Færsluflokkur: Bloggar

Að dirfast að flauta ...

SpartlaðKunnuglegt spartlhljóð (2020) berst frá baðinu í þessum skrifuðum orðum, og jú, elskan hann Lalli er að gera allt fínt eftir gluggaskiptin í fyrra. Hann kíkti líka á leku gluggana og vildi meina að þeir lokuðust ekki nógu vel sem væri eina vandamálið. Tékkaði á Didda og co (hirðsmiðir Himnaríkis) og hef góðar vonir um úrlausn minna glugga á næstunni. Gluggi drengsins er þurr eftir aðgerðir gærkvöldsins (plastpoki, eldhúsrúlla, handklæði, dagblöð) en sá í stofunni með blaut bréf en engan leka - svo ég get farið að taka þetta að mér fyrir aðra.

 

Hvað er þetta með Íslendinga og óþol þeirra fyrir bílflauti? Ein sem ég þekki sagði frá því á Instagram að hún lenti verulega illa í því nýlega. Hún beið eftir stæði í bílastæðahúsi - gaur á BMW hálfbakkaði út úr því og stoppaði svo. Eftir smástund ýttu hún á flautuna. (Gleymdir þú þér, elskan?). Gaurinn gekk út úr bílnum og stóð um stund við framdyrnar hennar megin og starði illilega á hana. Svo fór hann inn í eigin bíl og ók á brott. Korteri seinna kom hún til baka, búin að sinna erindum sínum, en komst ekki burt. Einhver hafði skorið á öll fjögur dekk bílsins hennar. Einstæð móðir sem má við litlu.

 

 

HandtekinnÓgleymanlegt þegar ég sat í Hildubíl við bensínstöð við Þórufell/Æsufell, fyrir aftan mann sem hafði verið að taka bensín. Ég var tiltölulega nýkomin frá New York í minni fyrstu, allt of stuttu heimsókn þangað. Þar flautuðu allir endalaust og enginn tók það alvarlega. Eins og hugsuðu, æ, takk, ég gleymdi mér í smástund. Svo ég teygði mig í flautuna hjá Hildu og ýtti laust sem þýddi ekkert annað en: Gleymdirðu þér, elsku sæti karl?

 

Myndin er af "manninum sem skar á dekkin" - í traustum höndum lögreglu sem verður vonandi bráðum. 

 

Maðurinn á bensínstöðinni sem hafði verið að fleygja rusli úr bílnum, búinn að taka bensín en færði hann ekki þótt við og fleiri biðum eftir dælunni, leit við og horfði svo miklum morðaugum á okkur að ég flýtti mér að benda á Davíð frænda, þá tveggja ára, sem stóð á milli okkar, ég var búin að losa hann úr stólnum því við ætluðum inn. Yfir andlit mannsins færðist þessi líka dásamlegi blíðusvipur. Fyrst barnið hafði flautað var þetta allt í lagi, enginn að reka á eftir honum. Ég skipaði Davíð að flauta til að gera þetta trúlegra og frændi hlýddi og uppskar vingjarnlegt vink frá karlinum. Ég hef aldrei þorað að flauta eftir þetta - ekki einu sinni treyst mér til að eiga bíl, af hræðslu við að rekast óvart í flautuna og einhver komi og drepi mig. Eða sparki í bílrúðuna, eins og gerðist nýlega á Braut óttans, eins og ég kalla hana núna. Ég er vissulega dauðfegin því að flaut-umferð viðgengst ekki á Íslandi - en samt ... að taka flauti eins og einhver sé að segja eitthvað ljótt með því þegar sennilega fæstir geri það þegar þeir ákveða að láta einhvern sofandi á umferðarljósum vita að komið sé grænt.

 

Unga konan fékk aðstoð, einhver kannski átt gömul en góð dekk, hún á marga vini og sjálf svo greiðvikin að hún hefur unnið sér inn karmastig, eins og sumir myndu orða það. Það er verið að rannsaka þetta atvik og einhverjar myndavélar svo hægt sé að staðfesta að þetta sé hann - ég var svo heppin að ná þessari framtíðarmynd af dekkjaskeraranum. En hann heitir ábyggilega ekki Mummi. Fyrirgefið, allir mínir Mummar.  


Engin venjuleg horn

Köttur dagsinsGóðufréttahornið: Fínustu fréttir í gær - neikvætt sýni hjá manneskju sem kom nálægt manneskju sem kom ná- ... sjá bloggið í gær. Engin smitgát, ekkert stress ... það yrði líka frekar fúlt að smitast á síðustu metrunum, skömmu fyrir afléttingu og hjarðónæmi og finna kannski ekki bragð af kaffi vikum saman. Friðrik Ómar söngvari hefur ekki enn endurheimt sitt bragð- og lyktarskyn eftir annars mild (bólusettur) covid-veikindin í nóvember, hann sagði það á Instagram í gær svo ég er ekki að skúbba með neitt. Mikið er hann annars skemmtilegur á Instagram (fromarinn?), vara samt hláturmilda við, auðvelt er að kafna úr hlátri yfir honum. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma farið á jólatónleika - en mig dauðlangar á slíka tónleika með honum fyrir næstu jól. Eða jú, ég fór einu sinni og hlustaði á Pál Óskar og Monicu í Háteigskirkju á dásamlegum tónleikum á meðan ég bjó enn í bænum, fyrir utan svo Jólasöngva kórsins míns gamla úr Langholtskirkju. En enga svona poppjólatónleika.

 

Köttur dagsins-hornið: Mosi kíkir reglulega á Facebook.

 

 

Kóvitahornið: Mér fannst málstaður vissra mótmælenda sem eru á móti vissum sprautum, hrapa enn neðar út af þessum bæklingi sem varað var við í fréttum í gær/fyrradag, þar sem auðvelt hefði verið að draga þá ályktun að hann kæmi frá opinberum aðilum sem styðjast við vísindi. Ég tók þetta próf sem auglýst var þar en svaraði öllu rangt sem þýðir að mér er ekki viðbjargandi, sem er akkúrat það sem ég vil, takk. 

 

Lax dagsinsLax dagsins-hornið: Laxinn var ansi hreint góður en Eldum rétt steingleymdi að senda basil (ferskt) sem átti að fara í basilsósuna ... skerið basil, las ég, leitaði út um allt, meira að segja í ruslinu ... en eins furðulega og það hljómar, þá pantaði ég basil-krukku í Einarsbúð í síðustu viku. Ekki annað hægt þegar til voru bæði tómatar og ferskur mozzarella-ostur. Það sem ég átti til af basil var rétt botnfylli af útrunnu kryddinu og mér fannst sóun að panta ferskt því ég vissi að ég myndi ekki klára það. Pínku fúlt samt upp á þetta að gera en samt æðislegt að hafa pantað. Ef ég tryði á íhlutun æðri máttar í kryddeign Himnaríkis, myndi ég hikstalaust kenna því um en þetta var alla vega sérlega heppileg tilviljun. Og sósan svona líka ljómandi góð. Ég steingleymdi alveg loforði mínu við sjálfa mig um að vinna mig aldrei áfram í réttri röð eftir listanum yfir aðferðir, heldur skera niður allt sem hægt væri að skera niður og byrja að því loknu eldamennskuna. Ég sker ekki jafnhratt og vanir kokkar, enda sker ég mig ekki til blóðs nema á svona tuttugu ára fresti svo ég hef meiri trú á minni aðferð. Þetta þýddi að laxinn beið í fimm mínútur eftir eldun, hrísgrjónin voru löngu soðin og sósan vel tilbúin þegar ég var loks búin að gera salatið. Annars finnst mér ég vera þvílíkt komin upp á lag með þetta og nánast allt leirtau Himnaríkis enn hreint.

 

Íþróttahornið: Ósigurinn í dag var alls ekki mér að kenna. Ég slökkti á sjónvarpinu þegar staðan var 0-1, óvininum í hag og hélt því ró minni algjörlega. Kíkti þó einu sinni en þá var staðan ansi jöfn svo ég slökkti aftur. Sé til með næsta leik.


Meint ættjarðarhatur og sjálfa með Einsa klink

HimnaríkisfrúinÞað flokkast mögulega undir landráð, jafnvel ættjarðarhatur, að hafa ekki horft á handboltaleikinn í gær og séð vængbrotna liðið okkar sigra meistarana sjálfa, og ég er ekki einu sinni með háan blóðþrýsting sem gæti útskýrt, aldrei afsakað. Kannski af því að ég forðast stressandi aðstæður og er meira fyrir fótbolta sem er kannski vegna þess að handbolti er of stressandi?

 

 

Í tilefni dagsins ... aðeins myndir frá sumrinu góða 1974 úti í Eyjum. Rúmu ári eftir gos. Þarna rétt að verða 16 ára og í Álafossúlpunni minni sem var aðalsmerki wannabe hippa - en ég er því miður af 78-kynslóðinni þótt ég reyndi ákaft að teika 68-töffarana.

 

Ég er ekki hjátrúarfull en eitthvað innra með mér segir að ef ég horfi á handboltann á morgun muni allt klúðrast, slíkt hefur gerst. En, að öllu gamni slepptu, ætla ég að horfa á leikinn, síðustu fimm mínúturnar, EF við verðum nokkrum mörkum yfir þá. Og ég er örugglega jafnbrjálæðislega stolt og glöð yfir liðinu og árangrinum og þau sem horfðu, svo það sé nú á hreinu.

 

Myndasíða úr gestabók sumar 74Drengurinn kom heim í morgun, sólarhring fyrr en áætlað var, bara öryggisráðstöfun vegna manneskju sem hafði umgengist manneskju sem hafði umgengist manneskju sem greindist með covid í dag. Það kallar samt ekki á neitt, skilst mér, því við erum öll þríbólusett, veit samt ekki með þann smitaða. Við verðum samt vel á verði.

 

Mynd: Í tilefni dagsins fyrir 49 árum. Lífið var ekki bara fiskur alla daga þetta sumar fyrir 48 árum, sumarið 74. Neðst til hægri er Emma.

 

Ég verð örugglega komin með nokkur einkenni seinna í dag þótt ekki sé fræðilegur möguleiki á því. Ég man vel hálsbólguna í sóttkvínni í september 2020 þar til ég fékk neikvætt eftir sýnatöku, og man líka þyngri andardráttinn, gott ef ekki höfuðverk líka, í smitgátinni sl. haust þar til stráksi fékk neikvætt. Hann fór nú samt í sturtu við heimkomu og skipti um föt og hlustar nú á tónlist, les, lyftir lóðum, kemur annað slagið fram til að spjalla og hlakkar til að borða bernes-borgara í kvöld frá Galito, ísskápurinn nánast tómur og engin nenna fyrir búðarápi í hvassviðri og éljagangi. Ég hafði ætlað að fá mér sjálf spælegg og steikt grænmeti (paprikur (á síðasta séns) og lauk) en strákurinn, enn að vaxa og hreyfir sig mikið, þarf eitthvað meira. Eldum rétt-gómsætið mætir svo á morgun.

 

Með Einsa klink o.fl.Aldrei hefur nokkuð vakið mig jafnhratt og orð mömmu fyrir 49 árum: „Gurrí, vaknaðu, fljót, Vestmannaeyjar eru ónýtar!“

Svo var nú ekki, sem betur fer, og ég græddi meira að segja dásamlega nýja bekkjarsystur þaðan, Emmu Davíðs. Og rúmu ári seinna fór ég að vinna í Ísfélaginu sem var ótrúlega spennandi. Hraunið hafði stöðvast við horn frystihússins en þetta summer of 74, var hreinsunarstarfið í algleymingi og maður fylgdist með hrauninu hverfa smám saman af horninu - og auðvitað víðar. 

Margir útlendingar unnu þarna, ég hélt ekki dagbók, heldur átti ég gestabók þar sem fjölmargar minningar fyrirfinnast. Myndskreytingar dagsins eru beint upp úr gestabók minni, 1. bindi. Nú eru bindin tvö og það þriðja enn í notkun, fyllist seint því það er bara notað 12. ágúst - síðustu árin hafa bara verið örafmæli vegna covid og ekki tekið því að vera með manntal. Ókei, eða gleymst.

 

 

Ég man þó ekki hvað bandaríski strákurinn hét sem varð eftir í herberginu okkar (þriggja manna) þegar hópurinn fór út á djammið, heldur betur búið að hrauna yfir mig þegar ég setti Tubular Bells á fóninn. Sá ameríski sagði mér daginn eftir að hann hefði hlustað á hana alla og orðið stórhrifinn. Verst að hinir heyrðu ekki til, því lengi vel hélt fólk eflaust að ég væri stórskrítin og ég fékk ekki uppreisn æru í hugum þess fyrr en um haustið og veturinn þegar Tubular Bells naut almennra vinsælda og virðingar ... Ég viðurkenni samt alveg að Tubular Bells verður seint talin partíplata.

 

Neðsta myndin var tekin fyrir framan Úrval, hús sem var notað sem verbúð fyrir Ísfélagið. Ég sit á milli Debbie-ar og Alison frá Nýja-Sjálandi (minnir mig) og hjá okkur stendur sjálfur Einsi klink! Við spjölluðum stundum saman, hann var fínasti karl. Á þessum tíma hef ég greinilega enn nennt að fara í sólbað.


Fertugt hið nýja níræða og stórkostlegt snarræði

Stofugluggi lekurDrengurinn að heiman þessa helgi og ég gargaði af gleði þegar ég var orðin ein ... dinglaði ryksugunni, sveiflaði tuskum og fór í luftguitar með þveglinum. Villt vinnuhelgi fram undan og þá er gott að hafa allt fínt í kringum sig. Settist niður í stofusófa eftir mat í gærkvöldi og las smávegis (vinnutengt) og fussaði jafnframt yfir myrkrinu úti sem kom í veg fyrir að ég nyti þess að horfa á brjálað veður, hafið mitt í ham, í suðvestanátt en áttin sú býður oft upp á glæsileg sjávartengd skemmtiatriði. Mér fannst heyrast óvenjulega hátt í rigningunni, eins og hún væri inni í Himnaríki - og hún reyndist vera það. Lárétt rigning í afar miklu magni og vindi upp á 20 metra á sekúndu varð einum glugga stofunnar ofviða og einnig herbergisglugga drengsins - það lak við litlu opnanlegu gluggana. Fínustu gluggar og bara nokkurra ára gamlir, en þarf að láta þétta þessar elskur enn betur þótt svona veður séu sjaldgæf.

Mynd: Í sjokki á Snapchat á Skaganum.

 

Þegar ekkert er sunnanmegin nema sjór og svo Reykjanesskaginn sem stendur sig ömurlega sem skjólgarður, getur allt gerst. Esjan gerir oft góða hluti fyrir Reykvíkinga og nærsveitir en Keilir ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir Skagamenn í sunnanátt, hvað þá Þorbjörn í suðvestan, hann sést ekki einu sinni héðan. Ég sem vann í fiski í Grindavík þegar ég var 15 ára og hjálpaði við að bjarga verðmætum. Ég bjó mig undir nótt hinna þúsund handklæða í gær en varðist samt fimlega með plastpoka, Costco-eldhúsrúllu, nokkur handklæði og dagblöð að vopni og fljótlega upp úr því hrósaði ég sigri því rigningin gafst upp og hætti.

Ekkert lak niður á gólf, þökk sé snarræði mínu, sjálfstjórn og hugrekki, en þetta læt ég laga sem allra fyrst. Þessi mánuður hefur verið harður í horn að taka þegar kemur að veðri sem ég nýt samt itil hins ýtrasta ÞEGAR gluggar halda og óveðrið sýnir sitt fegursta í DAGSbirtu.

 

Aldraðir skoppaNú þarf ég að taka allt aftur sem ég hef sagt um aldursfordóma ónefnds krabbameinsfélags á sv-horninu, fertug kölluð kona á þínum aldri, munið, sem mér fannst betur eiga við konur um áttrætt. Nú hefur komið á daginn að þau hjá Krabbó höfðu rétt fyrir sér allan tímann. Í gær opnuðust loks augu mín. Ég hef samt fengið svo fjölmargar vísbendingar í lífinu, öll hintin sem ég náði ekki ... dreymdi t.d. 11-12 ára að guð hefði sagt mér að ég myndi deyja í hárri elli 38 ára, og rétt um fertugt þegar allt sem amaði að mér og jafnöldum mínum var kallað breytingaskeið (líka fótbrot) þegar meðalaldur þess skeiðs er í raun 51 árs en það var ekki verið að reyna að drepa okkur með því, heldur voru þetta bara sterkar vísbendingar. Ég mun alla tíð fyrirverða mig fyrir að hafa borið mig saman við manneskju sem var ekkert annað en gamalmenni, Madonnu sem hélt tónleika fram eftir öllu - pottþétt með ungum klónum af sjálfri sér sem líka fæddu fyrir hana börnin sem hún hlóð niður eftir að hún varð senior (40).  

 

Ég er ekki sérlega sigld sem útskýrir en afsakar ekki fávisku mína, ég mætti líka vera betri í útlensku og hef svo sem alltaf verið fyrir tilviljun í vernduðu umhverfi þegar ég fer utan (au pair í London - með Kór Langholtskirkju víða um Evrópu - hjá Elfu og Tom í Bandaríkjunum og Hildu og co í Karíbahafinu) þar sem aldur barst aldrei í tal. Nú held ég mig til hlés og geri viðeigandi ráðstafanir af auðmýkt. Ég ætla að taka þessu, vera þakklát fyrir þessa aukaáratugi sem eldri borgari.

Róðravélin sem mig langar svo að kaupa mér mun víkja fyrir göngugrind. Eldum rétt-maturinn fyrir sveskjugraut. Ég kaupi mér sokkaífæru og hætti þessu brölti við að finna góða hreyfingu heima (ég get stundað róleg húsverk og gengið í hægðum mínum upp og niður stigana) sem ég var að leita eftir þegar ég fór fyrir mistök inn í megrunarauglýsingu (bjakk) sem þó opnaði augu mín. Ég heiti Gurrí og er eldri borgari! Endilega ekki segja heldri borgari, nema þá helst að opnist fyrir að við almúgafólkið megum bera ættarnöfn. 


Sokkaþjáningar og gjörbreytta baðherbergið

Svartir sokkarMínir allra tryggustu og elstu bloggvinir mínir muna eftir þeim æskudraumi mínum að þegar ég fullorðnaðist myndi ég fylla hansahillu-skrifborðsskúffu mína af sælgæti sem mér og flestum börnum var virkilega meinað um að fá í nægu magni í gamla daga. Að fá tíkall á laugardögum þegar ís með dýfu kostaði 12 krónur lýsti þeirri andlegu grimmd sem réði ríkjum á sjöunda áratug síðustu aldar. Þess vegna lofaði ég mér þessu skúffudæmi fram í tímann - en um það bil hálfri öld síðar kom í ljós að skúffublætið var enn til staðar og orðið raunverulegt nema nú var það stór kommóðuskúffa full af sokkum, mestmegnis svörtum. Þó er girnileg rönd í skúffunni af alls kyns litríkum og geggjuðum sokkum sem ég vel sífellt oftar.

 

Eitt sinn fékk ég ættingja í heimsókn, hún er sálfræðingur en samt ágæt, og fékk hamingjuhroll þegar ég sagði henni frá þessu eina vandamáli lífs míns þá stundina; fullt af svörtum sokkum sem þurfti að sameina RÉTT (svart er ekki sama og svart) og setja svo samanbrotnu pörin í skúffuna í lita- og stafrófsröð. Hún hjálpaði mér sem sagt. Nú vantar mig frænku AFTUR ... en hún gæti verið heima að púsla, já, hún púslar, en ætla samt að reyna áfram meðan dagsbirtu nýtur. Það þarf bara sálfræðing í sum verk ... þvottaþúfan er ekki svo stór en þurrkarinn var að baula svo það bætist við. Mér finnst svartir sokkar fínir en litríkir miklu flottari svo það er nýja planið. Hver leyfir framleiðendum svartra sokka að hafa þá svona ólíka? Ég mæli með svörtum ríkissokkum!

 

UpphafiðÍ gær voru tvö ár upp á dag síðan framkvæmdirnar við Himnaríki hófust. Ég lagði talsverða vinnu í að velja smiði eftir útliti sem var ákaflega erfitt því klásusinn í smíðakennslu á Skaganum miðast einmitt við útlit. En Trésmiðja Akraness var valin fyrir rest eftir miklar spekúlasjónir og frábæru smiðirnir mínir mættu kl. 8 20012020 og skiluðu virkilega góðu verki. Ljúfmennskan og liðlegheitin fylgdu með, að sækja fyrir mig vörur, bæði innanbæjar og til Reykjavíkur, hvort eð er í leiðinni, stilla öllum kostnaði í hóf og gefa góð sparnaðarráð. Fara með allt rusl á haugana (ekki bara gömlu innréttingarnar, hjálpa mér að fara með skáp í Búkollu, eldhúsborð til Ellýjar. Bera allt upp á 3,5. hæð og barma sér ekki. Enda tóku þeir allir þátt í Herra Akranes-keppninni sem haldin var um haustið. Himnaríki var allt í lagi þegar ég keypti það en alveg þörf á endurbótum. Ég lét nægja að láta mála flest herbergi og sætti mig við rest; gamalt parket, ferns konar gólfefni, eldgamalt allt of lágt klósett og baðkar sem tók óratíma að láta renna í, eldavél sem virkaði ekki alveg og lélegan ofn. Peningarnir sem ég fékk á milli þegar ég seldi pínulitlu íbúðina í bænum og keypti þessa helmingi stærri og með sjávarútsýni, fór í að láta draumana rætast (ekki skúffu með sælgæti), láta yfirdekkja sófa, ramma inn málverk, kaupa kaffivél, ísskáp og flatskjá (sem orsakaði fall íslensku bankanna nokkrum árum síðar). Á fyrir-myndinni af baðinu, má sjá gulleita dúkinn sem var á gólfi og veggjum og hvað breyttist mikið til góðs að losna við baðkarið (ég bý við hliðina á sundlauginni ef mig langar í heitan pott), og breyta þvottahúsinu í opið rými með fatahengi og skápum.

 

Ekki nýskúraðGæfa mín, eins og áður hefur komið fram, var að væla á Facebook (2019) yfir þörf minni og löngun til að gera eitthvað við Himnaríki. Heiðdís frænka á vinkonu (Pálmadóttir) sem hún mælti hástöfum með að fá til að aðstoða mig við það, teikna upp og slíkt. Guðný gerði gott betur, hún rúntaði með mig í leit að flísum, vöskum, sturtugleri, baðspegli með ljósi og þess háttar, fann alls staðar besta verðið, gat útvegað afslátt og eitthvað sem hefði tekið mig nokkur ár á strætó. Afsláttur sem hún reddaði dekkaði rúmlega launin hennar. Íbúðin varð miklu flottari en ef ég hefði af hagsýni og ábyrgð hannað sjálf ...

Dæmi:

Ég: Æ, er ekki nóg að hafa marmaraflísar bara í sturtunni?

Hún: Ég mæli svo innilega með því að þú hafir þær á tveimur veggjum (og gólfinu), það verður svo miklu fínna, við spörum bara í öðru. 

Ég: Ókei.

Þar með gleypti ég ofan í mig hagsýnina og leyfði Guðnýju að ráða rest. Sé ekki eftir því.

 

Myndin af nýja baðinu var tekin fyrr í dag. Það er ekki nýskúrað (afsakið, en ég er búin að taka til gólftannburstann), hefði átt að fjarlægja wc-burstann ... og svo var ég eitthvað að fikta við punt og dótarí í hillunum fyrir ofan þvottavél og þurrkara og allt getur verið orðið breytt á morgun. Mig langar mikið að kaupa körfur og annað fínirí í stíl undir þvottaefni, þurrkaraklúta og slíkt. Ætla að grannskoða Hús og híbýli síðustu mánaða á næstunni, þar er góðar hugmyndir að finna.


Misskilningur leiðréttur og krassandi kaffijátningar

KóngulóUpp kom meinlegur misskilningur vegna bloggs gærdagsins. HH-skammstöfunin sem ég treysti mér ekki til að segja hvað þýddi þótt ég reyndi að gefa það í skyn varð tilefni til ýmissa getgátna. Hún tengdist ótta iðnaðarmanna, mjólkurpósta og bréfbera við húsmæður sem koma til dyra í sloppum sem minna ekki vitund á Hagkaupssloppa. Nógu skýrt núna? Einn hélt að ég meinti heppnar hjásvæfs, aðrir heittelskuð Hamborg (borg í Þýskalandi), herlegar hestakerrur var ein tillagan og restin þaðan af skrítnari ... Þetta gerðist á Facebook-síðu minni þar sem ég deili hverri einustu bloggfærslu til að fá einhvern lestur á bloggið mitt (einlægni áhrifavalds). Tæp 10 prósent svokallaðra fb-VINA minna lesa bloggið, mögulega færri, sem er ekki gott upp á að fá gjafir. Þegar dyrabjallan hringdi í gær og pósturinn hljóp upp stigann með kassa, var ég viss um þetta væru gjafir (skartgripir, fatnaður, plötuspilari eða Air Fryer) en þetta voru bækur, vinnutengt ... auðvitað æði samt. Næst þegar pósturinn kemur veit ég að hann verður með kaffi sem er á leiðinni skv. tilkynningu. Eftir þá sendingu leyfi ég mér að vona að bjallan glymji mér til gjafa.

 

Hinn misskilningurinn vegna bloggsins í gær var varðandi heimildamyndina um gott ónæmiskerfi. Fb-vinur taldi fáránlegt að mæla með smávegis streitu annað slagið til að efla kerfið ... ég orðaði þetta kannski vitlaust, þáttagerðarkonan, læknirinn, sagði gott fyrir okkur að fá annað slagið hálfgert sjokk, þannig að hárin risu ... hún sýndi það með því að fara í dýragarð og fá að handleika risakónguló ... sem hún óttaðist mikið, mikil gæsahúð, heilmikið hárris. Nóg að fara stundum út úr þægindahringnum? Ég held að það gæti nægt að fá hroll yfir sálartónlist eða Mariuh Carey. Hárin á mér rísa a.m.k. á meðan ég öskurhleyp til að lækka/slökkva og kettirnir þjóta í allar áttir eins og lifandi klósettburstar.

 

Sammála samt þeim sem reif kjaft á fb-síðu minni um að það væri ekki sniðugt að leita uppi streituvaldandi þætti, það myndi a.m.k. stressa mig. Allt í lagi að fara á Spotify einu sinni í mánuði, velja soul music og hlusta í hálfa mínútu ef það á að vera svona virkilega gott ... En það vantar enn nudd og hreyfingu. Það kemur. Auðvitað vil ég verða enn fullkomnari. 

 

Mér líður svonaÉg er með um 30 snappvini sem elska án efa stuttu kvikmyndirnar mínar af köttum að mala eða slást, mismunandi öldum á sjónum við Langasand og málningu að þorna (djók), og eitthvað fleiri Instagram-vini, ég kann ekki að finna fjöldann, sem ég gæti fundið á YouTube ef ég hefði áhuga, ég hef fiktað mér til ógagns oftar en einu sinni til að finna út úr hlutum, svo ég forðast það. En nú heitir þessi varkárni mín og kunnáttuleysi í sumu „aldurinn“. „Ég hjálpa pabba oft í tölvunni,“ sagði einn við mig nýlega þegar við vorum að ræða vissar breytingar sem ég fæddist ekki með kunnáttu til að gera og þarf bara að fá að læra. Ég klagaði í annan hirðtölvunarfræðinginn minn, sem er ögn eldri en ég, hún sagðist aðstoða fólk á öllum aldri við að læra nýja hluti. Við hlógum samt ekki kvikindislega um hríð að öllu unga fólkinu sem hefði auðvitað átt að fæðast með þessa kunnáttu ... Þegar ég sagði eitt sinn aðspurð að nei, ég væri ekki á Pinterest, fór spyrjandinn að tala um að miðaldra fólk ætti að fá námskeið til að læra á samfélagsmiðla ... „Hmmm, ég kann á Pinterest, (notaði það mikið til að skoða smart eldhús og baðherbergi í kringum endurbæturnar í Himnaríki) en hef bara ekki tíma til að vera á fleiri miðlum,“ svaraði ég grautfúl. Konan er nú í felum á Austfjörðum (ég rakti ferðir hennar þangað, kann á vefmyndavélar) til að forðast bræði mína og hefndarþorsta. Hún hefur séð allar Die Hard og báðar Kill Bill sem gerir hana enn hræddari - en álver og slíkar verksmiður hafa aldrei talist góðir felustaðir, a.m.k. ekki í kvikmyndum. 

 

Kaffibætir„Hvað færðu borgað fyrir að blogga á Moggabloggi?“ spurði vinkona mín nýlega. Það var svo freistandi að segja 500 þúsund á mánuði ... „Ekki krónu,“ svaraði ég sannleikanum samkvæmt. „Eftir nístandi þögn mína hér í þrettán ár og vera nánast hætt í blaðamennsku (fyrir utan stöku kökublaðsviðtal og bókaumfjöllun í elsku Vikunni minni), þurfti ég mína útrás, ekki séns að nenna að vera með hlaðvarp þrátt fyrir að hafa verið útvarpsstjarna á síðustu öld. Hver man ekki eftir þættinum Kaffi-Gurrí sem auglýsingadeildin sá um að nefna og varð til þess að ég þori ekki enn að drekka nema allra fínasta kaffið til að standa undir nafni (t.d. Jamaica Blue Mountain, þótt ég gjörsamlega hati það bragðlausa sull), eins og ég þrái almennilegt kaffi eins og ég drakk í barnæsku, með kaffibæti, og sötraði á meðan ég borðaði hræring og sviðaheila, ofsoðið spagettí og fleira gott (sjá gúrmeisíðuna Gamaldags íslenskur matur ef þið viljið slefa meira).

 

 

Mér finnst umhverfið þægilegt á Moggabloggi, ég kann á það og er þar í fjölbreyttum félagsskap alls konar fólks. Þarna er þjóðargersemi, veðurfræðingur, kóvitar, stöku besservisser eins og ég, ljúfmenni og ljúfkvendi, fasteignasalar og fleiri ... eins og bara í lífinu sjálfu. „Þurftir þú að ganga í Sjálfstæðisflokkinn til að fá að blogga þar?“ hélt vinkonan áfram. Ég hristi höfuðið, enda bundin þagnarskyldu, var beðin um að tala ekki um hollustueiðinn sem ég sór og undirritaði með blóði mínu, gegn því að Valhöll beitti sér fyrir því að ég fengi gjafir. Veit samt ekki hvort ég hafi pláss í eldhúsinu fyrir Air Fryer.


Leynikerfi sumra bílstjóra og endurbótalok fram undan

Útsýni 19. jan. 2022Stundum tapar maður á því að vera fýlupúki og nenna ekki að horfa á eðalefni í sjónvarpinu. Handbolti, Verbúðin, Ófærð, Svörtusandar. Ég ætlaði sl. sunnudag að horfa á það sem komið væri af síðastnefnda efninu en þá voru bara þriðji og fjórði þáttur sjáanlegir. Ég sá fyrsta þátt í línulegri dagskrá, horfði fúl á þriðja en var meinað að sjá þann fjórða. Finn ég þetta allt annars staðar eða er sem sagt öll Ófærð horfin, fyrri Verbúðarþættir ekki aðgengilegir og handboltamenn komnir með covid svo næstu útsendingar verða ekki jafnfrábærar og leikurinn í gær, samkvæmt fólki á feisbúkk? Get ég farið í mál við lyfjafyrirtækið sem framleiðir reykingalyfin mín? Svona aukaverkanir (sjónvarpsóþol) eru mjög alvarlegar Kannski hjálpar Ivermectin ... djók, en ég get ekki haldið uppi eðlilegum samræðum við fólk og ég hefði sennilega horft á leikinn í gær ef staðan hefði verið tíu mörkum okkur i hag, þetta var of jafnt og ég forðast streitu eins og ég get. Annars sá ég í þætti sem ég, jamm, sá þátt í gær í sjónvarpinu (afvelta, takk, Eldum rétt) um aðferðir til að styrkja ónæmiskerfið. Hæfileg streita er góð stöku sinnum en ekki dagleg eða streita sem stendur lengi yfir í einu.

 

Gamla eldhúsFrábær þáttur sem sannaði fyrir mér að ég lifi heilbrigðu lífi - og tikkaði í næstum öll boxin yfir réttu hlutina. Nægur svefn, lítil streita og lítil drykkja áfengis, D-vítamín og trefjaríkur matur, en skortir upp á hreyfingu og nudd. Lítil hreyfing hjá mér síðustu mánuði og ekkert nudd síðan sum nuddkona flutti vestur á Ísafjörð fyrir mörgum árum en allt hitt er í fínu lagi. Síðustu ár, til að forðast streitu, hef ég unnið mátulega mikið, reyndar mikið akkúrat núna en ekkert stress samt. Mun nota helgina í að klára, þá verður stráksi að heiman og ég með slökkt á síma og dyrabjöllu. Vonandi verður útsýnið ekki mjög truflandi, eins og í dag ... sjá mynd. Það verður suðvestanátt sem táknar flottan sjó en kannski sést lítið í hafið mitt fyrir snjókomu, hríð? Slík er spáin.

 

Einarsbúð kom með vörur í dag, kassann alla leið inn í eldhús. Tveir saman þar sem níðþungur costco-kattasandurinn er eins manns burður upp stigana. Ég tók eftir því að ég þakkaði þeim mjög innilega og hjartanlega fyrir, eitthvað sem ég geri ekki þegar kemur bara einn karl - til að styggja hann ekki. Allt til að sendlar lífs míns óttist ekki að ég sé hh-týpan (h-housewife, you know). Í síðustu viku, þegar Eldum rétt kom með kassann, þurfti ég að staulast slösuð niður stigana og sá í skottið á flýjandi sendibílnum að nálgast Garðabraut, en sl. mánudag fékk ég matarkassann upp að dyrum, úr einu brosandi fangi í annað og ekkert nema kærleikur. Þá var ég miklu betri í fætinum og verið auðveldara að skottast niður.

 

EftirlitskettirMögulega eru bílstjórar sem sendast með vörur, með sérstakt kerfi sín á milli. Stórt X á útidyrnar með ósýnilegu bleki sem bara þeir sjá með sérstökum leynigleraugum þýðir Varúð, ekki koma nálægt þessari ... eða stórt N sem þýðir kannski náttúrulaus þessi - sem er vitanlega algjört kjaftæði og rugl, sumar konur eru bara kurteisar og virða karlmenn en líta ekki á þá eingöngu sem holdið heitt.

 

Þegar ég missti eitthvað ansalegt út úr mér við iðnaðarmennina mína um árið, að allir ættu að eiga eitt stykki af svona æðislegum mönnum ... (hugsaði þetta ekki til enda og meinti bara vá, hvað þið hafið verið snöggir að rífa allt út úr baðherberginu, leggja rafmagn og pípulagnir og flísar) og þeir stirðnuðu upp, sem betur fer margir saman svo ég virtist ekki eins hættuleg. Í einhverju hafa þessar elskur lent. Ég brást í hvelli þannig við að ég sagði eitthvað á borð við: æ, afsakið lélegan húmor, mikið er þetta fínt hjá ykkur. Eftir það óttuðust þeir ekkert og þorðu alveg að koma einir. Oft. Það er bara eitt verk eftir, að klára að mála nokkra glugga. Það þurfti bara að bíða eftir framkvæmdum húsfélagsins sem fóru fram í fyrra. Ég fékk nýja glugga norðanmegin sl. sumar og fyrir skömmu kom nýtt gler í stað móðuglers.

 

 

HimnaríkiÞegar búið verður að mála er hægt að segja að endurbótum sé lokið í Himnaríki. Nú eru að verða komin tvö ár síðan þetta hófst allt saman (á morgun, minnir mig) og enn er allt eins og nýtt. Ein pínulítil og grunn rispa á eldhúsbekk, sem bara ég sé og þjáist yfir. Eftir lasagne-gerð í fyrra hélt ég að ofninn væri ónýtur, það sem lak á botninn var blýfast. Ég man ekki hvernig ég náði því (sennilega töfrasvampur) en ég setti eftir það álpappír á grindina til að það gerðist ekki aftur, aldrei, og ofninn, mikið notaður er tandurhreinn og fínn. Stundum pússa ég vaskinn með Pink Stuff svo hann gljáir sjúklega mikið, og tek helluborðið með töfrasvampi, þríf ruslaskápinn mjög reglulega ... 

... er einhver til í að binda enda á þjáningar mínar? Þetta hljómar hræðilega - ég var ekki svona biluð eftir að ég lét gera Hringbrautina upp. Fjandans D-vítamín.

 

 

FyrirFyrsta endurbótamyndin (tekin í austurátt) sýnir inn í gamla eldhúsið, djúpu efri skápana, ísskápshliðina með Hagkaupssloppnum, vinstra megin fatahengi og rétt þar við voru dyrnar inn í þvottahús.

 

Miðendurbótamyndin sýnir sérlega eftirlitsketti Himnaríkis. Þarna var búið að rífa plastparketið af ganginum og eldhúsið ansi tómlegt eftir dugnað smiðanna. Rauða teppið fauk líka, gangurinn var flotaður áður en nýtt gólfefni fór yfir. Einnig eldhúsið, baðið og skotin tvö, þar sem þvottahúsið var áður og kósíhornið (bækur) við hliðina á baðinu.

 

Þriðja endurbótamyndin sýnir Himnaríki eins og það er í dag. Vinstra megin er ekki lengur þvottahús til vinstri, heldur var veggur rifinn og nú er þar fatahengi og ýmsar hirslur. Dýrmætt að fá birtu frá norðurglugga á ganginn. En til hægri eru stofa og herbergi. Ég sný baki í baðdyrnar. Þetta voru erfiðir mánuðir en gjörsamlega þess virði.

 

Síðasta myndin er FYRIR-mynd. Dyrnar inn í þvottahús, Krummi, kommóðan sæta sem Búkolla nytjamarkaður vildi ekki en einn smiðurinn varð ofsakátur að fá.


Erkióvinir, óvæntur hatari og spáð í bolla

Mosi og snjórinnÍ gærkvöldi, komin upp í, skannaði ég Instagram og Snapchat, eins og svo oft á kvöldin. Las um ástir og örlög þessara „vina og vandamanna“ sem ég sé svo miklu oftar en mitt eigið fólk ... Lítil leikskólastúlka, dóttir áhrifavalds, smituð og líður svoooo illa, elsku dúllan, á meðan ættingi minn á níræðisaldri með undirliggjandi hjartasjúkdóm, verður útskrifaður sem covid-sjúklingur í dag eftir að hafa farið ótrúlega létt út úr veikindunum (þríbólusett). Fólk fellur fyrir covid í stríðum straumum þessa dagana, mörg smit um allt land og enn fleiri sitja í sóttkví. Ég slapp ekki við covid í nótt, dreymdi að ég hefði smitast, ekkert skrítið eftir að hafa séð að svo margir heimilisvinir af Insta væru meira og minna með þetta. Ég er ekki berdreymin, svo það komi nú fram.

 

Loksins snjór, gæti þessi mynd heitið en sá sjaldgæfi atburður átti sér stað hér á Akranesi að hægt var að renna sér á snjóþotu niður hól og næstum út í sjó. Gaman að sjá „skaflana“ á Langasandi ... Það er víst framtíðin; meiri rigning, minni snjór. Á meðan það merkir minni hálku er ég nokkuð sátt. Hafa ekki ótal lög verið samin um rigningu? Hlustaðu á regnið, Mér finnst rigningin góð ... Hún er ekki alltaf lárétt og stundum bara ljúf, ekki síst ef maður á regnkápu úr Bjargi (yndisleg búð á Skaganum).

 

Nokkrir vinir (af Instagram) létu ganga texta um J.K. Rowling rithöfund, sem ég las mér til mikillar furðu. Ég hafði næstum blandað mér í umræðuna hjá Einari Kára um þennan höfund Harry Potter og slaufunarmenningu - en það var af því að ég vissi ekki alla málavöxtu. Mér dauðbrá þegar ég las textann í gærkvöldi, ég hélt í alvöru talað, að hún hefði misst eitthvað vanhugsað og af vanþekkingu út úr sér í eitt skipti um trans fólk og skildi ekki alveg lætin yfir því. Þannig er það þó alls ekki, og samkvæmt þessum texta hefur hún talað meðvitað gegn trans fólki - sem er allt annað. Trans fólk er afar jaðarsettur og viðkvæmur hópur og mikið ofbeldi hefur viðgengist gegn honum í heiminum og sjálfsmorðstíðni há innan hans. Það er enginn að biðja um forréttindi fyrir trans fólk, bara tilverurétt og sjálfsagða virðingu. Þótt einhver skrifi dásamlegar bækur þýðir það ekki að viðkomandi sé almennileg manneskja. En mér leið samt nánast eins og jólasveinninn hefði dáið, þegar ég las þetta.

 

Eldum sko réttVið stráksi borðuðum algjöran veislumat (fyrsta rétt vikunnar af þremur) í gær, lax og læti. Það verður ávanabindandi að panta frá Eldum rétt. Diskurinn hjá mér hefði litið út alveg eins og á myndinni ef ekki væri fyrir fótósjopp til að hressa upp á birtu og liti. Virkilega bragðgott, litríkt og hollt. Ég hef neitað mér um margt til að geta boðið okkur stráksa upp á þetta, eins og ... ja, dýr ilmvötn nota ég til dæmis aldrei, mig langar ekki í ferðalög til útlanda fyrr en EC (eftir covid), koníak hef ég aldrei drukkið svo ég spara mikið þar líka. Eigi er ég fatasjúk og nú þegar spara ég helling með því að sleppa sykri, engir nammidagar hér. Drengurinn fer með sælgætið sem hann kaupir sér sem ríkisleyndarmál sem er sérlega hjálplegt. Og í alvöru, covid-keppurinn er á undanhaldi. Ég lyfti lóðum daglega við skrifborðið fyrst ég get ekki enn hoppað og skoppað eftir íþróttameiðslin í stiganum þegar ég ætlaði út með endurvinnslupappír og -plast. Já, og besta ákvörðunin sem ég tók varðandi heimsenda matinn var að skera niður allt sem skera þurfti í byrjun, fara síðan einstaklega auðveldlega eftir öllum tímaáætlunum - sem ég nánast klúðraði við eldun eins réttar í síðustu viku, af því að ég var ekki nógu snögg að skera niður grænmetið. Ég nota ekki lengur helminginn af leirtauinu og þetta er allt að venjast.

 

Oft gaman að rifja upp minningar þessa dags fyrir visst mörgum árum í gegnum Facebook. Alveg var ég búin að gleyma Nú-inu, tölvupósti sem maður fékk daglega og þurfti, ef ég man rétt, að velja einn möguleika af þremur, og gat fengið vinning ef maður var heppinn ... Þann 18. janúar 2010 fékk ég sérdeilis flottan vinning, eða 2 vikur frítt í Ju Jitsu sem gæti verið sjálfsvarnaríþrótt. Fyrir 11 árum, (2011) grét sonur minn af gleði inni í stofu. Handboltinn. Fyrir sex árum var ég stödd í spilavíti með Elfu vinkonu og endaði næstum því í Kanada, ekki löng saga. Og fyrir tveimur árum varð hrina jarðskjálfta suðvestur af Reykjanesskaga.

 

útsvarÉg horfði með öðru á gamalt Útsvar (2008?) þar sem erkióvinir mínir og Skagaliðsins, Kópavogsliðið, mætti til að rústa, ekki skemmta sér, gríðarlega vel undirbúið lið, áður í Gettu betur, skilst mér, sá sem hljóp fyrir liðið Kópavogsmeistari í spretthlaupi, ef ég giska rétt ...

 

Afsakið beiskjuna (og sorrí, Hilda), staðan var um tíma 50-25 Kóp. í hag - gegn stórvinum mínum af Álftanesi en þar eru fra vinstri: Andri, sem vann með mér í fiski í Eyjum sumarið 1974, Anna vinkona og Hilmar Örn sem kenndi mér að lesa í tarot á námskeiði í kringum 1984-1985.

 

Níundi áratugurinn var sérlega andlegur og dulrænn. Margt fólk þyrsti í þetta. Man eftir að hafa séð í blaði götumynd frá Garðastræti í Reykjavík þar sem Sálarrannsóknarfélag Íslands var til húsa, myndin sýndi langa biðröð fólks sem vildi ganga í félagið! Ég lít á spádóma sem samkvæmisleik, eins og þegar ég lagði spil fyrir útvarpshlustendur á Aðalstöðinni á síðustu öld, það var mjög gaman! Mér fannst fólkið sem hringdi ekkert endilega taka þetta mjög alvarlega heldur.

 

Ég var alin upp við þetta. Móðuramma mín var mikill spíritisti og ég sótti ófáar bækur eftir Elínborgu Lárusdóttur fyrir hana í bókasafnið. Föursystir mín sá lengra en nef hennar náði og pabbi hafði gaman af því að spá í bolla fyrir okkur unglingsdæturnar en sá samt aldrei neitt í bollanum nema peninga og tengdasyni handa sjálfum sér. Það var samt gaman. Mamma spáði einu sinni í bolla upp á grínið og þegar það rættist nokkrum dögum seinna, þorði hún ekki að koma nálægt þessu framar. Ég veit að svokallaðir stólpar í bolla tákna fólk. Doppur standa víst oftast fyrir peninga. Hringur í botninum er fyrir trúlofun, stundum fóstur og ólétta, bara skoða vel. Hattur er tákn fyrir nýtt starf og mig minnir að fugl standi fyrir fréttir. (Gangi ykkur vel og ekkert að þakka.)     


Styrkur gegn sumum freistingum

SkemillSamkvæmislífið tók óvæntan kipp í dag þegar síminn hringdi. Jú, Guðrún of Kópavogur á leið á Skagann. Ég viðurkenndi þörf mína fyrir smávegis tilbreytingu frá verkefni sem ég stefni að því að klára um helgina, leynilegt og mjög spennandi, þori ekki að segja meira til að vera hreinlega ekki myrt. Svo við vinkonurnar skruppum í antíkskúrinn og um tíma var ég vörður þar, tengist samt ekki leyniverkefninu, en ég átti að passa að ekki væru fleiri en tíu innandyra. Við vorum tíu inni svo þetta var vægast sagt virkilega taugastrekkjandi. Þegar við þrjú fórum svo út komu aðvífandi þrjár manneskjur, svo ekki mátti miklu muna. Ég er enn með hjartslátt. Svo var það Frystihúsið dásamlega, eða ísbúðin á Akratorgi. Ég held mig við sykurlítið líferni þessi misserin og það er auðvelt þar því sykurlausi ísinn er afar góður.

 

Ég keypti lítinn, léttan og sætan skemil í antíkskúrnum (sjá mynd). Hann kostaði alveg heilan 3.500 kall, sem er bara grínverð, og spurning hvort hann verði notaður við stólinn góða í stofunni eða bara til þægindaauka annars staðar. Hef nánast ofnæmi fyrir öllu þunglamalegu eftir 2020, endurbæturnar og grisjunina. Ég væri örugglega búin að losa mig við miklu meira ef ég ætti auðveldara með að koma því á nytjamarkaði. Ekki hægt að misnota góðsemi sumra endalaust og svo hefur pestin heldur betur sett strik í reikninginn, víða búið að skella í lás.

 

Guðrún ólst upp suður með sjó og segir skrítið að keyra um Akranes, þar séu húsin rétt en á röngum stöðum ... alveg eins og mér líður þegar ég fer til Keflavíkur. Fáir arkitektar, sömu teikningar nýttar víða um land, mjög heimilislegt.

 

Svona líður mér stundumSkrítið að hafa eldað eitthvað svakalega hversdagslegt í gær í stað fínheitanna frá Eldum rétt. Þetta voru þrír dagar af jólum, ekki hægt að segja annað. Það var meira að segja hvítvín í kjötbollusósunni og ég þrælfann á  mér þegar ég smakkaði sósuna til áður en áfengið gufaði upp. Hænuhaus ... En ég er auðvitað að gantast, þetta var mjög lítið magn og bara hugsað til að bragðbæta sósuna.

 

Myndin tengist óbeint því sem ég skrifaði um nýlega, að stundum komi eitthvað hrikalega spælandi í veg fyrir bestu áætlanir ... að ætla að hreyfa sig meira og við fyrsta hreyf gerist eitthvað ... skokknámskeiðið í denn, hjólaslysið í árdaga og þetta síðasta; skokka hressilega niður stigann á inniskónum og uppskera helti í viku. Ég var ekkert að ofgera mér en „kókoshnetan“ skall bara á kálfanum á mér.

 

Eitt sinn skrifaði ég um, að því er virðist, aukinn yndisþokka minn eftir að grímuskylda var tekin upp. Ástríðuþrungið augnaráðið frá körlunum við mjólkurkælinn, svo heitt að ég get varla verið í úlpu í búðum. Ég hélt satt að segja að móða á gleraugum léti mig sjá ofsjónir en nýlega las ég merkilega útkomu rannsóknar sem segir að grímur láti fólk virðast meira aðlaðandi. Allt daður mun sem sagt hætta/minnka um leið og grímuskylda fellur niður. Hversu kvíðvænlegt. 

 

KellingakötturÍþróttameiðslin eru öll að lagast, ég sleit vissulega ekki heilan vöðva í látunum við að hlaupa niður með plast og pappír vikunnar í fanginu á leið í endurvinnslutunnuna. En samt gerðist eitthvað. Ég hef í staðinn dinglað léttu lóðunum úr Rúmfatalagernum til að fá einhverja hreyfingu og hræði drenginn á því að ég verði vöðvatröll á örfáum vikum. Hann skrapp aðeins út í gönguferð, þarf mikið að hreyfa sig ... en ég þekki minn mann.

 

„Ef þú ferð í sjoppu og kaupir sælgæti, viltu passa að ég sjái það ekki, og alls ekki bjóða mér neitt!“ píndi ég mig til að segja við hann í kveðjuskyni.

„Ertu viss?“ Hann var hlessa yfir því að einhver vildi ekki sælgæti en lofaði. Ég er ekki þroskaðri en þetta, ég myndi sennilega þiggja af honum ef hann byði mér, svo þetta voru mjög áríðandi forvarnaraðgerðir. Ekki veiklyndi, heldur gífurlegur styrkur að koma svona í veg fyrir að freistingar verði til ... Covid-keppurinn skal ekki sigra! En ég þarf einhvern veginn að finna styrk minn þegar ég fer í antíkskúrinn samt!


Viðreynsla hekláhugamanns

teppiÞað var eins og við manninn mælt, nokkrum mínútum eftir að ég skrifaði við mynd af fallegu heklteppi á erlendri fb-síðu: „Very beautiful,“ fékk ég skilaboð sem þurfti að samþykkja af því að viðkomandi var ekki fb-vinur minn: Hello Guoriour I love your comment here on crochet. Áður en ég vissi af hafði ég blokkað manninn, án þess að reyna að svara nokkru ... og nafn hans byrjar á H - hann gæti verið mín sanna ást (sjá bloggið í gær). En samt, hefði ekki verið smartara að dást að fegurð MINNI? Frekar en fögrum orðum mínum í garð heklaðs teppis? Strákar, hvað er að ykkur? Kannski eru útlendingar svona ... trúi því ekki upp á íslensku sjarmörana.

 

Ljósmyndin er af teppinu fagra sem ég hrósaði, mikið væri gaman að geta heklað svona fínirí. Saga mín í hekli snýr fyrst og fremst að afköstum ... ekki mikilli snilld. 

 

Loks í dag, eftir hádegi, komst ég til tannlæknisins, sem lagaði tönn sem brotnað hafði upp úr. Svo nú er ég fullkomin, nánast. Eftir að hafa gengið frá Himnaríki að Skagabraut (5 mín. hægt labb) þar sem hún endar við gamla Skaganesti, var ég orðin hölt, það tóku sig upp vikugömul íþróttameiðsli), og það var sorglega langt í næstu strætóstoppistöð sem hefði hentað (Innnesvegur). Samt var ég á það góðum tíma að ég hefði náð þótt ég hefði skriðið, sem nokkrar mínútur voru í. Sá ég þá ekki elsku Sollu (á bíl) sem gaf mér merki um að fara inn á planið hjá áður Skaganesti og enn síðar Kvikk. Hún er ein af þeim tíu sem ég bauð í afmælið mitt í fyrra, hef ekki séð hana síðan, en við stundum sóttvarnir af krafti þótt við lifum alveg lífinu (mínus djamm, eins og áður). Við náðum að spjalla helling og rúnta í hálftíma áður en hún setti mig út við tannlæknastofuna og sparaði mér sársaukafulla gönguferð. En sykurbindindi gengur fínt og covid-keppurinn hefur minnkað, fannst umfang hans minna í sturtu morgunsins.

 

Snjallræði  1Bloggið mitt er að verða eins og Facebook-fréttir (sjá færslu í gær) en einn fb-vinur velti fyrir sér í dag ... að það væri nú eitt við baráttuna gegn bólusetningum, maður heyrði miklu minna talað um að innflytjendur væru að tortíma heiminum og að loftslagsbreytingar væru blekking. Eins og krafturinn fari úr því annað. Fb-vinur minn var m.a. sakaður um einelti í athugasemd. Það er svolítið vandlifað núna.

 

Blogg„vinkona“ sendir mér reglulega pósta og gerði án miskunnar öll árin (13) sem ég var í bloggpásu, ég kann ekki að stoppa þau, og í þeim nýjasta talar hún um bólusetta sem óhreina, almennilegir karlar í dag vilji alls ekki óhreinar konur, svo þær ættu að sleppa því að fá sprautu svo einhver vilji þær.

 

Af hverju sá ég þetta ekki fyrr? Samkvæmt þessu mun enginn almennilegur maður líta við mér þríbólusettri. Thank you very many, Þórólfur!

 

Neðri myndin tengist innihaldi færslunnar ekki neitt.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 28
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 223
  • Frá upphafi: 1529728

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 193
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband