Fertugt hið nýja níræða og stórkostlegt snarræði

Stofugluggi lekurDrengurinn að heiman þessa helgi og ég gargaði af gleði þegar ég var orðin ein ... dinglaði ryksugunni, sveiflaði tuskum og fór í luftguitar með þveglinum. Villt vinnuhelgi fram undan og þá er gott að hafa allt fínt í kringum sig. Settist niður í stofusófa eftir mat í gærkvöldi og las smávegis (vinnutengt) og fussaði jafnframt yfir myrkrinu úti sem kom í veg fyrir að ég nyti þess að horfa á brjálað veður, hafið mitt í ham, í suðvestanátt en áttin sú býður oft upp á glæsileg sjávartengd skemmtiatriði. Mér fannst heyrast óvenjulega hátt í rigningunni, eins og hún væri inni í Himnaríki - og hún reyndist vera það. Lárétt rigning í afar miklu magni og vindi upp á 20 metra á sekúndu varð einum glugga stofunnar ofviða og einnig herbergisglugga drengsins - það lak við litlu opnanlegu gluggana. Fínustu gluggar og bara nokkurra ára gamlir, en þarf að láta þétta þessar elskur enn betur þótt svona veður séu sjaldgæf.

Mynd: Í sjokki á Snapchat á Skaganum.

 

Þegar ekkert er sunnanmegin nema sjór og svo Reykjanesskaginn sem stendur sig ömurlega sem skjólgarður, getur allt gerst. Esjan gerir oft góða hluti fyrir Reykvíkinga og nærsveitir en Keilir ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir Skagamenn í sunnanátt, hvað þá Þorbjörn í suðvestan, hann sést ekki einu sinni héðan. Ég sem vann í fiski í Grindavík þegar ég var 15 ára og hjálpaði við að bjarga verðmætum. Ég bjó mig undir nótt hinna þúsund handklæða í gær en varðist samt fimlega með plastpoka, Costco-eldhúsrúllu, nokkur handklæði og dagblöð að vopni og fljótlega upp úr því hrósaði ég sigri því rigningin gafst upp og hætti.

Ekkert lak niður á gólf, þökk sé snarræði mínu, sjálfstjórn og hugrekki, en þetta læt ég laga sem allra fyrst. Þessi mánuður hefur verið harður í horn að taka þegar kemur að veðri sem ég nýt samt itil hins ýtrasta ÞEGAR gluggar halda og óveðrið sýnir sitt fegursta í DAGSbirtu.

 

Aldraðir skoppaNú þarf ég að taka allt aftur sem ég hef sagt um aldursfordóma ónefnds krabbameinsfélags á sv-horninu, fertug kölluð kona á þínum aldri, munið, sem mér fannst betur eiga við konur um áttrætt. Nú hefur komið á daginn að þau hjá Krabbó höfðu rétt fyrir sér allan tímann. Í gær opnuðust loks augu mín. Ég hef samt fengið svo fjölmargar vísbendingar í lífinu, öll hintin sem ég náði ekki ... dreymdi t.d. 11-12 ára að guð hefði sagt mér að ég myndi deyja í hárri elli 38 ára, og rétt um fertugt þegar allt sem amaði að mér og jafnöldum mínum var kallað breytingaskeið (líka fótbrot) þegar meðalaldur þess skeiðs er í raun 51 árs en það var ekki verið að reyna að drepa okkur með því, heldur voru þetta bara sterkar vísbendingar. Ég mun alla tíð fyrirverða mig fyrir að hafa borið mig saman við manneskju sem var ekkert annað en gamalmenni, Madonnu sem hélt tónleika fram eftir öllu - pottþétt með ungum klónum af sjálfri sér sem líka fæddu fyrir hana börnin sem hún hlóð niður eftir að hún varð senior (40).  

 

Ég er ekki sérlega sigld sem útskýrir en afsakar ekki fávisku mína, ég mætti líka vera betri í útlensku og hef svo sem alltaf verið fyrir tilviljun í vernduðu umhverfi þegar ég fer utan (au pair í London - með Kór Langholtskirkju víða um Evrópu - hjá Elfu og Tom í Bandaríkjunum og Hildu og co í Karíbahafinu) þar sem aldur barst aldrei í tal. Nú held ég mig til hlés og geri viðeigandi ráðstafanir af auðmýkt. Ég ætla að taka þessu, vera þakklát fyrir þessa aukaáratugi sem eldri borgari.

Róðravélin sem mig langar svo að kaupa mér mun víkja fyrir göngugrind. Eldum rétt-maturinn fyrir sveskjugraut. Ég kaupi mér sokkaífæru og hætti þessu brölti við að finna góða hreyfingu heima (ég get stundað róleg húsverk og gengið í hægðum mínum upp og niður stigana) sem ég var að leita eftir þegar ég fór fyrir mistök inn í megrunarauglýsingu (bjakk) sem þó opnaði augu mín. Ég heiti Gurrí og er eldri borgari! Endilega ekki segja heldri borgari, nema þá helst að opnist fyrir að við almúgafólkið megum bera ættarnöfn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef þú breytir nafninu þínu í Guðríður Svíndal eða Gurrí Flatey í símaskránni myndir þú ekki lengur tilheyra sauðsvörtum almúganum, Gurrí. cool

Drengurinn á heimilinu gæti einnig tekið upp ættarnafnið Svíndal og allir hans afkomendur, enda þótt nafnið fengist ekki skráð í Þjóðskrá.

Í símaskránni eru nöfnin Sigga Kling og Sigríður Klingenberg en enginn heitir þeim nöfnum, samkvæmt Íslendingabók og Þjóðskrá.

Þar að auki er nafnið Guðríður Svíndal miklu merkilegra og flottara en til dæmis Guðríður Líndal. cool

Svínadalur

Lög um mannanöfn nr 45/1996

Lög um skráningu einstaklinga nr. 140/2019

Þorsteinn Briem, 23.1.2022 kl. 11:21

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þjóðskrá eða ekkert ... en þetta er agalegt ættarnafn, takk samt.

Guðríður Haraldsdóttir, 23.1.2022 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 27
  • Sl. sólarhring: 267
  • Sl. viku: 1569
  • Frá upphafi: 1460502

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1250
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband