Færsluflokkur: Bloggar
16.3.2022 | 17:47
Staðfesting á góðri greind og loftsteinn á leiðinni
Internetið gefur og gefur. Gleður og gleður. Í morgun rakst ég á góða grein, Átta vísbendingar um að þú sért greindari en gengur og gerist, en lestur hennar varð til þess að mér er skapi næst að sækja um inngöngu í Mensa. Þessi grein er ekki alveg fullkomin en gefur þó góða mynd.
1. Þú reykir ekki. Ég hef ekki reykt síðan í apríl 2020.
2. Þú dýrkar ketti. Ójá, hunda líka.
3. Þú ert hávaxin. Heldur betur. Ég er 1.71 að hæð sem þykir stórt og stæðilegt í mörgum löndum.
4. Þú ert elsta systkinið. Hér fannst mér rannsóknin aðeins falla. Hver getur gert að því þótt hann fæðist til dæmis nr. 2 í röðinni? Svo er ég líka hærri en Mía systir.
5. Þú ert örvhent. Annað sem dregur úr trúverðugleika þessarar annars góðu greinar en eftir að hafa æft mig með vinstri í allan dag hef ég uppgötvað að ég hafi fæðst örvhent en verið neydd til að nota hægri. Það tíðkaðist í denn.
6. Þú hefur lært á hljóðfæri. Ójá, ekki bara eitt og ekki bara tvö, heldur á píanó, trompet og althorn, held það nú.
7. Þú ert grönn. Enn og aftur slæm vinnubrögð hér. Það hefur gleymst að segja grönn miðað við eitthvað. Og miðað við Keikó er ég til dæmis rosalega grönn.
8. Þú hefur prófað vímuefni. Einn og einn ólöglegur smókur á yngri árum telst kannski með en eitt sinn þegar ég keypti mánaðarskammt af Herbalife (vann með harðri sölukonu) voru vinsælar Herba-pillurnar green og beis sem voru svo bannaðar af því að ígildi amfetamíns fannst í þeim ... og ég hætti að strauja þvottapoka.
Sjálfur Páll Óskar á afmæli í dag. Þótt ég sé nánast hætt að skrifa fyrir Vikuna tek ég þó eitt og eitt verkefni ef ég er beðin fallega, eins og stöku viðtal í kökublaðið og að finna stundum afmælisbörn vikunnar, og láta fylgja fróðleik með. Þegar ég leitaði að einhverju sem tengdist afmælisdegi Palla rakst ég á ógnvekjandi staðreynd sem getur komið 878 ára afmæli hans í uppnám. Það er hugsanlegt, eða einn á móti þrjú hundruð, að loftsteinninn 1950DA rekist á jörðina þann 16. mars árið 2880. Afkomendur ykkar verða orðnir talsvert fjarskyldir ykkur á þeim tíma.
MYND: Flóðbylgjuviðvaranir vegna þessa atburðar fundust við gúgl.
Talandi um afkomendur. Nýjasti frændinn í ættinni fékk nafn fyrir skömmu. Foreldrar hans gjörsamlega klikkuðu á því að skella millinafni á drenginn, t.d. Óli. Þá mynduðu upphafsstafir hans orðið BÓK sem hefði getað haft áhrif á val hans á ævistarfi. Bókmenntafræðingur, bókavörður eða bara bókaormur.
Ég sótti mér kaffibolla nr. 2 um eittleytið, rólegt að gera akkúrat þá og hafði verið að hlusta á útvarpið í gegnum sjónvarpið ... en allt í einu hófst sjónvarpsleikfimi sem ég hef heyrt um að sé sniðug og alltaf ætlað að prófa. Þetta byrjaði í kóvidinu, held ég. Ég færði skrifborðsstólinn ögn til vinstri og fylgdist spennt með. Við ætlum að vera með sitjandi æfingar, sagði konan og mér létti, gat þá haft augun á tölvuskjánum á meðan og hætt að þjálfa ef verkefni birtist.
Ég hljóp á meðan ég sat á stólnum og rétti svo handleggina út vítt og breitt fyrir ofan mig. Ég var orðin útkeyrð þegar ég áttaði mig á því að þetta hafði bara verið upphitunin ... en hefði samt haldið áfram ef ég hefði ekki tekið eftir köttunum. Þeir voru lamaðir af skelfingu yfir þessum látum, ekki bara í ískrandi stólnum, heldur stappi mínu með fótunum og ógnandi handahreyfingar í næstum heila mínútu. Mér fannst ég ekki geta gert þeim þetta lengur. Ég stóð upp en hrundi niður í gólf, gat með herkjum skriðið fram á bað og híft mig upp við vaskinn á viljastyrknum einum saman. Sá vart út um augun fyrir blóðiblönduðum tárum. Mér tókst fyrir kraftaverk að skrúfa frá kalda vatninu og svala þorstanum. Af hverju eru vatnið ekki saltbætt? Held að dýrmæt sölt hafi svitnað úr líkama mínum eftir erfiðið í stólnum en ég er aðeins að ná mér. Blogga þetta frá baðgólfinu en næ mér senn. Hélt að það væri ekki alveg svona langt síðan ég fór síðast í ræktina. En ég ætla nú samt að reyna aftur á morgun, þá tilbúin með þetta beisik dót; vatn, álpoka, transistor-útvarp, áttavita, landakort.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.3.2022 | 01:28
Aðdáandinn á hlaðinu og rjómaterturaunir
Hilda systir vildi auðvitað gamaldags rjómatertu fyrir sig og fylginautana. Sem var talsvert flóknari framkvæmd en Betty Cr-súkkulaðikaka - það þurfti að rifja upp annars einfalda glasatertuuppskrift, ákveða tegund af Royal-búðingi og athuga hvort ég ætti ekki rjómasprautu. Og jú, meira að segja blandaðir ávextir í dós leyndust í skápnum - og ekki útrunnir. En engir súkkulaðispænir sem hefði verið alveg fullkomið. Ég valdi sítrónubúðing og notaði meiri rjóma en mjólk við tilbúning hans sem gerði hann sannarlega ekki verri. Gestirnir skruppu í gönguferð hjá Langasandi og komu svo til baka nánast örmagna af umhverfishrifningu og glorhungraðir. Tertan kláraðist næstum því. Golíat og Herkúles, frændhundar mínir, voru með í för og slógu í gegn hjá kisunum, eins og venjulega, við elskum hunda. Gestirnir höfðu á orði að ég liti mjög vel út. Mjög - en ég var svo spennt að vita hvernig þeim þætti rjómatertan að ég gleymdi að segja þeim frá spennandi ástæðu fegurðarinnar. Sjá ögn neðar í blogginu.
Við fimmmenningarnir knáu áttum pantað borð á Galito og fórum þangað í gómsætan mat en svo átti Hilda eftir að kaupa inn og þar sem Krónan er á móti Galito notaði hún tækifærið, snjallt þegar bensínlítrinn hækkar nánast um 100 kall á viku, ef marka má orð Facebook-vina minna sem hafa ekki enn lagt bílum sínum eða gefið hann. Ég hafði heitið mér því að fara með grímu næst og í dag var komið að því. Fyrir nákvæmlega viku var ég eina grímulausa manneskjan þar inni og fólk starði á mig. Alveg var það dæmigert að ég skyldi svo vera eina manneskjan með grímu í búðinni í dag og fólk starði á mig. Ég afsakaði mig við manninn á kassanum (ég þarf að læra sitt af hverju mikilvægara áður en ég læri á sjálfsafgreiðslukassa), sagði grímuna fela hrukkur snilldarlega og að ég lenti mun oftar næstum á séns með grímu. Ég bætti svo við að ég væri eina manneskjan á Akranesi sem ekki hefði fengið covid svo gríman væri sennilega óþörf en þá tjáði hann mér að hann væri hinn Skagamaðurinn - og mætti sko alls ekki smitast því hann væri að fara til útlanda eftir nokkra daga.
Einhver bíll sem stóð hérna á hlaðinu í dag vakti athygli okkar Kela pokakattar von Kattholt, okkur datt helst í hug að þetta væri aðdáandi sem langaði kannski að sjá mér bregða fyrir við gluggann - það var eiginlega eini möguleikinn fyrst hann sneri ekki að sjónum. Ég stóð kæruleysislega upp eftir þessa uppgötvun og færði mig frá glugganum, hljóp hratt inn á bað og setti á mig meik og maskara en fann ekki varalitinn. Beit mig til blóðs í neðri vörina, það virkar vel úr fjarlægð. Mér tókst líka örsnöggt að skipta um föt með því að þykjast beygja mig niður, eins og ég hefði misst eitthvað á gólfið. Svo kom ég gangandi rólyndislega með uppáhaldsmúmínbollann í annarri þegar ég var komin í sjónmál og settist í stólinn, bein í baki sem gerir mann alltaf flottari. Og með hjartslátt af spenningi.
Stráksi kom inn í herbergi örskömmu seinna, nýkominn úr sundi og gufu, hér hinum megin við íþróttavöllinn. Hress og kátur - með arnarsjón. Sérðu hvíta bílinn þarna úti sem snýr að okkur? Fyrir ofan hausinn á Kela? Hvernig lítur maðurinn út, þessi í bílstjórasætinu? spurði ég spennt. Það væri ekkert verra ef hann væri sætur en mér er samt orðið meira sama um útlit eftir að ég varð sextug, feykinóg að þeir andi og geti keyrt bíl.
Ha? Það er enginn þarna inni. sagði drengurinn eftir að hafa litið á bílinn. Hrósaði mér síðan fyrir hvað ég væri fín. Ég veit ekki hvort ég trúi stráksa með þetta fyrrnefnda. Eru ekki til sérstakar framrúður sem sést ekki í gegnum? Sem gerir þennan gaur (karl) svo miklu meira spennandi. Sjáum til. Leyfi ykkur að fylgjast með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2022 | 14:13
Grátlegt ekki-grín og satanískt samsæri
Maðurinn á dælu 3 tók bensín fyrir 1.000 kall. Hvert var hann að fara? Að dælu 4? Fólk tekur sumum hlutunum bara létt þessa dagana enda veit það svo sem að ef það rífur kjaft verður spreyjað yfir það gasi ... geymt en ekki gleymt, eins og við trukkastjórarnir segjum stundum.
Svo er það COVID, brandararnir um að gleymst hafi að láta veiruna vita að hún væri yfirstaðin - mikið þakklæti fyrir allt frelsið en af hverju heyrðust samt bara endurteknar gamlar og jafnvel ýktar fréttir í útvarpinu um smit og dauðsföll þegar allt væri búið?
Von að fólk sé ringlað. Hin trúgjarna ég fór meira að segja grímulaus í Krónuna um síðustu helgi til að kaupa eitthvað sem ég gleymdi að panta í Einarsbúð, var ekki allt covidkjaftæðið búið? Nennum við þessu innilokunarrugli eitthvað lengur þegar við viljum komast í sleik við ókunnuga? Well, ég ætla með grímu næst. Karlarnir horfðu á mig með enn meiri áfergju þegar ég var með grímuna. Hvít og blá gríma klæðir mig betur, augun verða grænni (mögulega daðurslegri) í samanburðinum við hvíta og bláa litinn.
Myndin: Ég á nokkrar veggklukkur en er ekki beint að safna þeim. Þó myndi ég sennilega gefa úr mér annað nýrað (kannski) til að eignast þessa klukku ... hún passar vel við Monty Python-klukkuna mína í eldhúsinu. Það styttist í afmælið mitt, 12. ágúst!
Klaufagangur miðaldra venjulegs fólks á netinu - enn eitt framhaldið: Í einni vinnunni minni næ ég mér í skjöl í einhverju kerfi sem er ansi hreint einfalt og fínt - og skjölin eru word og það allt. Well, ég hef fengið skammir fyrir hugleysi við að prófa mig áfram sem maður eigi alltaf að gera ... og ég hef reyndar gert nokkrum sinnum með skelfilegum afleiðingum. Ég var bara að leita að einhverjum fídusi til að auðvelda mér að breyta einhverju ... en ... Nú þarf ég t.d. alltaf að hlaða skjölunum niður hjá mér því ég hef einhvern veginn fiktað þannig að word-skjölin breytast í pdf-skjöl þegar ég reyni að lesa þau á staðnum og eru óbreytanleg - ekkert mál niðurhöluð á desktop hjá mér. Ég myndi hiklaust telja mig góða í hlutum sem ég kann (I´m from Þingeyjarsýsla, munið) og hef lært, hef meira að segja prófað mig áfram með góðum árangri - en samt oftar slæmum. Er ég virkilega eina manneskjan sem fær skrítnar meldingar stundum og sjokkerast pínku, eins og þegar ég ætlaði að fara að panta mat hjá Eldum rétt í fyrradag kom: Við sendum ekki mat þangað sem þú býrð-eitthvað (já, ég fyrirgaf ER, maður á ekki að láta bitna á frábæru fyrirtæki leiðindin í einum starfsmanni - og fóstursonurinn (litli prinsinn) hefur verið svolítið vængbrotinn yfir skorti á fínheitum þrisvar í viku). Það endaði með því að ég sendi póst til þeirra og í ljós kom að þetta var ekki rétt - þau senda enn á Skagann en ég gat pantað pakka samt þótt frestur væri liðinn, nema ég þurfti að velja pakka, gat ekki valið það besta úr öllum pökkum ... svo ég valdi léttlagaða pakkann og mun því galdra fram góðan mat á svipstundu, drengnum til gleði og vissulega hollustu.
Eins og venjulega legg ég hart að mér að gleyma því hvað verður í matinn í Himnaríki á mánudag, þriðjudag og miðvikudag ... það er ekkert mál að finna eitthvað hina dagana. Þannig.
Varúð - hreinskilni ... mér finnst þau hreinlega öll frábær lögin í Söngvakeppninni, grípandi og góð. Veðja þó á Rvíkurdætur eða Ellenardætur - bæði lögin frábær - en hin líka og erfitt að segja hvernig fer. Kannski við stráksi höldum Eurovision-partí eftir að Hilda og co verða farin í bæinn, við fáum góða heimsókn á morgun - þar sem hún kemur klyfjuð kattamat (Royal Canin Urinary, sérfæði frá dýralæknastofu, Keli fær annars þvagsteina og hinir þrífast brjálæðislega vel á þessu fæði líka) og sennilega klórustaur líka sem var sérpantaður (með hennar hjálp) á netinu og Davíð vonandi haft tíma til að setja saman með borvél. Nú verð ég að muna að fá Davíð frænda eða Ellen frænku í alls konar kennslu, ég nenni ómögulega að vera svona kerling ... Sonur minn kenndi mér hlutina en gerði þá sennilega enn oftar fyrir mig - ég er ekki góð í að gúggla, finna hlutina á YouTube og svona, og jafnvel eitt orð sem ég misskil á ensku getur haft hroðalegar afleiðingar ... ég var næstum búin að eyðileggja tvo lampa sem ég fékk í jólagjöf vegna þess. Ég skildi ekki orðið perustæði, skrúfaði bara og skrúfaði og skrúfaði ... skrattaðist til að setja örvæntingarfullt hjálparleysi mitt á Facebook (jessss) og eftir að ég skrúfaði bara perustæðið úr gekk hitt eins og í sögu, auðveldasta mál í heimi. Þetta gæti líka tengst óþolinmæði hjá mér. Ef hlutirnir ganga ekki upp í hvelli hjá mér sný ég mér að öðru (Sjá Rómantísk sakamál, 2. tbl. 2006, bls. 32-84).
Ég öskurgræthlæ stundum þegar ég rifja upp orð gamla umsjónarkennarans míns þegar ég útskrifaðist úr 12 ára bekk. Ég spurði hann hvað hann héldi að ég ætti að leggja fyrir mig í lífinu (ekki orðrétt og ég man ekki í hvaða samhengi). Þú gætir orðið býsna góð í tungumálum, sagði elskan hann Rögnvaldur. Hláturinn bullar ekki síst upp þegar ég les aftan á kannski pakka þar sem stendur á útlensku: Látið malla í et par minuter ... og ég man aldrei hvort það stendur fyrir eina mínútu eða tvær (sem er líklegra), ég vil ekki gera neitt í fljótfærni og læt malla í tvær. Hin Norðurlandamálin elta þessa svívirðu, nema íslenskan, við segjum: Eina mínútu, tvær mínútur, sem er auðvitað svo miklu réttara. Par þýðir eitthvað tvennt á íslensku en munið ... ég er manneskjan sem las í áratugi um alla dýralæknana í hernum í ensku spennubókunum ... svo par getur alveg þýtt eitthvað annað á dönsku, norsku og sænsku.
Eitthvað satanískt samsæri gegn köttum virðist hafa skollið á hjá ráðafólki á Akureyri. Ekki nóg með að kettir verði frelsissviptir þar innan tíðar, heldur er búið að gera Ragnheiði hjá Kisukoti ókleift að reka áfram athvarf fyrir útigangsketti. Hún bjargaði lífi þeirra, mannaði þá, eins og það kallast, og fann ný heimili fyrir þá, þvílíkt glæpakvendi, vantaði vask einhvers staðar? Ekki láta yfirvöld á Akranesi svona út í Villiketti, ég tryði bænum frekar til að styrkja gott starf þeirra en alla vega veit ég að almenningur á Skaganum hefur keypt mat og sitt af hverju fleira og skilið eftir í körfu í dýrabúðinni eða Krónunni. Nú mun verða meira að gera hjá bænum - og ef þeir dirfast að lóga köttum af því bara, verður þá allt fyrst brjálað. Af hverju styrkti ráðafólk ekki starfsemi hennar frekar en að reyna að bregða fyrir hana fæti? Víða leynast dýrahatarar. Ég vogaði mér að segja eitthvað fallegt um hunda (ég er mjög hrifin af hundum) á einni Facebook-síðunni og fékk skammir fyrir.
Ég hef lýst því yfir að ég ætli ekki framar til Akureyrar, þótt ég þekki þar dásamlegt fólk. Við systur höfum árum saman farið norður og sl. sumar leyfðum við okkur að gista tvær nætur á Hótel KEA sem var æðislegt. Akureyri er fallegur og góður bær sem ég mun sakna. Vonandi verður svona hugsunarháttur kosinn á brott - en einhvers staðar sá ég að fæstir bæjarfulltrúarnir gæfu kost á sér aftur í vor. Settu þeir þessar andstyggðarreglur á og hættu svo? Má það bara? Vonandi má breyta þessu til baka.
Eitt vandamál, lítið en flókið og mögulega átakanlegt ef eitthvað klikkar. Ég get ekki ákveðið mig hvort ég eigi að hræra í eina Betty Crocker-súkkulaðitertu á morgun eða baka botn og gera gamaldags rjómatertu (eða slíka með t.d. nýja Eitt sett-búðingnum frá Royal og sleppa niðursoðnu ávöxtunum) ... Kannski ég ætti að spyrja Hildu - en ef hún tekur nú ranga ákvörðun? BC klikkar ekki, kannski ég velji það bara ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.3.2022 | 15:15
Heilaþvottur A-fólks hefur áhrif ...
Morgunverkin drjúg? Æ, er það ekki bara heilaþvottur og innræting hjá A-fólki sem þolir ekki þegar við B-urnar náum oft lengri og sennilega værari svefni aðeins aftar í sólarhringnum en það? Rannsóknir (á YouTube?) hafa sannað að aðeins fólk með hreina samvisku getur sofið út! Ég var svo örg út í sjálfa mig í morgun þegar ég drattaðist gegn vilja mínum á fætur rétt upp úr átta. Fjandans vítamín. Ég hefði sennilega átt að enda á því að fara í sturtu en hvernig átti mig að gruna hvað morgunninn bæri í skauti sér?
Eftir hressandi sturtu fannst mér þurfa að setja í þvottavél ... og skipta á rúmunum svo ég gerði það áður en ég vissi af. Jú, þvo rúmteppin líka sem ég er hálfnuð með ... svo var komið meira drasl í fatahengið (áður þvottahúsið) svo ég druslaðist til að setja dagblöð í einn pokann, þau eru skrambi fín undir kattasandinn þegar búið er að lesa þau, tímaritin í körfu og ganga frá margnota innkaupapokum. Mjög orðið fínt. Og ahhh, jólaburðarpokarnir undan jólagjöfum okkar stráksa þarna í einu horninu á dyngju minni sem ég íhugaði að losa mig við en nýtna Umhverfis-Gurrí vissi að það kæmu jól á eftir þessum. Hafði ekki fyrr en í gærkvöldi fundið besta staðinn fyrir pokana (ég þarf minn tíma) og í morgun kom ég þeim fyrir í tómu ferðatöskunni inni í skáp, engin ferðalög í bráð og í raun hroðaleg eyðsla á plássi allt þetta loft í ferðatöskunni. Þið minnið mig kannski á þetta í byrjun desember?
Klukkan var ekki orðin tíu og Himnaríki gljáði, það var svo fínt. En þetta A-fólk má nú samt alveg hoppa upp í morgunstundgefurgullímund-kjaftæðið í sér. Það er hægt að gera svo margt skemmtilegra á morgnana en húsverkjast. Já, og svo tók ég nokkrar hillur í skáp stráksa í gegn ... vona að hann taki ekki eftir því að nokkrir bolir og buxur fóru ofan í poka handa Rauða krossinum.
Af hverju bloggar þú svona lítið þessa dagana, dóttir góð? spurði móðir mín í morgun. Þú ert löngu fallin af topp fimm, bætti hún við.
Jú, af því að ég er í þremur störfum og þarf að gera húsverk þar að auki, mamma mín, ég þarf að kaupa mitt eigið skyr og snyrtivörur, öfugt við aðra áhrifavalda, þyrfti að biðja Ellen frænku að kenna mér betur á Instagram ...
Nei, nei, skrækti mamma. Ég á sko nóg með að komast yfir snappið, Facebook, TikTok, Pinterest og Twitter, ásamt RÚV, Stöð 2 og Sjónvarpi Símans, Netflix og Disney og líka Storytel!
Efri myndin er af Mosa og Kela sem kúra oft saman á morgnana/ daginn / kvöldin / nóttunni.
Neðri myndin tengist þessari færslu mjög svo óbeint, líklega ekki neitt, en er lýsandi fyrir ástandið í stefnumótamálum heimilismeðlima Himnaríkis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2022 | 17:33
Öðruvísi innrásir í heimabanka, netútför og skrilljón afmæliskveðjur
Frekar algengt er orðið að í heimabankanum bíði manns alveg óvænt vongóður reikningur einhvers góðgerðafélags. Ég hlýt að hafa meyrnað eitthvað með árunum því ég borga stundum kvikindin þótt ég sé ekki sérlega sátt við innrásina í heimabankann minn. Kannski af þakklæti fyrir að sleppa við símtal þótt ég segi oftast nei því ég styrki alla vega þrjú félög í hverjum mánuði - og sumt árlega, eins og Kattholt og Rauða krossinn (Krabbameinsfélagið fær ekki krónu (aldrei framar) eftir að hafa hætt með brjóstaskimanir á Skaganum fyrir mörgum árum, við vorum ekkert of góðar til að fara í bæinn, allir á bíl-ranghugmyndin).
Núna tvisvar á ekki svo löngum tíma hef ég, eftir að hafa greitt óvænta góðgerðarukkun, fengið símtal í kjölfarið þar sem ég er beðin um að borga meira, helst einhverja upphæð mánaðarlega. Þessi félög sjá um það sem ríkið ætti að gera en gerir ekki, svo ég skil þessar rukkanir svo sem. En ég nánast öskraði (innra með mér) þegar ég fékk seinna símtalið og fattaði samsærið, og sagðist hafa borgað greiðsluseðilinn, ég ætlaði ekki að borga meira - og særði eflaust félag sem gerir ofboðslega góða hluti fyrir skjólstæðinga sína ...
Samt er ég merkt í símaskrá með hauskúpu: Varúð, ekki dirfast að hringja í þetta númer! Urrr. Maður gefur sem sagt færi á sér með því að borga óboðnu greiðsluseðlana - sem er ekki sniðugt fyrir þessi félög að gera. Ég urraði ekkert mjög fast á elskulegu konuna en sagði samt nei. Þó tel ég nokkuð öruggt að ég sé að breytast í grömpí old lady því ég beið stíf eftir að ná sambandi við Arion banka í morgun til að skammast yfir því að hafa ekki fengið sent debetkort, gamla rann út og ég gat ekki notað það í gær. Á meðan ég beið eftir því að bankinn hringdi í mig (sem er reyndar fín þjónusta) fór ég í gegnum blöð og tímarit síðustu vikna sem voru í snyrtilegum bunka (í alvöru) hjá mér - viti menn, þar inn á milli leyndist umslag með kortinu í. Ég hélt hróðug á kortinu þegar síminn hringdi ... Arion banki.
Ég var eldfljót að hugsa, spann upp svo æsandi og spennandi sögu af ribböldum og ræningjum að Arion-maðurinn lokaði öllum kortunum mínum í kjölfarið ... Ég verð að hætta að lesa spennusögur á kvöldin.
Ég hafði beðið örg eftir að heyra: -Við sendum þér nýtt kort en það kostar peninga, og svo kostar 120 krónur að hringja í okkur - eða -þú verður að koma til Reykjavíkur og sækja það.
Þá hefði ég reyndar skipt um banka, upp á prinsippið, minni þjónusta-meira verð, ég var búin að æsa mig upp í það (þú getur hirt þinn fjandans felgulykil-dæmið). Svo svaraði bara ljúfur og kurteis ungur maður og skemmdi allt fyrir Landsbanka eða Íslandsbanka sem báðir eru með útibú á Skaganum, ekki Arion nefnilega sem er virkilega léleg þjónusta í nærri 8.000 manna kaupstað, bráðum borg.
Ég treysti mér hreinlega ekki í útförina hans elsku Tomma míns í dag, hef ekki farið í slíkar athafnir síðan sonur minn dó, og horfi frekar á netinu. Þetta var flott athöfn, fín músík í hans anda og jú, vissulega aldrei auðvelt að kveðja góðan vin, en ég hló líka - svo mikið að nú veit ég hvað þýðir að öskurhlæja. Það gerði ég þegar presturinn sagði söguna af því þegar áhöfnin á bátnum hans Tomma fékk svo svæsna matareitrun eitt árið að á stíminu heim var Faxaflóinn eins og kakósúpa ... Tommi hefði átt að skrifa sögurnar sínar niður, ég sé eftir að hafa ekki skrifað allt niður sem hann sagði en eitthvað af því er þó til á þessu bloggi, aðallega síðan áður en ég tók þrettán ára pásuna.
Fóstursonur minn á afmæli í dag, er orðinn 18 ára, búinn að vera hjá mér í fimm ár - upp á dag núna á mánudaginn. Ég setti þessar myndir af honum hér inn í tilefni afmælisins, hann á þessar myndir af sér með flottustu mönnum í heimi, Palla árið 2018 og Hr. Hnetusmjöri tveimur árum seinna, þegar Frystihúsið, ísbúðin besta á Akratorgi, opnaði 2020. Verð að láta prenta þessar myndir út og ramma inn handa honum og setja upp á vegg. Kannski náum við Eminem næst? Setti mynd af stráksa einum á Facebook í morgun, þar sem ég tilkynnti afmælið hans og sé ekki betur, í alvöru talað, en að allir á Internetinu hafi lækað og sent honum fallega afmæliskveðju. Sá verður glaður þegar hann kemur heim og sér allar kveðjurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.2.2022 | 14:04
Elsku Tommi ...
Slæmar fréttir bárust í gærmorgun af innrás Rússa í Úkraínu en það var ekki það eina slæma, einnig barst sú sorgarfregn að Tommi, fv. strætóbílstjóri, hefði orðið bráðkvaddur. Hann varð ekki nema 62 ára sem er enginn aldur, ég veit það af reynslu. Við hittumst sjaldan en vorum alltaf miklir mátar, mér þótti mjög vænt um hann. Ekkert mjög langt síðan hann hirti mig og stráksa upp á Skagabrautinni og skutlaði okkur þangað sem við ætluðum að fara og það var svo gaman að spjalla við hann, eins og alltaf.
Ég sá einhvern veginn alltaf fyrir mér að við yrðum á Höfða (dvalarheimili) að rífast um hvað væri góður matur og hvað ekki. Það besta sem hann vissi var þessi gamaldags íslenski matur sem ég get ekki hugsað mér; hræringur, súrsað slátur, þorramatur eins og hann leggur sig. Flest annað kallaði hann þarmakítti.
Myndinni nappaði ég af síðunni hans Svavars, frænda hans og einnig fyrrum bílstjóra.
Sögurnar hans Tomma voru svo fyndnar. Lýsingar af fárviðrinu í Finnafirði og sögur úr hans eigin lífi. Einnig að heyra hann lýsa þeim hryllingi sem myndi hellast yfir þjóðina ef til dæmis Framsóknarmanni yrði fórnað, það kæmu yfir okkur skelfilegar hörmungar, drepsóttir og slíkt (hvaða F-manni var óvart fórnað í lok árs 2019?). Miklu nær að fórna sjálfstæðismanni, vildi hann meina, og var að sjálfsögðu að tala um mannfórnir á blótum Ásatrúarmanna sem færu að sjálfsögðu fram ef drukkið væri of mikið öl ...
Og eldsnemma einn morguninn á strætó fyrir löngu, þegar við vorum að beygja inn í Grundahverfið á Kjalarnesi rann vagninn til í lúmskri hálku yfir á hina akreinina - og akkúrat að koma bíll á móti. Tommi bjargaði því meistaralega.
Vá, ekki hefði ég viljað vera ökumaðurinn í þessum bíl, sagði ég.
Ekki hefði ég viljað vera nærbuxurnar hans, drundi í Tomma og farþegarnir skelltu upp úr, enda lá Tomma ekki lágt rómur. Ekkert langt síðan ég bloggaði um spjall okkar eitt sinn í strætó, þegar við biðum í Mosó eða Mjódd eftir seinum farþega. Ég spurði Tomma hvað hann væri að lesa þá dagana. Jólabókaflóðið stóð sem hæst og ég bjóst við að hann hefði kannski lesið eitthvað af því sama og ég. En nei. Ég er að lesa ritgerð um svarthol eftir Carl Sagan, sagði Tommi (ég man þetta ekki alveg orðrétt) en við bæði hlökkuðum mikið til að fylgjast með geimsjónaukanum James Webb. Tommi átti sama afmælisdag og mamma, 5. maí, og lengi átti ég köttinn Tomma sem bílstjóranum Tomma þótti gaman, enda kattavinur.
Ég bloggaði oft um strætóferðirnar með Tomma, svo oft að Magga systir hans var farin að kalla mig mágkonu sína og sjálf gekk hún lengi undir heitinu Magga mágkona í blogginu mínu, áður en ég tók þrettán ára pásuna.
Birti hér aftur mynd af honum með rauða hárkollu á Írskum dögum ... og mig minnir að það hafi komið mynd af okkur tveimur í Séð og heyrt út af einhverju. Ljósmyndari kom í Mosó til að mynda, þetta var áður en endastöðin var færð í Mjóddina.
Svo var það tónlistin ... við gátum spjallað endalaust um góða tónlist, deildum ást á sömu hljómsveitunum, eins og Jethro Tull - og við vinnuna í gærmorgun, eftir að hafa fengið sorgarfréttirnar, spilaði ég bara Jethro Tull, annað var ekki hægt. Tommi og Nonni Allans hafa séð um geggjaðan árlegan útvarpsþátt á Útvarpi Akranes (Sundfélagið útvarpar heila helgi undir jólin í fjáröflunarskyni) á föstudagskvöldinu - og svo ótrúlega gaman að hlusta.
Æ, heimurinn hefur misst litríkan og frábæran mann, mikið á ég eftir að sakna elsku Tomma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2022 | 22:52
Frelsi eða uppgjöf, klökkur smiður og íslenskir Pútínistar
Diddi smiður mætti eftir hádegi í dag og tók út austurhlið Himnaríkis, eldhúsgluggann og litlusvalahurðina - eða þetta sem lekur. Hann fölnaði af hrifningu og nánast klökknaði þegar hann sá svarta ruslapokann sem ég hafði vafið utan um neðanverða svalahurðina sem fór alveg niður fyrir, til að verja sem best heimilið gegn þessu kraftmikla regni í eldrauðri viðvörun. Hann sagði alla vega að þetta hefði verið sniðugt.
Hann kom með til bráðabirgða svona áldæmi sem hann skrúfaði neðst á hurðina - en ál-maðurinn hans var ekki við. Hún er nú orðin svolítið lúin, sagði Diddi um hurðina og ég var svo fegin að hann var ekki að tala um mig, kinkaði bara kolli og fagnaði villt innra með mér. Það þarf ekki meira. Ég lokaði Didda úti á svölum, að hans beiðni, og hélt áfram að vinna. Loks var bankað og þá hafði hann víst reynt heillengi að gera vart við sig. Himnaríki er 99 fermetrar og hann eins langt í austur og hægt var og ég í vestur. Ahh, muna handfang á hurðina utanverða, tautaði hann, ekkert fúll. En á föstudaginn reynir svo á bráðabirgðalagfæringarnar í þriðja rennblauta logn-á-hraðferð veðrinu á stuttum tíma.
Hvað gera hörðustu andstæðingar bólusetninga nú þegar allt hefur verið gefið frjálst frá og með miðnætti á morgun og fátt að frétta í vörubílstjóradeilunni á landamærum Kanada og Bandaríkjanna? hugsaði ég með sjálfri mér þegar ég kíkti á Facebook í dag. Svarið blasti við mér innan þriggja mínútna. Jú, þeir halda með Pútín og stríðsbrölti hans - gegn hinum snarklikkaða Biden sem reynir þvílíkt að sverta orðstír Pútíns í augum alheimsins. Ég er ekki að grínast, Pútínistar á Íslandi!
Þetta frelsi frá höftum sem við öðlumst senn táknar að nú eigum við enn frekar á hættu að smitast af veiru sem enginn veit hvaða áhrif hefur á hvern og einn. Sumir finna varla fyrir smiti, aðrir verða fárveikir og eiga lengi í veikindunum. Ég er bjartsýn, tek D-vítamín, er almennt frísk og hress og þríbólusett, vona það besta. En mér leið samt eins og gefið hefði verið út skotleyfi á ungan frænda minn sem ég held að tækli ekki sérlega vel að fá kvikindið vegna undirliggjandi.
Það hljómar svo miklu betur að kalla þetta frelsi en uppgjöf, takmarkanir og sóttvarnaraðgerðir hefta veiruna ekki lengur, við getum alveg eins gefið henni frelsi til að vaða yfir allt, því fyrr sem hjarðónæmi næst - því betra. Orðalag er mikilvægt þótt það sé nú stundum notað í blekkingarskyni og gegn okkur. Eins og þegar yfirvöld (allir flokkar) kynntu eitt sinn sem jöfnuð og réttlæti það að niðurgreiða milljarði minna í lyfjakostnað og velta þeim kostnaði yfir á veika fólkið.
Mig langar stundum að verða einræðisfrú ... gera geggjaðar breytingar á þjóðfélaginu, landsmönnum til heilla og hamingju, en númer eitt væri, ja, nr. 2 á eftir gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu, að banna að nota hnetur í konudagskökur. Væri líka alveg til í borgaralaun. Ef þetta gengur eftir hjá mér og ég verð myrt myndi ég skjóta á hnetu- og núggatsjúkan bakara sem líklegan killer ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2022 | 22:58
Rauður sigur, fyrir og eftir eldhús og móðgandi auglýsingar
Rauð veðurviðvörun 1 - Himnaríki 0 eftir gærkvöldið svo ég reyni tæplega að fá einkaleyfi á svörtum plastpokum og límbandi til að einangra hús frá vatni sem hefur einsett sér að komast inn. Sendi hirðsmiðnum örvæntingarfullt SMS og spurði hvort hann gæti eitthvað gert því spáð væri álíka veðri á föstudaginn. Ég nýt svona veðurs - þegar heimilið er vatnshelt, eins og í dag eftir að áttin varð suðvestlæg, enda suðurgluggarnir pottþéttir. Samt spurning hvort handklæðin hafi ekki bara gott af því að blotna í regnvatni - og dagblöðin svo sem líka svona ef maður reynir að nota skynsemina ...
Ég er svo fegin að hafa fjárfest í vatnsheldu harðparketi, fallegu að auki, þótt ekki hafi komið stórflóð svo sem. Hönnuðurinn ráðlagði það þegar hún sá kattastóðið. Samt var ég ekki búin að segja henni frá því hve gaman Krummi hefur af því að sulla í vatni. Smiðurinn svaraði, kemur á morgun. Þá get ég sennilega notið óveðursins á föstudag (inni) - ef öldurnar verða flottar, þar að segja.
Facebook rifjaði upp tveggja ára minningu um hvernig eldhúsið leit út á þessum degi 2020 - og tveir af þremur ofvirkum eftirlitsmönnum einmitt að taka smíðavinnu dagsins út. SJÁ MYND HÉR OFAR. Kettirnir voru lokaðir inni allan daginn í herbergi hjá mér á þessum tíma og biðu í ofvæni eftir því að sjá hvað hafði gerst milli átta og sextán frammi. Já, ég var nauðug gerð að A-manneskju þetta tímabil. Þá ekki búin að læra hversu gott er að skríða upp í klukkan tíu á kvöldin sem á sér oft stað eftir að ég hætti að nenna að horfa á sjónvarp. Ætla nú samt að horfa á Verbúðina og Svörtusanda bráðum. Fínt stöff, segja allir.
Svo tók ég mynd fyrr í dag - eins og eldhúsið leit út akkúrat þá - nú er til dæmis svarti ketillinn hægra megin kominn inn í skáp og orðið ögn subbulegra sem tengist matseld kvöldsins, pítsum á litlum tortillakökum sem sló svona líka í gegn, þótt ég heimtaði að drengurinn setti á sínar sem hann gerði: kjúklingaálegg, sveppi, rifinn ost. Tvær slíkar. Mínar voru með sveppum, piparosti, hvítlauksbitum og rifnum osti.
Ég er í raun í trylltri keppni við Eldum rétt og bíð svo spennt eftir því að drengurinn segi: Mikið er ég fegin, kæra fósturmóðir mín, sómi staðarins, sverð og skjöldur, að þú sjáir alfarið um eldamennskuna. Þú ert svo mikið langbest þegar kemur að því að elda.
Hann borðar kvöldmat annars staðar á morgun en svo á fimmtudag fær hann lasagna og föstudag pasta með restinni af sveppunum, hvítlauk og rjómasósu. Svo dettur mér bara ekkert í hug eftir það, þetta á eftir að verða martröð, það var komið upp í vana að velja alltaf einn fiskrétt, einn kjúklinga- og einn kjöt-. Helgin fer sennilega í að lesa matreiðslubækur og búa til vikulista, hringja í Einarsbúð og panta inn. Það fæst allt í Einarsbúð, sennilega líka ef ég ákveð til dæmis að vera með saffraneggjaköku með styrjuhrognum í gullhúðuðu fasanafjaðrasorbeti en Einarsbúð flytur inn ýmsar vörur og verslar líka við Costco, býður upp á margt vinsælt og uppselt þar. Múahaha! Svo má auðvitað ekki gleyma Grjótinu, Kaju, Galito, Flamingo og Sbarro, svo fátt eitt sé talið. Ef ekki verður hálka gæti okkur dottið sitt af hverju snjallt í hug.
Getur verið að hún sé enn starfandi búðin með stærri stærðir sem var með FEGURÐIN KEMUR INNAN FRÁ (þið eruð ekki sætar, hlussurnar ykkar) á plastpokum sínum og ég hef áður bloggað um? Og að hún auglýsi nú á fullu á Facebook. Ætli hún selji enn fatnað í stærri númerum? Það væri gaman að vita.
Plastpokamóðgunarbúðin og þessi eru í sömu verslunarmiðstöðinni svo það gæti alveg verið en ég hélt að hún væri löngu hætt, en það var svo sem ég sem hætti (flutti upp á Skaga).
Fallegur fatnaður fyrir flottar fraukur - myndi ég telja vera betra og líklegra til árangurs, ég myndi stökkva á það.
En ég er líka svo sem manneskjan sem brjálaðist yfir sjónvarpsauglýsingu sem gaf í skyn að fullir strætisvagnar af fólki kæmu seinnipart dags FRÁ Seltjarnarnesi, fólk að koma úr vinnu! Ég man ekki hvað verið var að auglýsa, eitthvað til að lesa í símanum í þægindunum í vagninum á leiðinni heim. Fréttablaðsappið? Auglýsingin hefði gengið upp ef fólkið hefði verið að fara í hina áttina, út á nes eftir vinnudag í Reykjavík. Svo frétti ég að útlitið, fegurðin réði alltaf, ekki sannleikurinn. Sem segir mér að fegurðin komi hreint ekki bara innan frá. En þetta klikkelsi gerði auglýsinguna ónýta í mínum huga. Bara tala við mig til að sleppa við svona klúður. Ef það tengist strætó eða póstnúmerum yrði ég best. Ég bilaðist líka yfir bíómynd eða þáttum þar sem bílnúmerið M-eitthvað sást hjá Skagamanni (sem ekki var nýbúinn að kaupa bíl af Borgnesingi), ekki E eins og átti að vera. En svona í alvöru, ég brjálaðist ekki, bara hnussaði yfir þessum skorti á nákvæmni. Þeir sem hafa vit/áhuga á stjörnuspeki myndu segja: Ahh, hún er með merkúr í meyju, það hlaut að vera. Einn slíkur (frændi í meyjarmerkinu) sagði það gera mig að snillingi. Þótt ég trúi ekki á stjörnumerki trúi ég honum. Og ef ég væri ekki í svona fínum störfum myndi ég sækja um hjá auglýsingastofu og sjá til þess að engu yrði klúðrað, yrði staðreyndatékkari og allar auglýsingar yrðu milljón sinnum betri. Að hafa hlutina fullkomna skiptir máli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2022 | 17:25
DIY í veðravíti febrúar og blóðugt barist á topp fimm
Mamma hringdi í morgun, sérlega hress í bragði, og sú hafði fréttir að færa:
Veistu að þú er komin í topp fimm á blogginu aftur? sagði hún íbyggin. Ég var miklu neðar síðast þegar ég kíkti. Miklu.
Þetta er ekki vinsældakeppni, mamma, mótmælti ég máttleysislega. Að vera Þingeyingur í aðra ættina og fá svona fréttir ... ég fann fyrir gífurlegu þakklæti fyrir að vera ein heima og enginn sæi roðann sem færðist yfir andlitið á mér, sigrihrósandi, stálhart augnaráðið og montsvipinn sem smurðist yfir munn og höku, einnig T-svæðið.
Ekki í fimmta samt, þú ert komin í FJÓRÐA, hrópaði mamma svo glumdi í öllu á Eir. En gættu þín á Trausta veðurfræðingi, nú er að koma svo brjálað veður sem hann á örugglega eftir að notfæra sér til að komast upp fyrir þig. Mikið er ég ánægð með að þú sért farin að ógna þessum körlum. Það kumraði í mömmu. Við kvöddumst með kærleikum og ég mun aldrei sjá eftir því að hafa kennt henni á iPad.
Efri myndina tók húsfélagsformaður hússins sem hýsir Himnaríki en hún er ekki bara fínasti formaður, heldur ansi góður ljósmyndari líka. (Myndir verða skýrari ef ýtt er á þær). Himnaríki er efst til hægri og ég þrái mest af öllu í heiminum (fyrir utan hnetulausa konudagsköku) að fá plexígler í svalirnar, svo ég hafi óheft útsýni alls staðar. Ef einhver fær leyfi til að byggja yfir sínar svalir ætla ég að nota tækifærið og sækja um leyfi fyrir því. Það getur ekki talist meiri útlitsbreyting en yfirbygging (sem mig langar ekki í). Sorglegt að sjá auða fánastöngina sem ætti að hafa bláfánann blaktandi svo maður sjái hvernig vindurinn blæs.
Eftir þessar frábæru fréttir frá mömmu fannst mér ég geta allt, fór fram í stofu staðráðin í því að innsigla í eitt skipti fyrir öll litlu svalirnar sem lokast ekki nógu vel, vernda heimilið fyrir trylltu regni sem er víst væntanlegt. Þessi komandi suðaustanstormur með bleytu var ekki á áætlun hjá okkur Didda smið sem er búinn að panta þetta fína blikkdæmi til að setja neðst á litlusvalahurðina utanverða og sem á að ná vel niðurfyrir hana. Í stað þess að hringja í vælubílinn, tók ég til minna ráða. Vafði þrísamanbrotnum svörtum plastpoka utan um neðri hluta litlusvalahurðarinnar sem utan frá ætti að ná eitthvað niður fyrir hana og þroskuldinn og bjó þannig til smávegis hlífðardæmi. Ef þetta virkar ætla ég að sækja um einkaleyfi á því.
Verst að litlu DIY-myndböndin á Facebook eru bara um hvernig eigi að leggja stéttir, búa til grill í garðinum, setja flísar á baðherbergi og hitalagnir í gólf. Að hafa lært það nú um daginn var gagnlegt en gagnast mér ekki í kvöld. En ég á dagblöð, handklæði, svarta ruslapoka, grilláhöld og straubretti, einnig gríðarsterkt límband - svo ég er vel sett. Fyrirsögnin hér er dramatísk, veðravíti er ekki til í mínum huga, maður bara heldur sig inni. En ég ætla að berjast til síðasta blóðdropa við suma veðurfræðinga. Ég er Skagfirðingur í hina ættina!
Neðri myndin sýnir vígalega húsfrú Himnaríkis monta sig af vonandi stórkostlegum viðgerðum sínum á austursvölunum. Úfin og tætt eftir veðrið og aðfarirnar en ætíð glæsileg. Regnkápan er úr Lindex, blái bolurinn úr glæsikvendabúðinni Long Tall Sally í London. Fór með hávöxnu glæsikvendi þangað 2019 (vorum í árshátíðarferð) og fann þennan fallega bol sem nær mér vissulega niður fyrir tær (ég er bara 1,70) en töff er hann. Svarti plastpokinn sem grillir í neðst til hægri er úr Einarsbúð. Myndin prentast frekar illa, einhverjar rákir undir gleraugunum sem best er að horfa fram hjá. Takið eftir því hvernig vasinn í glugganum og bolurinn minn kallast á. Svörtu skærin eru líka í samhljómi með regnkápunni sem þó er dökkblá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2022 | 16:57
Blóðflokkar og covid - sjokkerandi niðurstöður um B-mínus
Loksins, loksins, alvörurannsókn á covid eftir blóðflokkum. Og það á Facebook sem lýgur aldrei. Um 130 manns tóku þátt og ég nennti bara að skrá niður 70 fyrstu. Ótrúlega margt merkilegt kom fram, niðurstöðurnar eru í raun sjokkerandi. Um 15 manns í O-blóðflokki hafa smitast en 16 O-plúsarar ekki. Sagt er að langstærsti blóðflokkurinn sé O plús en ég hef lært undanfarið að læknar og vísindamenn fái borgað fyrir að segja það sem lyfjafyrirtækjum hentar og greinilega vilja þau að við höldum þetta. Þá komum við að mínum blóðflokki sem er auðvitað A plús. Í stíl við allar einkunnir mínar alltaf, minnir mig. En ég fékk reyndar 1,5 í handavinnu í 8. bekk af því að ég týndi handavinnudótinu mínu í strætó.
En sautján einstaklingar í A plús hafa ekki fengið covid og ég er þar meðtalin, aðeins fjórir hafa fengið covid, jafnmargir og í O mínus. Nú veit ég að það er ekkert til sem heitir B mínus, það er bara blekking því enginn í þeim svokallaða blóðflokki hefur fengið covid eða ekki fengið það. Einn AB fékk covid, enginn AB fékk ekki covid. A mínus-fólkið telst vart með, svo ótrúlega fá atkvæði sem komu frá því fólki ef það er þá til. Þetta setur allt í nýtt samhengi sem ég á eftir að finna betur út úr.
Ef við A plús-fólkið erum ekki bara fleiri á Íslandi en O plús-fólkið, svei mér þá, og við erum nánast ónæm fyrir covid samkvæmt þessari vönduðu rannsókn Facebook-vinkonu minnar sem ýmsir frægir og þekktir tóku þátt í sem rennir enn styrkari stoðum undir þetta. En mikið er gott að tilheyra þessum blóðflokki, og ekki ólíklegt að þessir fjórir í A plús sem fengu covid hafi fengið falsaða niðurstöðu. Ef þið bara vissuð hvað er í gangi í heiminum. Nú þegar reynt er að draga athygli okkar að sameiningu sveitarfélaga og konudeginum til að við hættum að hugsa um það sem máli skiptir, er svo nauðsynlegt að vera stöðugt á verði. Það þarf ekki menntun, bara að kunna að draga greindarlegar ályktanir, það hef ég lært undanfarna mánuði.
Og eitt mjög mikilvægt ... haldið þið ekki að Siggi í Bernhöftsbakaríi bjóði upp á bestu konudagsköku sem hefur verið gerð frá upphafi, og það nú í ár, engar hnetur hjá honum, bara hvítsúkkulaðidásemdin sem ég hef svo oft mært hér á blogginu. Nú væri gaman að búa í bænum, halda risastórt partí og bjóða öllum sem ég þekki í A plús í gott kaffi og alvörutertu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.7.): 6
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 182
- Frá upphafi: 1529738
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 161
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni