Grátlegt ekki-grín og satanískt samsæri

JC viltu sjá hvað klukkan er„Maðurinn á dælu 3 tók bensín fyrir 1.000 kall. Hvert var hann að fara? Að dælu 4?“ Fólk tekur sumum hlutunum bara létt þessa dagana enda veit það svo sem að ef það rífur kjaft verður spreyjað yfir það gasi ... geymt en ekki gleymt, eins og við trukkastjórarnir segjum stundum.

Svo er það COVID, brandararnir um að gleymst hafi að láta veiruna vita að hún væri yfirstaðin - mikið þakklæti fyrir allt „frelsið“ en af hverju heyrðust samt bara endurteknar gamlar og jafnvel ýktar fréttir í útvarpinu um smit og dauðsföll þegar allt væri búið?

Von að fólk sé ringlað. Hin trúgjarna ég fór meira að segja grímulaus í Krónuna um síðustu helgi til að kaupa eitthvað sem ég gleymdi að panta í Einarsbúð, var ekki allt covidkjaftæðið búið? Nennum við þessu innilokunarrugli eitthvað lengur þegar við viljum komast í sleik við ókunnuga? Well, ég ætla með grímu næst. Karlarnir horfðu á mig með enn meiri áfergju þegar ég var með grímuna. Hvít og blá gríma klæðir mig betur, augun verða grænni (mögulega daðurslegri) í samanburðinum við hvíta og bláa litinn.

Myndin: Ég á nokkrar veggklukkur en er ekki beint að safna þeim. Þó myndi ég sennilega gefa úr mér annað nýrað (kannski) til að eignast þessa klukku ... hún passar vel við Monty Python-klukkuna mína í eldhúsinu. Það styttist í afmælið mitt, 12. ágúst!

 

Klaufagangur miðaldra venjulegs fólks á netinu - enn eitt framhaldið: Í einni vinnunni minni næ ég mér í skjöl í einhverju kerfi sem er ansi hreint einfalt og fínt - og skjölin eru word og það allt. Well, ég hef fengið skammir fyrir hugleysi við að prófa mig áfram sem maður eigi alltaf að gera ... og ég hef reyndar gert nokkrum sinnum með skelfilegum afleiðingum. Ég var bara að leita að einhverjum fídusi til að auðvelda mér að breyta einhverju ... en ... Nú þarf ég t.d. alltaf að hlaða skjölunum niður hjá mér því ég hef einhvern veginn fiktað þannig að word-skjölin breytast í pdf-skjöl þegar ég reyni að lesa þau „á staðnum“ og eru óbreytanleg - ekkert mál niðurhöluð á desktop hjá mér. Ég myndi hiklaust telja mig góða í hlutum sem ég kann (I´m from Þingeyjarsýsla, munið) og hef lært, hef meira að segja prófað mig áfram með góðum árangri - en samt oftar slæmum. Er ég virkilega eina manneskjan sem fær skrítnar meldingar stundum og sjokkerast pínku, eins og þegar ég ætlaði að fara að panta mat hjá Eldum rétt í fyrradag kom: Við sendum ekki mat þangað sem þú býrð-eitthvað (já, ég fyrirgaf ER, maður á ekki að láta bitna á frábæru fyrirtæki leiðindin í einum starfsmanni - og fóstursonurinn (litli prinsinn) hefur verið svolítið vængbrotinn yfir skorti á fínheitum þrisvar í viku). Það endaði með því að ég sendi póst til þeirra og í ljós kom að þetta var ekki rétt - þau senda enn á Skagann en ég gat pantað pakka samt þótt frestur væri liðinn, nema ég þurfti að velja pakka, gat ekki valið það besta úr öllum pökkum ... svo ég valdi léttlagaða pakkann og mun því galdra fram góðan mat á svipstundu, drengnum til gleði og vissulega hollustu. 

Eins og venjulega legg ég hart að mér að gleyma því hvað verður í matinn í Himnaríki á mánudag, þriðjudag og miðvikudag ... það er ekkert mál að finna eitthvað hina dagana. Þannig.

Mosi og klukkanVarúð - hreinskilni ... mér finnst þau hreinlega öll frábær lögin í Söngvakeppninni, grípandi og góð. Veðja þó á Rvíkurdætur eða Ellenardætur - bæði lögin frábær - en hin líka og erfitt að segja hvernig fer. Kannski við stráksi höldum Eurovision-partí eftir að Hilda og co verða farin í bæinn, við fáum góða heimsókn á morgun - þar sem hún kemur klyfjuð kattamat (Royal Canin Urinary, sérfæði frá dýralæknastofu, Keli fær annars þvagsteina og hinir þrífast brjálæðislega vel á þessu fæði líka) og sennilega klórustaur líka sem var sérpantaður (með hennar hjálp) á netinu og Davíð vonandi haft tíma til að setja saman með borvél. Nú verð ég að muna að fá Davíð frænda eða Ellen frænku í alls konar kennslu, ég nenni ómögulega að vera „svona“ kerling ... Sonur minn kenndi mér hlutina en gerði þá sennilega enn oftar fyrir mig - ég er ekki góð í að gúggla, finna hlutina á YouTube og svona, og jafnvel eitt orð sem ég misskil á ensku getur haft hroðalegar afleiðingar ... ég var næstum búin að eyðileggja tvo lampa sem ég fékk í jólagjöf vegna þess. Ég skildi ekki orðið perustæði, skrúfaði bara og skrúfaði og skrúfaði ... skrattaðist til að setja örvæntingarfullt hjálparleysi mitt á Facebook (jessss) og eftir að ég skrúfaði bara perustæðið úr gekk hitt eins og í sögu, auðveldasta mál í heimi. Þetta gæti líka tengst óþolinmæði hjá mér. Ef hlutirnir ganga ekki upp í hvelli hjá mér sný ég mér að öðru (Sjá Rómantísk sakamál, 2. tbl. 2006, bls. 32-84).

Ég öskurgræthlæ stundum þegar ég rifja upp orð gamla umsjónarkennarans míns þegar ég útskrifaðist úr 12 ára bekk. Ég spurði hann hvað hann héldi að ég ætti að leggja fyrir mig í lífinu (ekki orðrétt og ég man ekki í hvaða samhengi). „Þú gætir orðið býsna góð í tungumálum,“ sagði elskan hann Rögnvaldur. Hláturinn bullar ekki síst upp þegar ég les aftan á kannski pakka þar sem stendur á útlensku: Látið malla í et par minuter ... og ég man aldrei hvort það stendur fyrir eina mínútu eða tvær (sem er líklegra), ég vil ekki gera neitt í fljótfærni og læt malla í tvær. Hin Norðurlandamálin elta þessa svívirðu, nema íslenskan, við segjum: Eina mínútu, tvær mínútur, sem er auðvitað svo miklu réttara. Par þýðir eitthvað tvennt á íslensku en munið ... ég er manneskjan sem las í áratugi um alla dýralæknana í hernum í ensku spennubókunum ... svo par getur alveg þýtt eitthvað annað á dönsku, norsku og sænsku.

 

Eitthvað satanískt samsæri gegn köttum virðist hafa skollið á hjá ráðafólki á Akureyri. Ekki nóg með að kettir verði frelsissviptir þar innan tíðar, heldur er búið að gera Ragnheiði hjá Kisukoti ókleift að reka áfram athvarf fyrir útigangsketti. Hún bjargaði lífi þeirra, mannaði þá, eins og það kallast, og fann ný heimili fyrir þá, þvílíkt glæpakvendi, vantaði vask einhvers staðar? Ekki láta yfirvöld á Akranesi svona út í Villiketti, ég tryði bænum frekar til að styrkja gott starf þeirra en alla vega veit ég að almenningur á Skaganum hefur keypt mat og sitt af hverju fleira og skilið eftir í körfu í dýrabúðinni eða Krónunni. Nú mun verða meira að gera hjá bænum - og ef þeir dirfast að lóga köttum af því bara, verður þá allt fyrst brjálað. Af hverju styrkti ráðafólk ekki starfsemi hennar frekar en að reyna að bregða fyrir hana fæti? Víða leynast dýrahatarar. Ég vogaði mér að segja eitthvað fallegt um hunda (ég er mjög hrifin af hundum) á einni Facebook-síðunni og fékk skammir fyrir.

 

Ég hef lýst því yfir að ég ætli ekki framar til Akureyrar, þótt ég þekki þar dásamlegt fólk. Við systur höfum árum saman farið norður og sl. sumar leyfðum við okkur að gista tvær nætur á Hótel KEA sem var æðislegt. Akureyri er fallegur og góður bær sem ég mun sakna. Vonandi verður svona hugsunarháttur kosinn á brott - en einhvers staðar sá ég að fæstir bæjarfulltrúarnir gæfu kost á sér aftur í vor. Settu þeir þessar andstyggðarreglur á og hættu svo? Má það bara? Vonandi má breyta þessu til baka.

 

Eitt vandamál, lítið en flókið og mögulega átakanlegt ef eitthvað klikkar. Ég get ekki ákveðið mig hvort ég eigi að hræra í eina Betty Crocker-súkkulaðitertu á morgun eða baka botn og gera gamaldags rjómatertu (eða slíka með t.d. nýja Eitt sett-búðingnum frá Royal og sleppa niðursoðnu ávöxtunum) ... Kannski ég ætti að spyrja Hildu - en ef hún tekur nú ranga ákvörðun? BC klikkar ekki, kannski ég velji það bara ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Akureyri út í hött,
afar margt og skrítið,
á Húsavík þeir hata kött,
og hafa vitið lítið.

Þorsteinn Briem, 11.3.2022 kl. 19:01

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hshahaha

Guðríður Haraldsdóttir, 12.3.2022 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 103
  • Sl. sólarhring: 425
  • Sl. viku: 2220
  • Frá upphafi: 1456170

Annað

  • Innlit í dag: 95
  • Innlit sl. viku: 1853
  • Gestir í dag: 94
  • IP-tölur í dag: 93

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband