Færsluflokkur: Bloggar
12.4.2022 | 15:04
Frekar á ísjaka en blómabrekku
Sonur minn hefði orðið 42 ára í dag. Háaldraður, að eigin mati, en Einar dó þegar hann átti þrjá mánuði í að verða 38 ára. Ég sakna hans alla daga en afmælisdagar hans (og dánardagur) hafa verið miserfiðir síðan, eitthvað sem ég ræð hreinlega ekki við. Mér finnst best að vera ein þessa daga, vinna, lesa, drekka kaffi og leyfa hversdagslífinu að ganga sinn gang. Það þarf að t.d. brjóta saman þvott, þau safnast hratt upp þvottafjöllin á þessu heimili eða tíminn svona fljótur að líða. Fjöllin eru svo sem ekkert rosalega há og ég veit að það tekur ekki mörg korter að klára þau ... kannski bara eitt.
Sumir tala um sumarlandið, ef það er líf eftir þetta líf, fari fólk vonandi þangað, og ættingjarnir. Mamma hló mikið að mér ekki alls fyrir löngu þegar ég sagði henni að ég kærði mig bara alls ekki um að vakna (eftir dauðann) ein í einhverri blómabrekku, umvafin blómum og pöddum, eitthvað sem ætti að vera svo dásamlegt að miðill fyllti heila metsölubók af svona blómabrekku-horrorsögum. Einar var aðeins meiri sóldýrkandi en ég og hefði eflaust ekki slegið hendinni á móti svona brekku, og bara klappað býflugunum og geitungunum. Ég er kannski ekki að tala um að vakna á ísjaka í ofsabrimi þótt það gæti alveg verið spennandi. Ég myndi vilja vakna í þægilegum stól með fullar bókahillur allt í kring og dýrlegt kaffi í hönd (með nýmjólk eða kaffirjóma) og ketti og hunda lífs míns í grennd, áður en sjálft partíið byrjaði, knúsin og það allt. Bara alls ekki í blómabrekku. Svo hamast ég auðvitað við að reyna mitt besta til að enda ekki í neðra, því ég þoli svo illa hita en ég er nú samt viss um að í huga ótrúlega margra muni ríkja óbærilegur hiti í sumarlandinu, eitthvað yfir 15 gráður. Það er ekki bara vandlifað, heldur vanddáið líka. Er virkilega ekkert til sem heitir vetrarlandið?
Vandlifað já, fyrir þá sem eftir lifa. Síðast í gær las ég í spennubók um foreldra sem misstu barn, og orðin sem lögreglumaður segir við kollega: Nú er það afneitunin, svo kemur reiðin ...
Alltaf verið að segja syrgjendum hvernig eigi að syrgja.
Ég hef aldrei fundið fyrir reiði, út í hvern, út í hvað? Eins og ég hef bloggað um áður, að sá/sú sem kom með þessi sorgarstig ... afneitun, reiði og það allt, var að lýsa því hvernig fólk sem fær fréttir af því að það sé dauðvona, tæklar það. Nú hef ég aldrei fengið slíkar fréttir svo ég veit ekki hvort þetta eigi við um alla, enda myndi ég harðbanna læknum að segja mér slíkt (mamma vann á geðdeild og það komu alltaf einhverjir þangað í algjöru áfalli eftir að læknar sögðu þeim sannleikann, fólk yrði hreinlega að fá að vita, eða hvað?) Ef mér yrði sagt að ég ætti ár eftir, myndi ég deyja eftir ár, á mínútunni. Mun skárra væri: Þetta lítur ekki alveg nógu vel út, Gurrí mín, en við vonum það besta, er það ekki?
Þetta á eftir að verða svo miklu verra hjá þér-huggunin um tómleikann sem myndi sko koma eftir jarðarförina, gerði voða lítið fyrir mig og var kolröng að auki, alla vega í mínu tilfelli. Mér finnst einveran góð og það er líka dásamlegt að fá gesti. Ég upplifði góða blöndu af þessu en eins og ég hef áður sagt fylltist ég stundum ótta við að það væri eitthvað mikið að mér (siðblinda) fyrst ég syrgði ekki rétt ...
Ég sakna sumra vina sem héldu sennilega að ég hefði slitið við þá sambandi - á meðan ég var hreinlega ekki í andlegu formi til að lyfta síma næstu árin á eftir. Sinnuleysi, minni orka, einbeitingarskortur og það allt. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir skilji þetta og ég er ekkert fúl. Veit alla vega núna að ef einhver vinkona/vinur verður fyrir missi og hættir að hafa samband við mig, tengist það mér ekki neitt ...
Hirðrafvirki Himnaríkis mætti í gær og hviss, bang, dyrasíminn er farinn að virka aftur. Nú þarf ég ekki lengur að þjóta öskrandi niður stigana: Bíddu, stopp, ekki fara, ég er að koma til að opna, eins og um daginn þegar stúlkan kom með flatkökurnar (ferðasöfnun). Rafvirkinn fékk heldur betur að njóta kræsinganna úr fermingarveislu sunnudagsins og var ansi hreint sáttur við það þótt hann borðaði ekki næstum því nógu mikið. Ég mun þurfa að leggja hart mér og drengurinn líka til að geta klárað. Annars veit ég um fugla hérna úti sem yrðu voða glaðir að fá veisluafganga. Þeir fljúga sumir fram hjá glugganum mínum og krunka eða garga, til að minna á sig. Þá getur nú verið gott að eiga brauð í frysti. Ég geng þó ekki jafnlangt og dýravinurinn sonur minn gerði stundum, hann átti alveg til að rista frosnar brauðsneiðar og smyrja svo með þykku lagi af smjöri ... ég geri það kannski þegar er frost - og líka alltaf þegar smjörvinn er við það að renna út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.4.2022 | 01:23
Að selja kaffi með geymslubragði ...
Ljómandi góðri helgi lokið, fermingarveisla og allt. Og jú, fínustu afgangar fengu að fljóta með á Skagann ... bílfar heim. Og ekki veitti af. Varla pláss í strætó fyrir allt farteskið sem fylgdi okkur stráksa - eftir óvæntan laugardagsverslunarleiðangur eftir trépinnum í Kópamaros, 201.
Systur mína vantaði sem sagt pinna til að stinga í jarðarber fyrir súkkulaðibrunn (sem helmingi ódýrara var að kaupa en leigja, í alvöru) svo við skunduðum í Smáralind eftir pinnum. Við stráksi áttum reyndar erindi í A4 að kaupa spilastokk (hann elskar spil) og svo gaf ég honum minnisblokk í leiðinni.
Enginn sagði mér hversu hættuleg Smáralind getur verið, og manneskja sem hefur vanalega alls ekki gaman af að fara í búðir heimsótti nú hverja af annarri ... Söstrene Grene, apótek, Snúruna, Dýrabæ, HM Home, Tiger, Body Shop, Hagkaup ... við rétt svo mundum eftir pinnunum. Yfirleitt þegar ég þarf að fara í búðir er ég kvíðin, búin að taka vítamínkúr til undirbúnings en finn ég ekki það sem ég ætlaði að kaupa. Svo þegar ég ætla ekki að kaupa neitt finn ég það. Og engin önnur en Ragna frá Böðvarshólum var stödd í Smáralind ásamt vinkonu. Ótrúlega margt fólk, ég vissi ekki að væri til svona margt fólk á Íslandi.
Við systur og fylgifiskar fórum á ónefnt kaffihús í grennd sem ég hef aldrei áður prófað, og það vantaði ekki flottheitin, innréttingar og glæsilega útlítandi bakkelsi - en ansi fátt af matseðli var samt til, og það sem var til sýnis var mögulega ekki sérlega ferskt. Ég fékk mér sítrónumöffins en fannst kakan sjálf gömul, kremið þó eitthvað nýrra, kaffið allt í lagi, en þjónustan frábær. Við leifðum það miklu að við hefðum verið flengdar fyrir það í æsku, en þökkuðum kurteislega fyrir þegar við fórum. Einhverjir hefðu nú lagt staðinn í rúst en við hefnum okkar öðruvísi, með því að fara annað næst. (Þessi World Class-djókur á myndinni er bara grín).
Ég fékk sjokk um árið (á síðustu öld) þegar ég ákvað að prófa dýrasta kaffi í heimi (Jamaica Blue Mountain) og borgaði 1.100 kall fyrir litla pressukönnu af því. Geymslubragðið var yfirgnæfandi og einhver sagði mér að eigandi kaffihússins hefði sennilega verið svikinn, 90% af þessu kaffi færu til Japans, restin af heiminum fengi 10%, ólíklegt að Ísland fengi eina baun af þessu kaffi. Á þessum tíma var ég fögur útvarpsstjarna og kaffihús borgarinnar kepptust um að fá að kosta þætti mína, minnir mig alveg endilega, sem voru þá sendir út frá viðkomandi kaffihúsi. Þessi svikni eigandi vildi vera með í eitt skipti en gerði rithöfunda og aðra gesti þáttarins gáttaða þegar hann bauð þeim kaffi á meðan þeir biðu, og rukkaði þá svo fyrir. Ég bað í ofboði um að reikningurinn yrði sendur á útvarpsstöðina. Ég man að Súsanna Svavarsdóttir var einn gestanna. Hún var beðin um að koma í viðtal, ekki borga fyrir fokdýrt kaffi.
Síðar vann ég talsvert fyrir þennan mann sem var hættur með kaffihúsið, eða það fór á hausinn, og lagði mig alla fram. Hann borgaði mér fyrsta reikninginn sem ég sendi, og hlóð svo endalaust á mig verkefnum sem ég vann allt of lengi, án þess að fá borgað fyrir. Í eina skiptið á ævinni bað ég lögfræðing um að rukka fyrir mig launin sem voru næstum hálf milljón. Lögfræðingurinn gafst upp á endanum. En það var löggan sem náði viðkomandi löngu seinna, fyrir fjárdrátt. Að selja kaffi með geymslubragði kemur manni sem sagt í koll þó síðar verði.
Ætlar þú þá aldrei að koma til Akureyrar aftur? spurði kona frá Akureyri í fermingarveislunni í dag. Sú staðfasta ákvörðun mín eftir ákaft kattahatur bæjarstjórnar heimabæjar hennar, hafði frést alla leið norður og greinilega vakið ýmsum ugg, sýndist mér á svip hennar.
Ja, heimsóknin í fyrra var svo eftirminnileg, ekki bara voruð þið skemmtileg, það var líka góða pressukönnukaffið (Te og kaffi, Mokka-java) og kaffirjóminn (MS?) sem maðurinn þinn var píndur til fara aftur út í búð og kaupa af því að það var bara til undanrenna eða léttmjólk (sem er ekki hægt að nota út í kaffi). Mig grunar að Kattaframboðið rústi kosningunum í vor og allt þetta kattahatursbull í bæjarstjórninni verði dregið til baka, þá kem ég auðvitað.
Ég þoli ekki að fá þessi kvikindi í garðinn minn, æpti kona úr Húnavatnssýslu. Við akureyska kinkuðum kolli til samþykkis. Hvern langar, í alvöru talað, að fá akureyskan kattahatara úr bæjarstjórn í garðinn sinn?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2022 | 17:39
Að hugsa loksins sjálfstætt ...
Fólk er alveg brjálað yfir sölu á einhverjum banka ... ég trúi alveg manninum sem segist ekki hafa vitað að pabbi hans hefði keypt. Ekki datt mér í hug síðast þegar ég hitti mömmu að spyrja hana út í fjármál hennar eða kaup á fyrirtækjum. Svo er ekkert víst að viðkomandi viti hve ríkur pabbinn er ... Í þetta sinn langar mig að fara gegn fjöldanum sem hneykslast, sýna fram á að ég hugsi sjálfstætt (samt þríbólusett) en ég nenni ekki að finna rök fyrir máli mínu í rannsóknum sem finna má á YouTube, ekki núna. Ég held með kaupendum bankans þótt ég sé vissulega, eða hafi verið svekkt yfir því að hafa ekki fengið að kaupa sjálf. En ég ætla að prófa hvernig það er að vera á annarri skoðun en múgurinn, alþýðan, öreigarnir, eða hvað þetta lið er kallað, svo enginn geti sagt um mig að ég fylgi, að hægt sé að smala mér eins og rollu í réttir ... en ég viðurkenni að ég á erfitt með að halda með hinum karlinum (kræst, ég er fjórum árum eldri en hann), sem opinberaði sinn innri mann fyrir slysni, vissulega eftir nokkur glös á þingi einhvers hóps sem seldi hótel ekki fyrir svo löngu, munið, og dirfðist að velja kvenmann til forystu og hver man nöfn á einhverju kerlingum? Verður ekki bara að segja sú sæta, sú ljóta, sú feita, sú mjóa, sú dökka eða sú ljósa ... hitt er bara svo erfitt.
Með þessu sjálfstæði mínu frá skoðunum fjöldans vonast ég til að fá símtal fljótlega með special price for you, my friend-tilboði. Samt langar mig eiginlega meira að fá vinnu við að hringja nokkur símtöl og fá hluta af 700 milljónunum sem úthringjararnir fengu fyrir að hringja í sérvalda.
Enn hef ég ekki fengið svar við erindi mínu til Vegagerðarinnar sem ég sendi fyrir tæpri viku sem vonandi táknar að það hafi verið tekið til svo mikillar athugunar að ekki hafi gefist tími til að senda Móttekið til baka eða hringja í mig og fá mig sem ráðgjafa, talsmann farþega. Stefni á að fara í bæinn um helgina með strætó, á meðan enn eru stoppistöðvar, bara örstutt heimsókn, í fermingarveislu til að sleppa við að elda - og losa mig við peninga sem ég er hætt að nota.
Ég kláraði Helkulda (Storytel) eftir Vivecu Sten í gærkvöldi (rafbók í gemsanum, uppi í rúmi, kósí) og bíð spennt eftir fleiri bókum í þessum nýja bókaflokki sem lofar góðu.
Tók ég ekki viðtal við Vivecu fyrir Vikuna þegar fyrsta bókin hennar kom út á íslensku? Minnir það endilega, og líka Emelie Schepp og svo elsku Margit Sandemo. Og auðvitað fleiri rithöfunda.
Fyrsta viðtalið sem ég tók fyrir Vikuna var við rithöfund, sjálfa Auði Haralds. Ég var heldur betur sátt við sjálfa mig fyrir að krefjast þess að fá að lesa það upphátt (það var stutt) fyrir hana í síma svo ég klúðraði engu, hún talaði hraðar en ég skrifaði. Eins gott því ég var búin að leggja henni orð í munn, eitthvað sem hún hafði haft eftir öðrum, Thomas Harris sagði víst í einhverju viðtali að það væri bara stórgáfað fólk eða fólk undir meðalgreind sem sæi í gegnum siðblinda einstaklinga. Sem sagt ekki Auður sem hélt þessu fram, en af hverju við töluðum um siðblindu og höfund bókanna um Hannibal Lecter, geðlækni og mannætu, er mér með öllu gleymt, enda 22 ár síðan. En skrambi var hún á undan sinni samtíð þarna, ekki var farið að tala um siðblindu að ráði fyrr en löngu seinna ... en það er ekkert samasemmerki hjá mér milli siðblindu og bankasölunnar, ég myndi ekki dirfast ... sem umsækjandi að vel borguðu símasöludjobbi hjá Bankasýslu ríkisins.
Fyndin tilviljun, ef þetta er tilviljun ... nýlega þegar ég skrifaði um verstu störf heimsins lenti símasala í fyrsta sæti. Þótti hræðilegasta starfið. Kannski eru þessi klikkuðu ofsalaun mér að kenna? Sorrí, ég mun læra af þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2022 | 14:12
Bill Gates lét mig gera það
Þroski minn hefur tekið risastökk upp á við síðustu misserin. Ég áttaði mig á því um helgina þegar fréttamaðurinn í sjónvarpinu sagði: Við vörum við myndum sem ... og ég hélt bara áfram að gera það sem ég var að gera í stað þess að færa mig nær sjónvarpinu til að sjá. Mér þykir ekki lengur mikilvægt að heyra hvern einasta fréttatíma dagsins í útvarpinu og merkilegt nokk, ég hef nokkrum sinnum lifað af að heyra bara það helsta, fremst í fréttatímum. Kannski má tengja þetta hugarró eða þörf fyrir hugarró, ég tengi þetta þroska, gáfum og yndisþokka. Og það að verja helginni (barnlaus) í að vinna og skella inn myndum í Íslendingabók, er það ekki þroski? Gat sett inn mynd af mér og svo pabba (1930-2001) en ekki af mömmu sem heldur upp á 88 ára afmælið eftir nákvæmlega mánuð. Þá áttaði ég mig á því að ætlast er til að sprelllifandi fólk setji sjálft inn myndir af sér. Ég gat því ekki fundið vandræðalegar ljósmyndir af systkinum mínum og sett inn, sem ég hefði reyndar ekki gert en samt fúlt að möguleikinn sé ekki fyrir hendi. Helgin fór líka í að horfa á nýja þáttaröð af The Home Edit, búin að sjá tvo eða þrjá, og byrja að lesa nýjan bókaflokk eftir Vivecu Sten (Helkuldi) á Storytel. Ég viðurkenni vanmátt minn þegar kemur að því að hlusta (ég hef ekki tíma og hef ekki tíma) en Storytel rígheldur í mig vegna sífellt meira úrvals af rafbókum. Það er nákvæmlega ekkert mál að taka af sér gleraugun uppi í rúmi og lesa heilu kaflana í gemsanum sínum. Jamm, engin ellifjarsýni enn.
Stærsta vandamál dagsins og síðustu daga er að dyrasíminn er bilaður alla vega þangað til seinnipartinn á morgun, ekki bjallan sjálf, og ég þarf að þjóta niður stigana til að opna, næstum búin að missa af Eldum rétt-pakkanum í gær. Bara plís, ekki koma í heimsókn! Jú, vandamál eða ekki vandamál, ég át páskaeggið mitt um helgina, nánast alveg óvart, eins og einhver hefði fjarstýrt mér (Bill Gates?). Ég skrökvaði að drengnum í gær að það hefðu komið gestir og ég gefið þeim páskaegg að smakka og ég svo bara klárað, því ég vildi ekki að hann engdist um af samviskubiti yfir því að hafa minnt mig á páskaeggið með því að segja í kveðjuskyni og í gríni á föstudaginn: Mundu svo að borða ekki páskaeggið þitt. Honum létti bara mjög að vita að ég hefði ekki borðað hans egg. Hversu sniðugt að vera snemma í því að kaupa páskaegg. Mér er skapi næst að refsa mér með því að kaupa mér ekki nýtt en ... Bill Gates lét mig gera þetta, tel ég nokkuð víst, enda þríbólusett þar sem ég hugsa ekki sjálfstætt. Tek fram að þetta var ekkert risaegg en sykurinn í því hvatti mig til dáða og vinnuhörku í eigin garð alla helgina. Málshátturinn var Flest verður nýtnum að notum sem segir mér að Bill hafi vitað hvað hann var að gera.
Í dymbilvikunni verð ég með Eldum rétt-mat fyrir fjóra daga. Þarf að finna eitthvað píslarlegt á föstudag (langa), versla inn á laugardag, elda einhvers konar páskamat á sunnudag (Eldum rétt bauð bara upp á lambasteik fyrir sex manns) því það er ekki fyrr en á mánudag sem páskaboðið verður í ár. Sem er kannski ágætt því ég held að strætó gangi ekki þessa heilögu daga (jóladag, nýársdag, páskadag, föstud. langa). Ef það verður fært með strætó í bæinn á annan, förum við stráksi. Ég borga fullt gjald fyrir hann þótt hann eigi rétt á miklum afslætti en flækjustigið fyrir bíllausa er ansi hátt ef þarf að sækja rétt sinn/annarra, svo spurning hvenær ég legg í það. Vítamín-kúr og taka nokkra sumarfrísdaga? Það þarf eitthvað svipað til að finna mér almennilegan skrifborðsstól þar sem slíkar búðir eru ekki með opið um helgar fyrir svona landsbyggðartúttur eins og mig. Ég vil alvörustól, í fyrsta sinn ekki gefins notaðan stól sem ég nota svo í áratugi þar til þeir verða alveg ónýtir.
Ef stoppistöðvum leiðar 57 verður fækkað hér (sem ég sé ekki sparnaðinn við eða tilgang, bara þjónustuþjófnað) skoða ég mjög alvarlega að hætta alfarið að taka strætó. Kem mér frekar upp samböndum við bílandi fólk og fer þá bara sjaldnar - og borga vel í bensíni. Fólk sem er á bíl telur sumt mjög sniðugt að hafa bara eina stoppistöð, eins og í gamla daga þegar rútan gekk á milli, alveg nóg fyrir þetta fólk ... ég hef engan fastakúnna strætó segja það.
Ég sendi Vegagerðinni bréf um helgina (rödd farþegans) því ef þetta sparar ekki þeim mun hærri upphæðir væri glórulaust að gera þetta. Ég sé ekki að mikill áhugi sé á því að styrkja innanbæjarstrætókerfið hér á móti, þótt ekki veitti af. Við erum líklega allt of fáar hræður sem eigum ekki bíl hér til að það sé talið hagkvæmt. Góð þjónusta dregur reyndar fólk að! Eins og það er núna virkar það vel fyrir skólakrakkana á morgnana og stöku kerlingar á leið heim úr klippingu. Sem minnir mig á ... fegurð mín hefur dvínað ögn upp á síðkastið (ótrúlegt!) og vantar bara fimar hendur Önnu Júlíu með skærin til að breyta því til batnaðar.
Myndin: Eitt sinn skrifaði ég grein í Vikuna um þýðingarmistök. Ein þýðingin var eitthvað um að nú steðjaði hætta að litla bænum í Villta vestrinu því fast drawer (byssumaður, skytta, snögg á gikkinn) væri að koma þangað. Það var í alvöru þýtt sem: Flýjum, það er hraðteiknari á leiðinni. Drawer þýðir líka teiknari.
Einhver sagði við Arnold Svartsenegger í spennumynd: Farðu inn í spilavítið, kauptu virði 25 þúsund dala af kartöfluflögum... (chips) var líka skrambi gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2022 | 14:46
Aprílgabb Himnaríkis og fyrsta ER-klúðrið
Fundur hjá ónefndri vegagerð norðarlega á hnettinum:
Nonni: Við verðum eitthvað að gera til að fjölga farþegum á landsbyggðinni, það er svo mikill taprekstur á strætó eftir covid. Ef við ætlum að skila einhverjum arði ...
Sigga: Reynum samt að sleppa því að hækka fargjöldin, munið hvað allt hrundi þegar við þrefölduðum verðið milli Akraness og Reykjavíkur, enda ekki rétt að Skagamenn borguðu það sama og Reykvíkingar greiða milli hverfa í borginni. Svo borgar nú Akraneskaupstaður þetta niður um 1/3 sem er ekkert annað en dekur.
Gunna: Ég held að ég sé með þetta, sá innslag í gær í fréttum Stöðvar 2 þar sem fréttamaðurinn taldi stoppistöðvarnar á milli Reykjavíkur og Akureyrar, voða fyndinn en þetta var alveg skelfilegt að heyra, kemur ekkert smávegis illa út fyrir okkur.
Geiri: En er það ekki akkúrat það sem strætó á að bjóða upp á, að fólk þurfi ekki ganga langar lei-
Sigga: Þögn, Geiri, þú hefur ekkert vit á þessu, ert nýliðinn hér.
Geiri: Ég ferðast mikið með stræ-
Gunna: Sussss!
Nonni: Er það kannski bara galdurinn að fækka stoppistöðvum? Jafnvel fleygja fólki út á ferð t.d. við Hvalfjarðargöngin til að þurfa ekki að eyða heilum 20 mínútum í að fara á Skagann? Og við Hvammstangaafleggjarann líka? Held að lýðheilsa myndi batna til muna á landinu ef fólk yrði látið ganga meira.
Gunna: Hugsa sér að geta auglýst: Þægileg lúxusferð og aðeins fimm stopp á leiðinni. Myndu vagnarnir ekki fyllast af fólki?
Sigga: Alveg spurning líka um hvort ætti að leyfa þessum vögnum að rúnta um í Reykjavík, ef við ætlum að fækka stoppum. Hafa endastöð í Ártúni? Háholti í Mosó? Ja, held ég sé með það; Kjalarnes tilheyrir Reykjavík, er Reykjavík, póstnúmerið 116, þar gæti verið góð endastöð fyrir norðvesturhluta landsbyggðar. Dagur getur svo séð um samgöngur þaðan þar sem Kjalarnes er ekki landsbyggðin. Múahaha
Geiri: Leið 57 sem ég tek oft, nær ekki alltaf í skottið á vögnunum í Ártúni, það eru bara opin skýli þar, og þá yrði hálftíma bið í ískulda og enn verra í Mosó. Kjalarnes? Er ekki allt í la-
Gunna: Var ekki búið að segja þér að hafa þig hægan?
Nonni: Hvað með allar niðurfellingarnar á ferðum í vetur? Bílstjórarnir segja vagnana illa hannaða fyrir íslenskar aðstæður. Að það hefði þurft að tala við þá áður en við pöntuðum þá.
Gunna: Meira andskotans vælið alltaf í þeim, hvaða vit halda þeir að þeir hafi á þessu? Það er meira að segja vælt yfir því að ekki sé hægt að hlaða símana sína í nýju vögnunum eins og var í þeim gömlu. Vita þessir farþegar ekki að þetta er strætó, ekki einhver lúxusrúta með fríhafnarþjónustu?
Hlátur.
Sigga: Eigum við þá að segja það? Að við leysum vandann með því að fækka stoppistöðvum? Vá, hvað farþegum á eftir að fjölga.
Geiri: Fjölga við skerta þjónustu? Væri ekki nær að fækka ferðum tímabundið?
Gunna: Vertu frammi, Geiri. Við ræðum um framtíð þína hjá fyrirtækinu á eftir ... Jæja, hvert vorum við komin? Suður- og Austurland, leið 51, er það ekki. Ekki stoppa í Hveragerði, er mín tillaga, fólk getur látið skutla sér til Selfoss og ...
Þetta hér að ofan er auðvitað aprílgabb Himnaríkis, það myndi ekki nokkurri vegagerð í heiminum láta sér koma til hugar að lokka til sín fleiri farþega með því að draga úr þjónustu og fækka viðkomustöðum í landi þar sem allra veðra er von.
Þarna náði ég ykkur.
Hamborgarinn, síðasta máltíð vikunnar frá Eldum rétt, var búinn til í gærkvöldi og bragðaðist ofboðslega vel. En það var flóknari aðgerð að búa réttinn til en nokkurn tímann þann KREFJANDI kvöldinu áður. Eggaldin er uppfinning andskotans. Ég gúglaði í símanum; má borða allt kvikindið, hvað með fræin, en þetta fjólubláa utan um ...? en fann ekkert gagnlegt. Skar kvikindið langsum niður, eins og uppskriftin skipaði mér, saltaði og olíubar og setti í 190°C heitan ofn með blæstri. Bar svo sterka kryddsósu á tíu mínútum seinna og mig minnir að ég hafi svo bakað þetta í korter í viðbót. Til hvers eggaldin? hugsaði ég greindarlega þegar ég setti kartöflubátana inn í ofn tíu mínútum áður, hamborgari og kartöflubátar, er það ekki nóg? Ég smakkaði á eggaldininu þegar það kom út úr ofninum og var ekki hrifin, heldur ekki stráksi. Fyrsta klúðrið mitt, vonandi það síðasta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2022 | 16:38
Fyrsti í viftu og covid-vinaleysi
Fyrsti í viftu var í dag, hitinn nánast óbærilegur undir stórum suðurglugga Himnaríkis, vissulega var ég nýkomin úr vermandi sturtu og klædd í þykka ísbjarnarsloppinn sem ég keypti í Costco í Washington-ríki USA fyrir löngu. Hann er enn eins og nýr, enda er ég bara sloppatýpa í neyð (t.d. þegar uppáhaldsbuxurnar eru í þurrkaranum). Leitin að fjöltengi bar loks árangur inni í stofu en ný fjöltengi koma senn, búið að kaupa í gegnum sérlegan erindreka Himnaríkis. Kannski að Ellen dreki komi með þau til að tryggja að snyrtimennskan verði höfð í hávegum. Eitt sinn gerði hún eitthvað hviss-bang við snúrurnar fyrir aftan skrifborðið mitt (sem stendur með aðra hliðina upp við gluggann, ekkert hægt að fela bak við, tölvan sjálf stendur á gólfinu þar) og allt varð sjúklega fínt. Svo kom Davíð bróðir hennar einhverju seinna og tengdi eitthvað og hviss-bang, allt í rúst. Rannsóknir mínar sýna að ÞARNA liggi munurinn á frændum og frænkum. (Myndin sýnir nöturlegan raunveruleikann í dag).
Ég þurfti að taka eitthvað úr sambandi til að geta komið þriðja fjöltenginu að (fyrir viftuna) og valdi sérlega sakleysislega kló á snúru, örugglega bara lampi, taldi ég mér trú um vitandi samt að lampinn hefði ekki haft sitt pláss síðan góðu mennirnir komu nýlega (tveir saman, alltaf tveir saman, þetta er að verða persónulegt) og bættu netsamband Himnaríkis, ljósleiðara-eitthvað og þurftu að nota plássið sem lampinn hafði, fyrir nýja kló.
Ég var þarna byrjuð að hlusta á Gloríu eftir Vivaldi, sá auglýsingu um tónleikana, aldrei sungið það, sennilega aldrei heyrt það nema óafvitandi, og það slökknaði auðvitað á því þegar ég tók óvart sjálfa tölvuna úr sambandi. Sennilega fór þó engin vinna forgörðum. Á þessu heimili er kannski ekki föndrað, en hér er vistað jafnóðum. Nú malar viftan öllum hér (mér) til gleði og gagns. Þurrkarinn að verða búinn.
(Myndin af Mosa sýnir eina af hryllingsmyndum vorsins, vesalings kötturinn að verða brjálaður á birtunni og hylur augu sín með annarri loppunni. Þessi átakanlega mynd var tekin um tíuleytið í morgun.) Sjálf sef ég vel bæði vetur og sumar, engin myrkratjöld hér en ef kötturinn þjáist verð ég kannski að breyta einhverju. Þegar ég tók Himnaríki í gegn 2020 valdi ég allar innréttingar, gólfefni og málningu í stíl við kettina. Svoleiðis gerir kattafólk.
Nú sé ég að minn gamli kór, kenndur við Langholts og orðinn pínkulítill miðað við í denn, flytur Dixit Dominus eftir Händel (aldrei heyrt það, held ég) og Messu í g-moll (sem ég man ekki eftir heldur nema hún sé það sama og b-minor? sem ég er akkúrat farin að hlusta á núna). Fór síðast í tónfræðitíma þegar ég var níu ára - og komin einhver ár síðan. Við sungum, að mig minnir, Krýningarmessuna, Jólaóratóríuna, Jóhannesar- og Matteusarpassíuna þessi ár sem ég var með. Svona tónlist plús til dæmis Pixies og Wu Tang Clan er eitthvað sem fær mig til að verða máttvana af hrifningu. Og nánast allt þar á milli. Já, og mér líst ofboðslega vel á hugsanlega samvinnu Hörpu og Mótettukórsins og bíð spennt. Söng Eliah eftir Mendelssohn með þeim kór fyrir löngu. Væri eflaust búin að sækja um í Kór Akraneskirkju ef innanbæjarstrætó gengi fram á kvöld. Allt of langt að labba í öllum veðrum, auk þess hata ég að ganga. Og þetta með að sníkja far ... æ, svo verður mín manneskja veik og ... jamm, bara vesen. En þau missa af miklu. Ég kann enn altröddina í Exultate Deo og Alta Trinita og röddin er svo miklu betri eftir að ég hætti að reykja. Þótt drengurinn flýi að heiman og fari í sund þegar ég syng hástöfum við tölvuna er ekkert að marka það, hann er unglingur og kann ekki gott að meta.
Þessi sataníski hiti sem ég ætlaði að tala um áður en hugurinn fór með mig annað, gefur bara tóninn fyrir komandi sólardaga, vonandi njótið þið þeirra vel ... ekki geri ég það. Að vísu fær maður ágæta hreyfingu út úr því að hlaupa frá geitungum, hratt greinilega því ég hef sloppið við stungur hingað til. Svo get ég kallað mig Gurrí vinalausu því ég hef líka sloppið við covid (einn, sautján, tuttugu).
Krefjandi matargerðin fór fram í gærkvöldi. Ég gerði hinn kjúklingaréttinn (tacos) á þriðjudagskvöldið. Í gær gætti ég þess að vera vel sofin, full af vítamínum og búin að hreingera eldhúsið. Öll áhöld á sínum stað og búið að marglesa uppskriftina. Þetta gekk sennilega upp af því að ég beið ögn með að skella krömdu kartöflunum inn í ofn (í 20 mín), lét þær bíða á meðan ég dýfði kjúklingabringum sem ég hafði áður þynnt með plastfilmu og þungum potti, löng saga, fyrst í hveiti, þá eggi og svo parmesanbrauðmylsnu, forsteikti þær vel en kjúklingurinn þurfti akkúrat helmingi styttri tíma en kartöflurnar og þetta tókst svona líka glimrandi vel. Ég var meira að segja búin að skera niður í salatið sem mér var ætlað að gera á þessum tíu mínútum meðan kjúklingurinn var í ofninum. En þá hefðum við borðað með allt í drasli í eldhúsinu sem er ömurlegt. Sósan var einföld; sýrður rjómi plús niðurskorinn graslaukur, smakkað til með salti.
Ég er líklega með þetta, hefði aldrei átt að efast, maturinn var afskaplega góður. Þið getið hætt að tékka á því fyrir mig hvort Silli kokkur sé á lausu. Drengurinn malar eins og köttur, hann er svo ánægður með matinn. Oft er líka smávegis afgangur fyrir mig í hádeginu næsta dag sem er æði. Sennilega hefur stráksi samt engan skilning á því hversu mikið blóð, svita og tár (andlegt) þetta kostar fósturmóður hans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.3.2022 | 15:09
Að sjá í gegnum BB ...
Ég hef iðulega getað séð í gegnum hlutina, samsæri, blekkingar og annað slíkt. Góð greind úr bæði móður- og föðurætt hefur fleytt mér langt, nema kannski vinnulega séð ef ég tek dæmi um auglýsingastofur sem hafa ekki, fáránlegt nokk, þúsund sinnum boðið mér starf, ekki að mig vanti vinnu samt. Ég þarf að hrópa góðu ráðin mín héðan frá blogginu til þeirra um t.d. í hvora áttina strætó eigi að aka til að auglýsingin verði trúverðug.
Og núna veit ég til dæmis með nánast nokkurri vissu hvernig BB (ekki Birgitta Bardot) ætlar að eyða hallanum ógurlega eftir covid. Það er strax byrjað og þá er ég ekki bara að tala um Veðurstofu Íslands ... flottustu stofnun landsins.
Helmingi minna er galdurinn. Nú er ljóst að okkur dugar nánast allt í helmingi minna magni sem er auðvitað rétt þegar kemur að t.d. matarvenjum sumra, fasteignakaupum einhverra og svo framvegis. Mætti sjálf alveg minnka sykurmagnið um helming um komandi páska en æ, æ, ég er því miður búin að kaupa páskaeggið mitt og tek ekki matarsóun í mál.
Sjúkratryggingar riðu á vaðið. Þess vegna áttaði ég mig. Nú er sem sagt talið feykinóg að vera með hálfa heyrn og líka meira en nóg að láta laga bara helminginn ef maður fæðist með skarð í vör. Ég varð ótrúlega reið og sár fyrir hönd fólks sem lenti í þessu þar til ég sá snilldina. Sé fyrir mér uppskurði framtíðarinnar þar sem skurðlæknar láta sjúklinginn um t.d. saumaskapinn. Held að best sé að fagfólk sjái um sjálfan uppskurðinn, og þó. YouTube lumar á öllum fjáranum. Og til er í Do it yourself-bókaflokknum; DIY í læknisfræði. Sennilega eru þar undirflokkar: lyflækningar, skurðlækningar ... og undirflokkar svo þar líka. Eitthvað sem væri snjallt að kynna sér. Allt er á netinu.
Ja, læknirinn myndi auðvitað sauma ef fólk gæti reitt fram réttu upphæðina, segjum milljón, og fram að þessu höfum við Íslendingar sýnt að við GETUM sko borgað. Allt verðtryggt nema laun, sæmilega góð álagning á vörur, minnir meira að segja að eigendur lágvöruverslunar hafi átt einkaþotu í denn. Og við vitum öll að það er ekkert varið í vöruna nema hún sé dýr, hún hreinlega selst ekki nema dýr, segja kaupmenn með langa reynslu. Þannig sýnum við líka hversu rík og flott við erum. Og þetta hugarfar má alveg færa inn á skurðstofu. Gaman líka að geta sýnt örið eftir uppskurðinn, því flottara og betur saumað, þeim mun ríkari og flottari er maður.
Ég bíð spennt eftir því hvernig Veðurstofan tæklar sparnaðarkröfur BB (ekki Bjarnabófar) með helmingi minna-aðferðinni. Ég legg til að Veðurstofan einbeiti sér að veðrinu, láti sem jarðskjálftar og eldgos komi henni ekki við, enda ekki veður. Mjög fljótlega verða svo stofnuð góðgerðasamtök sem almenningur heldur uppi með fjárframlögum til að sjá um upplýsingagjöf og viðvaranir vegna jarðskjálfta og eldgosa (annars finnur maður jarðskjálfta og ég er vön eftir síðasta ár að geta sirkað nokkuð rétt á stærð þeirra, og maður sér eldgos eða öskuna í gluggakistinni alla vega). Það er alveg þekkt hérlendis og í raun mjög algengt að slík samtök haldi uppi starfi sem ríkið ætti að sjá um og það hefur gengið glimrandi vel í áratugi.
Hálfar veðurfréttir væri svo hægt að útfæra virkilega skemmtilega, eins og að taka bara hálft landið fyrir í einu, það væri í alvöru mjög spennandi yfir vetrartímann. T.d. Kjalarnes 30 ... uuu vindstig eða hitatölur? Vá, hvað ég myndi ganga í marga veðurklúbba á Facebook. Kemst drengurinn í skólann í dag? Ætli við komumst í jólamatinn til Hildu? Blóðið myndi renna svo miklu hraðar og er það ekki bara gott fyrir heilsuna?
Sjúkraþjálfarinn: Hvort viltu að ég taki fyrir hægri eða vinstri hliðina á þér?
Ræktin: Fyrir ofan mitti eða neðan í dag?
Sýslumaður: Hvort viltu giftast efri hluta mannsins eða neðri?
Royal-búðingur: Settu hálfan 1/4 lítra af mjólk saman við ...
Fasteignasalinn: Ætlar þú að kaupa eldhús- eða baðhluta íbúðarinnar?
Rás 2: Fyrri eða seinni helminginn af óskalaginu?
Útfararstjórinn: Viltu taka gröfina eða grafa yfir?
Íbúfen: Hámarksskammtur 300 mg ...
Tölvan: Hvort viltu sjö tommu skjá eða hálft lyklaborð? Og þá, hægri eða vinstri hlutann?
Ljósmóðirin: Hvorn tvíburann viltu?
Svona er hægt að halda endalaust áfram, ég sá einu sinni bíómynd Ryans-eitthvað (1976?)þar sem fólk var tekið af lífi þrítugt, þá var það orðið of gamalt til að gagnast þjóðfélaginu, bara hrörnun fram undan. Myndin fjallar um Ryan sem sættir sig ekki við að deyja þótt í hárri elli sé (29,99 ára) og leggur á flótta. Alveg skelfilega vond bíómynd sem BB okkar allra (ekki Björn Bjarna) hefur vonandi aldrei séð. Mynd nr. 2 tengist Ryans-dæminu óbeint.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2022 | 16:11
Krefjandi matseld og landsins verstu störf ...
Kassi fullur af mat barst áðan, eins og flesta mánudaga. Aðeins eitt sjokk fylgdi, eða að erfiðleikastig eins réttarins væri krefjandi. Fyrir manneskju sem hefur aldrei eldað eggaldin eða búið til frómas vegna ótta við matarlímsblöð, og bjó til kokteilsósu með Londonlambi jólin 1978 af því að hún kunni ekki að búa til brúna sósu, hljómar krefjandi frekar illa. Spurning hvort Hilda (eða Silli kokkur, vitið þið hvort hann er á lausu?) komist í heimsókn á morgun eða hinn.
Þetta verður krefjandi.
Fyrir um það bil tíu árum skrifaði ég grein um slæm störf en spurði fyrst Facebook-vinina. Sum svörin komu virkilega á óvart, önnur ekki. Hér eru nokkur dæmi:
Snurvoð (fiskveiðiaðferð), saurgerlamælingar, símsala, moka refaskít, tannlækningar, þrífa hótelherbergi, stjórnmál, læknir, lögga, losa stíflur í klósetti, sjómaður í vondu veðri, forseti, nefndaseta, að gera stórhreingerningu á niðursuðuverksmiðju, vera opinber persóna, vinna í sláturhúsi (ýmsir andmæltu því og sögðu fjör að vinna í sláturhúsi), umbúðamóttaka hjá endurvinnslunni, starfsmaður á kassa í matvöruverslun, stefnuvottur, kyngreining á hænuungum, innheimtustörf, endurskoðandi, biskup, forseti, boðberi sorgartíðinda, holræsis-eitthvað, þrífa skemmtistaði eftir böll, byggingavinna í vondu veðri, þvo neftóbaksklúta, geitungabani, hermaður í stríðshrjáðu landi, ruslakarl, pípari, skurðlæknir, líksnyrtir, tína rusl í rigningu, uppvaskari, þerna, koppahreinsari, götusópari í Saudí Arabíu (eða húshjálp þar) böðull, fótaaðgerðafræðingur, bókhald, lifrarbræðsla, rækjuvinnsla.
Eftir nýleg tíðindi gæti kynnir á óskarsverðlaunahátíð komið sterkt inn (Balti, Hildur Guðna) - nema þetta hafi allt verið brella til að auka áhorf á hátíðina. Ég hef engar nýlegar bíómyndir séð og nennti ekki einu sinni að kíkja á byrjunina.
Miðað við fjölda þeirra sem sögðu það sama er versta starfið ... sala í gegnum síma en fast á eftir kemur: sláturhússvinna, að vera forseti (elsku Guðni) og að vera stefnuvottur. Held að fjölbreytilegur hópur fésbókarvina minna sé ekkert verri en þeir sem fyrirtæki sem sjá um ýmsar skoðanakannanir-fyrirtækin hafa sér til liðsinnis. Svo þessi könnun er pottþétt. Nánast rannsókn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2022 | 18:35
Beljugleði á Skaga og illskan ein í borg óttans
Við stráksi áttum erindi í hinn nýrri miðbæ Akraness, skammt hjá Himnaríki, þar sem má finna: Flamingo, Dýrabæ, Kaju, Krónuna, bókasafnið, bókabúðina, Krónuna, Landsbankann, Íslandsbanka, Hans og Grétu, Model, Verkalýðsfélag Akraness, Lindex, apótek, raftækjabúð, tónlistarskóla, Subway, Galito, Úgerðina (bar), AT HOME, Sbarro, bensínstöð, Bjarg (tískuverslun), snyrtistofu, hárgreiðslustofu, pólska búð og skrifstofu Samfylkingarinnar.
Gamli miðbærinn er á tímamótum, búið að stofna samtök sem eiga að efla hann. Ég er í þeim, of kors. Niðri í bæ er flott torg, Akratorg, með gosbrunnum og styttu af sjómanni, æðisleg ísbúð, gallerí, hannyrðaverslun, veitingahúsum og fleira en við viljum meira. Þar sem ætti að vera torg í nýrri miðbænum er bara pláss fyrir bíla og þess vegna er virkilega mikil þörf á að endurvekja þann gamla. Rífa hann upp. Hver vill stofna kaffihús? Ég skal vera ráðgefandi með kaffið (og þar með daglegur gestur).
Áður en ég fór í þessa upptalningu til að útskýra hversu lítt úthverfislegt er þarna við Stillholt/Dalbraut, og girnilegt fyrir ykkur að flytja á yndislega Skagann, þetta er samt bara lítill hluti af því sem hér er í boði, ætlaði ég að blogga um sérlega góða skapið sem allir voru í. Fólk skoppaði um á strigaskóm, hló hátt, daðraði opinskátt, ekki kannski alveg í stuttbuxum af því að það rigndi, en pottþétt stuttbuxnaklætt í hjarta sér. Elsku Eygló skælbrosandi í bókabúðinni gaf eiginlega tóninn. Hvernig líður drengnum, er honum að batna, jú, hann mátti faðma hana, hún búin að fá covid. Við keyptum 2 spilastokka (helsti veikleiki drengsins sem handleikur spil eins og snjall töframaður) og nokkrar bækur sem mig vantaði sárlega. Hvern vantar ekki alltaf bækur? hugsaði ég með mér. En ég fékk fínasta kynþokkaafslátt í bókabúðinni eins og vanalega sem hvetur bara til kaupa.
Svo vildi drengurinn endilega fara í Krónuna og kaupa sér meira te (hann heldur uppi ákveðinni snobbmenningu í Himnaríki) ... og hálsbrjóstsykur ... kannski í síðasta lagi, hann er orðinn svo hress, en allir í Krónunni voru í hrikalega góðu skapi, meira að segja þessir einu tveir sem báru grímu. Jú, ég keypti mér naglaþjöl ... og páskaeggin okkar. Megi þau steingleymast til páska. Held að mamma kaupi ekki handa okkur í ár, enda kannski alveg nóg að fá páskaegg frá mömmu sinni í 60 ár. Nú bara hlýt ég að geta keypt mér sjálf ...
Á Flamingo fengum við okkur karamasala-chicken, réttinn númer 10, og þar inni með munninn fullan af besta kjúklingi í heimi áttaði ég mig skyndilega á allri kátínunni. Það er vissulega eðlilegt að gleðjast yfir horfna hálkuviðbjóðsógeðinu en þetta fólk var allt að hugsa um vorið! VORIÐ! Þetta var svona beljugleði, ég get ekki kallað þetta annað. Að fjandans vorið væri að koma með öllum sínum hryllingi; hita og pöddum. Það er eins og fólk gleymi alltaf því sem fylgir ... að verja heimili sitt gegn innrás geitunga, kóngulóa, fara inn í skáp og sækja vifturnar, jafnvel kaupa fleiri, vona að fínu rúllugardínurnar dragi úr skrambans sólinni þegar maður situr við vinnu sína við suðurglugga, og margt, margt fleira. Sumir kannski aðeins of snöggir að gleyma því þegar hjartað tekur spennukipp þegar veðurfræðingurinn lofar almennilegu veðri, jafnvel rauðri viðvörun, þegar nýfallin mjöllin gerir allt svo fallegt og ólmur sjórinn frussast og skvettist upp á göngustígana við Langasand.
Gleðin einskorðaðist við Akranes, held ég. Ein Facebook-vinkona mín skrapp í Rúmfatalagerinn (á höfuðborgarsvæðinu) og lenti í því að reka kerru sína utan í kerru annarrar konu. Var byrjuð að segja: Æ, afsak- þegar konan (öldruð) hvæsti á hana og sagði: Vertu vakandi, helvítis tíkin þín, og bætti svo við af því að fb-vinkonan er frekar dökk yfirlitum, eins og nánast öll mín móðurætt: Ég get sagt þetta á ensku ef þú ert útlendingur! Mín kona ákvað að missa sig ekki ofan í drullupoll konunnar og svaraði ekki.
Ég hef alltaf sagt að það vantaði bara Rúmfatalagerinn (eða IKEA eða Costco) á Skagann til að við yrðum alveg sjálfbær, en ætli ég fari ekki bara að sauma mín rúmföt sjálf ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2022 | 13:02
Hamslaus persíuteppisgleði og rangt símanúmer ...
Um síðustu helgi gisti ég yfir nótt hjá Hildu systur. Þar fletti ég Fréttablaðinu sem oftar og sá risastóra auglýsingu um glæsileg persnesk teppi/mottur á útsölu. Við Hilda þangað. Ég tímdi þó engu fokdýru, en indæl stúlka fann eitt frekar í minni kantinum (sjá mynd) sem ég fékk á 13 þúsund krónur. Jú, mottan vissulega hnýtt í Íran en ekki sérlega fasthnýtt og ekki í bláum lit en það tvennt hækkar verðið nokkuð mikið. Sem betur fer fíla ég rauðar mottur mjög vel. Jú, upprunamiði fastur undir og svo fékk ég skírteini með þar sem kom fram að teppið hefði átt að kosta 30 þús. en ég fengið það á 13 þús. Af hverju bað ég stúlkuna ekki að finna fleiri á svona góðu verði ... þótt það dugi ekki skemur en þau fasthnýttu sem duga í 100 ár eða miklu lengur. Ég get örugglega látið það duga í 100 ár ef einhver nennir að halda mér á lífi. Á laugardag og sunnudag er síðasti möguleiki á að kaupa ... svo er farandteppasölufólkið farið til næsta lands.
Þessi fagra motta er við rúmið mitt í meyjarskemmunni og það hefur verið sérlega notalegt að fara á fætur síðustu daga. Á myndinni virkar mottan eins og krækiber í helvíti, ekki að eldhúsið mitt sé satanískur staður eða mottan pínulítil.
Teppasalan fer fram einhvers staðar í efri óbyggðum Kópavogs. Myndi plata systur mína í aðra ferð þangað ef hún hefði ekki öðrum hnöppum að hneppa um helgina.
- - - - -
Ég fékk símtal fyrir skömmu og það eftir lokun markaða ...
Góðan daginn, þú hefur kannski átt von á símtali frá okkur? Það er vegna sölunnar á Íslandsbanka, sagði vingjarnleg rödd.
Get svo sem ekki sagt það, en haltu endilega áfram, svaraði ég, góð þjónusta hjá bankanum mínum. Hélt að venjulegt fólk með fremur ó-interísant stöðu á bankareikningum, fengi ekki svona símtöl nema ætti að reyna að bjarga einhverju í aðdraganda fjármálahruns.
Hvað hefurðu í huga varðandi upphæð? spurði maðurinn.
Fimm, kannski tíu, sagði ég. Fimmþúsundkall sennilega of lítið en tímdi ég áhættufjárfestingu upp á tíu þúsund? Ég mætti ekki einu sinni reyna að nota slíkan seðil í flottu Vouge án þess að vera grunuð um peningaþvætti. Jú, tíu þúsund hljómaði betur.
Segjum tíu, sagði ég borubrött.
Fínt er, sagði röddin.
Fæ ég rukkun í heimabanka eða get ég millifært?
Ha, millifært tíu milljarða?
Ég var nú bara að hugsa um tíu þúsund kall, flissaði ég.
Er þetta ekki Guðalmáttugur-hvaðþaðergottaðeigasvonamiklapeninga, lífeyrissjóður Fengeyinga sem aðhyllast Feng Shui? Greina mátti ofboð í röddinni.
Nei, Guðríður heiti ég, kölluð Gurrí með einföldu, sagði ég glaðlega, þú hefur farið línuvillt í símaskránni. Má ég samt ekki kaupa hlut í bankanum? Hei! Halló. Halló!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.7.): 11
- Sl. sólarhring: 26
- Sl. viku: 187
- Frá upphafi: 1529743
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 166
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni