Færsluflokkur: Grobb

Sætir frændur og sofandi systir í sófanum

Rétt fyrir aðgerð 2Nú er orðið allt of langt síðan ég hef birt mynd af ástkærum frændum mínum, Úlfi og Ísaki sem fæddust 19. desember sl. Þeir eru tvíeggja en voru samt báðir með skarð í vör á nákvæmlega sama stað, einnig klofinn góm. Önnur myndin af þeim er tekin morguninn sem þeir fóru í aðgerð númer tvö. Þeir eru svo yndislegir ... fékk fiðrildi í hjartað þegar ég sá nýju myndina af þeim, allt of langt síðan ég hef hitt þá.

Elsku krúttin hennar frænku sinnarHilda heimsótti þá í dag og var í svona krúttkasti a la Jenfo á eftir. Hilda er í sólarhringsfríi frá sumarbúðunum ... og sefur inni í stofu, heheheheh! Þyrfti að fara að vekja hana til að hún sofi ekki af sér fríið á Akranesi, hún var búin að hlakka svo til að fara heim í Kópavoginn (of oll pleisis). Hún átti erindi í raftækjaverslun á Skaganum, Hljómsýn, held ég að hún heiti, og mikið fengum við góða þjónustu þar. Kaffi og meðððí á Skrúðgarðinum var næst á dagskrá. Þægilega svalt var inni og galtómt sem er óvenjulegt. Kíkti út í garð og þar sat fjöldi fólks og sólaði sig. Jæja, best að vekja Hildu.    


Næstum því strætókynlíf og fágæt fegurð í útvarpi

Ósköp var notalegt að sjá Ástu í strætó í morgun, brúna og úthvílda. Sumarfríið hennar búið. Hún var aðeins of lítið klædd og ég aðeins of mikið. Erfitt að ráða í þetta veður ...

Var eitthvað pínu hrædd um að gleyma að fara í viðtal á Rás 2 kl. 8.30 og rjúka beint í vinnuna af gömlum vana en auðvitað er ég ekki alveg svona utan við mig. Elti bara Ástu út í Ártúni og við biðum eftir leið 6. Enginn aukabíll beið okkar Skagamanna, eins og venjulega, svo að vagninn okkar varð algjörlega pakkfullur þegar tugir Skagamanna bættust við annað eins af Grafarvogsbúum. Mér fannst nándin við náunga minn bara nokkuð notaleg og þetta er það næsta sem ég hef komist kynlífi allt of lengi. Fór alla leið niður í Bankastræti með sexinu og keypti mér latte ... veit alveg hvernig RÚV-kaffið er.

Viðtalið á gekk glimrandi vel og ég var svoooo sæt, enda vaknaði ég eldsnemma í morgun til að farða mig, eiginlega sofnaði ég ekkert ... Verst að þetta var í útvarpi en ég held að hlustendur hafi samt náð þessu. Útvarpskonurnar Hrafnhildur og Guðrún eru voða skemmtilegar ... en þegar Tommi er undir stýri á strætó hlustum við í Skagavagninum alltaf á þennan þátt. Jæja, best að vinna, nóg verður að gera í dag!  


Góður túristadagur, guðleg stríðni og ... grobb

RekkkjavikkFór á Skrúðgarðinn vel sjúkraþjálfuð þegar klukkan var að verða hálftólf og það var líklega eins gott því mig minnti að síðasta ferð fyrir fjögurra klukktíma síestu bílstjóranna væri kl. 12.41. Hún er klukkutíma fyrr. Ætlaði að fara að tölta heim á leið og kveðja kettina með kossi þegar Tommi birtist, stórhneykslaður á því að ég hefði ekki verið með í fyrstu ferð í morgun. Í Ártúni tók ég fimmuna og fékk spennandi óvissuferð, sá meira að segja stórt skemmtiferðaskip í Sundahöfn ... sumaráætlun strætó er bara kúl á köflum. Ákvað á Hlemmi að taka ferðamanninn á þetta og labbaði niður Laugaveginn, full hrifningar á þessarri fallegu borg, Rekkjavikk. Sá nýja plötubúð við hlið Skífunnar með plötum sem fást ekki alls staðar. Samt fann ungi strákurinn ekkert með Rick Wakeman, heldur ekki sá ljúfi í Skífunni. Að finna King Arthur-plötuna verður bara nýja takmarkið mitt í lífinu. Hitti Rúnar, son vinkonu minnar, í Bókabúð M&M þar sem hann vinnur. Hann sagðist vera búinn að lesa lífsreynslusögubókina, kannaðist við eina söguna úr henni og fannst það ekki leiðinlegt, sagan líka létt og jákvæð. Latte-inn á Kaffitári var guðdómlegur en þá var tími til kominn að skreppa í viðtalið sem gekk mjög vel.

Þvílík heppni að ná síðan korterísex-strætó heim. Sat við hliðina á skemmtilegri konu á leiðinni, verst að við fórum ekki að spjalla fyrr en síðustu mínúturnar. Hún er húsasmiður og það vekur furðu margra, sagði hún. Frétt í útvarpinu fékk hana til að fara að spjalla og við nutum þess að femínistabeljast svolítið.   

Tomkrús minn almáttugurGetur verið að það sé einhver ósýnilegur þarna úti sem fylgist með mannfólkinu, grípur inn í stöku sinnum inn í og ... finnst gaman að stríða? Jafnvel einhver guðlegur? Kannski nýi frelsarinn, þessi hjá Vísindakirkjunni?

Var ekki fyrr búin að sleppa orðinu hér á blogginu um að ég væri aldrei bitin af pöddum ... þegar ég nældi mér í nokkur bit, líklega staraflóarbit. Það er svona þegar maður bregður sér af bæ. Þetta hefði aldrei gerst í himnaríki!

 

Skemmtiferðarskipið að faraUm leið og ég fór að fylgjast með leiknum sem nú fer fram fyrir neðan austurglugga himnaríkis skoruðu Víkingar mark. Nú held ég mig bara vestanmegin, veit í hjarta mínu að ÍA skorar tvö mörk í seinni hálfleik.

Skemmtiferðarskipið sem ég dáðist að í dag sigldi framhjá himnaríki rétt áðan á leið til frekari ævintýra. Finnur þó vart fegurra land en Ísland. (Þetta mun flokkast undir nýja færsluflokkinn minn)


Af þoku, unglingum og miskunnarlausu mýbiti ...

SjóræningjarÞokan sem læddist yfir Skagann seint í gærkvöldi var horfin í morgun. Eins gott, mér varð ekki um sel þegar ég heyrði af og til glamra í hlekkjum framliðinna sjóræningja en sofnaði þó rótt eftir að hafa horft á spennulöggumyndina Chaos með Jason Statham. Slíkar myndir eru róandi í vissum tilfellum.

Tommi hleypti okkur Sigþóru út við Vesturlandsveginn í morgun og við töltum uppeftir. Sigþóra var sátt eftir Írsku dagana og fannst lopapeysuballið mjög skemmtilegt. (Ég hefði átt að fara, nennti bara ekki ein)  Þó hafa böllin verið betri undanfarin ár, að hennar sögn, nú hefur yngst í hópnum sem er galli. Þetta var víst áður magnaður vettvangur til að hitta brottflutta Skagamenn, gamla skólafélaga, ættingja og vini. „Unga liðið þarna með lætin verður til þess að fólk af okkar kynslóð nennir ekki að koma,“ sagði Sigþóra. Jamm, ég varð samstundis níræð við orð hennar ... held reyndar að við séum nú ekki orðnar nógu gamlar til að láta nokkra unglinga með læti hrekja okkur á brott.

Unglingsímyndin byggðHvað er svo unglingur? Jú, það er manneskja sem er hvorki barn né fullorðin og fær að heyra frá barnæsku að þessi hópur sé óalandi og óferjandi og býr sig ósjálfrátt undir að verða þannig ...

Mont: Unglingurinn í fjölskyldunni minni, klári og skemmtilegi frændi minn, var ekki á Írskum dögum þótt hann búi á Skaganum. Hann fór í útilegu á Úlfljótsvatn og var víst étinn í forrétt, aðalrétt og eftirrétt af flugum. Muna, Gurrí, aldrei fara á Mývatn, Úlfljótsvatn eða Laugarvatn á sumrin.

Flugur elska mig ... en ég hef samt reyndar aldrei verið bitin! Fljótari að hlaupa en þær ... eða í "röngum" blóðflokki? Skyldi vera eitthvað athugavert við A+? 


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband