Litrík og gerði heiminn betri

AnnaNú verður hin litríka og bráðskemmtilega Anna Kristine Magnúsdóttir jarðsungin í dag. Við hittumst ekki oft en þekktumst samt ágætlega sem kollegar og kisuvinir og vorum í góðu sambandi þegar elsti kötturinn, Keli af Kattholti, var ættleiddur hingað í Himnaríki. Ég hafði ekki almennilega áttað mig á því að hann ætti bróður/vin þarna, Sokka, en aðeins þeir tveir lifðu af þegar eitthvert ómennið fleygði poka með níu kettlingum í holu í Heiðmörk skömmu fyrir jól árið 2010. Keli og Sokki bjuggu síðan í Kattholti næstu átta mánuðina og var hjúkrað af alúð og ást til heilsu en Anna var formaður Kattavinafélagsins á þessum tíma. Sennilega hefðum við Einar tekið þá báða ef við hefðum áttað okkur strax. Sama dag og Keli kom til okkar tók Anna Kristine til sinna ráða varðandi Sokka og dóttir hennar, Lízella, tók hann að sér. Þegar við Einar áttuðum okkur var það orðið of seint, en elsku Krummi, miðköttur Himnaríkis, fékk þá sitt tækifæri í lífinu.

Þegar Einar dó 2018, sendu mæðgurnar afar fallegt og langt samúðarskeyti sem hlýjaði um hjartarætur. Falleg orð græða.

 

Ef það er líf eftir þetta líf vona ég að Anna Kristine geti horft að vild á Bold and the Beautiful, hún var svo ánægð þegar ég skellti söguþræðinum og ýmsum bollaleggingum um þættina, hingað á bloggið, en allt of sjaldan. Ég þakka elsku Önnu Kristine fyrir að hafa gert heiminn betri og skemmtilegri og votta ástvinum hennar mína dýpstu samúð. Kl. 15 í dag verður hægt að fylgjast með útför hennar í streymi í gegnum mbl.is/andlat/minningar/utfarastreymi.        


Tvífarar, læknasnobbsættfræði og áhrif fb-gríns um Trump

Tvær alveg einsSkammdegið hefur aldrei angrað mig, samt er ég ekki kertaljósatýpan (kannski vegna kattanna, held ég sé alveg rómantísk ...) og svo sef ég eins og skata á sumrin þótt gluggatjöldin séu ekki dregin fyrir og jafnvel glaðasólskin í herberginu. Sennilega er ég eins ekta Íslendingur og hægt er að vera - mér finnst bara krúttlegt þegar fólk birtir af sér myndir frá Spáni í sólinni og langar ekki neitt í hitann. Spurning um að biðja Kára að rannsaka þessi gen. Við erum reyndar nánast náskyld, sexmenningar úr Þingeyjarsýslu, ég frá Flatey, hann Hrísey eða Brettings-hvað þetta heitir allt, ég kom þangað síðast þegar ég var fimm ára. Annar þekktur læknir sem rífur kjaft á köflum, Óttar Guðmundsson, er enn skyldari, við erum fjórmenningar í gegnum mömmuætt föðurmegin, Helluvað, Rangárvöllum-ættina. Mamma var búin að monta sig af skyldleikanum, hún, hjúkkan, lifði og hrærðist í þessum sjúkrahússheimi alla sína tíð og veit auðvitað að læknar eru guðir, þess vegna montar maður sig af skyldleika við þá. Ég fer ekki á Íslendingabók nema ég sé skotin í einhverjum ... Gáði þó áðan að gamni, hvort Runólfur, hinn nýi forstjóri Landspítalans, væri skyldur mér - og jú, heldur betur, við erum í áttunda og níunda. Systkinin Árni Geirsfóstri Bjarnason (f. 1710) er forfaðir minn og Þorgerður Bjarnadóttir (f. 1712) formóðir hans. Læknar í fjölskyldunni fyrirfinnast því miður ekki nær en þetta, bara sálfræðingar, pípari, félagsráðgjafi, músíkþerapisti, leikari, tölvuséní, kvikmyndatökukona, rithöfundur og fangavörður, svo fátt sé talið. Hugsa sér hvað væri hentugt að hafa lækni, svona lækni sem gæti skrifað upp á vissar pillur til að flýta endanlegri för covid-keppsins - ef slíkar pillur eru til. Ég var með algjöran hardcore-antimedicine-heimilislækni í bænum í gamla daga. Eitt sinn heyrði ég af lyfi sem tæki af manni allan aukamör á örfáum vikum. Því miður var þetta þunglyndislyf svo læknirinn spurði hvort ég væri þunglynd ... ég neitaði því og fékk fyrirlestur um að ég væri ekkert of feit, bara heilbrigð ung kona sem ætti ekki að miða sig við Kate Moss. Myndin er af TVÍFARA, ekki tvíbura, mínum úr fyrra lífi. Þegar ég fékk áður fyrr spurninguna: „Ég kannast svo við þig, þekkjumst við?“ svaraði ég stundum: „Ja, margir rugla mér saman við Elísabetu Taylor, getur það verið?“ Af því að ég vissi ekkert hverju ég ætti að svara og feimni fékk mig stundum til að segja svakalega lélega brandara. En svo segir hirðvéfrétt mín að við ET (hehe) tengjumst svona líka sterkum böndum. 

FatahengisskotiðDiddi, sérlegur hirðsmiður Himnaaríkis, kom í gær til að skoða aðstæður áður en hann lagar gluggana tvo og litlusvaladyrnar. Fínustu gluggar, sagði hann, en xxxxxxxxx, tungumál smiða er eins og kínverska í mínum eyrum svo ég hef þetta eins vel eftir honum og ég get. Svo datt honum í hug að setja sérstakan kant (ekki rétt orð, skyggni kannski?) neðst á litlusvaladyrnar en á þeim mæðir stundum mikið, svalirnar snúa að algengustu roks- og rigningaráttinni hér, suðaustur. Himnaríki stendur við opið haf og ekkert skjól af Reykjanesskaganum ... Vil það frekar en ekkert útsýni.

 

Var pínku spæld yfir því að hann skyldi mæta með engum fyrirvara, allt í drasli og hann búinn að smíða allt svona fínt fyrir mig. Það er nánast aldrei drasl hjá mér eftir að ég losaði mig við helminginn af eigum mínum (2020). Ég var byrjuð að taka fatahengið (fyrrum þvottahús) aðeins í gegn áður en það yrði draslstaður heimilisins, og það lá (og liggur enn) fatahrúga á gólfinu eftir grisjun. Átakanleg myndin af fatahenginu sýnir þó ekki hrúguna sem væri þá neðst til vinstri og inniheldur; úlpu, regnkápu, trefla, gamlar úlpur, peysur og annað vesen. Kistan hægra megin undir glugganum er þó ekki smíðuð af Didda o.co, heldur af IKEA og sérútbúin til að hýsa hreinlætisaðstöðu kattanna. Snilld. 

En ekki nóg með þetta heldur voru eldhúsvaskurinn og bekkurinn sitt hvorum megin við með óhreint leirtaui kvöldsins og dagsins áður því ekki var búið að taka úr uppþvottavélinni ... ég var nefnilega hálflasin í rúman sólarhring, næstum tvo, hafði rétt orku til að vinna kl. 12-16 og elda kvöldmatinn, ekki meira en það. Held að ég hafi nánast klúðrað þriðjudags-laxinum með ferskum aspas vegna slappheita. Þetta var kunnugleg pest, hálfgert raddleysi (sexí viskí-svefnherbergisrödd), slappelsi og þreyta, sem ég fæ sirka annað, þriðja hvert ár og stendur í einn til tvo daga, svo ég fór ekki í covid-próf. Síðast þegar ég fékk aðra kunnuglega fékk ég einmitt neikvætt út úr PCR-prófi sem ég þorði ekki annað en að fara í, ásamt kvefuðum drengnum sem hefði ella og eðlilega ekki mátt mæta í skólann nema vera neikvæður. Nú er ég orðin alveg stálslegin.

 

Kannski varð smjörsósan ekki nógu góð (samt ágæt) af því að ég á ekki töfrasprota, notaði Phillips-handþeytarann, kaupár: c.a. 1980, en sísprækur. Alveg spurning um að kaupa sér samt græjuna, þetta var í annað sinn sem ég hefði þurft sprota, og svo væri líka gott að eiga kjöthitamæli. Ég hef farið mjög grimmt eftir c.a.-tímanum sem gefinn er upp og hann hefur alltaf verið góður. Mér er farið að líða svolítið eins og stjörnukokki. Hvað næst? Steypujárnspottur?

 

Vængjum blakaðEn varðandi covid ... sama hvað fólk æpir og öskrar um að þetta sé bara venjuleg skaðlaus flensa, sem það er auðvitað ekki, tek ég undir með einum fésbókarvini sem kærir sig ekki um að fá pestina, hann telur hafa verið ákveðið að nú væri tímabært að smita alla landsmenn, annað væri of mikið vesen. Hann vildi meina að þetta gæti tekið 4-6 vikur og fram að því ætlaði hann að haga sér eins og síðustu vikur og vona að hann sleppi. Ég er sama sinnis, ég er ekki hrædd, eins og kóvitar myndu fullyrða, bara kæri mig ekki um að fá kvikindið, ekki einu sinni svona þríbólusett.  

 

Í gær kom í ljós að borðtölvan mín, nýleg, virkaði ekki sem skyldi. Góða fólkið í Reykjadal var tilbúið til að leyfa mér að millifæra greiðslu fyrir helgardvöl drengsins af því að mér gekk ekkert að finna út úr þessu nýja og fína kerfi. Ég viðurkenni að ég var farin að finna fyrir beiskju og örlitlum vanmætti ... Svo datt út mikilvæg vinnumappa í einni af vinnunum mínum, og áður en ég leyfði mér að fá taugaáfall bað ég samstarfsfélaga að athuga hvort mappan væri á sínum stað. Jú, hún var það og þá ekkert að gera annað en að endurræsa tölvukvikindið mitt. Borðtölvu. Þá fór allt að sjást og án þess að tengja þetta við Reykjadal, ákvað ég að gera síðustu tilraunina til að komast inn og greiða. Þá var allt í einu allt komið í lag, einfalt og fljótlegt. Held að allir hafi haldið að ég væri orðin allt of gömul til að geta tileinkað mér nýjungar svo ég lét vita að allt væri greitt, þakkaði þeim þolinmæðina og sagði hver ástæðan var. Aldur skiptir ekki máli nema í ostaheiminum, segja fróðir.

 

Ég er svo hrædd um að ég hafi á einhvern hátt orðið til þess að Trump bauð sig fram til forseta. Eitthvað var ég að gantast á fésbókinni fyrir níu árum um glæsta og yfirþyrmandi brúðkaupstertu hans (Sjá mynd nr. 3).

 

Mögulega er ég fiðrildið sem blakaði vængjunum (hafa ekki allir séð þá bíómynd?) svo úr varð fellibylurinn Trump? Gæti það ekki alveg verið? Ég er nú einu sinni áhrifavaldur í bloggheimum þótt ég hafi á einhvern óskiljanlegan og fáránlegan h átt hrapað niður í sjöunda sæti í gær, eins og mamma sagði mér í morgunspjallinu okkar.

 

Minn tími mun koma ... aftur.    


Ástir og ananas, nýr Royal-búðingur og fleira konunglegt

Nýr búðingurMargt í gangi núna, fréttir dagsins tengjast vissulega margar covid: mörg smit á Eir, Hrafnhidur og Bubbi smituð, forsetasonur einnig með covid, fleiri að draga tónlist sína úr Spotify-veitunni og Harry og Meghan hafa biðlað til Spotify um að halda í hemilinn á Rogan, og allt í þessum dúr. Það allra mest spennandi er að nýr Royal-búðingur hefur litið dagsins ljós. Einhver framsýn/n hjá Royal hóf samstarf við Nóa Síríus og til varð nýi búðingurinn. Síríuslengju- og lakkrísbúðingur. Royal hefur verið nánast óbreytt áratugum saman - en svo fóru að koma nýjar sortir eins og Bananasplitt og saltkaramellu. (Ég fylgist með fréttum en allt of sjaldan búðingur í eftirmat, sem gæti þó breyst núna). Dæmigert samt að þetta komi núna þegar ég er í sykurbindindi en ég bíð spennt eftir því að Tinna Royal ríði á vaðið og smakki. Hún er mesta Royal-kona sem ég þekki og henni að þakka að ég á lítinn Royal- búðingspakka sem jólakúlu.

 

BeckhamÉg sá grein í gær um mistök sem hafa orðið á konunglegum viðburðum í Bretlandi við hin ýmsu tækifæri, virkaði spennandi. Eins og að David Beckham hafi mætt í konunglegt brúðkaup með orðuna sem drottning sæmdi hann á sínum tíma, nælda í jakkann - en hægra megin þegar hið rétta var að hafa hana vinstra megin. Glöggir fjölmiðlamenn með alla hirðsiði á hreinu bentu honum á þetta og þegar myndir voru teknar af David í sjálfri athöfninni var allt komið í lag. Tek það fram að þetta var í Hello-blaðinu breska, á netinu, en ekki sem frétt. Mér fannst þetta samt svo hræðilega drepleiðinlegt að ég nennti ekki að lesa greinina til enda. Skyldi hafa verið rangur litur í brúðarvendi þeirrar sem var að gifta sig? Einhver í brúnum sokkum, ekki fjólubláum? Það hlýtur að hafa verið til eitthvað meira krassandi ... David sagði reyndar frá því að Victoria, konan hans, hafi síðustu 25 ár borðað það sama í kvöldmatinn, gufusoðinn fisk með grænmeti, engin sósa, engar mjólkurvörur, ekkert kjöt. Þegar hún gekk með dóttur þeirra hafi hún rænt sér bita af diski Davids (óléttugræðgi) og það hafi verið ein hamingjuríkasta stund lífs hans. Hversu leiðinlegt er þetta hjónaband? Myndin af honum var tekin í brúðkaupi Katrínar og Vilhjálms og þá var Victoria komin átta mánuði á leið. Hún var sípissandi eins og aðrar óléttar konur og svo vel var hugsað um hana að hún sat á bekk þar sem hún sá vel brúðhjónin og bara fimm skref á klósettið, ef hún þyrfti. Svona fréttir finnur maður þegar gúglað er eftir myndum. 

 

Ástir og ananasFyrir níu árum upp á dag spurði ég vini mína á fésbók hvort þeir myndum eftir sérstökum og skemmtilegum þýðingum á erlendum heitum bíómynda (stundum út í hött). 

Ég nefndi sjálf myndina Super8 sem hét í íslenskri þýðingu: Leyndarmálið í lestinni. Jú, það komu nokkur skemmtileg dæmi, eins og Elvis Prestle-myndin Blue Hawaii sem hét Ástir og ananas. The Fisher King hét einfaldlega Bilun í beinni útsendingu (frábær mynd). Lethal Weapon: Tveir á toppnum og Die Hard: Á tæpasta vaði - en einhver vildi meina að tvær myndir hefðu gengið í bíóhúsum undir því nafni á sama tíma.

 

Skyldi Blue Hawaii (1961) vera bíómyndin sem ég sá mjög ung að árum, eina atriðið sem festist í minni mínu var reið ung stúlka sem barði baðströndina með handklæði sínu vegna einhverra vonbrigða. Ég man bara að mér fannst mjög gaman þótt ég skildi hvorki upp né niður. Það verður því nostalgíusjokk ef ég sé þetta atriði aftur einhvern tíma. Verst að ég er ekkert sérlega mikið fyrir gamlar myndir. 


Sættir, skjálfti og sjokkerandi bloggfall

Akranes í framtíðinniVið systur sættumst heilum sáttum í gær. Þegar hún sagði: „Það er bara vetrarríki á Akranesi,“ heyrði ég það ekki rétt því í rauninni sagði hún: Þú lítur sérdeilis vel út, kæra systir, eins og sumarrós.“ Sem er auðvitað allt annað. Kettirnir tóku undir þetta með Hildu, ég veit samt ekki hvort ég get treyst því, hún gefur þeim alltaf eitthvað dót eða kisunammi í jólagjöf og það kunna þeir að meta. Eftir að Helga Möller (ekki söngkona) kom í heimsókn um árið með rækjur og fleira góðgæti handa þeim, fá þeir alltaf unaðshroll þegar frænka hennar (HM) syngur í útvarpinu. Þarf ekki meira til.

 

Myndin er tekin fram í tímann og sýnir þá þróun sem verður á Akranesi, aðeins of mikill gróður (geitungar) fyrir minn smekk, en mér líst vel á.

 

Rúmið mitt hristist aðeins í gærkvöldi þar sem ég lá og las nýjustu bókina um Veru Stanhope, Lengsta nóttin, ósköp notalegt bara, ég neitaði þeirri hugsun sem upp kom að þetta væri jarðskjálfti, einhver kötturinn að búa sig undir að stökkva upp í eða eitthvað. Onei, þetta var jarðskjálfti en hinum megin frá, Borgarfjarðarskjálfti, sá stærsti í áratugi. Ég nötra svolítið af ánægju yfir að hafa fundið rúmið rugga. Verst að eiga ekki og eignast ekki barnabörn til að geta sagt þeim frá þessu. Ég yrði pottþétt montin amma, „ja, sko hún amma ykkar sá gosið 2021 vel út um gluggana hjá sér .... fann stóra skjálftann 2000 og svo aftur 2008, hryllingsskjálftana í undanfara gossins - og lifði af kórónuveiruna (vonandi), börnin góð. Eina sem ég hræddist var að hætta að finna bragð af kaffinu mínu, dúllurnar mínar. Svona getur maður nú verið sjálfhverfur, ekki vera eins og amma!“

 

Mamma er ekki sérlega sátt við mig, finnst ég ekki taka bloggun mína nógu alvarlega, ég hafi sleppt því að blogga í gær sem gæti þýtt að ég ætti mjög erfitt með að endurheimta fimmta sætið. Já, ég féll í gær eða fyrradag úr draumasætinu á topp fimm niður í sjötta, sagði hún mér. Þetta voru tveir sigurdagar sem ég hélt upp á með ýmsum hætti. Eins manns skrúðgangan inn í eldhús að sækja meira kaffi á meðan ég söng ættjarðarlög, verður lengi í minnum höfð en sykurbindindið kom í veg fyrir tertubakstur.

 

MexíkóýsaÍ gær eldaði ég mexíkóska ýsu með hrísgrjónum og salati (úr tómötum, oggu rauðlauk og þarna kryddjurtin, yfir fór: olía, salt og límónukreist, ekki flóknara). Þvílík dýrð að fá þetta svona næstum tilbúið og bæði gott og hollt. Í kvöld hef ég laxinn og mun þá læra að gera aspasinn, mögulega smjörsósu líka ef hún fylgir ekki með. Stráksi fer sennilega í helgardvöl í Reykjadal ef ég finn út úr flækjustiginu við að borga í nýja og voða sniðuga kerfinu/appinu sem neitar að taka netfangið mitt gilt. Í gær var mér skapi næst að afpanta vegna ómöguleikans (orð: Bjarni Ben) við að greiða. En þá yrðu sumir nú frekar hryggir. Vona það besta, fyrir föstudag. Ég er svolítið fórnarlamb of mikillar aðstoðar í gegnum tíðina, fyrst sonur minn, svo Davíð frændi sem ég þrái stundum að flytji upp á Akranes. Um leið og ég læri hlutina er ekkert mál að gera þá en klaufaskapurinn felst kannski í því að vera rög við að fikta mig áfram og kunna nógu mikið í ensku til að lesa Stephen King en ekki nóg fyrir svona ævintýri.

 

Ef fólk heldur að allt sé brjálað í hundaræktarheiminum, Spotify-brjálæðinu (Young - Rogan) sem tengist bólusettir vs óbólusettir, ætti það að skoða hannyrðaheiminn þar sem allt logar annað slagið. „Hér má ekki setja inn uppskriftir, nei, heldur ekki ókeypis uppskriftir. Hættið að segja: Hér er peysa sem var að detta af prjónunum, maður segir ekki svona.“ (1.000 athugasemdir, alla vega) Og svo koma líka stundum óttablandnar afsökunarbeiðnir á borð við: „Ég biðst innilega forláts á að setja heklverkefni inn á prjónasíðuna.“ Sú beiðni vakti reyndar mikla lukku (af því að konan sú kann að búa til sítrónufrómas?) og ein svaraði: „Ég setti einu sinni mynd af systur minni inn á Pottablóm.“ Ekki fylgdi sögunni hvort sú var gerð brottræk úr blómahópnum.  


Veðurrígur og sérlegt sólskinssalat

Á áttunda áratug síðustu aldarStríð okkar systra hefur nú magnast og er komið í hæstu hæðir, ég segi hæstu af því að það tengist veðri og veður er mér jafnheilagt og tölur. Þegar hún kom í gær sem gestur til mín, sagði hún: „Það er nú bara vetrarríki á Akranesi. En nánast sumarveður í Kópavogi.“

 

Mér þótti þetta mjög skrítið af því að Akranesbær er sagður einn snjóléttasti bær landsins, og varð eiginlega ekki reið fyrr en í dag þegar ég skildi alvöru málsins. Maður djókar ekki með veður. Myndin hér (efsta, nr. 1), rammstolin frá vissu mjög huggulegu ljósmyndasafni en af mikilvægu tilefni, var tekin á níunda áratug síðustu aldar, fyrir bráðum 40 árum, þegar síðast snjóaði eitthvað að ráði hér í bæ. Sennilega tekin á Innnesvegi, flottu einbýlishús Grundahverfis til hægri en sjórinn og Höfði (hvenær kom Höfði?) til vinstri. Bærinn er óþekkjanlegur, var allt öðruvísi fyrir 40 árum og svo erum við óvön snjó hérna.

 

Allt á kafi í bænumSnjóléttur - ekki af því að snjórinn fjúki allur á brott (bannað að rugla okkur saman við Kjalarnes í austanátt þar sem Esjan (fjall) magnar upp vind) heldur erum við það æðisleg að snjórinn vill frekar hanga á leiðinlegum stöðum eins og mögulega Kópavogi án þess að ég ætli nokkuð að dissa þann ágæta bæ þar sem ég þekki margt gott fólk. Ekki allt vissulega.

 

Myndin hreyfða (nr. 2) er tekin í dag upp á líf og dauða, og sýnir að það er allt á kafi í snjó á höfuðborgarsvæðinu, myndina tók Brynja, sérleg veður-heimildakona Himnaríkis, á hlaupum undan útsendurum vissrar manneskju.

 

Ég var vissulega svolítið miður mín yfir atlögu systur minnar í garð gamla heimabæjarins hennar en það rifjaðist upp fyrir mér hvað hún var mikill villingur hér. Árgangsmót jafnaldra hennar eru iðulega haldin á Raufarhöfn þar sem hún er í ævilöngu banni, 100 km nálgunarbanni sem er víst heimsmet. Þess má geta að svokallað vetrarríki sem henni var svo tíðrætt um var afskaplega lítilfjörlegt og hvarf fljótlega eftir að hún fór. En systir hennar gæti átt snappvinkonu sem snappaði frá ofboðslega miklum snjó á höfuðborgarsvæðinu í dag ... þegar minn snjór í gær var í kringum 3 mm og skaflarnir kannski einn sentimetri á hæð! Ég bara veit ekki hvað ég hef gert henni, nema borga ísinn ofan í hana í gær.

 

Akranes snjóléttur bærSólskin ríkti hér á Akranesi í dag og af því tilefni bjó ég til sannkallað sólskinssalat - litríkt og rosalega gott. Kjúklingur í því og alls konar grænmeti, ég meira að segja hrærði í voða góða hvítlaukssósu með því. Lystargóði unglingurinn á heimilinu sagði ekkert en hann fékk sér ekki aftur á diskinn. Eins og honum fyndist þetta ekki matur - samt var kjúklingur þarna, egg, tómatar, ostbitar, paprikur, agúrkur, basil og alls konar krydd, og olía.

„Þú hefur ekkert ætlað að vera með nautakjöt í kvöld? Eða læri eða hrygg, eitthvað þannig?“ spurði hann.

„Nei,“ sagði ég, „það var nautakjöt á föstudaginn, frá Eldum rétt, nú borðum við sólskinssalat af því að það er ALLTAF svo gott veður á Akranesi! Ekki síst í dag.“

„En manstu, það kom hrí-“

„Uss, það var sól. Ætlar þú að fá vasapeningana þína á eftir eða bara bulla eitthvað meira?“

„Já, frú Guðríður, yðar hátign, eins og þér segið.“

 

 

Mynd 3 var tekin á Akranesi í dag - í svokallaðri gulri veðurviðvörun. I rest my case. Afsakið óhreina glugga.

 

SólskinssalatiðAfgangurinn af sólskinssalatinu dugir handa mér í hádeginu á morgun og svo kemur eitthvað gott frá Eldum rétt um miðjan dag - sennilega lax með ferskum aspas annað kvöld, pantaði það af því að ég kann ekki að elda ferskan aspas og langar til að læra það - en mér hefur farið þvílíkt fram í helgareldamennskunni síðan þessi E.R.-hátíð hófst þrjá virka daga í viku.

 

 

Og ég er ekki frá því að eilíf sedda eftir kvöldmat hafi orðið til þess að ég sæki ekki í eitthvað sætt - og covid-keppurinn hefur minnkað þónokkuð. Ég MUN komast í kjólinn - fyrir bolludaginn!

 

Mynd 4 sýnir sjálft sólskinssalatið.


So long Spotify og ... systraslagur

SítrónufrómasUndur og stórmerki í Himnaríki í dag. Það var frekar hreint ansi mikið draslaralegt, vaskur fullur, endurvinnslupoki troðfullur, pappakassar í fatahenginu (kassar frá Einarsbúð, Eldum rétt) en hafði hugsað mér að fara að grisja eitthvað ... en svo bara vildi ég allt út. Meira að segja örbylgjuofninn sem ég nota nánast ekkert fær nýtt líf einhvers staðar. Verð að taka mynd af herlegheitunum þegar ég verð búin. Fullt af aukafatnaði leyndist í fatahenginu og nú er stór fatahrúga á gólfinu sem þarf að deila á herbergisskápa eftir þvott eða viðr. Uppþvottavélin mallaði, allt orðið svo miklu fínna - en eitthvað var skrítið. Loks áttaði ég mig, það var KAFFIÐ. Þetta var sennilega klukkutíma eftir vakn og ekkert koffín komið á tankinn. Það var þarna sem ég áttaði mig á að ég var ekki háð áhrifum kaffis, heldur bragðinu, athöfninni að búa til kaffi, dreypa svo á og njóta.

 

Sá að mikil uppáhaldssöngkona og gömul samstarfskona, kann að búa til sítrónufrómas. Ég hef verið djúpt hugsi síðan, löngu hætt að nenna að bíða eftir fullkomnum karli (55-65 ára) sem kann listina við það. Hún harðgift kona og ég harðgagnkynhneigð. Ferlega getur lífið stundum verið flókið. Hún bjó til hvíta rúllutertu sem hún raðaði í mót, fyllti það síðan með dýrðinni. (Efsta hæðin á fermingartertu Míu systur var einmitt svona fyllt rúlluterta). Ég rændi myndinni af fb-síðu hennar - en þrátt fyrir að vera virkilega mikið fyrir strákana, gæti ég alveg hugsað mér að giftast Þuríði Sigurðardóttur, söng- og myndlistarkonu, hún er svo brjálæðislega skemmtileg líka. Svei mér þá. Hún gæti mín vegna dinglast með karlinum sínum og hestunum og trönum plús penslum, og sungið að vild, en ég fengi alltaf frómas hjá henni og léti hana í friði þess á milli. Fullkomið, held ég. Myndin hér að ofan sýnir meiri rúllutertu, minni frómas en reyndin er samt önnur ef myndin hefur prentast vel.

 

Crosby stills nash ...Ég ætla að feta í fótspor Davíðs frænda og Neil Young og yfirgefa Spotify-tónlistarveituna. Davíð hefur mælt hástöfum með YouTube í staðinn. Ef Spotify telur sig græða meira á hættulegum öfga-hlaðvarpsmanni en Young, getur Spotify bara hoppað upp í kolröngu ákvörðunina á sér. Davíð vildi meina að YouTube læsi hugsanir, eða hefði nokkuð góða mynd af tónlistarsmekk manns svo þegar ég verð komin yfir fæ ég eflaust ýmsar spennandi tillögur og upprifjanir á því ég hef hlustað á í gegnum tíðina. Dríf í þessu þegar Davíð kemur næst, bið hann um að kenna mér á þetta. Annars fiktaði ég mig bara áfram með Spotify á sínum tíma, geri það kannski bara ...

 

 

Systir mín, nánast jafnaldra, mætti á Skagann í dag, bara til að tilkynna mér að hún hefði verið áskrifandi að Vikunni árið 2000 og hefði fengið 48. tbl., kökublaðið, og lesið bls. 46, og hefði fyrir það, löngu verið búin að átta sig á að NNGG-tertan væri bara venjuleg peruterta. Olli það henni áfalli? Nei. En ég trúi henni samt ekki. Það er svo auðvelt að bera sig vel og berja svo stofupúða í einrúmi. Púðar Hildu eru frekar velktir sem ýtir undir að þær vangaveltur mínar séu réttar. En harðjaxlinn Hilda, eins og hún vill eflaust láta kalla sig, var til í að koma í ísbíltúr í Frystihúsið eftir að hafa farið í gönguferð með Herkúles og Golíat (hans Davíðs) og þar var pantaður sérlega himneskur ís. Ég er enn með sykur á viðbjóðslista mínum (með hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum, ásamt sviðum) og þarna fæst besti sykurlausi ís landsins, tel ég afar líklegt. Svo kom babb í bátinn. „Ég borga auðvitað, væna mín,“ sagði ég mynduglega og klappaði henni vingjarnlega á kollinn. Ég er 1,70 m (á hæð)og hún bara 1.65 m og að auki er ég oggulítið eldri, ásamt því að vera mun í flottari blóðflokki (A+). „Hættu þessu yfirlæti og hroka,“ svaraði litlasystir með derring og það var eins og við manninn mælt, hún náði einhvern veginn að skutla greiðslukorti sínu á ljóshraða yfir afgreiðsluborðið, ég reyndi að mótmæla og bjóða þjórfé en stúlkan ljúfa heyrði ekki orð því ég var með hnéð á Hildu uppi í mér. Mér tókst með naumindum að losa mig, stökkva yfir borðið og rétt ná korti Hildu af stúlkunni og setja mitt í staðinn. Þetta kostaði okkur enn eitt lífstíðarbannið í Frystihúsinu. Sumir laugardagar ...


Örlagarík játning og vonbrigðin tækluð

Með Gumma bróJæja, ekki náðist fimmta sætið þótt litlu hafi munað, er frekar svekkt en samt rosalega hreykin af elsku frábæru strákunum okkar. Aðalstuðningskona liðsins, hún mamma hringdi skömmu eftir leikinn, aftur og nýbúin, og nú með játningu sem var þó ekki alveg ný af nálinni.

 

Mamma: „Manstu, Gurrí, eftir tertunni góðu Nammi, nammi, gott, gott sem ég bakaði stundum þegar þið voruð lítil?“

Ég: „Já, heldur betur, bestu tertu í heimi, ljósið í myrkrinu.“

Mamma: „Sko, ég hringdi eiginlega út af því. Í dag náði síðasta barnið mitt þeim áfanga að verða almennilega fullorðið. Hann Guðmundur, bróðir þinn.“ (sjá mynd af okkur Guðmundi, hann er til hægri) 

Ég: „Einmitt, til hamingju með soninn.“

Mamma: „Takk, elskan. En nú, og bara núna treysti ég mér til að játa fyrir ykkur að þessi terta er bara venjuleg peruterta þótt ég hafi aldrei nennt að gera döðlusultuna sem átti að vera undir perunum og frúmasinum.“ 

Ég: „Aftur? Þú sagðir frá þessu í kökublaði Vikunnar, 45. tbl. árið 2000, þessi fína mynd af þér.“ 

Mamma: „Já, var ég búin að því? Þú varst að vinna hjá Vikunni þá, alveg rétt.“

Ég: „Ég tók viðtalið við þig og var í sjokki lengi á eftir. Viltu sem sagt í alvöru að ég segi systkinum mínum nærgætnislega frá þessu?“

Mamma: „Nei, nei, alls ekki nærgætni, þau eru orðin alveg nógu gömul til að heyra sannleikann og láta sennilega ekki eins og bestíur þótt þú skellir þessu á þau. Lífið er ekki dans á rósum, eins og ég hef alltaf sagt. (Smáhik) Þótt þú hafir til dæmis náð á topp fimm á Moggaglogginu í gær er ekkert garantí fyrir því að þú hrapir ekki hratt niður í það sjötta á morgun. Það þarf ekki annað en spennandi lægð eða kröftuga hríð eða lágan loftþrýsting, eða hvað þetta allt heitir, sem Trausti bloggar um, hann nartar í hælana á þér þótt hann bloggi ekki sérlega oft.“ 

 

Mútta og leynitertanSímtalið varð ekki mikið lengra en ég humma það sennilega fram af mér að blaðra þessu í systkini mín. Ef mamma treysti okkur ekki til að vita þetta fyrr en við urðum síðmiðaldra má það kannski bíða ögn lengur, eða bara miklu lengur. Þetta, að hafa vitað þetta, gerði mig reyndar sterkari og vitrari, ég þroskaðist mjög hratt sem gerði mér auðveldara fyrir að geta tæklað það þegar lífsins vonbrigði sviptust reglulega inn í líf mitt, ástarsorgir, blankheit, að heimili mitt til 18 ára við Hringbraut teldist vera í 107 Reykjavík allan tímann - og svo var ég ekki fyrr flutt á Skagann en húsið sett í 101 Reykjavík ... ekki bara það, heldur kom fínasta kaffihús á næsta horn (Kaffi Vest) sem vantaði öll árin mín þarna. Bara tvö dæmi af tvö þúsund milljónum sem ég hef hrist léttilega af mér eins og óværu - bara af því að játning mömmu hafði hert mig þarna í nóvember árið 2000.

 

Þetta yrði nánast jafnhræðilegt og að segja systkinum mínum að þau hefðu verið ættleidd. Sem væri sennilega auðveldara af því að mamma er í O-blóðflokki en við í A-plús, A-mínus og B-plús sem er strax mjög grunsamlegt. Ég er A plús!

 

Þetta voru hugleiðingar föstudagsins sem bara hálftími er eftir af, yfir og út, elskurnar.

  


Fimmmenningarnir flottu og fimmta sætið

AlþingishúsiðÉg hef nákvæmlega ekkert á móti Dönum þegar kemur að íþróttum (nema óvináttulandsleikurinn í fótbolta 1967, 14-2), og held að einhver hjá Hagkaupum hafi notað tækifærið til að fremja gott grín þegar Dönskum dögum var frestað. Frekar ótrúlegt að stórlið tapi viljandi bara til að spæla okkur. Vissulega svekkt yfir úrslitunum en þetta er samt bara leikur ... og miðað við að hafa misst alla þessa leikmenn í smit og ná samt að spila um fimmta sætið er ekkert annað en stórkostlegt. Ekki skemma menningarverðmæti í þjóðrembukasti! (Mynd: Hjálmtýr Heiðdal) 

 

Sá að einhver hefur áhyggjur af því að við höfum tekið Trump á covidið, minna um sýnatökur - minna um covid. Geri mér enga grein fyrir því, hef aldrei, í þessi tvö ár, upplifað mig ófrjálsa eða hefta. Það segir kannski meira um lífsstíl minn og kröfur til lífsins en ég má líka tala, það er skrítið að sjá fólk segja að ALLIR séu að deyja úr þunglyndi yfir öllum þessum takmörkunum. Ekki ég. En einhverjir alveg örugglega.  

 

ÞríkattaðNú eru gluggar Himnaríkis orðnir hvítir og fallegir - vantar bara smiðina til að stilla betur opnanlegu gluggana tvo sem leka, svo þeir lokist betur. Þá held ég að Himnaríki geti ekki orðið fullkomnara, og nei, ég vil ekki lyftu, það er fínt að fá þessa hreyfingu. Ég flyt þegar það verður erfitt. Lalli málari á mikinn aðdáanda í Krumma (svarti og hvíti, Keli fjær, Mosi nær) sem gladdist ákaflega að sjá hann og þegar við Lalli settumst yfir kaffibolla í 5 mínútur lenti hann í hálfgerðri ástreitni af völdum Krumma. Enn eru, ef ég man það rétt, bara Inga og Lalli, fyrir utan mig, sem Krummi hefur stokkið upp á axlir á, sem er sérstakt ástarmerki Krumma. Inga er sjúkraþjálfari og þegar hún klappar honum veitir hún honum kannski óafvitandi nudd sem hann kann að meta. Inga hefur aldrei klappað mér svo þetta er bara gisk.

 

Mesta gleðifréttin í gær (seinnipartinn) var að tíkin Píla frá Bolungarvík skyldi finnast á lífi. Hún fældist við flugeldaskot á þrettándanum. Sást á lífi uppi í fjalli og þrjár björgunarsveitir tóku saman höndum og björguðu henni í gær. Ég er orðin svo væmin með aldrinum að ég fékk mörg kusk í augun. Hundar eru svo dásamlegir, þótt ég treysti mér ekki til að vera með hund uppi á 3,5. hæð.

 

Svona í lokin ... mamma hringdi í mig í morgun, ofsaspennt og hreykin, til að tilkynna mér að ég hefði loks náð markmiði mínu að komast á topp 5 á blogginu. Ekki hálfdrættingur á við þessa fjóra fyrir ofan mig, bætti hún við, en ég mætti vera stolt þótt ég bullaði yfirleitt allt of mikið, fyrir hennar smekk. Bíði fjórmenningarnir bara ...    


Hneykslið 1987, basilið sem fannst og beinskeytt spurningaflóð

Með Gumma bróðurÞegar ég teygði mig inn í ísskáp eftir þriðjudagsskammti Eldum rétt í gær fylgdi búnt af basil-laufum með ... the lost basil úr rétti mánudagsins. Ég hafði leitað alls staðar annars staðar en í ísskápnum. Þótt ég efist um að Eldum rétt fylgist með bloggi mínu, sendi ég þeim samt rafrænan fingurkoss. Það hefur ekkert klikkað hjá þeim fram að þessu. Kjúklingarétturinn í gær sló öll met í bragðgæðum, án þess þó að uppskriftir gæfu almennilega upp hvað lægi að baki. Út í sætkartöflustöppuna fór smjörklípa og smávegis meðfylgjandi síróp, hún var mjög góð! Svo fór dularfullt gums út í hitaðan rjóma og úr varð ein besta sósa lífs míns.

 

Myndin, efri: Akranes á afmæli í dag, fékk kaupstaðarréttindi þennan dag árið 1942. Tuttugu árum og tveimur dögum seinna kom fallegur drengur í heiminn á Sjúkrahúsi Akraness, yngsta barn af fjórum og eini strákurinn. Hann lærði til leikara árum síðar og varð þekktur sem faðir Benjamíns dúfu í samnefndri kvikmynd. Í myndinni giftur Elvu Ósk leikkonu sem vann með mér á Stjörnunni, útvarpsstöð sem, ef ég er ekki að rugla, breyttist löngu seinna í Útvarp Sögu sem frænka mín frá Flatey á Skjálfanda rekur. Jiminn, hvað heimurinn er lítill. En myndin er af mér og pabba Benjamíns dúfu, Guðmundi Haraldssyni, sem vill svo skemmtilega til að er einnig skyldur Arnþrúði á Sögu. Myndin er úr myndasafninu Gurrí og fræga fólkið.  

 

Kannski er ég lukkudýr íslensks handbolta því liðið okkar sigraði með tíu marka mun í fyrsta leiknum sem ég þorði að horfa á. Segi nú svona í gríni, hef enga trú á því að það breyti nokkru hver horfir eða horfir ekki. Ætla samt að glápa harkalega á Danaleikinn. Sigur eða handritin öll heim, takk!

 

Alltaf af og til berast blogginu beinskeyttar spurningar sem mér er bæði ljúft og skylt að svara, það var eitt af því fyrsta sem ég lærði að ætti að gera í áhrifavaldaskólanum um árið:

Spurt og svaraðHvernig ferðu að því að vera svona æðisleg? Ja, ég hef lesið svolítið um jóga, svo er 42 hálfgerð happatala mín.

Fylgist þú með handboltanum? Já, auðvitað, ég er hvorki landráðakona né föðurlandssvikari! Ég horfði á sigurleik okkar í dag og svo ætla ég að horfa á Danaleikinn í kvöld, að sjálfsögðu.

Hvernig finnst þér Verbúðin? Sá bara síðasta þátt, of lítil verbúð, of mikið drama, svik og spilling sem er mun meira og allt öðruvísi en ég man eftir frá eigin verbúðarárum. Bjó í verbúð í Grindavík sumarið sem ég var 14 að verða 15. Einn eða tveir misstu fingur þetta sumar, eitthvað var um dóp, meira um drykkju og kona nokkur sem síðar kom örstutt inn í líf mitt aftur, þá sem virðulegur stjóri, sagði eitt sinn við okkur nokkrar sem voru að kjafta saman inni í herberginu hennar: „Jæja, drullið ykkur út úr herberginu, við X erum að fara að r-!“ Sumir töluðu vissulega tæpitungulaust en ég er enn hneyksluð og hef aldrei litið þessa konu, þá 17 ára, réttu augu. Var þó orðin ögn lífsreyndari næsta ár þegar ég fór á verbúð Ísfélagsins í Eyjum. Man ekki eftir slysum þar en miklu djammi og því auðvitað að Shady Owens vann þarna til að hún kæmist heim til London. Það var þá sem ég uppgötvaði að frægar poppstjörnur væru ekki endilega ríkar sem ég hafði haldið að fylgdi. Við pældum voða lítið í fólkinu sem átti frystihúsið, ráðherrum eða slíku.

Hvernig var líf þitt þegar þú varst lítil og falleg stúlka? Alveg hræðilegt. Ég held stundum að sögurnar um Oliver Twist og Öskubusku hafi verið byggðar á bernsku minni. Ósveigjanlegar reglur bókasafnsins um fjölda bóka sem þá mátti taka. Að fá ekki að eiga kött. Þverskorin ýsa daglega, hreinsa sjálf og skræla kartöflurnar. Að fá ekki að segja orð á meðan pabbi hlustaði á kvöldfréttirnar 22. nóvember 1963. Algjör skortur á skutli. Engin ferðalög eftir að pabbi flutti í bæinn 1965. Að haltra heim eftir leikfimi og sund með frosið hárið. Klippingin (drengjakollur). Barnaskólinn (allt í gráma og gleymsku, það skemmtilegasta og það eina sem rauf tilbreyingarleysið öll þessi ár var þegar Gídeon-menn komu í heimsókn, og kennarinn alltaf að líta á úrið á meðan). Þetta er stutta útgáfan.

Ertu bara alveg hætt að spá í stráka? Já. Fyrir lifandis löngu. Einu sinni skólastrákar, svo kennararnir ... núna bara afarnir.

Ertu með málverk uppi á lofti hjá þér? Hvað áttu við?

Svona Dorian Gray-málverk, þú lítur svo rosalega vel út. Ahh, nei, ekkert slíkt, bara skortur á sólböðum, hafa loks hætt að reykja og nota Fjólu-dagkrem daglega gerir gæfumuninn.

 

Neðri myndin: Tæki og tól fyrir spurt og svarað á blogginu;  tölva, google.is, alfræðiorðabók í þremur bindum.

 

Þakka ykkur kærlega fyrir góðar spurningar, elsku bloggvinir nær og fjær. Það komu auðvitað spurningar frá bíræfnum blogg-óvinum líka, eins og: 

Hvernig ferðu að því að vera svona ömurleg? eða Því heldur þú því leyndu að í þínu bjánalega kjördæmi varð hneyksli árið 1987 þegar nokkur atkvæði "týndust"? Svaraðu því, kosningasvindlarinn þinn!

 

 

Já, líf okkar áhrifavalda er sannarlega ekki alltaf eintómur dans á dekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 176
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 155
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband