Aprílgabb Himnaríkis og fyrsta ER-klúðrið

Leið 57Fundur hjá ónefndri vegagerð norðarlega á hnettinum:

 

Nonni: Við verðum eitthvað að gera til að fjölga farþegum á landsbyggðinni, það er svo mikill taprekstur á strætó eftir covid. Ef við ætlum að skila einhverjum arði ...

Sigga: Reynum samt að sleppa því að hækka fargjöldin, munið hvað allt hrundi þegar við þrefölduðum verðið milli Akraness og Reykjavíkur, enda ekki rétt að Skagamenn borguðu það sama og Reykvíkingar greiða milli hverfa í borginni. Svo borgar nú Akraneskaupstaður þetta niður um 1/3 sem er ekkert annað en dekur.

Gunna: Ég held að ég sé með þetta, sá innslag í gær í fréttum Stöðvar 2 þar sem fréttamaðurinn taldi stoppistöðvarnar á milli Reykjavíkur og Akureyrar, voða fyndinn en þetta var alveg skelfilegt að heyra, kemur ekkert smávegis illa út fyrir okkur.

Geiri: En er það ekki akkúrat það sem strætó á að bjóða upp á, að fólk þurfi ekki ganga langar lei-

Sigga: Þögn, Geiri, þú hefur ekkert vit á þessu, ert nýliðinn hér.

Geiri: Ég ferðast mikið með stræ-

Gunna: Sussss!

Nonni: Er það kannski bara galdurinn að fækka stoppistöðvum? Jafnvel fleygja fólki út á ferð t.d. við Hvalfjarðargöngin til að þurfa ekki að eyða heilum 20 mínútum í að fara á Skagann? Og við Hvammstangaafleggjarann líka? Held að lýðheilsa myndi batna til muna á landinu ef fólk yrði látið ganga meira.

Gunna: Hugsa sér að geta auglýst: Þægileg lúxusferð og aðeins fimm stopp á leiðinni. Myndu vagnarnir ekki fyllast af fólki?

Sigga: Alveg spurning líka um hvort ætti að leyfa þessum vögnum að rúnta um í Reykjavík, ef við ætlum að fækka stoppum. Hafa endastöð í Ártúni? Háholti í Mosó? Ja, held ég sé með það; Kjalarnes tilheyrir Reykjavík, er Reykjavík, póstnúmerið 116, þar gæti verið góð endastöð fyrir norðvesturhluta landsbyggðar. Dagur getur svo séð um samgöngur þaðan þar sem Kjalarnes er ekki landsbyggðin. Múahaha

Geiri: Leið 57 sem ég tek oft, nær ekki alltaf í skottið á vögnunum í Ártúni, það eru bara opin skýli þar, og þá yrði hálftíma bið í ískulda og enn verra í Mosó. Kjalarnes? Er ekki allt í la-

Gunna: Var ekki búið að segja þér að hafa þig hægan?

Nonni: Hvað með allar niðurfellingarnar á ferðum í vetur? Bílstjórarnir segja vagnana illa hannaða fyrir íslenskar aðstæður. Að það hefði þurft að tala við þá áður en við pöntuðum þá.

Gunna: Meira andskotans vælið alltaf í þeim, hvaða vit halda þeir að þeir hafi á þessu? Það er meira að segja vælt yfir því að ekki sé hægt að hlaða símana sína í nýju vögnunum eins og var í þeim gömlu. Vita þessir farþegar ekki að þetta er strætó, ekki einhver lúxusrúta með fríhafnarþjónustu?

Hlátur.

Sigga: Eigum við þá að segja það? Að við leysum vandann með því að fækka stoppistöðvum? Vá, hvað farþegum á eftir að fjölga.

Geiri: Fjölga við skerta þjónustu? Væri ekki nær að fækka ferðum tímabundið?

Gunna: Vertu frammi, Geiri. Við ræðum um framtíð þína hjá fyrirtækinu á eftir ... Jæja, hvert vorum við komin? Suður- og Austurland, leið 51, er það ekki. Ekki stoppa í Hveragerði, er mín tillaga, fólk getur látið skutla sér til Selfoss og ... 

 

HamborgariÞetta hér að ofan er auðvitað aprílgabb Himnaríkis, það myndi ekki nokkurri vegagerð í heiminum láta sér koma til hugar að lokka til sín fleiri farþega með því að draga úr þjónustu og fækka viðkomustöðum í landi þar sem allra veðra er von.

Þarna náði ég ykkur

 

Hamborgarinn, síðasta máltíð vikunnar frá Eldum rétt, var búinn til í gærkvöldi og bragðaðist ofboðslega vel. En það var flóknari aðgerð að búa réttinn til en nokkurn tímann þann KREFJANDI kvöldinu áður. Eggaldin er uppfinning andskotans. Ég gúglaði í símanum; má borða allt kvikindið, hvað með fræin, en þetta fjólubláa utan um ...? en fann ekkert gagnlegt. Skar kvikindið langsum niður, eins og uppskriftin skipaði mér, saltaði og olíubar og setti í 190°C heitan ofn með blæstri. Bar svo sterka kryddsósu á tíu mínútum seinna og mig minnir að ég hafi svo bakað þetta í korter í viðbót. Til hvers eggaldin? hugsaði ég greindarlega þegar ég setti kartöflubátana inn í ofn tíu mínútum áður, hamborgari og kartöflubátar, er það ekki nóg? Ég smakkaði á eggaldininu þegar það kom út úr ofninum og var ekki hrifin, heldur ekki stráksi. Fyrsta klúðrið mitt, vonandi það síðasta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 239
  • Sl. viku: 1494
  • Frá upphafi: 1453963

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1249
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband